Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Hvað gerðist í Örlygsstaðabardaga?

Gunnar Karlsson (1939-2019)

Örlygsstaðabardagi var háður 21. ágúst 1238 í Skagafirði austanverðum á stað sem var kallaður Örlygsstaðir , skammt fyrir norðan Víðivelli en nokkru lengra fyrir sunnan Miklabæ. Þar var þá sauðahús, en þrátt fyrir þetta ábúðarmikla nafn staðarins er ekki vitað til að þar hafi nokkurn tímann verið byggt býli. Tildrög bardagans voru þau að ungur höfðingi af Sturlungaætt með mannaforráð vestur í Dölum, Sturla Sighvatsson, hafði tekið að sér að koma Íslandi undir stjórn Noregskonungs og átti að gera það með því að reka aðra höfðingja landsins utan á konungsfund svo að konungur gæti knúið þá til að láta mannaforráð sín í hendur honum. Sjálfsagt hefur Sturla átt að verða jarl konungs eða einhvers konar umboðsmaður á Íslandi, þótt ekki sé þess getið í heimildum.

Haustið 1235 kom Sturla heim til Íslands og tók til við verk sitt vorið eftir. Hann lagði Borgarfjörð undir sig og hrakti höfðingja hans, Snorra Sturluson, utan til Noregs. Vorið 1238 handtók hann höfðingja Árnesinga, Gissur Þorvaldsson af Haukdælaætt, og lét hann sverja að fara á konungsfund. Um sumarið hittust Gissur og höfðingi Skagfirðinga, Kolbeinn Arnórsson ungi af Ásbirningaætt, og sömdu um að mynda bandalag og heyja úrslitaorustu við Sturlu.

Minnisvarði um Örlygsstaðabardaga.

Sú orusta var Örlygsstaðabardagi. Í lið með Sturlu var þá kominn faðir hans, Sighvatur Sturluson sem hafði mannaforráð í Eyjafirði og héraðinu þar austur af sem var þá kallað Eyjarþing. Þeir feðgar voru þá báðir staddir í Skagafirði og munu hafa ætlað að sigra Kolbein unga þar. En Kolbeinn kom þá sunnan Kjöl í fylgd með Gissuri Þorvaldssyni. Á því áttu þeir feðgar ekki von því að þeir höfðu verið að búa sig undir að fara suður á land til að ná Kolbeini. Bandamennirnir Gissur og Kolbeinn komu að þeim gersamlega óvörum morguninn 21. ágúst. Sighvatur hafði um 480 manna lið (fjögur hundruð eins og þá var sagt og átt við stór hundruð, 120). Gissur og Kolbeinn komu með níu hundruð (1080) manns sunnan Kjöl en söfnuðu liði á leið sinni svo að þeir urðu nær 13 hundruð (1.560) áður en lauk. Ekki kemur fram hve fjölmennt lið Sturla hafði, en giska má á að menn hans hafi verið álíka margir og liðsmenn föður hans, og hafa þá um 2.500 manns barist á Örlygsstöðum, um 1.500 gegn 1.000.

Lið Gissurar og Kolbeins sigraði í stuttum og hörðum bardaga. Feðgarnir Sighvatur og Sturla voru báðir drepnir. Í Sturlunga sögu eru taldir upp með nöfnum þeir sem féllu í bardaganum. Þar eru taldir 39 úr liði Sturlu, en tíu úr liði Sighvats (og eru þeir feðgar meðtaldir). Af Gissuri eru sjö menn sagðir hafa fallið, en ekkert segir frá mannfalli úr liði Kolbeins. Þarna eru því 56 taldir fallnir. Kannski féll enginn af liðsmönnum Kolbeins, kannski gleymdist að telja þá upp, kannski hefur upptalningin glatast við afritun sögunnar. En þar getur ekki skakkað miklu, og má áætla að í bardaganum hafi fallið nálægt 60 manns.

Í fyrstu urðu afleiðingar Örlygsstaðabardaga þær að Kolbeinn ungi lagði Norðlendingafjórðung allan undir sig. Gissur Þorvaldsson virðist hins vegar ekki hafa aukið ríki sitt að sinni. En síðar átti hann eftir að fylla það pólitíska tómarúm sem fall Sturlu Sighvatssonar hafði skapað og gerast umboðsmaður Noregskonungs á Íslandi.

Heimildir og mynd:

  • Jón Jóhannesson: Íslendinga saga I. Þjóðveldisöld. Reykjavík, Almenna bókafélagið, 1956.
  • Konunga sögur III. Hákonar saga gamla eftir Sturlu Þórðarson. Brot úr Magnúss sögu lagabætis. Guðni Jónsson bjó til prentunar. Akureyri, Íslendingasagnaútgáfan, 1957.
  • Sturlunga saga. Jón Jóhannesson, Magnús Finnbogason og Kristján Eldjárn sáu um útgáfuna. I–II. Reykjavík, Sturlunguútgáfan, 1946.
  • Mynd: Iceland Road Guide | Places. (Sótt 7. 7. 2014).


Hér er einnig svarað spurningunum:
  • Hversu margir tóku þátt í Örlygsstaðabardaganum?
  • Getið þið sagt mér allt um Örlygsstaðabardaga?

Höfundur

Gunnar Karlsson (1939-2019)

prófessor emeritus í sagnfræði við HÍ

Útgáfudagur

24.7.2014

Spyrjandi

Helgi Þór, Elísabet Stefánsdóttir, Gunnar Albertsson

Tilvísun

Gunnar Karlsson (1939-2019). „Hvað gerðist í Örlygsstaðabardaga?“ Vísindavefurinn, 24. júlí 2014. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=16985.

Gunnar Karlsson (1939-2019). (2014, 24. júlí). Hvað gerðist í Örlygsstaðabardaga? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=16985

Gunnar Karlsson (1939-2019). „Hvað gerðist í Örlygsstaðabardaga?“ Vísindavefurinn. 24. júl. 2014. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=16985>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað gerðist í Örlygsstaðabardaga?
Örlygsstaðabardagi var háður 21. ágúst 1238 í Skagafirði austanverðum á stað sem var kallaður Örlygsstaðir , skammt fyrir norðan Víðivelli en nokkru lengra fyrir sunnan Miklabæ. Þar var þá sauðahús, en þrátt fyrir þetta ábúðarmikla nafn staðarins er ekki vitað til að þar hafi nokkurn tímann verið byggt býli. Tildrög bardagans voru þau að ungur höfðingi af Sturlungaætt með mannaforráð vestur í Dölum, Sturla Sighvatsson, hafði tekið að sér að koma Íslandi undir stjórn Noregskonungs og átti að gera það með því að reka aðra höfðingja landsins utan á konungsfund svo að konungur gæti knúið þá til að láta mannaforráð sín í hendur honum. Sjálfsagt hefur Sturla átt að verða jarl konungs eða einhvers konar umboðsmaður á Íslandi, þótt ekki sé þess getið í heimildum.

Haustið 1235 kom Sturla heim til Íslands og tók til við verk sitt vorið eftir. Hann lagði Borgarfjörð undir sig og hrakti höfðingja hans, Snorra Sturluson, utan til Noregs. Vorið 1238 handtók hann höfðingja Árnesinga, Gissur Þorvaldsson af Haukdælaætt, og lét hann sverja að fara á konungsfund. Um sumarið hittust Gissur og höfðingi Skagfirðinga, Kolbeinn Arnórsson ungi af Ásbirningaætt, og sömdu um að mynda bandalag og heyja úrslitaorustu við Sturlu.

Minnisvarði um Örlygsstaðabardaga.

Sú orusta var Örlygsstaðabardagi. Í lið með Sturlu var þá kominn faðir hans, Sighvatur Sturluson sem hafði mannaforráð í Eyjafirði og héraðinu þar austur af sem var þá kallað Eyjarþing. Þeir feðgar voru þá báðir staddir í Skagafirði og munu hafa ætlað að sigra Kolbein unga þar. En Kolbeinn kom þá sunnan Kjöl í fylgd með Gissuri Þorvaldssyni. Á því áttu þeir feðgar ekki von því að þeir höfðu verið að búa sig undir að fara suður á land til að ná Kolbeini. Bandamennirnir Gissur og Kolbeinn komu að þeim gersamlega óvörum morguninn 21. ágúst. Sighvatur hafði um 480 manna lið (fjögur hundruð eins og þá var sagt og átt við stór hundruð, 120). Gissur og Kolbeinn komu með níu hundruð (1080) manns sunnan Kjöl en söfnuðu liði á leið sinni svo að þeir urðu nær 13 hundruð (1.560) áður en lauk. Ekki kemur fram hve fjölmennt lið Sturla hafði, en giska má á að menn hans hafi verið álíka margir og liðsmenn föður hans, og hafa þá um 2.500 manns barist á Örlygsstöðum, um 1.500 gegn 1.000.

Lið Gissurar og Kolbeins sigraði í stuttum og hörðum bardaga. Feðgarnir Sighvatur og Sturla voru báðir drepnir. Í Sturlunga sögu eru taldir upp með nöfnum þeir sem féllu í bardaganum. Þar eru taldir 39 úr liði Sturlu, en tíu úr liði Sighvats (og eru þeir feðgar meðtaldir). Af Gissuri eru sjö menn sagðir hafa fallið, en ekkert segir frá mannfalli úr liði Kolbeins. Þarna eru því 56 taldir fallnir. Kannski féll enginn af liðsmönnum Kolbeins, kannski gleymdist að telja þá upp, kannski hefur upptalningin glatast við afritun sögunnar. En þar getur ekki skakkað miklu, og má áætla að í bardaganum hafi fallið nálægt 60 manns.

Í fyrstu urðu afleiðingar Örlygsstaðabardaga þær að Kolbeinn ungi lagði Norðlendingafjórðung allan undir sig. Gissur Þorvaldsson virðist hins vegar ekki hafa aukið ríki sitt að sinni. En síðar átti hann eftir að fylla það pólitíska tómarúm sem fall Sturlu Sighvatssonar hafði skapað og gerast umboðsmaður Noregskonungs á Íslandi.

Heimildir og mynd:

  • Jón Jóhannesson: Íslendinga saga I. Þjóðveldisöld. Reykjavík, Almenna bókafélagið, 1956.
  • Konunga sögur III. Hákonar saga gamla eftir Sturlu Þórðarson. Brot úr Magnúss sögu lagabætis. Guðni Jónsson bjó til prentunar. Akureyri, Íslendingasagnaútgáfan, 1957.
  • Sturlunga saga. Jón Jóhannesson, Magnús Finnbogason og Kristján Eldjárn sáu um útgáfuna. I–II. Reykjavík, Sturlunguútgáfan, 1946.
  • Mynd: Iceland Road Guide | Places. (Sótt 7. 7. 2014).


Hér er einnig svarað spurningunum:
  • Hversu margir tóku þátt í Örlygsstaðabardaganum?
  • Getið þið sagt mér allt um Örlygsstaðabardaga?
...