Sólin Sólin Rís 05:43 • sest 21:13 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 13:37 • Sest 06:11 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:59 • Síðdegis: 15:47 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:39 • Síðdegis: 21:50 í Reykjavík

Hver var fyrsti rithöfundurinn í heiminum og hvers konar rit skrifaði hann?

Kolbrún Lilja Kolbeinsdóttir

Fyrsti nafngreindi rithöfundur sögunnar var akkadíska hofgyðjan Enheduanna. Hún var uppi í kringum 2300 f.Kr. Enheduanna er ekki eiginlegt nafn heldur titill. Lausleg þýðing hans er „hin æðsta hofgyðja, skrautmunur guðsins An“ og fékk hún nafnið þegar hún var gerð að hofgyðju.

Enheduanna var dóttir Sargonar fyrsta, frá ríkinu Akkadíu. Sargon þessi réðst inn í Súmer og sameinaði ríkin undir fyrsta keisaradæmi sögunnar. Hann sendi dóttur sína til borgríkisins Úr í Súmer til þess að festa völd sín í sessi. Einnig vildi hann sýna fornum hefðum Súmera virðingu með því að setja dóttur sína sem hofgyðju, en það var rótgróið embætti súmerskrar trúmenningar. Á miðjum ferli sínum var Enheduanna send tímabundið í útlegð af manni sem rændi völdum af bróður hennar.

Eftir Enheduönnu liggja fjögur verk, þrjú ljóð sem eru ákall til gyðjunnar Inönnu, sem var hennar persónulega gyðja og eitt safn trúarlegra sálma. Ljóðin heita: In-nin sa-gur-ra, sem útleggst sem Frúin hugdjarfa, Nin-me-sara sem er kallað Upphafning Inönnu og In-nin me-hus-a, nefnt Inanna og Ebih.

Fræðimenn eru almennt frekar sammála um að eigna Enheduönnu þessi verk. Hún nefnir sjálfa sig á nafn í þeim og talar stundum í fyrstu persónu. En að sjálfsögðu efast einhverjir og sannleikurinn mun aldrei koma að fullu í ljós. Upphafning Inönnu vísar líka á persónulegan hátt í sögulega atburði sem eru staðfestir af sagnariturum þess tíma og þykja það sterk rök fyrir því að hún sé höfundur verkanna. Því miður eru töflurnar sem innihalda verk hennar afrit frá tíma Forn-Babýlóníu og því skilja 500 ár að ritunartíma taflanna og Enheduönnu sjálfa.

Svokallaður diskur Enheduönnu. Þegar hann fannst í uppgreftri renndi hann ekki eingöngu stoðum undir tilvist Enheduönnu heldur einnig tilvist Sargonar fyrsta, sem áður hafði verið talinn goðsögn.

Frúin hugdjarfa er 274 línur og ritað á súmersku með fleygrúnaletri líkt og önnur verk Enheduönnu. Eins og tíðkaðist í Mesópótamíu er verkið nefnt eftir upphafslínu þess. Ljóðið fjallar um súmersku gyðjuna Inönnu í öllu sínu veldi. Í því útlistar Enheduanna allar hinar margþættu hliðar gyðjunnar í stórbrotnu myndmáli. Undir lok verksins er persónulegt ákall til Inönnu, þar sem Enheduanna biðst miskunnar undan reiði hennar og því er ljóðið eins konar friðþæging.

Upphafning Inönnu, fékk heiti sitt frá fræðimönnunum sem þýddu það fyrst. Það fjallar að miklu leyti um útlegðina sem Enheduanna var dæmd í og er persónulegasta og jafnframt þekktasta verk hennar. Hún byrjar á að upphefja dýrð Inönnu og fjallar síðan um ofbeldið og niðurlæginguna sem hún varð fyrir af hendi Lugalanne, en hann var sá sem framdi áðurnefnt valdarán.

Inanna og Ebih er 165 línur og byggir á þjóðsögu um baráttu Inönnu við fjallið Ebih, sem neitar að lúta fyrir henni, eins og allur heimurinn hefur þegar gert. Verkið er eitt af þeim umdeilanlegu, enda er návist Enheduönnu í því lítt áþreifanleg og að auki er það nokkuð almenns eðlis. Mögulega hefur það verið tengt við hana vegna þess að það fjallar um Inönnu, en stíllinn, og sérstaklega myndmálið, bendir þó til að mögulega sé um sama höfund að ræða.

Sálmasafnið inniheldur 42 trúarlega sálma um hina ýmsu guði Súmer og er mögulega eitt af fyrstu dæmunum um skipuleg trúarbrögð. Það er ljóst að Enheduanna samdi ekki sálmana sjálf, heldur safnaði þeim saman og mótaði í sama stíl, svo þeir hafa allir sömu uppbyggingu. Í lok safnsins upplýsir Enheduanna að hún hafi tekið safnið saman fyrir föður sinn og að þetta sé í fyrsta sinn sem slíkt hefur verið gert. Líklega hafa þeir þjónað þeim pólitíska tilgangi að festa völd Sargonar fyrsta í sessi gagnvart Súmerum. Verk þetta er einnig umdeilt en ljóst er að einhverjum sálmum hefur verið bætt við safnið. Fræðimenn hafa hvort tveggja notað það sem rök fyrir því að eigna beri safnið Enheduönnu og að það sé annarra manna verk.

Höfundarnafn Enheduönnu er enn umdeilt meðal fræðimanna. Það sama gildir því um hana og forngríska skáldið Hómer, tilvist hans verður aldrei sönnuð en Ilíons- og Ódysseifskviða eru engu að síður eignuð honum. Þó er óhætt að gera ráð fyrir að nafn Enheduönnu muni fylgja áðurnefndum verkum um ókomna tíð.

Mynd:

Höfundur

meistaranemi í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands, með áherslu á fornbókmenntir

Útgáfudagur

24.5.2013

Spyrjandi

Ína Sigrún

Tilvísun

Kolbrún Lilja Kolbeinsdóttir. „Hver var fyrsti rithöfundurinn í heiminum og hvers konar rit skrifaði hann? “ Vísindavefurinn, 24. maí 2013. Sótt 18. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=13559.

Kolbrún Lilja Kolbeinsdóttir. (2013, 24. maí). Hver var fyrsti rithöfundurinn í heiminum og hvers konar rit skrifaði hann? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=13559

Kolbrún Lilja Kolbeinsdóttir. „Hver var fyrsti rithöfundurinn í heiminum og hvers konar rit skrifaði hann? “ Vísindavefurinn. 24. maí. 2013. Vefsíða. 18. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=13559>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver var fyrsti rithöfundurinn í heiminum og hvers konar rit skrifaði hann?
Fyrsti nafngreindi rithöfundur sögunnar var akkadíska hofgyðjan Enheduanna. Hún var uppi í kringum 2300 f.Kr. Enheduanna er ekki eiginlegt nafn heldur titill. Lausleg þýðing hans er „hin æðsta hofgyðja, skrautmunur guðsins An“ og fékk hún nafnið þegar hún var gerð að hofgyðju.

Enheduanna var dóttir Sargonar fyrsta, frá ríkinu Akkadíu. Sargon þessi réðst inn í Súmer og sameinaði ríkin undir fyrsta keisaradæmi sögunnar. Hann sendi dóttur sína til borgríkisins Úr í Súmer til þess að festa völd sín í sessi. Einnig vildi hann sýna fornum hefðum Súmera virðingu með því að setja dóttur sína sem hofgyðju, en það var rótgróið embætti súmerskrar trúmenningar. Á miðjum ferli sínum var Enheduanna send tímabundið í útlegð af manni sem rændi völdum af bróður hennar.

Eftir Enheduönnu liggja fjögur verk, þrjú ljóð sem eru ákall til gyðjunnar Inönnu, sem var hennar persónulega gyðja og eitt safn trúarlegra sálma. Ljóðin heita: In-nin sa-gur-ra, sem útleggst sem Frúin hugdjarfa, Nin-me-sara sem er kallað Upphafning Inönnu og In-nin me-hus-a, nefnt Inanna og Ebih.

Fræðimenn eru almennt frekar sammála um að eigna Enheduönnu þessi verk. Hún nefnir sjálfa sig á nafn í þeim og talar stundum í fyrstu persónu. En að sjálfsögðu efast einhverjir og sannleikurinn mun aldrei koma að fullu í ljós. Upphafning Inönnu vísar líka á persónulegan hátt í sögulega atburði sem eru staðfestir af sagnariturum þess tíma og þykja það sterk rök fyrir því að hún sé höfundur verkanna. Því miður eru töflurnar sem innihalda verk hennar afrit frá tíma Forn-Babýlóníu og því skilja 500 ár að ritunartíma taflanna og Enheduönnu sjálfa.

Svokallaður diskur Enheduönnu. Þegar hann fannst í uppgreftri renndi hann ekki eingöngu stoðum undir tilvist Enheduönnu heldur einnig tilvist Sargonar fyrsta, sem áður hafði verið talinn goðsögn.

Frúin hugdjarfa er 274 línur og ritað á súmersku með fleygrúnaletri líkt og önnur verk Enheduönnu. Eins og tíðkaðist í Mesópótamíu er verkið nefnt eftir upphafslínu þess. Ljóðið fjallar um súmersku gyðjuna Inönnu í öllu sínu veldi. Í því útlistar Enheduanna allar hinar margþættu hliðar gyðjunnar í stórbrotnu myndmáli. Undir lok verksins er persónulegt ákall til Inönnu, þar sem Enheduanna biðst miskunnar undan reiði hennar og því er ljóðið eins konar friðþæging.

Upphafning Inönnu, fékk heiti sitt frá fræðimönnunum sem þýddu það fyrst. Það fjallar að miklu leyti um útlegðina sem Enheduanna var dæmd í og er persónulegasta og jafnframt þekktasta verk hennar. Hún byrjar á að upphefja dýrð Inönnu og fjallar síðan um ofbeldið og niðurlæginguna sem hún varð fyrir af hendi Lugalanne, en hann var sá sem framdi áðurnefnt valdarán.

Inanna og Ebih er 165 línur og byggir á þjóðsögu um baráttu Inönnu við fjallið Ebih, sem neitar að lúta fyrir henni, eins og allur heimurinn hefur þegar gert. Verkið er eitt af þeim umdeilanlegu, enda er návist Enheduönnu í því lítt áþreifanleg og að auki er það nokkuð almenns eðlis. Mögulega hefur það verið tengt við hana vegna þess að það fjallar um Inönnu, en stíllinn, og sérstaklega myndmálið, bendir þó til að mögulega sé um sama höfund að ræða.

Sálmasafnið inniheldur 42 trúarlega sálma um hina ýmsu guði Súmer og er mögulega eitt af fyrstu dæmunum um skipuleg trúarbrögð. Það er ljóst að Enheduanna samdi ekki sálmana sjálf, heldur safnaði þeim saman og mótaði í sama stíl, svo þeir hafa allir sömu uppbyggingu. Í lok safnsins upplýsir Enheduanna að hún hafi tekið safnið saman fyrir föður sinn og að þetta sé í fyrsta sinn sem slíkt hefur verið gert. Líklega hafa þeir þjónað þeim pólitíska tilgangi að festa völd Sargonar fyrsta í sessi gagnvart Súmerum. Verk þetta er einnig umdeilt en ljóst er að einhverjum sálmum hefur verið bætt við safnið. Fræðimenn hafa hvort tveggja notað það sem rök fyrir því að eigna beri safnið Enheduönnu og að það sé annarra manna verk.

Höfundarnafn Enheduönnu er enn umdeilt meðal fræðimanna. Það sama gildir því um hana og forngríska skáldið Hómer, tilvist hans verður aldrei sönnuð en Ilíons- og Ódysseifskviða eru engu að síður eignuð honum. Þó er óhætt að gera ráð fyrir að nafn Enheduönnu muni fylgja áðurnefndum verkum um ókomna tíð.

Mynd:...