Sólin Sólin Rís 05:19 • sest 21:35 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:18 • Sest 04:56 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:07 • Síðdegis: 19:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:08 • Síðdegis: 13:14 í Reykjavík

Hvað veldur nýburagulu?

Þuríður Þorbjarnardóttir

Nýburagula er ástand í nýburum sem stafar af gulu litarefni sem kallast gallrauði (e. bilirubin). Þetta efni myndast við niðurbrot á slitnum rauðkornum en í þeim er rauða litarefnið blóðrauði. Járnið í blóðrauðasameindum er notað aftur í nýjar sameindir en prótínhlutanum er breytt í gallrauða sem þarf að fjarlægja úr líkamanum. Til þess að það sé hægt þarf lifrin að binda hann við prótín í blóðvökva en þangað til það hefur verið gert getur gallrauði verið á sveimi óbundinn í blóðinu.

Á fósturskeiði innihalda rauðkornin sérstaka gerð af blóðrauða, svokallaðan fósturblóðrauða. Eftir fæðingu þarf að eyða rauðkornum með þessum blóðrauða og framleiða ný rauðkorn með fullorðinsblóðrauða. Gallrauði úr fóstri berst yfir legkökuna og til lifrar móður þar sem hann verður eitt af gallitarefnum í galli hennar og endar í hægðum. Eftir fæðingu barns rofna tengslin við móðurina og lifur barnsins verður að brjóta niður blóðrauðann ásamt öðrum störfum sem legkakan og líkami móðurinnar hafa séð um fram að því.

Einkenni gulu eru fyrst og fremst gulur húðlitur og gul hvíta í augunum. Nýburagula er skaðlaus með öllu.

Eftir fæðingu eykst niðurbrot rauðkorna og þar sem lifrin er ekki fullþroskuð við fæðingu getur þetta tekið sinn tíma. Á meðan er gallrauði á sveimi í blóði barnsins og litar húð þess og augnhvítur gular. Flest börn eru með nýburagulu að einhverju leyti fyrst eftir fæðingu og nær hún yfirleitt hámarki tveim til fjórum dögum eftir fæðingu en hverfur smám saman á næstu tveimur vikum. Þessi nýburagula er skaðlaus með öllu og er kölluð lífeðlisfræðileg gula.

Tvenns konar gula getur komið fram í nýburum sem eru á brjósti. Báðar eru skaðlausar. Brjóstagjafagula kemur fram í börnum á brjósti fyrstu vikuna eftir fæðingu, sérstaklega hjá börnum sem eru ekki dugleg að sjúga eða ef móðirin er lengi að byrja að mjólka. Ónóg brjóstagjöf leiðir til þess að hægðir verða ekki nægar til að fjarlægja gallrauðann úr líkamanum. Hægt er að koma í veg fyrir þessa gerð af nýburagulu með því að gefa brjóst 8-12 sinnum á sólarhring fyrstu dagana eftir fæðingu. Meiri hætta er á þessari gulu hjá börnum sem eru tekin með keisaraskurði, þar sem för barns í gegnum fæðingarveginn örvar mjólkurmyndun í móðurinni en sú örvun er ekki fyrir hendi ef keisaraskurður er framkvæmdur.

Brjóstamjólkurgula getur komið fram í sumum heilbrigðum börnum sem eru á brjósti eftir að þau eru orðin sjö daga gömul. Hún nær hámarki þegar börnin eru tveggja til þriggja vikna gömul. Hún getur varað í vægari mynd í mánuð eða lengur. Hugsanlegt er að hún stafi af því hvernig efni í mjólkinni trufla niðurbrot gallrauða í lifrinni. Fyrst eftir fæðingu er meltingarvegur barns dauðhreinsaður og tekur það tíma fyrir náttúrulegan gerlagróður að taka sér bólfestu í honum. Í fjarveru nægra gerla er gallrauði losaður í smáþörmunum frá bindiprótíni sínu og enduruppsoginn. Talið er að þetta endursog sé aukið í börnum sem fá brjóstamjólk, mögulega vegna aukins styrks vaxtarþáttar í mjólkinni. Enn fremur eru líklega tvö önnur efni í brjóstamjólk sem trufla bindingu gallrauða sem er forsenda losunar þess úr líkama barnsins.

Brjóstamjólkurgula er öðruvísi en brjóstagjafagula. Sú fyrri kemur fram ef brjóstagjöfin gengur ekki nógu vel en sú síðari stafar af efnum í mjólkinni sem trufla vinnslu á gallrauða og losun hans.

Nýburar með gulu sem þarfnast meðhöndlunar eru settir í ljósameðferð.

Alvarleg nýburagula getur komið fram ef eitthvað ástand veldur því að fjöldi rauðkorna sem þarf að endurnýja er mikill. Helstu orsakir fyrir því eru óeðlileg lögun rauðkornanna, ósamræmi í blóðflokkum móður og barns, blæðing undir höfuðleðrinu vegna erfiðrar fæðingar, óeðlilega mörg rauðkorn sem er algengara í smáburum og sumum tvíburum, sýking og skortur á tilteknum ensímum.

Einkenni alvarlegrar nýburagulu geta verið svefnhöfgi og óeðlilegar heyrnarbylgjur. Greinileg áhrif á taugakerfið í barni með alvarlega gulu eru hættumerki, svo sem hiti, breytingar í vöðvaspennu, krampar eða breyttur grátur (mjög hár og skerandi) og þarf að meðhöndla strax til að koma í veg fyrir gulufárstaugakvelli (e. kernicterus). Ef slík einkenni koma fram þarf að grípa til geislameðhöndlunar strax, jafnvel án þess að vera búið sé að fá rannsóknarniðurstöður úr blóðprufum, en blá geislun (bylgjulengd 420-448 nm) flýtir fyrir niðurbroti gallrauða í gallgrænu sem hefur ekki eitrunaráhrif á taugakerfið. Einnig gæti reynst nauðsynlegt að skipta um blóð í barninu.

Gulufárstaugakvelli getur leitt til dauða en þá kemst óbundinn gallrauði yfir heilatálmann (e. blood-brain barrier) og veldur eitrun. Þau svæði í heilanum sem eru viðkvæmust fyrir þessu eru svokallaðir grunnkjarnar, dreki, svartfylla og heilataugakjarnar, til dæmis þeir sem hafa með augnvöðva að gera, heyrn og jafnvægi. Einnig getur litli heili (hnykill) orðið fyrir áhrifum.

Ýmsir þættir geta gert guluna erfiðari viðfangs. Þar má nefna ýmis lyf, meðfæddar sýkingar eins og rauðir hunda og sárasótt, sjúkdómar sem hafa áhrif á lifur eða gallgöng eins og slímseigjukvilli og lifrarbólga, súrefnisskortur, blóðeitrun og ýmsir meðfæddir og arfgengir gallar.

Heimildir:

Höfundur

Útgáfudagur

16.2.2012

Spyrjandi

Ellen Rose Guðmundsdóttir

Tilvísun

Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hvað veldur nýburagulu?“ Vísindavefurinn, 16. febrúar 2012. Sótt 25. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=58067.

Þuríður Þorbjarnardóttir. (2012, 16. febrúar). Hvað veldur nýburagulu? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=58067

Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hvað veldur nýburagulu?“ Vísindavefurinn. 16. feb. 2012. Vefsíða. 25. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=58067>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað veldur nýburagulu?
Nýburagula er ástand í nýburum sem stafar af gulu litarefni sem kallast gallrauði (e. bilirubin). Þetta efni myndast við niðurbrot á slitnum rauðkornum en í þeim er rauða litarefnið blóðrauði. Járnið í blóðrauðasameindum er notað aftur í nýjar sameindir en prótínhlutanum er breytt í gallrauða sem þarf að fjarlægja úr líkamanum. Til þess að það sé hægt þarf lifrin að binda hann við prótín í blóðvökva en þangað til það hefur verið gert getur gallrauði verið á sveimi óbundinn í blóðinu.

Á fósturskeiði innihalda rauðkornin sérstaka gerð af blóðrauða, svokallaðan fósturblóðrauða. Eftir fæðingu þarf að eyða rauðkornum með þessum blóðrauða og framleiða ný rauðkorn með fullorðinsblóðrauða. Gallrauði úr fóstri berst yfir legkökuna og til lifrar móður þar sem hann verður eitt af gallitarefnum í galli hennar og endar í hægðum. Eftir fæðingu barns rofna tengslin við móðurina og lifur barnsins verður að brjóta niður blóðrauðann ásamt öðrum störfum sem legkakan og líkami móðurinnar hafa séð um fram að því.

Einkenni gulu eru fyrst og fremst gulur húðlitur og gul hvíta í augunum. Nýburagula er skaðlaus með öllu.

Eftir fæðingu eykst niðurbrot rauðkorna og þar sem lifrin er ekki fullþroskuð við fæðingu getur þetta tekið sinn tíma. Á meðan er gallrauði á sveimi í blóði barnsins og litar húð þess og augnhvítur gular. Flest börn eru með nýburagulu að einhverju leyti fyrst eftir fæðingu og nær hún yfirleitt hámarki tveim til fjórum dögum eftir fæðingu en hverfur smám saman á næstu tveimur vikum. Þessi nýburagula er skaðlaus með öllu og er kölluð lífeðlisfræðileg gula.

Tvenns konar gula getur komið fram í nýburum sem eru á brjósti. Báðar eru skaðlausar. Brjóstagjafagula kemur fram í börnum á brjósti fyrstu vikuna eftir fæðingu, sérstaklega hjá börnum sem eru ekki dugleg að sjúga eða ef móðirin er lengi að byrja að mjólka. Ónóg brjóstagjöf leiðir til þess að hægðir verða ekki nægar til að fjarlægja gallrauðann úr líkamanum. Hægt er að koma í veg fyrir þessa gerð af nýburagulu með því að gefa brjóst 8-12 sinnum á sólarhring fyrstu dagana eftir fæðingu. Meiri hætta er á þessari gulu hjá börnum sem eru tekin með keisaraskurði, þar sem för barns í gegnum fæðingarveginn örvar mjólkurmyndun í móðurinni en sú örvun er ekki fyrir hendi ef keisaraskurður er framkvæmdur.

Brjóstamjólkurgula getur komið fram í sumum heilbrigðum börnum sem eru á brjósti eftir að þau eru orðin sjö daga gömul. Hún nær hámarki þegar börnin eru tveggja til þriggja vikna gömul. Hún getur varað í vægari mynd í mánuð eða lengur. Hugsanlegt er að hún stafi af því hvernig efni í mjólkinni trufla niðurbrot gallrauða í lifrinni. Fyrst eftir fæðingu er meltingarvegur barns dauðhreinsaður og tekur það tíma fyrir náttúrulegan gerlagróður að taka sér bólfestu í honum. Í fjarveru nægra gerla er gallrauði losaður í smáþörmunum frá bindiprótíni sínu og enduruppsoginn. Talið er að þetta endursog sé aukið í börnum sem fá brjóstamjólk, mögulega vegna aukins styrks vaxtarþáttar í mjólkinni. Enn fremur eru líklega tvö önnur efni í brjóstamjólk sem trufla bindingu gallrauða sem er forsenda losunar þess úr líkama barnsins.

Brjóstamjólkurgula er öðruvísi en brjóstagjafagula. Sú fyrri kemur fram ef brjóstagjöfin gengur ekki nógu vel en sú síðari stafar af efnum í mjólkinni sem trufla vinnslu á gallrauða og losun hans.

Nýburar með gulu sem þarfnast meðhöndlunar eru settir í ljósameðferð.

Alvarleg nýburagula getur komið fram ef eitthvað ástand veldur því að fjöldi rauðkorna sem þarf að endurnýja er mikill. Helstu orsakir fyrir því eru óeðlileg lögun rauðkornanna, ósamræmi í blóðflokkum móður og barns, blæðing undir höfuðleðrinu vegna erfiðrar fæðingar, óeðlilega mörg rauðkorn sem er algengara í smáburum og sumum tvíburum, sýking og skortur á tilteknum ensímum.

Einkenni alvarlegrar nýburagulu geta verið svefnhöfgi og óeðlilegar heyrnarbylgjur. Greinileg áhrif á taugakerfið í barni með alvarlega gulu eru hættumerki, svo sem hiti, breytingar í vöðvaspennu, krampar eða breyttur grátur (mjög hár og skerandi) og þarf að meðhöndla strax til að koma í veg fyrir gulufárstaugakvelli (e. kernicterus). Ef slík einkenni koma fram þarf að grípa til geislameðhöndlunar strax, jafnvel án þess að vera búið sé að fá rannsóknarniðurstöður úr blóðprufum, en blá geislun (bylgjulengd 420-448 nm) flýtir fyrir niðurbroti gallrauða í gallgrænu sem hefur ekki eitrunaráhrif á taugakerfið. Einnig gæti reynst nauðsynlegt að skipta um blóð í barninu.

Gulufárstaugakvelli getur leitt til dauða en þá kemst óbundinn gallrauði yfir heilatálmann (e. blood-brain barrier) og veldur eitrun. Þau svæði í heilanum sem eru viðkvæmust fyrir þessu eru svokallaðir grunnkjarnar, dreki, svartfylla og heilataugakjarnar, til dæmis þeir sem hafa með augnvöðva að gera, heyrn og jafnvægi. Einnig getur litli heili (hnykill) orðið fyrir áhrifum.

Ýmsir þættir geta gert guluna erfiðari viðfangs. Þar má nefna ýmis lyf, meðfæddar sýkingar eins og rauðir hunda og sárasótt, sjúkdómar sem hafa áhrif á lifur eða gallgöng eins og slímseigjukvilli og lifrarbólga, súrefnisskortur, blóðeitrun og ýmsir meðfæddir og arfgengir gallar.

Heimildir:

...