Sólin Sólin Rís 05:51 • sest 21:06 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 09:47 • Sest 06:52 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:02 • Síðdegis: 12:48 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:36 • Síðdegis: 18:53 í Reykjavík

Hver var Rousseau og hvert var framlag hans til heimspekinnar?

Björn Þorsteinsson

Óhætt er að telja Jean-Jacques Rousseau í hópi þeirra hugsuða síðari tíma sem hafa haft mest áhrif á heim hugmyndanna og framgang sögunnar. Rousseau var margbrotinn persónuleiki, að mörgu leyti ímynd hins þjakaða snillings. Ævisaga hans er á köflum ævintýri líkust og verkin sem hann lét eftir sig bera í senn vott um stílsnilld og djúpa hugsun.

Jean-Jacques Rousseau (1712–1778).

Rousseau fæddist 28. júní 1712 í Genf sem þá var sjálfstætt borgríki. Móðir hans lést af barnsförum átta dögum eftir fæðinguna og hann ólst upp hjá föður sínum, úrsmið og ævintýramanni, til tíu ára aldurs. Þá var hann settur í vist hjá ættingjum móður sinnar og bjó þar við illan kost uns hann flúði Genf 16 ára og lagðist út. Í framhaldinu snerist hann frá kalvínisma bernsku sinnar og gerðist kaþólskur. Í borginni Annecy, skammt frá Genf, fann hann svo örugga höfn hjá barónessunni Madame de Warens (1699–1762) sem kom honum til mennta og varð einnig ástkona hans – en hann kallaði hana þó ætíð maman, mömmu, enda var aldursmunurinn allnokkur.

Um þrítugsaldurinn hélt Rousseau til Parísar og komst þar í kynni við Denis Diderot (1713–1784). Um þá safnaðist hópur menntamanna sem margir hverjir voru viðriðnir Alfræðibókina sem Diderot ritstýrði ásamt Jean le Rond d’Alembert (1717–1783). Í þessari hreyfingu er að finna upptök frönsku upplýsingarinnar sem síðar hafði mikil áhrif á framámenn stjórnarbyltingarinnar 1789–1799.

Þegar Rousseau var 37 ára gamall gerði hann í svipleiftri þá merku uppgötvun að siðmenningin hafi ekki bætt mennina heldur spillt þeim. Þessi hugmynd varð leiðarstefið í ritgerðinni Orðræða um vísindi og listir (Discours sur les sciences et les arts, 1750) sem aflaði Rousseau fyrstu verðlauna í samkeppni sem Akademían í Dijon efndi til.

Árið 1755 sendi Rousseau frá sér aðra gagnmerka ritgerð, Orðræðu um uppruna og grundvöll ójöfnuðar meðal manna (Discours sur l'origine et les fondements de l'inégalité parmi les hommes). Þar heldur hann fram þeirri kenningu, sem orðið hefur fræg, að í náttúrulegu ástandi hafi menn verið heilbrigðir, hamingjusamir, góðir og frjálsir. Samfélag og siðmenning kalli hins vegar fram lesti þeirra. Um leið og kofar séu reistir og fjölskyldur stofnaðar komi samkeppni, öfund, afbrýði, hatur og ofbeldi til sögu. Eðlileg og saklaus ást á sjálfum sér taki þá á sig mynd stolts – og þegar eignarrétturinn kemur til syrtir enn frekar í álinn. Þess ber þó að geta að Rousseau taldi að vísu ekki mögulegt að hverfa aftur til hinnar horfnu gullaldar. Borgaralegt samfélag verði til í tvennum tilgangi: að tryggja frið, og að lögvæða eignarrétt þeirra sem eiga eitthvað.

Denis Diderot (1713–1784).

Eftir þetta fór frægðarsól Rousseaus ört hækkandi, en um leið varð hann æ umdeildari og til dæmis tók að slettast upp á vinskap hans við alfræðingana. Full vinslit urðu með honum og Diderot 1758, ekki síst vegna þess að Rousseau ofbauð kaldhæðni og guðleysi fornvinar síns.

Hvað fjölskyldulíf Rousseaus áhrærir er frá því að segja á 33. aldursári tók hann saman við fátæka þvottakonu, Thérèse Levasseur (1721–1801), og varð þeim fimm barna auðið. En Rousseau taldi sig alls ófæran um að veita þeim það föðurlega uppeldi sem til þyrfti og endirinn varð sá að börnin voru send á munaðarleysingjahæli, öll með tölu. Þau skötuhjúin gengu ekki í lögformlegt hjónaband fyrr en 1768.

Rousseau taldi sér ekki vært í París og bjó árin 1756–62 hjá velunnurum sínum í Montmorency norðan stórborgarinnar. Á þessum árum vann hann að þremur af sínum mestu stórvirkjum. Árið 1761 kom út skáldsagan Júlía, eða hin nýja Heloísa (Julie, ou la nouvelle Héloïse) sem náði strax miklum vinsældum og útbreiðslu og fjallar um mikilvægi þess að leita lífshamingjunnar innan fjölskyldunnar en ekki úti í samfélaginu. Segja má að bókin hafi sloppið við ritskoðun fyrir mistök. Árið eftir var Rousseau ekki jafnheppinn og allt ætlaði um koll að keyra þegar tvær nýjar bækur eftir hann, Emil, eða um uppeldið (Émile, ou de l’éducation) og Samfélagssáttmálinn (Du contrat social), komu út. Bækurnar þóttu ógna almennu velsæmi, en kannski ekki síður hefðbundnum hugmyndum á sviði stjórnskipunar og trúarbragða, og skipti engum togum að yfirvöld lögðu hald á upplagið og brenndu það. Ekki tókst þó að stöðva útbreiðslu bókanna eða hugmyndanna sem þær boðuðu.

Eftir þetta fór Rousseau að mestu huldu höfði. Meðal annars hélt hann til Lundúna 1766 og leitaði þar á náðir skoska heimspekingsins Davids Hume (1711–1776). Fyrr en varði komst Rousseau þó á þá skoðun að breskir heimspekingar væru sífellt að gera gys að sér og hann hélt að nýju til meginlandsins. Að lokum fór svo að þau hjónakornin settust að í París að nýju og þar sat Rousseau síðustu árin við skriftir, þjakaður af aðsóknarkennd. Á þessum síðustu æviárum sínum skrifaði hann einkum sjálfsævisöguleg verk, til dæmis Játningar (Confessions, 1781–88).

Rousseau hvílir í Panthéon-grafhýsinu.

Rousseau lést í Ermenonville norðan Parísar 2. júlí 1778. Sextán árum síðar sýndu forsprakkar frönsku byltingarinnar honum þann mikla heiður að flytja jarðneskar leifar hans í Panthéon-grafhýsið í París sem ætlað var helstu stórmennum þjóðarinnar.

Þegar framlag Rousseaus til heimspekinnar er metið leikur Samfélagssáttmálinn lykilhlutverk. Verkið markar að mörgu leyti straumhvörf í stjórnmálasögunni enda hefur það að geyma afdráttarlausustu málsvörn fyrir virku lýðræði sem komið hafði fram. Merkasta hugtakið sem Rousseau kynnir til sögu í bókinni er hugtakið um almannaviljann. Þessi hugmynd hefur reynst í senn áleitin og kynngimögnuð, og má raunar færa rök fyrir því að innan vandans um almannaviljann rúmist flestöll þau ágreiningsefni sem stöðugt setja mark sitt á lýðræðið.

Samfélagssáttmálinn.

Í Samfélagssáttmálanum gengur Rousseau út frá þeirri sakleysislegu hugmynd að lögmætt vald geti ekki átt uppruna sinn í ofbeldi – máttur hins sterka, út af fyrir sig, veitir engan rétt. Í náttúrulegu ástandi búa menn við óskert frelsi, en þetta náttúrulega frelsi er þó ekkert annað og meira en það sem dýrin njóta. Menn verða í reynd að mönnum þegar þeir koma saman og stofna samfélag, en í þeirri athöfn felst óhjákvæmilega að þeir gangast undir tiltekinn sáttmála sem til dæmis er bundinn í stjórnarskrá og lög. Hér er komin þversögn: til að geta verið frjáls (í samfélagi) þarf að skerða frelsi sitt (með því að gangast undir lög samfélagsins). Hvernig á að bregðast við þessari þversögn? Svar Rousseaus er fólgið í hugtakinu um almannaviljann. Þegar einstaklingar stofna samfélag og setja sjálfum sér lög sem endurspegla hagsmuni heildarinnar fölskvalaust, þá verður til ríki þar sem borgararnir lúta lögum sem þeir hafa sjálfir sett af fúsum og frjálsum vilja, og eru þar að auki heildinni jafnt sem einstaklingunum fyrir bestu. Tilurð þessa ríkis og viðhald þess veltur þó á því að borgararnir séu ætíð upplýstir og taki ákvarðanir sem miðast við almannahagsmuni – það er almannaviljann – en ekki eigin hag í þröngum skilningi eða sérhagsmuni einstakra valdagírugra einstaklinga. Því að almannaviljinn er ekki útkoman úr því þegar allir borgararnir koma saman og greiða atkvæði hver um sig út frá eigin hagsmunum – þvert á móti er hann ætíð það sem er samfélagsheildinni fyrir bestu.

Af þessu sést að Rousseau leggur borgurunum þá skyldu á herðar að taka alltaf ákvarðanir út frá heildarhagsmunum. Þessi krafa um almenna skynsemi tekur á sig býsna sláandi myndir í Samfélagssáttmálanum þegar Rousseau vísar út í hafsauga hvers kyns hugmyndum um að borgararnir geti framselt vald sitt og komið sér undan ábyrgð. Þannig ræðst Rousseau harkalega á þá iðju að velja sér fulltrúa sem sitji á þingi og greiði atkvæði í umboði kjósenda sinna. Einnig er frægt hvernig Rousseau talar um nauðsyn þess að hjálpa fólki til að greiða atkvæði í samræmi við almannaviljann – „þröngva því til að vera frjálst“. Hvað sem mönnum kann að virðast um slíkar fullyrðingar er deginum ljósara að í greiningu Rousseaus á almannaviljanum er fólgin dýrmæt lexía handa hverjum þeim sem vinna vill að málstað lýðræðisins: ríki þar sem borgararnir greiða atkvæði samkvæmt duttlungum, skammtímasjónarmiðum og hagsmunum hinna sterku getur ekki með rétti kennt sig við lýðræði. Andspænis slíkri afbökun má taka undir með Rousseau er hann skrifar í bréfi einu frá 1767: „Allt ólán mitt í lífinu kemur til vegna brennandi haturs sem ég ber til misréttis og hef aldrei getað slökkt.“

Myndir:

Höfundur

Björn Þorsteinsson

prófessor í heimspeki við HÍ

Útgáfudagur

15.4.2011

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Björn Þorsteinsson. „Hver var Rousseau og hvert var framlag hans til heimspekinnar?“ Vísindavefurinn, 15. apríl 2011. Sótt 16. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=59434.

Björn Þorsteinsson. (2011, 15. apríl). Hver var Rousseau og hvert var framlag hans til heimspekinnar? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=59434

Björn Þorsteinsson. „Hver var Rousseau og hvert var framlag hans til heimspekinnar?“ Vísindavefurinn. 15. apr. 2011. Vefsíða. 16. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=59434>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver var Rousseau og hvert var framlag hans til heimspekinnar?
Óhætt er að telja Jean-Jacques Rousseau í hópi þeirra hugsuða síðari tíma sem hafa haft mest áhrif á heim hugmyndanna og framgang sögunnar. Rousseau var margbrotinn persónuleiki, að mörgu leyti ímynd hins þjakaða snillings. Ævisaga hans er á köflum ævintýri líkust og verkin sem hann lét eftir sig bera í senn vott um stílsnilld og djúpa hugsun.

Jean-Jacques Rousseau (1712–1778).

Rousseau fæddist 28. júní 1712 í Genf sem þá var sjálfstætt borgríki. Móðir hans lést af barnsförum átta dögum eftir fæðinguna og hann ólst upp hjá föður sínum, úrsmið og ævintýramanni, til tíu ára aldurs. Þá var hann settur í vist hjá ættingjum móður sinnar og bjó þar við illan kost uns hann flúði Genf 16 ára og lagðist út. Í framhaldinu snerist hann frá kalvínisma bernsku sinnar og gerðist kaþólskur. Í borginni Annecy, skammt frá Genf, fann hann svo örugga höfn hjá barónessunni Madame de Warens (1699–1762) sem kom honum til mennta og varð einnig ástkona hans – en hann kallaði hana þó ætíð maman, mömmu, enda var aldursmunurinn allnokkur.

Um þrítugsaldurinn hélt Rousseau til Parísar og komst þar í kynni við Denis Diderot (1713–1784). Um þá safnaðist hópur menntamanna sem margir hverjir voru viðriðnir Alfræðibókina sem Diderot ritstýrði ásamt Jean le Rond d’Alembert (1717–1783). Í þessari hreyfingu er að finna upptök frönsku upplýsingarinnar sem síðar hafði mikil áhrif á framámenn stjórnarbyltingarinnar 1789–1799.

Þegar Rousseau var 37 ára gamall gerði hann í svipleiftri þá merku uppgötvun að siðmenningin hafi ekki bætt mennina heldur spillt þeim. Þessi hugmynd varð leiðarstefið í ritgerðinni Orðræða um vísindi og listir (Discours sur les sciences et les arts, 1750) sem aflaði Rousseau fyrstu verðlauna í samkeppni sem Akademían í Dijon efndi til.

Árið 1755 sendi Rousseau frá sér aðra gagnmerka ritgerð, Orðræðu um uppruna og grundvöll ójöfnuðar meðal manna (Discours sur l'origine et les fondements de l'inégalité parmi les hommes). Þar heldur hann fram þeirri kenningu, sem orðið hefur fræg, að í náttúrulegu ástandi hafi menn verið heilbrigðir, hamingjusamir, góðir og frjálsir. Samfélag og siðmenning kalli hins vegar fram lesti þeirra. Um leið og kofar séu reistir og fjölskyldur stofnaðar komi samkeppni, öfund, afbrýði, hatur og ofbeldi til sögu. Eðlileg og saklaus ást á sjálfum sér taki þá á sig mynd stolts – og þegar eignarrétturinn kemur til syrtir enn frekar í álinn. Þess ber þó að geta að Rousseau taldi að vísu ekki mögulegt að hverfa aftur til hinnar horfnu gullaldar. Borgaralegt samfélag verði til í tvennum tilgangi: að tryggja frið, og að lögvæða eignarrétt þeirra sem eiga eitthvað.

Denis Diderot (1713–1784).

Eftir þetta fór frægðarsól Rousseaus ört hækkandi, en um leið varð hann æ umdeildari og til dæmis tók að slettast upp á vinskap hans við alfræðingana. Full vinslit urðu með honum og Diderot 1758, ekki síst vegna þess að Rousseau ofbauð kaldhæðni og guðleysi fornvinar síns.

Hvað fjölskyldulíf Rousseaus áhrærir er frá því að segja á 33. aldursári tók hann saman við fátæka þvottakonu, Thérèse Levasseur (1721–1801), og varð þeim fimm barna auðið. En Rousseau taldi sig alls ófæran um að veita þeim það föðurlega uppeldi sem til þyrfti og endirinn varð sá að börnin voru send á munaðarleysingjahæli, öll með tölu. Þau skötuhjúin gengu ekki í lögformlegt hjónaband fyrr en 1768.

Rousseau taldi sér ekki vært í París og bjó árin 1756–62 hjá velunnurum sínum í Montmorency norðan stórborgarinnar. Á þessum árum vann hann að þremur af sínum mestu stórvirkjum. Árið 1761 kom út skáldsagan Júlía, eða hin nýja Heloísa (Julie, ou la nouvelle Héloïse) sem náði strax miklum vinsældum og útbreiðslu og fjallar um mikilvægi þess að leita lífshamingjunnar innan fjölskyldunnar en ekki úti í samfélaginu. Segja má að bókin hafi sloppið við ritskoðun fyrir mistök. Árið eftir var Rousseau ekki jafnheppinn og allt ætlaði um koll að keyra þegar tvær nýjar bækur eftir hann, Emil, eða um uppeldið (Émile, ou de l’éducation) og Samfélagssáttmálinn (Du contrat social), komu út. Bækurnar þóttu ógna almennu velsæmi, en kannski ekki síður hefðbundnum hugmyndum á sviði stjórnskipunar og trúarbragða, og skipti engum togum að yfirvöld lögðu hald á upplagið og brenndu það. Ekki tókst þó að stöðva útbreiðslu bókanna eða hugmyndanna sem þær boðuðu.

Eftir þetta fór Rousseau að mestu huldu höfði. Meðal annars hélt hann til Lundúna 1766 og leitaði þar á náðir skoska heimspekingsins Davids Hume (1711–1776). Fyrr en varði komst Rousseau þó á þá skoðun að breskir heimspekingar væru sífellt að gera gys að sér og hann hélt að nýju til meginlandsins. Að lokum fór svo að þau hjónakornin settust að í París að nýju og þar sat Rousseau síðustu árin við skriftir, þjakaður af aðsóknarkennd. Á þessum síðustu æviárum sínum skrifaði hann einkum sjálfsævisöguleg verk, til dæmis Játningar (Confessions, 1781–88).

Rousseau hvílir í Panthéon-grafhýsinu.

Rousseau lést í Ermenonville norðan Parísar 2. júlí 1778. Sextán árum síðar sýndu forsprakkar frönsku byltingarinnar honum þann mikla heiður að flytja jarðneskar leifar hans í Panthéon-grafhýsið í París sem ætlað var helstu stórmennum þjóðarinnar.

Þegar framlag Rousseaus til heimspekinnar er metið leikur Samfélagssáttmálinn lykilhlutverk. Verkið markar að mörgu leyti straumhvörf í stjórnmálasögunni enda hefur það að geyma afdráttarlausustu málsvörn fyrir virku lýðræði sem komið hafði fram. Merkasta hugtakið sem Rousseau kynnir til sögu í bókinni er hugtakið um almannaviljann. Þessi hugmynd hefur reynst í senn áleitin og kynngimögnuð, og má raunar færa rök fyrir því að innan vandans um almannaviljann rúmist flestöll þau ágreiningsefni sem stöðugt setja mark sitt á lýðræðið.

Samfélagssáttmálinn.

Í Samfélagssáttmálanum gengur Rousseau út frá þeirri sakleysislegu hugmynd að lögmætt vald geti ekki átt uppruna sinn í ofbeldi – máttur hins sterka, út af fyrir sig, veitir engan rétt. Í náttúrulegu ástandi búa menn við óskert frelsi, en þetta náttúrulega frelsi er þó ekkert annað og meira en það sem dýrin njóta. Menn verða í reynd að mönnum þegar þeir koma saman og stofna samfélag, en í þeirri athöfn felst óhjákvæmilega að þeir gangast undir tiltekinn sáttmála sem til dæmis er bundinn í stjórnarskrá og lög. Hér er komin þversögn: til að geta verið frjáls (í samfélagi) þarf að skerða frelsi sitt (með því að gangast undir lög samfélagsins). Hvernig á að bregðast við þessari þversögn? Svar Rousseaus er fólgið í hugtakinu um almannaviljann. Þegar einstaklingar stofna samfélag og setja sjálfum sér lög sem endurspegla hagsmuni heildarinnar fölskvalaust, þá verður til ríki þar sem borgararnir lúta lögum sem þeir hafa sjálfir sett af fúsum og frjálsum vilja, og eru þar að auki heildinni jafnt sem einstaklingunum fyrir bestu. Tilurð þessa ríkis og viðhald þess veltur þó á því að borgararnir séu ætíð upplýstir og taki ákvarðanir sem miðast við almannahagsmuni – það er almannaviljann – en ekki eigin hag í þröngum skilningi eða sérhagsmuni einstakra valdagírugra einstaklinga. Því að almannaviljinn er ekki útkoman úr því þegar allir borgararnir koma saman og greiða atkvæði hver um sig út frá eigin hagsmunum – þvert á móti er hann ætíð það sem er samfélagsheildinni fyrir bestu.

Af þessu sést að Rousseau leggur borgurunum þá skyldu á herðar að taka alltaf ákvarðanir út frá heildarhagsmunum. Þessi krafa um almenna skynsemi tekur á sig býsna sláandi myndir í Samfélagssáttmálanum þegar Rousseau vísar út í hafsauga hvers kyns hugmyndum um að borgararnir geti framselt vald sitt og komið sér undan ábyrgð. Þannig ræðst Rousseau harkalega á þá iðju að velja sér fulltrúa sem sitji á þingi og greiði atkvæði í umboði kjósenda sinna. Einnig er frægt hvernig Rousseau talar um nauðsyn þess að hjálpa fólki til að greiða atkvæði í samræmi við almannaviljann – „þröngva því til að vera frjálst“. Hvað sem mönnum kann að virðast um slíkar fullyrðingar er deginum ljósara að í greiningu Rousseaus á almannaviljanum er fólgin dýrmæt lexía handa hverjum þeim sem vinna vill að málstað lýðræðisins: ríki þar sem borgararnir greiða atkvæði samkvæmt duttlungum, skammtímasjónarmiðum og hagsmunum hinna sterku getur ekki með rétti kennt sig við lýðræði. Andspænis slíkri afbökun má taka undir með Rousseau er hann skrifar í bréfi einu frá 1767: „Allt ólán mitt í lífinu kemur til vegna brennandi haturs sem ég ber til misréttis og hef aldrei getað slökkt.“

Myndir:...