Sólin Sólin Rís 05:22 • sest 21:31 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 23:11 • Sest 05:11 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:38 • Síðdegis: 18:56 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:39 • Síðdegis: 12:46 í Reykjavík

Hvað er grunnvatn?

Sigurður Steinþórsson

Þegar grafið er í jörðu er fyrr eða síðar komið niður á vatn. Það kallast grunnvatn eða jarðvatn. Yfirborð þess, grunn- eða jarðvatnsflöturinn, fylgir nokkuð yfirborði jarðar (sjá mynd). Þetta vissu þeir gömlu, eins og segir í Prologus Snorra-Eddu, og meðal annars af þeim sökum þótti mönnum jörðin með nokkrum hætti vera lifandi eins og dýr og fuglar:

Það var eitt eðli [af fleirum], að jörðin var grafin í háum fjallstindum, og spratt þar vatn upp, og þurfti þar eigi lengra að grafa til vatns en í djúpum dölum; svo er og dýr og fuglar, að jafnlangt er til blóðs í höfði og fótum.

Það er að vísu ofsagt að jafndjúpt sé á jarðvatnsflötinn á fjallstindum og í dölum; hann fylgir landslaginu en sléttir það út að nokkru (sjá mynd).

Jarðvatn (blátt) fyllir allar glufur og holrými neðan við jarðvatnsborðið (jl). Blápunktað er svæði sem ýmist er vatnsósa eða ekki – jh er hæsta staða jarðvatnsborðs, jl hin lægsta. Dökkgrátt lag til vinstri er ógagndræpt og veldur því að lind kemur fram þar sem yfirborð jarðvatns og jarðar skerast. Tvær borholur eru sýndar, ba er sígæf en bþ þornar í þurrkatíð.

Regnvatn sígur að hluta niður í jörðina (sums staðar allt vatnið, annars staðar mjög lítill hluti) og sameinast jarðvatninu, miklum „geymi“ sem nær marga kílómetra niður í jörðina. Þar sem ekki gætir jarðhita er hitastig þess stöðugt og nærri meðallofthita upptakasvæðisins.

Jarðvatnið streymir jafnt og þétt undan halla, frá hærri stöðum til lægri í átt til sjávar. Þar sem jarðvatnsflöturinn sker yfirborð jarðar, streymir jarðvatnið fram í uppsprettum, lindum, en sé landslagi svo háttað myndast stöðuvötn (til dæmis Þingvallavatn og Grænavatn við Krísuvík) þar sem yfirborð stöðuvatnsins jafngildir hæð jarðvatnsflatarins við ströndina.

Mynd:
  • Þorleifur Einarsson. Myndun og mótun lands — Jarðfræði. Mál og menning, Reykjavík 1991.

Höfundur

Sigurður Steinþórsson

prófessor emeritus

Útgáfudagur

5.12.2016

Spyrjandi

Karólína Jóhannsdóttir, Marý Jóhannsdóttir, Ingi Sturluson

Tilvísun

Sigurður Steinþórsson. „Hvað er grunnvatn?“ Vísindavefurinn, 5. desember 2016. Sótt 24. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=23196.

Sigurður Steinþórsson. (2016, 5. desember). Hvað er grunnvatn? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=23196

Sigurður Steinþórsson. „Hvað er grunnvatn?“ Vísindavefurinn. 5. des. 2016. Vefsíða. 24. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=23196>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað er grunnvatn?
Þegar grafið er í jörðu er fyrr eða síðar komið niður á vatn. Það kallast grunnvatn eða jarðvatn. Yfirborð þess, grunn- eða jarðvatnsflöturinn, fylgir nokkuð yfirborði jarðar (sjá mynd). Þetta vissu þeir gömlu, eins og segir í Prologus Snorra-Eddu, og meðal annars af þeim sökum þótti mönnum jörðin með nokkrum hætti vera lifandi eins og dýr og fuglar:

Það var eitt eðli [af fleirum], að jörðin var grafin í háum fjallstindum, og spratt þar vatn upp, og þurfti þar eigi lengra að grafa til vatns en í djúpum dölum; svo er og dýr og fuglar, að jafnlangt er til blóðs í höfði og fótum.

Það er að vísu ofsagt að jafndjúpt sé á jarðvatnsflötinn á fjallstindum og í dölum; hann fylgir landslaginu en sléttir það út að nokkru (sjá mynd).

Jarðvatn (blátt) fyllir allar glufur og holrými neðan við jarðvatnsborðið (jl). Blápunktað er svæði sem ýmist er vatnsósa eða ekki – jh er hæsta staða jarðvatnsborðs, jl hin lægsta. Dökkgrátt lag til vinstri er ógagndræpt og veldur því að lind kemur fram þar sem yfirborð jarðvatns og jarðar skerast. Tvær borholur eru sýndar, ba er sígæf en bþ þornar í þurrkatíð.

Regnvatn sígur að hluta niður í jörðina (sums staðar allt vatnið, annars staðar mjög lítill hluti) og sameinast jarðvatninu, miklum „geymi“ sem nær marga kílómetra niður í jörðina. Þar sem ekki gætir jarðhita er hitastig þess stöðugt og nærri meðallofthita upptakasvæðisins.

Jarðvatnið streymir jafnt og þétt undan halla, frá hærri stöðum til lægri í átt til sjávar. Þar sem jarðvatnsflöturinn sker yfirborð jarðar, streymir jarðvatnið fram í uppsprettum, lindum, en sé landslagi svo háttað myndast stöðuvötn (til dæmis Þingvallavatn og Grænavatn við Krísuvík) þar sem yfirborð stöðuvatnsins jafngildir hæð jarðvatnsflatarins við ströndina.

Mynd:
  • Þorleifur Einarsson. Myndun og mótun lands — Jarðfræði. Mál og menning, Reykjavík 1991.
...