Sólin Sólin Rís 05:19 • sest 21:35 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:18 • Sest 04:56 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:07 • Síðdegis: 19:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:08 • Síðdegis: 13:14 í Reykjavík

Hvað er hryggskekkja og hvað veldur henni?

Þuríður Þorbjarnardóttir

Hryggskekkja er óeðlileg hliðarsveigja, ein eða tvær, á hryggnum. Ef sveigjan er aðeins ein verður hryggurinn C-laga en S-laga ef þær eru tvær. Talið er að um 2% manna hafi hryggskekkju. Algengast er að hryggskekkja komi fram snemma á barns- eða unglingsaldri og er hún algengari hjá stelpum en strákum. Hún er ættlæg í sumum tilfellum. Oftast er fólk með hryggskekkju einkennalaust en hjá sumum veldur hún því að einstaklingurinn hallar til annarrar hliðar og hefur ójafnar axlir eða mjaðmir, ójafnt mitti, annað herðablaðið skagar meira fram en hitt eða rifbeinin eru hærri öðrum megin.

Hryggskekkja er óeðlileg hliðarsveigja á hryggnum, eins og sést hér til hægri á myndinni. Vinstra megin sést eðlilegur hryggur.

Hryggskekkja getur verið tímabundið ástand og getur stafað af vöðvakrömpum, bólgum eða mislöngum fótleggjum. Fæðingargalli, æxli eða aðrir sjúkdómar geta valdið varanlegri hryggskekkju. Hjá þeim sem eru með væga hryggskekkju nægir oft að láta fylgjast með henni til að vita hvort hún versnar. Ef hún versnar er gripið inn í með spelkunotkun og í enn öðrum tilfellum gæti þurft skurðaðgerð þar sem hryggjarliðir eru spengdir saman til að rétta hrygginn af.

Í flestum tilfellum er orsökin fyrir hryggskekkju óþekkt og er henni þá skipt í flokka ýmist eftir því hvenær á ævinni hún kemur fram eða hvar á hryggnum skekkjan er. Ef flokkað er eftir aldri er henni skipt í þrjá flokka:

  1. hryggskekkja ungbarna (frá fæðingu til þriggja ára)
  2. hryggskekkja barna (frá þriggja til níu ára)
  3. hryggskekkja unglinga (frá 10 ára til 18 ára).
Um 80% af hryggskekkju af óþekktum orsökum falla í þriðja flokkinn. Á þessum aldri er vöxtur hraður og ef hún kemur fram á því tímabili er mikilvægt að fylgjast með hvernig hún þróast eftir því sem beinagrindin þroskast.

Fullorðnir geta fengið hryggskekkju vegna þess að hryggskekkja sem þeir fengu á unga aldri þróast áfram eða vegna hrörnunarsjúkdóma, eins og beinþynningar. Í slíkum tilfellum getur hryggskekkjan valdið sársauka sem er aftur á móti mjög sjaldgæfur hjá yngra fólki.

Heimildir og mynd:

Höfundur

Útgáfudagur

3.2.2012

Spyrjandi

Margrét Gústafsdóttir, Ragnhildur Júlíusdóttir

Tilvísun

Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hvað er hryggskekkja og hvað veldur henni?“ Vísindavefurinn, 3. febrúar 2012. Sótt 25. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=60639.

Þuríður Þorbjarnardóttir. (2012, 3. febrúar). Hvað er hryggskekkja og hvað veldur henni? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=60639

Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hvað er hryggskekkja og hvað veldur henni?“ Vísindavefurinn. 3. feb. 2012. Vefsíða. 25. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=60639>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað er hryggskekkja og hvað veldur henni?
Hryggskekkja er óeðlileg hliðarsveigja, ein eða tvær, á hryggnum. Ef sveigjan er aðeins ein verður hryggurinn C-laga en S-laga ef þær eru tvær. Talið er að um 2% manna hafi hryggskekkju. Algengast er að hryggskekkja komi fram snemma á barns- eða unglingsaldri og er hún algengari hjá stelpum en strákum. Hún er ættlæg í sumum tilfellum. Oftast er fólk með hryggskekkju einkennalaust en hjá sumum veldur hún því að einstaklingurinn hallar til annarrar hliðar og hefur ójafnar axlir eða mjaðmir, ójafnt mitti, annað herðablaðið skagar meira fram en hitt eða rifbeinin eru hærri öðrum megin.

Hryggskekkja er óeðlileg hliðarsveigja á hryggnum, eins og sést hér til hægri á myndinni. Vinstra megin sést eðlilegur hryggur.

Hryggskekkja getur verið tímabundið ástand og getur stafað af vöðvakrömpum, bólgum eða mislöngum fótleggjum. Fæðingargalli, æxli eða aðrir sjúkdómar geta valdið varanlegri hryggskekkju. Hjá þeim sem eru með væga hryggskekkju nægir oft að láta fylgjast með henni til að vita hvort hún versnar. Ef hún versnar er gripið inn í með spelkunotkun og í enn öðrum tilfellum gæti þurft skurðaðgerð þar sem hryggjarliðir eru spengdir saman til að rétta hrygginn af.

Í flestum tilfellum er orsökin fyrir hryggskekkju óþekkt og er henni þá skipt í flokka ýmist eftir því hvenær á ævinni hún kemur fram eða hvar á hryggnum skekkjan er. Ef flokkað er eftir aldri er henni skipt í þrjá flokka:

  1. hryggskekkja ungbarna (frá fæðingu til þriggja ára)
  2. hryggskekkja barna (frá þriggja til níu ára)
  3. hryggskekkja unglinga (frá 10 ára til 18 ára).
Um 80% af hryggskekkju af óþekktum orsökum falla í þriðja flokkinn. Á þessum aldri er vöxtur hraður og ef hún kemur fram á því tímabili er mikilvægt að fylgjast með hvernig hún þróast eftir því sem beinagrindin þroskast.

Fullorðnir geta fengið hryggskekkju vegna þess að hryggskekkja sem þeir fengu á unga aldri þróast áfram eða vegna hrörnunarsjúkdóma, eins og beinþynningar. Í slíkum tilfellum getur hryggskekkjan valdið sársauka sem er aftur á móti mjög sjaldgæfur hjá yngra fólki.

Heimildir og mynd:

...