Sólin Sólin Rís 05:19 • sest 21:35 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:18 • Sest 04:56 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:07 • Síðdegis: 19:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:08 • Síðdegis: 13:14 í Reykjavík

Hvað er Likert-kvarði sem notaður er í spurningakönnunum?

Þorlákur Karlsson

Upprunalega hljóðaði spurningin:

Ég hef heyrt talað um Likert þegar fjallað er um spurningakannanir. Hvað er Likert-kvarði?

Likert-kvarði er algengasti svarkvarði í spurningakönnunum sem meta viðhorf fólks og skoðanir og fleira þar sem huglægt mat svaranda er grunnur að svari hans. Likert-kvarði er ráðandi í skoðana- og viðhorfskönnunum, markaðsrannsóknum, þjónustukönnunum og vinnustaðargreiningum, það er að segja upprunalegi kvarðinn með seinni tíma viðbótum. Ef mæla ætti viðhorf manna til tiltekinnar stofnunar, til dæmis hvort menn væru jákvæðir til hennar, myndi fullyrðing verða lögð fram um að svarandi væri jákvæður og ætti hann að taka afstöðu til hennar. Svarkostirnir yrðu síðan; 5) mjög sammála, 4) fremur sammála, 3) hvorki sammála né ósammála, 2) fremur ósammála, 1) mjög ósammála, (Likert, 1932). Reyndar hafði Likert óákveðin/n sem miðjustig. Likert númeraði stig kvarðans á þennan hátt, þannig að í úrvinnslu merkir hærri tala að menn séu meira sammála. Sú hefð hefur almennt haldist. Í seinni tíma útgáfu á Likert-kvarða væri mælt með því á hinn bóginn að spyrja hvort svarandi sé jákvæður eða neikvæður og svo væru svarkostirnir 1) mjög jákvæð/ur, 2) fremur jákvæð/ur, 3) í meðallagi, 4) fremur neikvæð/ur og 5) mjög neikvæð/ur.

Likert-kvarði tilheyrir flokki sem nefnist raðkvarðar (e. ordinal scales). Þar eru svarkostirnir á tiltekinni vídd, til dæmis frá litlu yfir í mikið, frá sammála yfir í ósammála eða frá því að vera mjög jákvæð yfir í mjög neikvæð, án þess að hægt sé að gefa svarkostunum algilt tölugildi og án þess að hægt sé að segja hvort bilin á milli stiga kvarðans séu jöfn. Þannig kann að vera að bilið á milli fremur jákvæð og mjög jákvæð í hugum fólks sé meira en bilið á milli fremur neikvæð og mjög neikvæð. Þetta myndi gilda fyrir þá sem eru oftar jákvæðir en neikvæðir og hafa því meiri reynslu af þeim enda viðhorfsvíddarinnar (og öfugt fyrir þá sem eru oftar neikvæðir). Röð svarkostanna frá litlu yfir í mikið, frá sammála yfir í ósammála eða frá jákvæðu yfir í neikvætt er óumdeild, þótt bilin á milli svarkostanna kunna að vera mismikil, og því er kvarðinn nefndur raðkvarði. Dæmi um raðkvarða sem telst ekki til Likert-kvarða, að minnsta kosti ekki enn sem komið er, er alltaf, oft, stundum, sjaldan og aldrei. Hann er notaður þegar spurt er til dæmis um tíðni athafna sem menn hafa tilfinningu fyrir fremur en nákvæma talningu, til að mynda að mæta á réttum tíma á fundi.

Höfundur Likert-kvarðans var Rensis Likert (1903–1981) en hann fjallaði fyrst um kvarðann í doktorsritgerð sinni árið 1932.

Kvarðinn er nefndur í höfuðið á höfundi hans, Rensis Likert (1903-1981), en Likert fjallaði fyrst um hann sem vænlega mælingu á viðhorfum fólks í doktorsritgerð sinni sem birt var árið 1932 í Archives of Psychology (Likert, 1932). Likert var félagssálfræðingur og varði drjúgum hluta starfsævi sinnar í að þróa kenningar í stjórnun (e. participative management og e. leader behavior) (Edmondson, 2005). Í doktorsritgerðinni prófaði Likert kvarða sinn á móti já/veit ekki/nei-kvarða og Thurstone-kvarðanum við mælingar á viðhorfum fólks til heimsvaldastefnu, alþjóðahyggju og svartra Bandaríkjamanna (Likert, 1932). Fjöldi fullyrðinga var settur fram í prófunum Likerts og svarkostirnir við hverri voru fimm, það er mjög sammála, sammála, óákveðin/n, ósammála, mjög ósammála þar sem mjög sammála fékk gildið 5, mjög ósammála 1 og hin þar á milli. Meginniðurstaðan í prófununum var sú að Likert-kvarðinn reyndist hafa mikinn helmingunaráreiðanleika og var mun þægilegra að búa til fullyrðingar með þessum svarkvarða en nota Thurstone-kvarðann. Síðan hafa ýmiss önnur orð en sammála og ósammála verið notuð á raðkvarða og það kallað Likert-kvarði þar sem þau eiga það sameiginlegt að fara frá hæsta huglæga gildi á tilekinni viðhorfsvídd yfir í lægsta huglæga gildi, sem var hugmynd Likerts. Einnig hefur kvarðinn þróast í bæði fleiri og færri gildi, til dæmis 4-stiga kvarði án miðju og 7-stiga kvarði með miðju, en 5-stiga kvarðinn er þó langalgengastur. Sumir telja þó ekki aðra svarkvarða til Likerts nema þeir hafi orðin sammála og ósammála og að hann hafi 5 stig (Edmondson, 2005).

Í viðbót við þessa þróun í orðanotkun svarkosta og fjölda stiga kvarðans er þrennt sem gott er að hafa í huga við notkun hans.

Í fyrsta lagi er ekki heppilegt að hafa „óákveðin(n)“ í miðjunni þar sem það orð er ekki alltaf hluti af samfellu kvarðans og er eingöngu fyrir þá sem hafa alls ekki skoðun á málinu. Því mætti hafa það sem aukasvarkost sem er ekki tekinn með kvarðanum sjálfum við úrvinnslu, líkt og gert er með veit ekki sem svarkost. Þess í stað er oft sett hvorki sammála né ósammála og er ætlað fyrir þá sem eru á milli þess að vera sammála og ósammála. Kannski væri jafnvel betra að nota í meðallagi, sem þeir myndu merkja við þann kost sem gætu í einhverjum tilvikum verið sammála en í öðrum ósammála og er augljóslega kostur á milli þess að vera sammála og ósammála.

Í öðru lagi þykja fullyrðingar ekki heppilegasta leiðin til að kanna viðhorf og skoðanir. Það stafar af því með sum málefni og meðal sumra svarenda kemur fram svokölluð samþykkishneigð, það er fólk er líklegra til að vera samþykkt en ósamþykkt fullyrðingu (sjá til dæmis Sudman og Bradburn, 1982) sem veldur skekkju. Þannig er mælt með að nota spurningu sem er í jafnvægi í stað fullyrðingar, svo sem Ertu sammála eða ósammála því að Ísland gangi í ESB? eða það sem er jafnvel enn betra Ertu hlynnt/ur eða andvíg/ur því að Ísland gangi í ESB?

Þá hefur í þriðja lagi skapast sú hefð í viðhorfs- og markaðsrannsóknum á Íslandi að nota orðið fremur (frekar) við næstlægsta og næsthæsta stig kvarðans. Þannig gæti svarkvarði spurningarinnar Ertu hlynnt/ur eða andvíg/ur því að Ísland gangi í Evrópusambandið (ESB)? verið mjög hlynnt/ur, fremur hlynnt/ur, í meðallagi, fremur andvíg/ur, mjög andvíg/ur. Þannig er spurning og svarkvarði ekki einungis í jafnvægi, heldur er skýr greinarmunur gerður á tveimur ystu gildum kvarðans.

Það má segja í lokin að þrátt fyrir að Rensis Likert sé látinn fyrir allmörgum árum taki hann enn þátt í nánast öllum skoðana- og viðhorfskönnunum, markaðsrannsóknum, þjónustukönnunum og vinnustaðargreiningum í heiminum með þungavigtarframlagi sínu – Likert-kvarðanum.

Heimildir:
  • Edmondson, D. R. (2005). Likert scales: A history. Conference on Historical Analysis & Research in Marketing Proceedings (CHARM), 12, 127-133.
  • Likert, R. (1932). A technique for the measurement of attitudes. Archives of Psychology, 140, 5-55.
  • Sudman, S. og Bradburn, N. M. (1982). Asking questions: A practical guide to questionnaire design. San Francisco: Jossey-Bass Publishers.

Mynd:

Höfundur

Þorlákur Karlsson

Dósent í sálfræði í Háskólanum í Reykjavík.

Útgáfudagur

10.11.2015

Spyrjandi

Snorri Guðmundsson

Tilvísun

Þorlákur Karlsson. „Hvað er Likert-kvarði sem notaður er í spurningakönnunum?“ Vísindavefurinn, 10. nóvember 2015. Sótt 25. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=55977.

Þorlákur Karlsson. (2015, 10. nóvember). Hvað er Likert-kvarði sem notaður er í spurningakönnunum? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=55977

Þorlákur Karlsson. „Hvað er Likert-kvarði sem notaður er í spurningakönnunum?“ Vísindavefurinn. 10. nóv. 2015. Vefsíða. 25. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=55977>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað er Likert-kvarði sem notaður er í spurningakönnunum?
Upprunalega hljóðaði spurningin:

Ég hef heyrt talað um Likert þegar fjallað er um spurningakannanir. Hvað er Likert-kvarði?

Likert-kvarði er algengasti svarkvarði í spurningakönnunum sem meta viðhorf fólks og skoðanir og fleira þar sem huglægt mat svaranda er grunnur að svari hans. Likert-kvarði er ráðandi í skoðana- og viðhorfskönnunum, markaðsrannsóknum, þjónustukönnunum og vinnustaðargreiningum, það er að segja upprunalegi kvarðinn með seinni tíma viðbótum. Ef mæla ætti viðhorf manna til tiltekinnar stofnunar, til dæmis hvort menn væru jákvæðir til hennar, myndi fullyrðing verða lögð fram um að svarandi væri jákvæður og ætti hann að taka afstöðu til hennar. Svarkostirnir yrðu síðan; 5) mjög sammála, 4) fremur sammála, 3) hvorki sammála né ósammála, 2) fremur ósammála, 1) mjög ósammála, (Likert, 1932). Reyndar hafði Likert óákveðin/n sem miðjustig. Likert númeraði stig kvarðans á þennan hátt, þannig að í úrvinnslu merkir hærri tala að menn séu meira sammála. Sú hefð hefur almennt haldist. Í seinni tíma útgáfu á Likert-kvarða væri mælt með því á hinn bóginn að spyrja hvort svarandi sé jákvæður eða neikvæður og svo væru svarkostirnir 1) mjög jákvæð/ur, 2) fremur jákvæð/ur, 3) í meðallagi, 4) fremur neikvæð/ur og 5) mjög neikvæð/ur.

Likert-kvarði tilheyrir flokki sem nefnist raðkvarðar (e. ordinal scales). Þar eru svarkostirnir á tiltekinni vídd, til dæmis frá litlu yfir í mikið, frá sammála yfir í ósammála eða frá því að vera mjög jákvæð yfir í mjög neikvæð, án þess að hægt sé að gefa svarkostunum algilt tölugildi og án þess að hægt sé að segja hvort bilin á milli stiga kvarðans séu jöfn. Þannig kann að vera að bilið á milli fremur jákvæð og mjög jákvæð í hugum fólks sé meira en bilið á milli fremur neikvæð og mjög neikvæð. Þetta myndi gilda fyrir þá sem eru oftar jákvæðir en neikvæðir og hafa því meiri reynslu af þeim enda viðhorfsvíddarinnar (og öfugt fyrir þá sem eru oftar neikvæðir). Röð svarkostanna frá litlu yfir í mikið, frá sammála yfir í ósammála eða frá jákvæðu yfir í neikvætt er óumdeild, þótt bilin á milli svarkostanna kunna að vera mismikil, og því er kvarðinn nefndur raðkvarði. Dæmi um raðkvarða sem telst ekki til Likert-kvarða, að minnsta kosti ekki enn sem komið er, er alltaf, oft, stundum, sjaldan og aldrei. Hann er notaður þegar spurt er til dæmis um tíðni athafna sem menn hafa tilfinningu fyrir fremur en nákvæma talningu, til að mynda að mæta á réttum tíma á fundi.

Höfundur Likert-kvarðans var Rensis Likert (1903–1981) en hann fjallaði fyrst um kvarðann í doktorsritgerð sinni árið 1932.

Kvarðinn er nefndur í höfuðið á höfundi hans, Rensis Likert (1903-1981), en Likert fjallaði fyrst um hann sem vænlega mælingu á viðhorfum fólks í doktorsritgerð sinni sem birt var árið 1932 í Archives of Psychology (Likert, 1932). Likert var félagssálfræðingur og varði drjúgum hluta starfsævi sinnar í að þróa kenningar í stjórnun (e. participative management og e. leader behavior) (Edmondson, 2005). Í doktorsritgerðinni prófaði Likert kvarða sinn á móti já/veit ekki/nei-kvarða og Thurstone-kvarðanum við mælingar á viðhorfum fólks til heimsvaldastefnu, alþjóðahyggju og svartra Bandaríkjamanna (Likert, 1932). Fjöldi fullyrðinga var settur fram í prófunum Likerts og svarkostirnir við hverri voru fimm, það er mjög sammála, sammála, óákveðin/n, ósammála, mjög ósammála þar sem mjög sammála fékk gildið 5, mjög ósammála 1 og hin þar á milli. Meginniðurstaðan í prófununum var sú að Likert-kvarðinn reyndist hafa mikinn helmingunaráreiðanleika og var mun þægilegra að búa til fullyrðingar með þessum svarkvarða en nota Thurstone-kvarðann. Síðan hafa ýmiss önnur orð en sammála og ósammála verið notuð á raðkvarða og það kallað Likert-kvarði þar sem þau eiga það sameiginlegt að fara frá hæsta huglæga gildi á tilekinni viðhorfsvídd yfir í lægsta huglæga gildi, sem var hugmynd Likerts. Einnig hefur kvarðinn þróast í bæði fleiri og færri gildi, til dæmis 4-stiga kvarði án miðju og 7-stiga kvarði með miðju, en 5-stiga kvarðinn er þó langalgengastur. Sumir telja þó ekki aðra svarkvarða til Likerts nema þeir hafi orðin sammála og ósammála og að hann hafi 5 stig (Edmondson, 2005).

Í viðbót við þessa þróun í orðanotkun svarkosta og fjölda stiga kvarðans er þrennt sem gott er að hafa í huga við notkun hans.

Í fyrsta lagi er ekki heppilegt að hafa „óákveðin(n)“ í miðjunni þar sem það orð er ekki alltaf hluti af samfellu kvarðans og er eingöngu fyrir þá sem hafa alls ekki skoðun á málinu. Því mætti hafa það sem aukasvarkost sem er ekki tekinn með kvarðanum sjálfum við úrvinnslu, líkt og gert er með veit ekki sem svarkost. Þess í stað er oft sett hvorki sammála né ósammála og er ætlað fyrir þá sem eru á milli þess að vera sammála og ósammála. Kannski væri jafnvel betra að nota í meðallagi, sem þeir myndu merkja við þann kost sem gætu í einhverjum tilvikum verið sammála en í öðrum ósammála og er augljóslega kostur á milli þess að vera sammála og ósammála.

Í öðru lagi þykja fullyrðingar ekki heppilegasta leiðin til að kanna viðhorf og skoðanir. Það stafar af því með sum málefni og meðal sumra svarenda kemur fram svokölluð samþykkishneigð, það er fólk er líklegra til að vera samþykkt en ósamþykkt fullyrðingu (sjá til dæmis Sudman og Bradburn, 1982) sem veldur skekkju. Þannig er mælt með að nota spurningu sem er í jafnvægi í stað fullyrðingar, svo sem Ertu sammála eða ósammála því að Ísland gangi í ESB? eða það sem er jafnvel enn betra Ertu hlynnt/ur eða andvíg/ur því að Ísland gangi í ESB?

Þá hefur í þriðja lagi skapast sú hefð í viðhorfs- og markaðsrannsóknum á Íslandi að nota orðið fremur (frekar) við næstlægsta og næsthæsta stig kvarðans. Þannig gæti svarkvarði spurningarinnar Ertu hlynnt/ur eða andvíg/ur því að Ísland gangi í Evrópusambandið (ESB)? verið mjög hlynnt/ur, fremur hlynnt/ur, í meðallagi, fremur andvíg/ur, mjög andvíg/ur. Þannig er spurning og svarkvarði ekki einungis í jafnvægi, heldur er skýr greinarmunur gerður á tveimur ystu gildum kvarðans.

Það má segja í lokin að þrátt fyrir að Rensis Likert sé látinn fyrir allmörgum árum taki hann enn þátt í nánast öllum skoðana- og viðhorfskönnunum, markaðsrannsóknum, þjónustukönnunum og vinnustaðargreiningum í heiminum með þungavigtarframlagi sínu – Likert-kvarðanum.

Heimildir:
  • Edmondson, D. R. (2005). Likert scales: A history. Conference on Historical Analysis & Research in Marketing Proceedings (CHARM), 12, 127-133.
  • Likert, R. (1932). A technique for the measurement of attitudes. Archives of Psychology, 140, 5-55.
  • Sudman, S. og Bradburn, N. M. (1982). Asking questions: A practical guide to questionnaire design. San Francisco: Jossey-Bass Publishers.

Mynd:

...