Sólin Sólin Rís 05:43 • sest 21:13 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 13:37 • Sest 06:11 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:59 • Síðdegis: 15:47 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:39 • Síðdegis: 21:50 í Reykjavík

Hvers konar hertækni var leifturstríð eða Blitzkrieg Þjóðverja?

G. Jökull Gíslason

Á fyrstu árum seinni heimsstyrjaldarinnar beitti þýski herinn nýstárlegri bardagaaðferð sem fól í sér samspil skriðdrekahernaðar og sprengjuflugvéla. Þannig var hægt að sækja hratt fram og koma í veg fyrir að andstæðingurinn næði að skipuleggja varnir.

Þessi hernaðaraðferð hefur verið kölluð Blitzkrieg eða leifturstríð á íslensku. Orðið er þó ekki komið frá Þjóðverjum heldur var það notað af vestrænum fjölmiðlum á þeim tíma. Hugtökin sem að þýski herinn hafði um hertæknina voru:
  • Auftragstaktik
  • Bewegungskrieg
  • Schwerpunkt

Þessi hugtök eru kannski ekki eins þjál í munni Blitzkrieg en eru meira lýsandi og skýra tæknina á bak við velgengni þýska hersins.

Þýskar skriðdrekasveitir í Frakklandi árið 1940.

Orðið Auftragstaktik er samsett úr orðum sem geta merkt markmið og herbragð. Þetta var ekki nýtt í þýska hernum heldur má rekja til Napóleonstríðanna. Eftir að hafa tapað fyrir franska keisarahernum endurskoðuðu Prússar hertækni sína og skipulag. Þeir komu á fót herráði sem var fyrsta sinnar tegundar og foringjaefni hersins voru þjálfuð í því að taka meira frumkvæði í orrustum. Þetta fól í sér að foringjum voru sett skýr markmið um árangur en gefið verulegt svigrúm til að ná þeim fram. Með þessu færðust ákvarðanir um hernaðarlegar útfærslur nær vígvellinum og þeim foringjum sem næstir voru átökunum. Þetta kom að takmörkuðu gagni á vesturvígstöðvunum í fyrri heimsstyrjöldinni þar sem það var stöðuhernaður en hafði mun meiri áhrif í seinni heimsstyrjöldinni þar sem orrustur byggðu miklu meira á hreyfanlegum hernaði.

Bein þýðing á Bewegungskrieg er ‚hreyfanlegur hernaður‘ en hugtakið nær lengra. Það má segja að við það bætist að ráðast á andstæðinginn þar sem hann er veikastur fyrir, komast aftur fyrir víglínu hans og sigra hann með því að koma stöðu hans í uppnám, riðla aðflutningum, trufla boðleiðir og skapa skelfingu. Orrustan um Frakkland 1940 er mjög skýrt dæmi um þessa hertækni.

Schwerpunkt mætti kalla ‚áherslustað‘ eða ‚þungamiðju‘. Þetta var þriðja lykilatriðið í hertækni Þjóðverja. Það er til einföld reikniformúla í hernaði sem sýnir að sá sem er í varnarstöðu hefur jafnan yfirburði og sá sem sækir fram þarf að hafa um það bil þrefaldan herstyrk á við þann sem verst. Þegar herir eru jafnvígir er erfitt að ná þessum aflsmun nema staðbundið. Schwerpunkt-hertæknin byggist meðal annars á því að hafa álagsþungann á litlu og afmörkuðu svæði en ná þar tilskildum aflsmun. Í upphafi stríðsins voru Þjóðverjar meistarar í því að mynda slíkar þungamiðjur, þeir náðu að rjúfa sig í gegn um víglínu andstæðingsins og beittu síðan hreyfanlegum hernaði.

Stuka-flugvélar voru táknrænar fyrir yfirburði þýska hersins í upphafi stríðsins.

En það var ekki aðeins hernaðartæknin sem veitti Þjóðverjum yfirburði í upphafi seinni heimsstyrjaldarinnar heldur hélst hún í hendur við tækniframfarir. Þar má helst nefna framfarir í skriðdrekahernaði, fjarskiptum og flughernaði. Skriðdrekinn varð táknmynd nútíma hernaðar. Í fyrri heimstyrjöldinni höfðu vélbyssur og stórskotalið aukið yfirburði þeirra sem vörðust en skriðdrekinn var brynvarinn og hreyfanlegur og styrkti mjög stöðu þeirra sem voru í sókn.

Talstöðvar voru önnur bylting en með þeim var hægt að samhæfa aðgerðir mun betur. Þjóðverjar lögðu mikla áherslu á talstöðvar og þær voru í öllum skriðdrekum. Bandamenn og síðar Rússar höfðu ekki tileinkað sér slíka tækni, oft voru bara skriðdrekar sveitaforingja útbúnir með talstöðvum og því voru þessar herdeildir mun svifaseinni í aðgerðum.

Flugi hafði líka fleygt fram og má segja að flugvélin Ju 87 Stuka hafi orðið ein af táknmyndum leifturstríðsins. Stukan var í raun hið færanlega stórskotalið Þjóðverja og með henni gat þýski herinn fært til þungamiðju sókna mjög hratt og náð staðbundnum yfirburðum. Stukan var ekki bara sprengjuflugvél, hún var líka vel útfærð í sálrænum hernaði þar sem hún var útbúinn sírenum sem gerðu hana enn ógurlegri. Hræðslan sem flugsveitirnar ollu þegar vélarnar steyptu sér niður með miklum látum var ekki síður áhrifamikil en sprengjugeta þeirra.

Þjóðverjar voru líka vel þjálfaðir í því að nýta herinn sem heild (e. combined arms). Á meðan hersveitir annara þjóða voru meira sérhæfðar, eins og skriðdrekasveitir, þá blönduðu Þjóðverjar þessu meira saman og voru fljótir að nota það sem virkaði best undir hverjum kringumstæðum. Þessu má líkja við leikinn hnífur, skæri, blað þar sem Þjóðverjar gátu notað allt en andstæðingurinn þurfti alltaf að velja aðeins eitt af þessu.

Hans von Seeckt (1866-1936).

Þessari samantekt verður ekki lokið án þess að minnast á Hans von Seeckt (1866-1936). Segja má að hann hafi verið faðir þýska hersins í síðari heimsstyrjöldinni. Hann lést reyndar áður en styrjöldin braust út en áhrifa hans gætti engu að síður. Í Versalasamningnum frá 1919 var kveðið á um að Þjóðverjar skyldu draga her sinn verulega saman. Seeckt var yfirmaður þýska hersins eftir lok fyrri heimsstyrjaldarinnar og fékk því það hlutverk að endurskipuleggja herinn. Hann valdi menn til forystu eftir hæfni frekar en stétt og stöðu og fól sínum efnilegustu herforingjum það verkefni að greina hvernig Þjóðverjar höfðu tapað stríðinu og hvernig þeir gætu bætt sig. Þetta var mjög frjór jarðvegur og margir af helstu hershöfðingjum Þjóðverja í heimsstyrjöldinni síðari, eins og Manstein (1887–1973), Guderian (1888–1954) og Model (1891–1945), nutu handleiðslu Seeckts. Þetta var sérstakt þar sem sigurherir fyrri heimstyrjaldarinnar fóru aldrei í slíka sjálfsskoðun. Þegar seinni heimsstyrjöldinni braust út gegndu þess vegna margir stöðum sínum, ekki vegna hæfni, heldur vegna þess að þeir voru leifar af her fyrra stríðsins.

Panzer II og Panzer I. Þótt hann láti ekki mikið yfir sér þá gegndi Panzer II lykilhlutverki í orrustunni um Frakkland. Hann var ekki vel brynvarinn og hafði lélega fallbyssu. En skriðdrekarnir voru með talstöð og Panzer II var áreiðanlegur miðað við skriðdreka þeirra tíma. Þannig tókst Þjóðverjum stöðugt að herja á bandamenn þar sem þeir voru veikastir fyrir.

Þannig var það blanda af hertækni, búnaði og arfleið Hans von Seeckt sem gerði það að verkum að þýski herinn var andstæðingum sínum langtum fremri í upphafi stríðins og það var ekki fyrr en um 1942 að herir bandamanna náðu þessu forskoti Þjóðverja.

Myndir:

Einnig hefur verið verið spurt:

Hvað var svona sérstakt við þessa aðferð sem Þjóðverjar beittu í seinni heimstyrjöldinni og af hverju virkaði hún svona vel?

Höfundur

G. Jökull Gíslason

rithöfundur og stundakennari hjá Endurmenntun HÍ

Útgáfudagur

7.1.2016

Spyrjandi

Kjartan Atli Óskarsson, Sunneva Reynisdóttir

Tilvísun

G. Jökull Gíslason. „Hvers konar hertækni var leifturstríð eða Blitzkrieg Þjóðverja?“ Vísindavefurinn, 7. janúar 2016. Sótt 18. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=22704.

G. Jökull Gíslason. (2016, 7. janúar). Hvers konar hertækni var leifturstríð eða Blitzkrieg Þjóðverja? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=22704

G. Jökull Gíslason. „Hvers konar hertækni var leifturstríð eða Blitzkrieg Þjóðverja?“ Vísindavefurinn. 7. jan. 2016. Vefsíða. 18. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=22704>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvers konar hertækni var leifturstríð eða Blitzkrieg Þjóðverja?
Á fyrstu árum seinni heimsstyrjaldarinnar beitti þýski herinn nýstárlegri bardagaaðferð sem fól í sér samspil skriðdrekahernaðar og sprengjuflugvéla. Þannig var hægt að sækja hratt fram og koma í veg fyrir að andstæðingurinn næði að skipuleggja varnir.

Þessi hernaðaraðferð hefur verið kölluð Blitzkrieg eða leifturstríð á íslensku. Orðið er þó ekki komið frá Þjóðverjum heldur var það notað af vestrænum fjölmiðlum á þeim tíma. Hugtökin sem að þýski herinn hafði um hertæknina voru:
  • Auftragstaktik
  • Bewegungskrieg
  • Schwerpunkt

Þessi hugtök eru kannski ekki eins þjál í munni Blitzkrieg en eru meira lýsandi og skýra tæknina á bak við velgengni þýska hersins.

Þýskar skriðdrekasveitir í Frakklandi árið 1940.

Orðið Auftragstaktik er samsett úr orðum sem geta merkt markmið og herbragð. Þetta var ekki nýtt í þýska hernum heldur má rekja til Napóleonstríðanna. Eftir að hafa tapað fyrir franska keisarahernum endurskoðuðu Prússar hertækni sína og skipulag. Þeir komu á fót herráði sem var fyrsta sinnar tegundar og foringjaefni hersins voru þjálfuð í því að taka meira frumkvæði í orrustum. Þetta fól í sér að foringjum voru sett skýr markmið um árangur en gefið verulegt svigrúm til að ná þeim fram. Með þessu færðust ákvarðanir um hernaðarlegar útfærslur nær vígvellinum og þeim foringjum sem næstir voru átökunum. Þetta kom að takmörkuðu gagni á vesturvígstöðvunum í fyrri heimsstyrjöldinni þar sem það var stöðuhernaður en hafði mun meiri áhrif í seinni heimsstyrjöldinni þar sem orrustur byggðu miklu meira á hreyfanlegum hernaði.

Bein þýðing á Bewegungskrieg er ‚hreyfanlegur hernaður‘ en hugtakið nær lengra. Það má segja að við það bætist að ráðast á andstæðinginn þar sem hann er veikastur fyrir, komast aftur fyrir víglínu hans og sigra hann með því að koma stöðu hans í uppnám, riðla aðflutningum, trufla boðleiðir og skapa skelfingu. Orrustan um Frakkland 1940 er mjög skýrt dæmi um þessa hertækni.

Schwerpunkt mætti kalla ‚áherslustað‘ eða ‚þungamiðju‘. Þetta var þriðja lykilatriðið í hertækni Þjóðverja. Það er til einföld reikniformúla í hernaði sem sýnir að sá sem er í varnarstöðu hefur jafnan yfirburði og sá sem sækir fram þarf að hafa um það bil þrefaldan herstyrk á við þann sem verst. Þegar herir eru jafnvígir er erfitt að ná þessum aflsmun nema staðbundið. Schwerpunkt-hertæknin byggist meðal annars á því að hafa álagsþungann á litlu og afmörkuðu svæði en ná þar tilskildum aflsmun. Í upphafi stríðsins voru Þjóðverjar meistarar í því að mynda slíkar þungamiðjur, þeir náðu að rjúfa sig í gegn um víglínu andstæðingsins og beittu síðan hreyfanlegum hernaði.

Stuka-flugvélar voru táknrænar fyrir yfirburði þýska hersins í upphafi stríðsins.

En það var ekki aðeins hernaðartæknin sem veitti Þjóðverjum yfirburði í upphafi seinni heimsstyrjaldarinnar heldur hélst hún í hendur við tækniframfarir. Þar má helst nefna framfarir í skriðdrekahernaði, fjarskiptum og flughernaði. Skriðdrekinn varð táknmynd nútíma hernaðar. Í fyrri heimstyrjöldinni höfðu vélbyssur og stórskotalið aukið yfirburði þeirra sem vörðust en skriðdrekinn var brynvarinn og hreyfanlegur og styrkti mjög stöðu þeirra sem voru í sókn.

Talstöðvar voru önnur bylting en með þeim var hægt að samhæfa aðgerðir mun betur. Þjóðverjar lögðu mikla áherslu á talstöðvar og þær voru í öllum skriðdrekum. Bandamenn og síðar Rússar höfðu ekki tileinkað sér slíka tækni, oft voru bara skriðdrekar sveitaforingja útbúnir með talstöðvum og því voru þessar herdeildir mun svifaseinni í aðgerðum.

Flugi hafði líka fleygt fram og má segja að flugvélin Ju 87 Stuka hafi orðið ein af táknmyndum leifturstríðsins. Stukan var í raun hið færanlega stórskotalið Þjóðverja og með henni gat þýski herinn fært til þungamiðju sókna mjög hratt og náð staðbundnum yfirburðum. Stukan var ekki bara sprengjuflugvél, hún var líka vel útfærð í sálrænum hernaði þar sem hún var útbúinn sírenum sem gerðu hana enn ógurlegri. Hræðslan sem flugsveitirnar ollu þegar vélarnar steyptu sér niður með miklum látum var ekki síður áhrifamikil en sprengjugeta þeirra.

Þjóðverjar voru líka vel þjálfaðir í því að nýta herinn sem heild (e. combined arms). Á meðan hersveitir annara þjóða voru meira sérhæfðar, eins og skriðdrekasveitir, þá blönduðu Þjóðverjar þessu meira saman og voru fljótir að nota það sem virkaði best undir hverjum kringumstæðum. Þessu má líkja við leikinn hnífur, skæri, blað þar sem Þjóðverjar gátu notað allt en andstæðingurinn þurfti alltaf að velja aðeins eitt af þessu.

Hans von Seeckt (1866-1936).

Þessari samantekt verður ekki lokið án þess að minnast á Hans von Seeckt (1866-1936). Segja má að hann hafi verið faðir þýska hersins í síðari heimsstyrjöldinni. Hann lést reyndar áður en styrjöldin braust út en áhrifa hans gætti engu að síður. Í Versalasamningnum frá 1919 var kveðið á um að Þjóðverjar skyldu draga her sinn verulega saman. Seeckt var yfirmaður þýska hersins eftir lok fyrri heimsstyrjaldarinnar og fékk því það hlutverk að endurskipuleggja herinn. Hann valdi menn til forystu eftir hæfni frekar en stétt og stöðu og fól sínum efnilegustu herforingjum það verkefni að greina hvernig Þjóðverjar höfðu tapað stríðinu og hvernig þeir gætu bætt sig. Þetta var mjög frjór jarðvegur og margir af helstu hershöfðingjum Þjóðverja í heimsstyrjöldinni síðari, eins og Manstein (1887–1973), Guderian (1888–1954) og Model (1891–1945), nutu handleiðslu Seeckts. Þetta var sérstakt þar sem sigurherir fyrri heimstyrjaldarinnar fóru aldrei í slíka sjálfsskoðun. Þegar seinni heimsstyrjöldinni braust út gegndu þess vegna margir stöðum sínum, ekki vegna hæfni, heldur vegna þess að þeir voru leifar af her fyrra stríðsins.

Panzer II og Panzer I. Þótt hann láti ekki mikið yfir sér þá gegndi Panzer II lykilhlutverki í orrustunni um Frakkland. Hann var ekki vel brynvarinn og hafði lélega fallbyssu. En skriðdrekarnir voru með talstöð og Panzer II var áreiðanlegur miðað við skriðdreka þeirra tíma. Þannig tókst Þjóðverjum stöðugt að herja á bandamenn þar sem þeir voru veikastir fyrir.

Þannig var það blanda af hertækni, búnaði og arfleið Hans von Seeckt sem gerði það að verkum að þýski herinn var andstæðingum sínum langtum fremri í upphafi stríðins og það var ekki fyrr en um 1942 að herir bandamanna náðu þessu forskoti Þjóðverja.

Myndir:

Einnig hefur verið verið spurt:

Hvað var svona sérstakt við þessa aðferð sem Þjóðverjar beittu í seinni heimstyrjöldinni og af hverju virkaði hún svona vel?

...