Sólin Sólin Rís 05:19 • sest 21:35 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:18 • Sest 04:56 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:07 • Síðdegis: 19:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:08 • Síðdegis: 13:14 í Reykjavík

Hvað er indí-tónlist?

Arnar Eggert Thoroddsen

Nöfn á stefnum og undirgeirum dægurtónlistarinnar eða poppsins eiga sér misaugljósan uppruna. Sum nöfnin urðu til á einhverju tímabili og svo gott sem ómögulegt er að finna höfund þeirra á meðan önnur, eins og pönkið til dæmis, er hægt að festa á tiltekna blaðamenn og ár.[1]

Tónlistarstefnan indí, eða „indie“ á ensku er stytting á orðinu „independent“ sem merkir sjálfstæður eða óháður. Skilgreiningin var fyrst sett fram í Bretlandi, nánar tiltekið árið 1981 í blaðinu Record Mirror. Hugtakið var þá notað af gagnrýnandanum Sunie í dómi um smáskífu hljómsveitarinnar Modern English. Það vísaði upprunalega í hljómsveitir sem voru á mála hjá óháðum eða „sjálfstæðum“ plötuútgáfum. Þessar útgáfur skáru sig frá risafyrirtækjum eins og E.M.I., Sony, Warner og lögðu áherslu á listrænt innihald fremur en skjótan frama listamannanna. Heitið indí er í raun regnhlífarheiti yfir alls kyns tónlistarmenn frekar en að það vísi til ákveðins tónlistarstíls. Það gerir hugtakið erfitt til skilgreiningar.

Það sem sameinaði útgáfurnar sem gáfu út indí-tónlist var áhersla á „ákveðið viðhorf, tortryggni í garð gróðasjónarmiða og áhersla á að hlutir væru sjálfsprottnir, gerðir í skyndi og án of mikillar yfirlegu“ (Stanley, 2013). Rætur alls þessa voru í pönkinu, sem kom fram í Bretlandi árið 1976, og síðpönki sem kom í kjölfarið, en í því voru möguleikar pönksins bæði togaðir og teygðir. Fræg ummæli Einars Arnar Benediktssonar, söngvara Purrks Pillnikks og síðar Sykurmola, í kvikmyndinni Rokk í Reykjavík ramma heimspeki indístefnunnar á sínum sokkabandsárum fullkomlega: „það er ekki málið hvað þú getur heldur hvað þú gerir“. Helstu indí-útgáfurnar í Bretlandi voru Factory, Rough Trade, 4AD og Creation. Mikilvægir fyrirrennarar þeirra voru til dæmis útgáfufyrirtækin Fast Product og New Hormones.

Manchestersveitin The Smiths er í huga margra erki-indísveit.

Popp/rokksveitin The Smiths var stofnuð í Manchester árið 1982 og er á margan hátt kjörmynd þess sem hægt væri að kalla indí á þeim áratugi. Sveitin var samningsbundin útgáfufyrirtækinu Rough Trade og lék í fyrstu tónlist sem var undirorpin pönkinu en tók síðan á sig æ poppaðri blæ. Textar söngvarans, Morrissey, voru viðkvæmnislegir og uppfullir af skáldlegum tilþrifum og bókmenntalegum tilvísunum. Umslagshönnun sveitarinnar var stíliseruð og listræn, sveitin synti á móti straumi á margvíslega vegu og uppskar mikla aðdáun hjá völdum hópi fólks fyrir vikið. Tónlist Smiths var eins og sérsniðin að viðkvæmum, bókhneigðum unglingum í tilvistarkreppu og hér á Íslandi var tónlistin nefnd hinu frábæra nafni gáfumannapopp.

Í kjölfar The Smiths var farið að nota heitið „indie-rock“ yfir viðlíka sveitir og stundum einnig „indie guitar rock“. Þessar sveitir áttu venjulega sammerkt að samanstanda af fjórum, hvítum karlmönnum vopnuðum gíturum, bassa og trommum. Fljótt urðu takmarkanir hugtaksins ljósar. Indí er ekki notað um einhvern stíl heldur vísar það frekar til listamanna eða hljómsveita sem eiga kannski fátt annað sameiginlegt en að sveigja örlítið frá því sem er venjan í meginstraums-dægurtónlist. Að vera indí getur því átt við hávaðaglaðar neðanjarðarrokksveitir eins og Sonic Youth en líka dúllulegar síð-Smithssveitir eins og Belle and Sebastian (sem spilar „twee-pop“ eða „krútttónlist“ svo við höldum nú áfram þessum skilgreiningadansi).

Önnur skyld hugtök spretta þá upp og það flækir málin jafnvel enn frekar. Hugtök sem hafa verið notuð jöfnum höndum með indíorðinu eru til að mynda: neðanjarðarrokk (e. underground rock), jaðarrokk (e. alternative rock, eitthvað sem var notað yfir bandarískar hljómsveitir eins og Nirvana og Pixies) og stundum jafnvel „óháðar rokksveitir“. Hér á landi hefur orðið nýbylgjurokk eða „nýbylgja“ verið nokkuð fast í sessi þegar lýsa á indíhljómsveitum og -listamönnum (í upphafi níunda áratugarins var talað um nýrokk en það er sjaldgæft í dag). Það er dálítið sérstakt, að nýbylgjuhugtakið íslenska ber með sér mun víðtækari skilgreiningarramma en tónlistarstefnan „new wave“, sem var eitt af stærri afsprengjum pönksins. Hugtakið er vafalaust komið þaðan en orðið öðlaðist annars konar og stærra líf í hérlendri tónlistarumræðu. Það er einnig merkilegt að orðin „indí“ eða „indírokk“ hafa ekki verið sérstaklega algeng í íslenskri blaðaumfjöllun, þau voru til að mynda ekkert notuð þegar indíið reis sem hæst á níunda áratugnum en hafa þó verið notuð að einhverju ráði síðustu fimmtán árin eða svo. Dálæti Íslendinga á að þýða erlend hugtök hefur líklega haft þar áhrif. Mörgum þykir æskilegra að tala um nýbylgju en indí, líkt og rætt er um þungarokk frekar en metal (og bárujárnsrokk á tyllidögum).

Los Angeles-kvartettinn Warpaint hefur verið áberandi undanfarin ár. En spila meðlimir hans nútíma síðpönk, indírokk með dassi af poppi eða bara rokk? Oft eru nokkur áhöld um hvað þarf til, svo að hægt sé að kalla hljómsveitir „indí“.

Til að flækja málin enn frekar er stundum talað um „college rock“ eða háskólarokk og er það náskylt indíinu. Átti það einkum við um hljómsveitir sem voru vinsælar á útvarpsstöðum háskóla í Bandaríkjunum. Líkt og með indíið stýrir formið (að vera spilaður á háskólaútvarpsstöðvum) skilgreiningunni fremur en tónlistarlegt innihald, og stíll háskólarokksveita er því af ýmsum toga.

Hvort að hljómsveit spili víkingarokk eða ekki er alveg skýrt, bæði í tónlistinni og útliti meðlima en hvað indí varðar eru málin mun óljósari. Hugtakið er afar fljótandi eins og sést en sjaldnast er tilefni til að skakka þennan skilgreiningaleik harkalega. Það má kalla hljómsveit eins og Sonic Youth indísveit, nýbylgjusveit, neðanjarðarsveit eða jaðarrokksveit og allt geta það verið réttar lýsingar á tónlist sveitarinnar.

Rokksveitin Maus er eitt besta og skýrasta dæmið um íslenska indírokksveit, hún fór mikinn á tíunda áratugnum.

Á Íslandi var hreint indí, ef við getum kallað það svo, helst að finna á tíunda áratugnum. Kolrassa Krókríðandi sló tóninn í upphafi hans og um miðjan áratuginn voru erki-indísveitir, skipaðar drengjum með rafmagnsgítara, nokkuð áberandi. Maus, Ensími og 200.000 naglbítar voru þar helstar. Botnleðja lék hart neðanjarðarrokk að amerískum hætti og ætti frekar að flokkast sem neðanjarðarrokksveit. En hugsanlega mætti allt eins kalla hana indísveit. Það fer í raun aðeins eftir því hverjir eru mættir á rökstólana hverju sinni.

Heimildir og ítarefni:
  • Stanley, Bob. „Poised over the Pause Button: The Smiths and the Birth of Indie“ í Yeah Yeah Yeah – The Story of Modern Pop (bls. 577 – 591). London: Faber and Faber, 2013.
  • Fonarow, Wendy. Empire of Dirt: The Aesthetics and Rituals of British Indie Music. Wesleyan University Press, 2006.
  • Hesmondhalgh, D. „Indie: The institutional politics and aesthetics of a popular music genre“. Cultural Studies, 13 (1). 34 – 61, 1999.

Myndir:

Tilvísun:
  1. ^ Það var Caroline Coon sem notaði fyrst merkimiðann „punk“ í grein fyrir breska blaðið Melody Maker árið 1976. Að vísu var orðið notað af bandarískum blaðamönnum nokkru fyrr en þá í öðru samhengi. Umfjöllun um pönk er hins vegar efni í annað svar!


Upprunalega spurningin var:
Hver er skilgreiningin á tónlistarstefnunni indie?

Höfundur

Arnar Eggert Thoroddsen

aðjúnkt á Félagsvísindasviði HÍ

Útgáfudagur

27.10.2017

Spyrjandi

Sigrún Gunnarsdóttir

Tilvísun

Arnar Eggert Thoroddsen. „Hvað er indí-tónlist?“ Vísindavefurinn, 27. október 2017. Sótt 25. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=25802.

Arnar Eggert Thoroddsen. (2017, 27. október). Hvað er indí-tónlist? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=25802

Arnar Eggert Thoroddsen. „Hvað er indí-tónlist?“ Vísindavefurinn. 27. okt. 2017. Vefsíða. 25. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=25802>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað er indí-tónlist?
Nöfn á stefnum og undirgeirum dægurtónlistarinnar eða poppsins eiga sér misaugljósan uppruna. Sum nöfnin urðu til á einhverju tímabili og svo gott sem ómögulegt er að finna höfund þeirra á meðan önnur, eins og pönkið til dæmis, er hægt að festa á tiltekna blaðamenn og ár.[1]

Tónlistarstefnan indí, eða „indie“ á ensku er stytting á orðinu „independent“ sem merkir sjálfstæður eða óháður. Skilgreiningin var fyrst sett fram í Bretlandi, nánar tiltekið árið 1981 í blaðinu Record Mirror. Hugtakið var þá notað af gagnrýnandanum Sunie í dómi um smáskífu hljómsveitarinnar Modern English. Það vísaði upprunalega í hljómsveitir sem voru á mála hjá óháðum eða „sjálfstæðum“ plötuútgáfum. Þessar útgáfur skáru sig frá risafyrirtækjum eins og E.M.I., Sony, Warner og lögðu áherslu á listrænt innihald fremur en skjótan frama listamannanna. Heitið indí er í raun regnhlífarheiti yfir alls kyns tónlistarmenn frekar en að það vísi til ákveðins tónlistarstíls. Það gerir hugtakið erfitt til skilgreiningar.

Það sem sameinaði útgáfurnar sem gáfu út indí-tónlist var áhersla á „ákveðið viðhorf, tortryggni í garð gróðasjónarmiða og áhersla á að hlutir væru sjálfsprottnir, gerðir í skyndi og án of mikillar yfirlegu“ (Stanley, 2013). Rætur alls þessa voru í pönkinu, sem kom fram í Bretlandi árið 1976, og síðpönki sem kom í kjölfarið, en í því voru möguleikar pönksins bæði togaðir og teygðir. Fræg ummæli Einars Arnar Benediktssonar, söngvara Purrks Pillnikks og síðar Sykurmola, í kvikmyndinni Rokk í Reykjavík ramma heimspeki indístefnunnar á sínum sokkabandsárum fullkomlega: „það er ekki málið hvað þú getur heldur hvað þú gerir“. Helstu indí-útgáfurnar í Bretlandi voru Factory, Rough Trade, 4AD og Creation. Mikilvægir fyrirrennarar þeirra voru til dæmis útgáfufyrirtækin Fast Product og New Hormones.

Manchestersveitin The Smiths er í huga margra erki-indísveit.

Popp/rokksveitin The Smiths var stofnuð í Manchester árið 1982 og er á margan hátt kjörmynd þess sem hægt væri að kalla indí á þeim áratugi. Sveitin var samningsbundin útgáfufyrirtækinu Rough Trade og lék í fyrstu tónlist sem var undirorpin pönkinu en tók síðan á sig æ poppaðri blæ. Textar söngvarans, Morrissey, voru viðkvæmnislegir og uppfullir af skáldlegum tilþrifum og bókmenntalegum tilvísunum. Umslagshönnun sveitarinnar var stíliseruð og listræn, sveitin synti á móti straumi á margvíslega vegu og uppskar mikla aðdáun hjá völdum hópi fólks fyrir vikið. Tónlist Smiths var eins og sérsniðin að viðkvæmum, bókhneigðum unglingum í tilvistarkreppu og hér á Íslandi var tónlistin nefnd hinu frábæra nafni gáfumannapopp.

Í kjölfar The Smiths var farið að nota heitið „indie-rock“ yfir viðlíka sveitir og stundum einnig „indie guitar rock“. Þessar sveitir áttu venjulega sammerkt að samanstanda af fjórum, hvítum karlmönnum vopnuðum gíturum, bassa og trommum. Fljótt urðu takmarkanir hugtaksins ljósar. Indí er ekki notað um einhvern stíl heldur vísar það frekar til listamanna eða hljómsveita sem eiga kannski fátt annað sameiginlegt en að sveigja örlítið frá því sem er venjan í meginstraums-dægurtónlist. Að vera indí getur því átt við hávaðaglaðar neðanjarðarrokksveitir eins og Sonic Youth en líka dúllulegar síð-Smithssveitir eins og Belle and Sebastian (sem spilar „twee-pop“ eða „krútttónlist“ svo við höldum nú áfram þessum skilgreiningadansi).

Önnur skyld hugtök spretta þá upp og það flækir málin jafnvel enn frekar. Hugtök sem hafa verið notuð jöfnum höndum með indíorðinu eru til að mynda: neðanjarðarrokk (e. underground rock), jaðarrokk (e. alternative rock, eitthvað sem var notað yfir bandarískar hljómsveitir eins og Nirvana og Pixies) og stundum jafnvel „óháðar rokksveitir“. Hér á landi hefur orðið nýbylgjurokk eða „nýbylgja“ verið nokkuð fast í sessi þegar lýsa á indíhljómsveitum og -listamönnum (í upphafi níunda áratugarins var talað um nýrokk en það er sjaldgæft í dag). Það er dálítið sérstakt, að nýbylgjuhugtakið íslenska ber með sér mun víðtækari skilgreiningarramma en tónlistarstefnan „new wave“, sem var eitt af stærri afsprengjum pönksins. Hugtakið er vafalaust komið þaðan en orðið öðlaðist annars konar og stærra líf í hérlendri tónlistarumræðu. Það er einnig merkilegt að orðin „indí“ eða „indírokk“ hafa ekki verið sérstaklega algeng í íslenskri blaðaumfjöllun, þau voru til að mynda ekkert notuð þegar indíið reis sem hæst á níunda áratugnum en hafa þó verið notuð að einhverju ráði síðustu fimmtán árin eða svo. Dálæti Íslendinga á að þýða erlend hugtök hefur líklega haft þar áhrif. Mörgum þykir æskilegra að tala um nýbylgju en indí, líkt og rætt er um þungarokk frekar en metal (og bárujárnsrokk á tyllidögum).

Los Angeles-kvartettinn Warpaint hefur verið áberandi undanfarin ár. En spila meðlimir hans nútíma síðpönk, indírokk með dassi af poppi eða bara rokk? Oft eru nokkur áhöld um hvað þarf til, svo að hægt sé að kalla hljómsveitir „indí“.

Til að flækja málin enn frekar er stundum talað um „college rock“ eða háskólarokk og er það náskylt indíinu. Átti það einkum við um hljómsveitir sem voru vinsælar á útvarpsstöðum háskóla í Bandaríkjunum. Líkt og með indíið stýrir formið (að vera spilaður á háskólaútvarpsstöðvum) skilgreiningunni fremur en tónlistarlegt innihald, og stíll háskólarokksveita er því af ýmsum toga.

Hvort að hljómsveit spili víkingarokk eða ekki er alveg skýrt, bæði í tónlistinni og útliti meðlima en hvað indí varðar eru málin mun óljósari. Hugtakið er afar fljótandi eins og sést en sjaldnast er tilefni til að skakka þennan skilgreiningaleik harkalega. Það má kalla hljómsveit eins og Sonic Youth indísveit, nýbylgjusveit, neðanjarðarsveit eða jaðarrokksveit og allt geta það verið réttar lýsingar á tónlist sveitarinnar.

Rokksveitin Maus er eitt besta og skýrasta dæmið um íslenska indírokksveit, hún fór mikinn á tíunda áratugnum.

Á Íslandi var hreint indí, ef við getum kallað það svo, helst að finna á tíunda áratugnum. Kolrassa Krókríðandi sló tóninn í upphafi hans og um miðjan áratuginn voru erki-indísveitir, skipaðar drengjum með rafmagnsgítara, nokkuð áberandi. Maus, Ensími og 200.000 naglbítar voru þar helstar. Botnleðja lék hart neðanjarðarrokk að amerískum hætti og ætti frekar að flokkast sem neðanjarðarrokksveit. En hugsanlega mætti allt eins kalla hana indísveit. Það fer í raun aðeins eftir því hverjir eru mættir á rökstólana hverju sinni.

Heimildir og ítarefni:
  • Stanley, Bob. „Poised over the Pause Button: The Smiths and the Birth of Indie“ í Yeah Yeah Yeah – The Story of Modern Pop (bls. 577 – 591). London: Faber and Faber, 2013.
  • Fonarow, Wendy. Empire of Dirt: The Aesthetics and Rituals of British Indie Music. Wesleyan University Press, 2006.
  • Hesmondhalgh, D. „Indie: The institutional politics and aesthetics of a popular music genre“. Cultural Studies, 13 (1). 34 – 61, 1999.

Myndir:

Tilvísun:
  1. ^ Það var Caroline Coon sem notaði fyrst merkimiðann „punk“ í grein fyrir breska blaðið Melody Maker árið 1976. Að vísu var orðið notað af bandarískum blaðamönnum nokkru fyrr en þá í öðru samhengi. Umfjöllun um pönk er hins vegar efni í annað svar!


Upprunalega spurningin var:
Hver er skilgreiningin á tónlistarstefnunni indie?

...