Sólin Sólin Rís 05:26 • sest 21:28 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:24 • Sest 05:22 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:10 • Síðdegis: 18:30 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:11 • Síðdegis: 12:20 í Reykjavík

Hversu margir dóu í heimsstyrjöldinni fyrri?

Gunnar Þór Bjarnason

Svarið við spurningunni er ekki eins einfalt og margur kynni að ætla. Enginn veit nefnilega nákvæmlega hversu margir dóu í heimsstyrjöldinni fyrri og tölum um mannfall ber ekki saman. Oftast er sagt að fjöldi fallinna hermanna hafi verið um 9 milljónir en til eru þeir fræðimenn sem telja að mannfallið hafi verið meira, jafnvel allt að 13 milljónum. Samkvæmt ensku útgáfunni af Wikipediu dóu rúmlega 9,9 milljónir hermanna í stríðinu. Þá eru ótaldir óbreyttir borgarar, að ekki sé minnst á alla þá hermenn sem særðust alvarlega. (Nánar um það hér að neðan).

Nærri 64 milljónir hermanna voru kvaddar til vopna á stríðsárunum. Yfirgnæfandi meirihluti þeirra voru Evrópubúar. Heimsstyrjöldin fyrri var Evrópustríð fyrst og fremst og kölluð Norðurálfuófriðurinn hér á landi. Í nýlegu þýsku alfræðiriti um styrjöldina (Enzyklopädie Erster Weltkrieg) segir að um 9 milljónir hermanna hafi látið lífið eða um 14% þeirra sem börðust. Í sama riti er því haldið fram að dauðsföll 5.950.000 óbreyttra borgara megi rekja til stríðsátakanna. Hinum þekkta og talnaglögga breska sagnfræðingi Niall Ferguson reiknast svo til að 9.450.000 hermenn hafi fallið. Með hliðsjón af þessum tveimur heimildum, og reyndar ýmsum öðrum, verður því slegið föstu hér að á bilinu 9 til 9,5 milljónir hermanna hafi týnt lífi í stríðinu og um 6 milljónir óbreyttra borgara. Heildarmannfall hefur því verið að minnsta kosti 15 milljónir.

Í átökunum um Vedun í Frakklandi árið 1916 fórst um hálf milljón manna.

Heimsstyrjöldin fyrri hófst 28. júlí 1914 og henni lauk 11. nóvember 1918. Tölurnar hér að ofan þýða að 6000 hermenn, eða þar um bil, hafa að jafnaði látið lífið á hverjum degi þann tíma sem ófriðarbálið logaði.

Skýringar á því hversu erfitt er að komast er komast að óyggjandi niðurstöðu um mannfall í heimsstyrjöldinni eru einkum þrjár. Í fyrsta lagi voru í hernaðarskýrslum jafnan taldir saman þeir hermenn sem féllu, særðust eða voru teknir til fanga af óvininum. Á ensku er talað um casualities, á þýsku Verluste. Þetta voru sem sagt þeir sem herinn hafði „misst“ og gátu því ekki barist áfram, að minnsta kosti ekki um tíma. Í öðru lagi eru skýrslur um mannfall ákaflega misáreiðanlegar eftir löndum. Í þriðja lagi getur í einstökum löndum verið erfitt að ákvarða hvort hermenn og óbreyttir borgarar létust af völdum heimsstyrjaldarinnar eða annarra átaka. Þetta á einkum við um Rússland en þar hófst blóðug borgarastyrjöld eftir að bolsévikar rændu völdum í október 1917.

Þótt bandamenn hafi að lokum hrósað sigri var manntjón þeirra í heild meira en hjá miðveldunum eða um 5,3 milljónir. 750 þúsund breskir og írskir hermenn týndu lífi. Við það bætast hátt í 200 þúsund hermenn frá nýlendum og sjálfstjórnarlöndum Bretaveldis (einkum Ástralíu, Nýja-Sjálandi og Kanada). Um 1,3 milljónir franskra hermanna féllu ásamt 25 þúsund nýlendubúum sem börðust undir merki Frakklands. Að minnsta kosti 1,8 milljón Rússar féllu, 460 þúsund Ítalir, 250 þúsund Rúmenar, 117 þúsund Bandaríkjamenn, 38 þúsund Belgar, 25 þúsund Grikkir, 13 þúsund Svartfellingar, 7 þúsund Portúgalir og eitt þúsund Japanir. Loks er að nefna Serbíu en engin þjóð varð hlutfallslega fyrir eins miklu manntjóni í heimsstyrjöldinni og Serbar. Árið 1914 var íbúafjöldi landsins um fimm milljónir. Um 125 þúsund hermenn féllu og 650 þúsund óbreyttir borgarar (vegna vannæringar eða úr sjúkdómum). Þetta þýðir að nálægt 15% serbnesku þjóðarinnar hafa dáið. Hlutfallið hjá evrópsku stórþjóðunum var 2–3%.

Grafir breskra hermanna í kirkjugarði í bænum Abbeville í Frakklandi. Myndin er frá árinu 1918.

Hjá miðveldunum féllu samtals um 4 milljónir hermanna. Mest var blóðtakan í þýska hernum, rúmlega 2 milljónir. Í Austurríki-Ungverjalandi var mannfallið um 1½ milljón og 90 þúsund í Búlgaríu. Tyrkir misstu að minnsta kosti 325 þúsund hermenn (jafnvel allt að 800 þúsundum, ef marka má útreikninga einstakra fræðimanna).

Enn meiri óvissu gætir um mannfall í röðum óbreyttra borgara en hermanna enda þarf að áætla tölur um það. Í einstökum löndum liggja litlar sem engar upplýsingar fyrir um þetta. Flestir létust í Tyrklandi eða um 2 milljónir. Stærstur hluti þeirra voru Armenar sem urðu fórnarlömb þjóðernishreinsana af hendi Tyrkja (sem hafa verið sakaðir um þjóðarmorð). Í Þýskalandi er talið að ekki færri en 700 þúsund manns hafi látið lífið úr hungri eða sjúkdómum sem rekja má til vannæringar. Hafnbann bandamanna kom illa við Þjóðverja, sérstaklega var ástandið slæmt „gulrófuveturinn“ 1916–1917. Í heild hefur dauði 3½ milljónar manna í ríkjum miðveldanna verið rakinn til stríðsins. Hjá bandamönnum er talan um 2½ milljón, þar af um 600 þúsund í Bretlandi og Írlandi, 600 þúsund í Frakklandi, 700 þúsund á Ítalíu og 50 þúsund í Belgíu.

Sárafáir Íslendingar létu lífið af völdum stríðsins. Eftir því sem næst verður komist sökktu þýskir kafbátar á þriðja tug íslenskra skipa eða skipum sem voru í siglingum fyrir Íslendinga. Sjö Íslendingar fórust með þessum skipum en í öllum tilvikum nema tveimur varð mannbjörg. Að auki rakst togarinn Skúli fógeti á tundurdufl úti fyrir austurströnd Englands í ágústmánuði 1914 og létust fjórir úr áhöfninni. Ekki má reyndar gleyma því að 144 vestur-íslenskir hermenn dóu í stríðinu og var 61 fæddur á Íslandi eins og fram kemur í svari hér á Vísindavefnum við spurningunni Dóu Vestur-Íslendingar í skotgröfum fyrri heimstyrjaldarinnar? Rúmlega 300 dönsk skip voru skotin niður á stríðsárunum, rákust á tundurdufl eða hurfu sporlaust, með þeim fórust 650 sjómenn. Stríðið kom enn verr við Norðmenn sem misstu um 900 skip og nær 2.200 sjómenn.

Áhöfn HMS Audacious kemur sér í björgunarbáta eftir árekstur við þýskt tundurdufl í október 1914.

Fræðimenn hafa bent á að taka verði tillit til færri fæðinga þegar áhrif stríðsins á mannfjöldaþróun eru metin. „Ófriðurinn hefur ekki aðeins fyllt grafirnar, heldur líka tæmt vöggurnar. Hér er eins og hver þjóð sé að fremja á sér skelfilegt sjálfsmorð,“ sagði í Morgunblaðinu 13. júlí 1918. Rétt er að hjónavígslum og fæðingum fækkaði umtalsvert meðal stríðsþjóðanna en hér verður ekki farið nánar út í þá sálma.

Að lokum er rétt að minna á allan þann aragrúa hermanna sem særðist í stríðinu. Þeir voru um 15 milljónir og báru margir þeirra þess aldrei bætur. Menn misstu hönd eða fót, blinduðust í gasárásum og svo framvegis. Taka má dæmi af Þýskalandi en talið er að rúmlega 2½ milljón þýskra hermanna hafi hlotið alvarlega áverka, þar af urðu um 800 þúsund örkumla. Í Frakklandi varð að minnsta kosti 1,1 milljón manna fyrir varanlegu heilsutjóni. Að stríði loknu voru farlama menn algeng sjón á götum og torgum ófriðarlandanna og urðu þeir þannig eins konar lifandi minnismerki um skelfilega styrjöld sem olli svo mikilli þjáningu og dauða.

Heimildir og lesefni:

  • Enzyklopädie Erster Weltkrieg, ritstj. Gerhard Hirschfeld, Gerd Krumeich og Irina Renz, aukin og endurbætt útgáfa, Paderborn, München, Wien og Zürich 2009.
  • Ferguson, Niall, The Pity of War. Explaining World War I, New York 1999.
  • Keegan, John, The First World War, London 1988.
  • Münkler, Herfried, Der Große Krieg. Die Welt 1914–1918, Berlin 2013.
  • Sjálfsmorð þjóðanna“, Morgunblaðið 13. júlí 1918.
  • Sørensen, Nils Arne, Den store krigen. Europeernes første verdenskrig, Oslo 2010.
  • World War I - Wikipedia, the free encyclopedia.

Myndir:

Höfundur

Gunnar Þór Bjarnason

sagnfræðingur

Útgáfudagur

6.6.2014

Spyrjandi

Daði Einarsson, Sigurður Óskar

Tilvísun

Gunnar Þór Bjarnason. „Hversu margir dóu í heimsstyrjöldinni fyrri? “ Vísindavefurinn, 6. júní 2014. Sótt 23. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=31875.

Gunnar Þór Bjarnason. (2014, 6. júní). Hversu margir dóu í heimsstyrjöldinni fyrri? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=31875

Gunnar Þór Bjarnason. „Hversu margir dóu í heimsstyrjöldinni fyrri? “ Vísindavefurinn. 6. jún. 2014. Vefsíða. 23. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=31875>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hversu margir dóu í heimsstyrjöldinni fyrri?
Svarið við spurningunni er ekki eins einfalt og margur kynni að ætla. Enginn veit nefnilega nákvæmlega hversu margir dóu í heimsstyrjöldinni fyrri og tölum um mannfall ber ekki saman. Oftast er sagt að fjöldi fallinna hermanna hafi verið um 9 milljónir en til eru þeir fræðimenn sem telja að mannfallið hafi verið meira, jafnvel allt að 13 milljónum. Samkvæmt ensku útgáfunni af Wikipediu dóu rúmlega 9,9 milljónir hermanna í stríðinu. Þá eru ótaldir óbreyttir borgarar, að ekki sé minnst á alla þá hermenn sem særðust alvarlega. (Nánar um það hér að neðan).

Nærri 64 milljónir hermanna voru kvaddar til vopna á stríðsárunum. Yfirgnæfandi meirihluti þeirra voru Evrópubúar. Heimsstyrjöldin fyrri var Evrópustríð fyrst og fremst og kölluð Norðurálfuófriðurinn hér á landi. Í nýlegu þýsku alfræðiriti um styrjöldina (Enzyklopädie Erster Weltkrieg) segir að um 9 milljónir hermanna hafi látið lífið eða um 14% þeirra sem börðust. Í sama riti er því haldið fram að dauðsföll 5.950.000 óbreyttra borgara megi rekja til stríðsátakanna. Hinum þekkta og talnaglögga breska sagnfræðingi Niall Ferguson reiknast svo til að 9.450.000 hermenn hafi fallið. Með hliðsjón af þessum tveimur heimildum, og reyndar ýmsum öðrum, verður því slegið föstu hér að á bilinu 9 til 9,5 milljónir hermanna hafi týnt lífi í stríðinu og um 6 milljónir óbreyttra borgara. Heildarmannfall hefur því verið að minnsta kosti 15 milljónir.

Í átökunum um Vedun í Frakklandi árið 1916 fórst um hálf milljón manna.

Heimsstyrjöldin fyrri hófst 28. júlí 1914 og henni lauk 11. nóvember 1918. Tölurnar hér að ofan þýða að 6000 hermenn, eða þar um bil, hafa að jafnaði látið lífið á hverjum degi þann tíma sem ófriðarbálið logaði.

Skýringar á því hversu erfitt er að komast er komast að óyggjandi niðurstöðu um mannfall í heimsstyrjöldinni eru einkum þrjár. Í fyrsta lagi voru í hernaðarskýrslum jafnan taldir saman þeir hermenn sem féllu, særðust eða voru teknir til fanga af óvininum. Á ensku er talað um casualities, á þýsku Verluste. Þetta voru sem sagt þeir sem herinn hafði „misst“ og gátu því ekki barist áfram, að minnsta kosti ekki um tíma. Í öðru lagi eru skýrslur um mannfall ákaflega misáreiðanlegar eftir löndum. Í þriðja lagi getur í einstökum löndum verið erfitt að ákvarða hvort hermenn og óbreyttir borgarar létust af völdum heimsstyrjaldarinnar eða annarra átaka. Þetta á einkum við um Rússland en þar hófst blóðug borgarastyrjöld eftir að bolsévikar rændu völdum í október 1917.

Þótt bandamenn hafi að lokum hrósað sigri var manntjón þeirra í heild meira en hjá miðveldunum eða um 5,3 milljónir. 750 þúsund breskir og írskir hermenn týndu lífi. Við það bætast hátt í 200 þúsund hermenn frá nýlendum og sjálfstjórnarlöndum Bretaveldis (einkum Ástralíu, Nýja-Sjálandi og Kanada). Um 1,3 milljónir franskra hermanna féllu ásamt 25 þúsund nýlendubúum sem börðust undir merki Frakklands. Að minnsta kosti 1,8 milljón Rússar féllu, 460 þúsund Ítalir, 250 þúsund Rúmenar, 117 þúsund Bandaríkjamenn, 38 þúsund Belgar, 25 þúsund Grikkir, 13 þúsund Svartfellingar, 7 þúsund Portúgalir og eitt þúsund Japanir. Loks er að nefna Serbíu en engin þjóð varð hlutfallslega fyrir eins miklu manntjóni í heimsstyrjöldinni og Serbar. Árið 1914 var íbúafjöldi landsins um fimm milljónir. Um 125 þúsund hermenn féllu og 650 þúsund óbreyttir borgarar (vegna vannæringar eða úr sjúkdómum). Þetta þýðir að nálægt 15% serbnesku þjóðarinnar hafa dáið. Hlutfallið hjá evrópsku stórþjóðunum var 2–3%.

Grafir breskra hermanna í kirkjugarði í bænum Abbeville í Frakklandi. Myndin er frá árinu 1918.

Hjá miðveldunum féllu samtals um 4 milljónir hermanna. Mest var blóðtakan í þýska hernum, rúmlega 2 milljónir. Í Austurríki-Ungverjalandi var mannfallið um 1½ milljón og 90 þúsund í Búlgaríu. Tyrkir misstu að minnsta kosti 325 þúsund hermenn (jafnvel allt að 800 þúsundum, ef marka má útreikninga einstakra fræðimanna).

Enn meiri óvissu gætir um mannfall í röðum óbreyttra borgara en hermanna enda þarf að áætla tölur um það. Í einstökum löndum liggja litlar sem engar upplýsingar fyrir um þetta. Flestir létust í Tyrklandi eða um 2 milljónir. Stærstur hluti þeirra voru Armenar sem urðu fórnarlömb þjóðernishreinsana af hendi Tyrkja (sem hafa verið sakaðir um þjóðarmorð). Í Þýskalandi er talið að ekki færri en 700 þúsund manns hafi látið lífið úr hungri eða sjúkdómum sem rekja má til vannæringar. Hafnbann bandamanna kom illa við Þjóðverja, sérstaklega var ástandið slæmt „gulrófuveturinn“ 1916–1917. Í heild hefur dauði 3½ milljónar manna í ríkjum miðveldanna verið rakinn til stríðsins. Hjá bandamönnum er talan um 2½ milljón, þar af um 600 þúsund í Bretlandi og Írlandi, 600 þúsund í Frakklandi, 700 þúsund á Ítalíu og 50 þúsund í Belgíu.

Sárafáir Íslendingar létu lífið af völdum stríðsins. Eftir því sem næst verður komist sökktu þýskir kafbátar á þriðja tug íslenskra skipa eða skipum sem voru í siglingum fyrir Íslendinga. Sjö Íslendingar fórust með þessum skipum en í öllum tilvikum nema tveimur varð mannbjörg. Að auki rakst togarinn Skúli fógeti á tundurdufl úti fyrir austurströnd Englands í ágústmánuði 1914 og létust fjórir úr áhöfninni. Ekki má reyndar gleyma því að 144 vestur-íslenskir hermenn dóu í stríðinu og var 61 fæddur á Íslandi eins og fram kemur í svari hér á Vísindavefnum við spurningunni Dóu Vestur-Íslendingar í skotgröfum fyrri heimstyrjaldarinnar? Rúmlega 300 dönsk skip voru skotin niður á stríðsárunum, rákust á tundurdufl eða hurfu sporlaust, með þeim fórust 650 sjómenn. Stríðið kom enn verr við Norðmenn sem misstu um 900 skip og nær 2.200 sjómenn.

Áhöfn HMS Audacious kemur sér í björgunarbáta eftir árekstur við þýskt tundurdufl í október 1914.

Fræðimenn hafa bent á að taka verði tillit til færri fæðinga þegar áhrif stríðsins á mannfjöldaþróun eru metin. „Ófriðurinn hefur ekki aðeins fyllt grafirnar, heldur líka tæmt vöggurnar. Hér er eins og hver þjóð sé að fremja á sér skelfilegt sjálfsmorð,“ sagði í Morgunblaðinu 13. júlí 1918. Rétt er að hjónavígslum og fæðingum fækkaði umtalsvert meðal stríðsþjóðanna en hér verður ekki farið nánar út í þá sálma.

Að lokum er rétt að minna á allan þann aragrúa hermanna sem særðist í stríðinu. Þeir voru um 15 milljónir og báru margir þeirra þess aldrei bætur. Menn misstu hönd eða fót, blinduðust í gasárásum og svo framvegis. Taka má dæmi af Þýskalandi en talið er að rúmlega 2½ milljón þýskra hermanna hafi hlotið alvarlega áverka, þar af urðu um 800 þúsund örkumla. Í Frakklandi varð að minnsta kosti 1,1 milljón manna fyrir varanlegu heilsutjóni. Að stríði loknu voru farlama menn algeng sjón á götum og torgum ófriðarlandanna og urðu þeir þannig eins konar lifandi minnismerki um skelfilega styrjöld sem olli svo mikilli þjáningu og dauða.

Heimildir og lesefni:

  • Enzyklopädie Erster Weltkrieg, ritstj. Gerhard Hirschfeld, Gerd Krumeich og Irina Renz, aukin og endurbætt útgáfa, Paderborn, München, Wien og Zürich 2009.
  • Ferguson, Niall, The Pity of War. Explaining World War I, New York 1999.
  • Keegan, John, The First World War, London 1988.
  • Münkler, Herfried, Der Große Krieg. Die Welt 1914–1918, Berlin 2013.
  • Sjálfsmorð þjóðanna“, Morgunblaðið 13. júlí 1918.
  • Sørensen, Nils Arne, Den store krigen. Europeernes første verdenskrig, Oslo 2010.
  • World War I - Wikipedia, the free encyclopedia.

Myndir:

...