Sólin Sólin Rís 05:43 • sest 21:13 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 13:37 • Sest 06:11 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:59 • Síðdegis: 15:47 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:39 • Síðdegis: 21:50 í Reykjavík

Hver er annars vegar munurinn á varðhaldi og gæsluvarðhaldi og hins vegar varðhaldi og fangelsi?

Maren Albertsdóttir

Í almennri umræðu er ekki alltaf gerður sami greinarmunur á hugtökunum varðhaldi og gæsluvarðhaldi og í lögfræðilegri umfjöllun. Þar má nefna að stundum er talað um að menn séu í varðhaldi þegar þeir eru í haldi lögreglu eftir handtöku og þá er varðhald oft notað jöfnum höndum yfir hugtakið gæsluvarðhald.

Hugtakið varðhald hefur reyndar ekki sjálfstæða þýðingu í gildandi lögum en hafði það í tíð eldri laga. Þegar almenn hegningarlög nr. 19/1940 voru sett var refsivist tvenns konar: fangelsi og varðhald, samanber 1. mgr. 32. gr. laganna. Gengið var út frá því að til fangelsisvistar yrði dæmt fyrir meiri háttar afbrot og að þeirri refsivist sættu einnig þeir menn sem óheppilegt þótti að myndu umgangast varðhaldsfanga, til dæmis þá sem hefðu áður setið í fangelsi þótt síðar framið brot hafi verið smávægilegt, samanber 5. mgr. 44. gr. laganna. Í varðhald skyldi hins vegar yfirleitt dæma fyrir smáfelld brot en þó með fyrrgreindri undantekningu.

Almennt er talað um að menn séu í varðhaldi þegar þeir eru í haldi lögreglu eftir handtöku og þá er varðhald oft notað jöfnum höndum yfir hugtakið gæsluvarðhald.

Þessi aðgreining fanga átti að koma í veg fyrir að þeir menn sem framið hefðu smávægileg brot eða voru í refsivist til að afplána sektir yrðu ekki látnir taka út refsingu í félagsskap með „stórglæpamönnum þjóðfélagsins“, eins og það var orðað í athugasemdum greinargerðar laganna, þar á meðal þeim sem sýnt væri að gerðu sér lögbrot að atvinnu. Þeir sem gerðust sekir um afbrot er varðaði refsivist voru þannig flokkaðir í tvo flokka, annars vegar eiginlega afbrotamenn og hins vegar aðra sem fremur var talið að hefði orðið á yfirsjón, sem leiddi til mildari og styttri frjálsræðissviptingar í formi varðhalds.

Varðhald var afnumið sem viðurlög við refsiverðri háttsemi með lögum nr. 82/1998 meðal annars með vísan til þess að ekki þótti standast að gera þann greinarmun á afbrotum og afbrotamönnum sem gerður var í lögunum. Í gildandi lögum eru refsitegundir tvenns konar; fangelsi og fésektir.

Skýran greinarmun verður aftur á móti að gera á milli gæsluvarðhalds og fangelsis, sem og öðrum viðurlögum fyrir afbrot sem fólgin eru í langvarandi frelsissviptingu, til dæmis öryggisgæslu og öryggisráðstöfunum.

Dómari getur úrskurðað einstakling í gæsluvarðhald áður en dómur hefur fallið en ekki er hægt að dæma menn í fangelsi fyrr en eftir að sakborningur hefur verið fundinn sekur um refsivert brot.

Gæsluvarðhald er tímabundin frelsissvipting sem beitt er í þágu rannsóknar eða meðferðar sakamáls á grundvelli dómsúrskurðar þegar tiltekin skilyrði eru fyrir hendi. Dómstóll getur úrskurðað sakborning í gæsluvarðhald ef fyrir liggur rökstuddur grunur um að hann hafi framið verknað sem fangelsisrefsing er lögð við og þegar ákveðin skilyrði liggja fyrir, sem nánar eru tilgreind í XIV. kafla laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Ströng lagaskilyrði eru fyrir beitingu gæsluvarðahalds enda felur það í sér mikla skerðingu á persónufrelsi viðkomandi einstaklings. Fjallað er um skilyrði gæsluvarðhalds í 67. gr. stjórnarskrárinnar, 5. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu og XIV. kafla laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Meginmarkmið gæsluvarðhalds er að koma í veg fyrir að sakborningur torveldi rannsókn máls og að hann komi sér undan málsókn eða fullnustu refsingar, eða ef það þykir nauðsynlegt vegna öryggis- eða almannahagsmuna.

Sá munur sem var á varðhaldi, sem var refsivist, og gæsluvarðhaldi, sem var og er enn tímabundin frelsissvipting oftast í þágu rannsóknar, hefur því ekki sjálfstætt gildi í dag. En sá meginmunur sem er á fangelsi og gæsluvarðhaldi er í fyrsta lagi sá að dómari getur úrskurðað einstakling í gæsluvarðhald áður en dómur hefur fallið en ekki er hægt að dæma menn í fangelsi fyrr en eftir að sakborningur hefur verið fundinn sekur um refsivert brot. Í öðru lagi er fangelsi yfirleitt langvarandi frelsissvipting sem dómari hefur ákveðið með dómi hversu lengi skuli standa, á grundvelli tiltekins refsiákvæðis í lögum.

Gæsluvarðhald skal á hinn bóginn standa eins stutt og kostur er. Ef í ljós kemur að gæsluvarðhalds er ekki lengur þörf ber að láta viðkomandi lausan þegar í stað. Ekki er hins vegar hægt að stytta fangelsisvist nema sérstök heimild sé til þess í lögum svo sem með náðun eða reynslulausn. Í þriðja lagi ber að geta þess að gæsluvarðhaldsvist getur að ákveðnum skilyrðum uppfylltum komið í stað refsingar, það er gæsluvarðhaldsvist kemur að jafnaði til frádráttar dæmdri refsingu sé viðkomandi síðar sakfelldur.

Heimildir:
  • Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944.
  • Almenn hegningarlög nr. 19/1940.
  • Lög nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
  • Jónatan Þórmundsson: Viðurlög við afbrotum. Reykjavík 1992.
  • Eiríkur Tómasson: Þvingunarráðstafanir í þágu meðferðar sakamáls. 2. útgáfa. Reykjavík 2009.
  • Lögfræðiorðabók með skýringum. Ritstjóri Páll Sigurðsson. Reykjavík 2008.

Myndir:

Höfundur

lögfræðingur

Útgáfudagur

24.7.2013

Spyrjandi

Haukur Hilmarsson

Tilvísun

Maren Albertsdóttir. „Hver er annars vegar munurinn á varðhaldi og gæsluvarðhaldi og hins vegar varðhaldi og fangelsi?“ Vísindavefurinn, 24. júlí 2013. Sótt 18. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=59555.

Maren Albertsdóttir. (2013, 24. júlí). Hver er annars vegar munurinn á varðhaldi og gæsluvarðhaldi og hins vegar varðhaldi og fangelsi? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=59555

Maren Albertsdóttir. „Hver er annars vegar munurinn á varðhaldi og gæsluvarðhaldi og hins vegar varðhaldi og fangelsi?“ Vísindavefurinn. 24. júl. 2013. Vefsíða. 18. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=59555>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver er annars vegar munurinn á varðhaldi og gæsluvarðhaldi og hins vegar varðhaldi og fangelsi?
Í almennri umræðu er ekki alltaf gerður sami greinarmunur á hugtökunum varðhaldi og gæsluvarðhaldi og í lögfræðilegri umfjöllun. Þar má nefna að stundum er talað um að menn séu í varðhaldi þegar þeir eru í haldi lögreglu eftir handtöku og þá er varðhald oft notað jöfnum höndum yfir hugtakið gæsluvarðhald.

Hugtakið varðhald hefur reyndar ekki sjálfstæða þýðingu í gildandi lögum en hafði það í tíð eldri laga. Þegar almenn hegningarlög nr. 19/1940 voru sett var refsivist tvenns konar: fangelsi og varðhald, samanber 1. mgr. 32. gr. laganna. Gengið var út frá því að til fangelsisvistar yrði dæmt fyrir meiri háttar afbrot og að þeirri refsivist sættu einnig þeir menn sem óheppilegt þótti að myndu umgangast varðhaldsfanga, til dæmis þá sem hefðu áður setið í fangelsi þótt síðar framið brot hafi verið smávægilegt, samanber 5. mgr. 44. gr. laganna. Í varðhald skyldi hins vegar yfirleitt dæma fyrir smáfelld brot en þó með fyrrgreindri undantekningu.

Almennt er talað um að menn séu í varðhaldi þegar þeir eru í haldi lögreglu eftir handtöku og þá er varðhald oft notað jöfnum höndum yfir hugtakið gæsluvarðhald.

Þessi aðgreining fanga átti að koma í veg fyrir að þeir menn sem framið hefðu smávægileg brot eða voru í refsivist til að afplána sektir yrðu ekki látnir taka út refsingu í félagsskap með „stórglæpamönnum þjóðfélagsins“, eins og það var orðað í athugasemdum greinargerðar laganna, þar á meðal þeim sem sýnt væri að gerðu sér lögbrot að atvinnu. Þeir sem gerðust sekir um afbrot er varðaði refsivist voru þannig flokkaðir í tvo flokka, annars vegar eiginlega afbrotamenn og hins vegar aðra sem fremur var talið að hefði orðið á yfirsjón, sem leiddi til mildari og styttri frjálsræðissviptingar í formi varðhalds.

Varðhald var afnumið sem viðurlög við refsiverðri háttsemi með lögum nr. 82/1998 meðal annars með vísan til þess að ekki þótti standast að gera þann greinarmun á afbrotum og afbrotamönnum sem gerður var í lögunum. Í gildandi lögum eru refsitegundir tvenns konar; fangelsi og fésektir.

Skýran greinarmun verður aftur á móti að gera á milli gæsluvarðhalds og fangelsis, sem og öðrum viðurlögum fyrir afbrot sem fólgin eru í langvarandi frelsissviptingu, til dæmis öryggisgæslu og öryggisráðstöfunum.

Dómari getur úrskurðað einstakling í gæsluvarðhald áður en dómur hefur fallið en ekki er hægt að dæma menn í fangelsi fyrr en eftir að sakborningur hefur verið fundinn sekur um refsivert brot.

Gæsluvarðhald er tímabundin frelsissvipting sem beitt er í þágu rannsóknar eða meðferðar sakamáls á grundvelli dómsúrskurðar þegar tiltekin skilyrði eru fyrir hendi. Dómstóll getur úrskurðað sakborning í gæsluvarðhald ef fyrir liggur rökstuddur grunur um að hann hafi framið verknað sem fangelsisrefsing er lögð við og þegar ákveðin skilyrði liggja fyrir, sem nánar eru tilgreind í XIV. kafla laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Ströng lagaskilyrði eru fyrir beitingu gæsluvarðahalds enda felur það í sér mikla skerðingu á persónufrelsi viðkomandi einstaklings. Fjallað er um skilyrði gæsluvarðhalds í 67. gr. stjórnarskrárinnar, 5. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu og XIV. kafla laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Meginmarkmið gæsluvarðhalds er að koma í veg fyrir að sakborningur torveldi rannsókn máls og að hann komi sér undan málsókn eða fullnustu refsingar, eða ef það þykir nauðsynlegt vegna öryggis- eða almannahagsmuna.

Sá munur sem var á varðhaldi, sem var refsivist, og gæsluvarðhaldi, sem var og er enn tímabundin frelsissvipting oftast í þágu rannsóknar, hefur því ekki sjálfstætt gildi í dag. En sá meginmunur sem er á fangelsi og gæsluvarðhaldi er í fyrsta lagi sá að dómari getur úrskurðað einstakling í gæsluvarðhald áður en dómur hefur fallið en ekki er hægt að dæma menn í fangelsi fyrr en eftir að sakborningur hefur verið fundinn sekur um refsivert brot. Í öðru lagi er fangelsi yfirleitt langvarandi frelsissvipting sem dómari hefur ákveðið með dómi hversu lengi skuli standa, á grundvelli tiltekins refsiákvæðis í lögum.

Gæsluvarðhald skal á hinn bóginn standa eins stutt og kostur er. Ef í ljós kemur að gæsluvarðhalds er ekki lengur þörf ber að láta viðkomandi lausan þegar í stað. Ekki er hins vegar hægt að stytta fangelsisvist nema sérstök heimild sé til þess í lögum svo sem með náðun eða reynslulausn. Í þriðja lagi ber að geta þess að gæsluvarðhaldsvist getur að ákveðnum skilyrðum uppfylltum komið í stað refsingar, það er gæsluvarðhaldsvist kemur að jafnaði til frádráttar dæmdri refsingu sé viðkomandi síðar sakfelldur.

Heimildir:
  • Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944.
  • Almenn hegningarlög nr. 19/1940.
  • Lög nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
  • Jónatan Þórmundsson: Viðurlög við afbrotum. Reykjavík 1992.
  • Eiríkur Tómasson: Þvingunarráðstafanir í þágu meðferðar sakamáls. 2. útgáfa. Reykjavík 2009.
  • Lögfræðiorðabók með skýringum. Ritstjóri Páll Sigurðsson. Reykjavík 2008.

Myndir:...