Sólin Sólin Rís 05:19 • sest 21:35 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:18 • Sest 04:56 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:07 • Síðdegis: 19:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:08 • Síðdegis: 13:14 í Reykjavík

Hvernig notar maður formalín til að hreinsa bein?

Albína Hulda Pálsdóttir

Í upphafi þessa svars er rétt að taka fram að formalín er ekki notað til að hreinsa bein. Formalín er notað til þess að varðveita líkamsvefi í sýnum og við líksmurningu eða sem lausn til sótthreinsunar. Ástæðan fyrir þessari notkun formalíns er sú að það hefur bakteríudrepandi áhrif. Því er hægt að varðveita líkamsvefi heilla dýra eða einstök líffæri í formalíni og koma þannig í veg fyrir að hold dýrsins rotni. Formalínið er afar hentugt til þess þar sem það varðveitir einnig form mjúkvefjanna.

Formalín er efnasambandið formaldehýð (HCHO) í vatnslausn. Formaldehýð er litlaus gastegund sem hefur ertandi áhrif á húð, augu og öndunarfæri. Formaldehýð er talið vera krabbameinsvaldandi og því þarf að umgangast það með varúð. Formalín hefur eitrunaráhrif við inntöku.

Hér má sjá hluta af beinagrind af hrossi í manngerðum helli á Suðurlandi. Beinagrindin var að líkindum að mestu hreinsuð af maðkaflugu.

Sé ætlunin að hreinsa bein eru til þess nokkrar aðferðir. Þær eiga það sameiginlegt að taka nokkurn tíma og krefjast fyrirhafnar. Einfaldast er að grafa dýrið. Beinagrindur fugla og smærri dýra geta þannig hreinsast á nokkrum mánuðum en stærri beinagrindur, svo sem af kindum og hestum, á nokkrum árum. Tíminn ræðst af því hversu djúpt er grafið og af eðli jarðvegarins. Til þess að ekkert af beinunum glatist þarf að grafa þau í einhverju. Fyrir smærri dýr er hentugt að nota nælonsokka eða netþvottaskjóður sem hægt er að kaupa í flestum matvöruverslunum. Þannig er tryggt að skordýr, bakteríur og súrefni komist að hræinu til þess að hreinsa af því holdið svo aðeins beinin verði eftir (Davis og Payne, 1992, bls. 99; Post, 2004, bls. 4). Ef hræ er grafið í plastpoka rotnar það mjög seint og illa þar sem bakteríur sem sjá um rotnun þurfa á súrefni að halda en plastpokinn lokar fyrir aðgang þess. Bein sem eru grafin í jarðvegi eru sjaldnast hvít þegar þau hafa verið grafin upp og því geta aðrar aðferðir verið heppilegri ef ætlunin er að fá hvít bein. Þó er hægt að láta bein hvítna með því að láta þau standa úti í sól en það tekur nokkuð langan tíma.

Á Íslandi er líka hægt að notfæra sér maðkafluguna til að hreinsa beinagrindur. Þá er hræið sem á að hreinsa hreinlega látið vera úti yfir sumartímann. Ganga þarf frá því þannig að mávar, hrafnar eða refir komist ekki í það og steli beinum. Maðkaflugan er fljót að finna hræ og verpa í það eggjum. Eggin klekjast svo út nokkrum dögum seinna og maðkarnir éta holdið af beinunum. Mikilvægt er að hræið þorni ekki upp því maðkarnir þurfa ákveðið rakastig til að lifa. Ágætt er að vökva hræið öðru hvoru. Maðkarnir geta verið mjög fljótir að hreinsa hræ ef aðstæður eru góðar. Minni beinagrindur geta tekið örfáar vikur en stærri dýr eitt sumar eða svo. Að sjálfsögðu er ekki æskilegt að verka hræ á þennan hátt mjög nálægt mannabústöðum sökum flugnanna sem óhjákvæmilega fylgja.

Önnur leið til að hreinsa hold utan af beinagrindum er að flá og hreinsa megnið af holdi af beinunum og sjóða þau svo. Bein af ungum dýrum sem ekki eru fullvaxin geta þó skemmst við suðu og fyrir þau er betra að nota aðrar aðferðir. Best er að sjóða bein við lágan hita í nokkurn tíma frekar en við háan hita í stuttan tíma en of mikill hiti skemmir beinin. Mjög misjafnt er hversu lengi þarf að sjóða beinin, fiska er nóg að sjóða í 2-3 klukkustundir en bein spendýra þarf yfirleitt að sjóða í 4-8 tíma þar sem í þeim er mikil fita sem tekur tíma að ná úr (Wheeler, 2009, bls. 179). Ef ekki tekst að hreinsa fituna að fullu úr beinunum verða þau klístruð og geta farið að lykta illa.

Hundahauskúpur frá uppgreftrinum á Alþingisreit.

Líklega besta en jafnframt verst lyktandi leiðin til að hreinsa beinagrindur er að nota vessagrotnun (e. maceration). Við vessagrotnun sjá bakteríur um að hreinsa beinin í vatni. Þá er megnið af holdi hreinsað af beinagrindinni og hún svo látin í ílát sem fyllt er af heitu vatni. Gott er að bæta smá hrossaskít í vatnið en í honum eru bakteríur sem munu hreinsa beinagrindina (Post, 2004, bls. 4). Loftgöt þurfa að vera á ílátinu svo súrefni komist að og best er að halda vatninu milli 30-50°C heitu, en við það hitastig vinna bakteríurnar hraðast við að hreinsa beinagrindina. Þetta er hægt að gera til dæmis með því að láta fiskabúrshitara með í ílátið. Á nokkurra vikna fresti er svo skipt um vatn, en hluti af gamla vatninu með þeim bakteríum sem þar eru er látið í nýja vatnið. Þetta getur þurft að gera nokkuð oft og lyktin sem fylgir er mjög vond, sérstaklega þegar skipt er um vatnið. Vessagrotnun þarf því að fara fram þar sem er góð loftræsting. Eftir að búið er að skipta nokkrum sinnum um vatn og bakteríurnar eru búnar að éta af beinunum allt hold og mjúkvefi þarf að hreinsa fituna úr beinunum líkt og þegar beinin hafa verið soðin (Davis og Payne, 1992, bls. 98–99; van Gestel, e.d.). Vessagrotnun tekur yfirleitt um 2-4 mánuði (Post, 2004, bls. 4). Þrátt fyrir að vera nokkuð ógeðfelld og illa lyktandi aðferð er vessagrotnun besta leiðin til að hreinsa bein þar sem þau litast ekki líkt og þegar þau eru grafin heldur verða fallega hvít og þau skemmast minna en við það að vera soðin.

Önnur útfærsla á vessagrotnun er að setja hræið sem á að hreinsa í nælonsokk, þvottaskjóðu eða annan fínan netapoka og sökkva í vatn eða sjó. Þetta ferli tekur einnig 2-4 mánuði og nokkur hætta er á að smærri bein úr beinagrindinni týnist (Post, 2004, bls. 4).

Hægt er að hreinsa fitu úr beinum með nokkrum öðrum aðferðum svo sem með því að leggja þau í bleyti í vatni blönduðu með uppþvottalegi eða uppþvottavéladufti. Hreint aseton getur einnig virkað vel til þess að ná fitu úr beinum (Post, 2004, bls. 4). Fyrir stærri bein og dýr sem hafa mikla fitu í beinunum, svo sem seli, getur þurft að leggja beinin nokkrum sinnum í bleyti í fituhreinsi í nokkra daga í senn.

Nauðsynlegt er að fá aðstoð og leyfi frá fullorðnum þegar verið er að vinna með hræ af dauðum dýrum og æskilegt er að nota hanska og hlífðarfatnað. Eftir alla meðhöndlun á dýrahræjum þarf líka að þvo sér vel um hendur og hreinsa öll verkfæri sem notuð voru.

En af hverju þarf maður eiginlega að hreinsa bein? Sumum finnast bein falleg og nota þau til skrauts heima hjá sér. Bein og beinagrindur eru líka notuð við kennslu í líffræði og öðrum fögum. Beinagrindur af dýrum eru mikilvæg fyrir rannsóknir í dýrabeinafornleifafræði en þar eru þær notaðar við greiningu á dýrabeinum sem finnast í fornleifauppgröftum.

Heimildaskrá:
  • Davis, S. og Payne, S. (1992). 101 ways to deal with a dead hedgehog: notes on the preparation of disarticulated skeletons for zoo-archaeological use. Circaea, 8(2), 95-104.
  • formaldehyde - Encyclopedia - Britannica Online Encyclopedia. (e.d.). Encyclopædia Britannica. Encyclopædia Britannica Online School Edition. Sótt 3. október 2011 af http://www.school.eb.co.uk/all/eb/article-9034890?query=formaldehyde&ct=null.
  • van Gestel, W. (e.d.). Cleaning Skulls and Skeletons by maceration. Sótt 3. október 2011 af http://www.skullsite.com/misc/.
  • Post, L. (2004). Pinniped projects: articulating seal and sea lion skeletons. [Homer AK]: L. Post.
  • Sörenson, S. (1984). Ensk-íslensk orðabók með alfræðilegu ívafi. Reykjavík: Örn og Örlygur.
  • Wheeler, A. (2009). Fishes. Cambridge: Cambridge University Press.

Myndir:
  • Beinagrind af hrossi. Mynd tekin af höfundi.
  • Hundahauskúpur. Mynd tekin af Brynju Guðmundsdóttur. Birt með góðfúslegu leyfi.

Höfundur

Albína Hulda Pálsdóttir

dýrabeinafornleifafræðingur

Útgáfudagur

19.10.2011

Spyrjandi

Guðrún Rut

Tilvísun

Albína Hulda Pálsdóttir. „Hvernig notar maður formalín til að hreinsa bein?“ Vísindavefurinn, 19. október 2011. Sótt 25. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=60665.

Albína Hulda Pálsdóttir. (2011, 19. október). Hvernig notar maður formalín til að hreinsa bein? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=60665

Albína Hulda Pálsdóttir. „Hvernig notar maður formalín til að hreinsa bein?“ Vísindavefurinn. 19. okt. 2011. Vefsíða. 25. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=60665>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvernig notar maður formalín til að hreinsa bein?
Í upphafi þessa svars er rétt að taka fram að formalín er ekki notað til að hreinsa bein. Formalín er notað til þess að varðveita líkamsvefi í sýnum og við líksmurningu eða sem lausn til sótthreinsunar. Ástæðan fyrir þessari notkun formalíns er sú að það hefur bakteríudrepandi áhrif. Því er hægt að varðveita líkamsvefi heilla dýra eða einstök líffæri í formalíni og koma þannig í veg fyrir að hold dýrsins rotni. Formalínið er afar hentugt til þess þar sem það varðveitir einnig form mjúkvefjanna.

Formalín er efnasambandið formaldehýð (HCHO) í vatnslausn. Formaldehýð er litlaus gastegund sem hefur ertandi áhrif á húð, augu og öndunarfæri. Formaldehýð er talið vera krabbameinsvaldandi og því þarf að umgangast það með varúð. Formalín hefur eitrunaráhrif við inntöku.

Hér má sjá hluta af beinagrind af hrossi í manngerðum helli á Suðurlandi. Beinagrindin var að líkindum að mestu hreinsuð af maðkaflugu.

Sé ætlunin að hreinsa bein eru til þess nokkrar aðferðir. Þær eiga það sameiginlegt að taka nokkurn tíma og krefjast fyrirhafnar. Einfaldast er að grafa dýrið. Beinagrindur fugla og smærri dýra geta þannig hreinsast á nokkrum mánuðum en stærri beinagrindur, svo sem af kindum og hestum, á nokkrum árum. Tíminn ræðst af því hversu djúpt er grafið og af eðli jarðvegarins. Til þess að ekkert af beinunum glatist þarf að grafa þau í einhverju. Fyrir smærri dýr er hentugt að nota nælonsokka eða netþvottaskjóður sem hægt er að kaupa í flestum matvöruverslunum. Þannig er tryggt að skordýr, bakteríur og súrefni komist að hræinu til þess að hreinsa af því holdið svo aðeins beinin verði eftir (Davis og Payne, 1992, bls. 99; Post, 2004, bls. 4). Ef hræ er grafið í plastpoka rotnar það mjög seint og illa þar sem bakteríur sem sjá um rotnun þurfa á súrefni að halda en plastpokinn lokar fyrir aðgang þess. Bein sem eru grafin í jarðvegi eru sjaldnast hvít þegar þau hafa verið grafin upp og því geta aðrar aðferðir verið heppilegri ef ætlunin er að fá hvít bein. Þó er hægt að láta bein hvítna með því að láta þau standa úti í sól en það tekur nokkuð langan tíma.

Á Íslandi er líka hægt að notfæra sér maðkafluguna til að hreinsa beinagrindur. Þá er hræið sem á að hreinsa hreinlega látið vera úti yfir sumartímann. Ganga þarf frá því þannig að mávar, hrafnar eða refir komist ekki í það og steli beinum. Maðkaflugan er fljót að finna hræ og verpa í það eggjum. Eggin klekjast svo út nokkrum dögum seinna og maðkarnir éta holdið af beinunum. Mikilvægt er að hræið þorni ekki upp því maðkarnir þurfa ákveðið rakastig til að lifa. Ágætt er að vökva hræið öðru hvoru. Maðkarnir geta verið mjög fljótir að hreinsa hræ ef aðstæður eru góðar. Minni beinagrindur geta tekið örfáar vikur en stærri dýr eitt sumar eða svo. Að sjálfsögðu er ekki æskilegt að verka hræ á þennan hátt mjög nálægt mannabústöðum sökum flugnanna sem óhjákvæmilega fylgja.

Önnur leið til að hreinsa hold utan af beinagrindum er að flá og hreinsa megnið af holdi af beinunum og sjóða þau svo. Bein af ungum dýrum sem ekki eru fullvaxin geta þó skemmst við suðu og fyrir þau er betra að nota aðrar aðferðir. Best er að sjóða bein við lágan hita í nokkurn tíma frekar en við háan hita í stuttan tíma en of mikill hiti skemmir beinin. Mjög misjafnt er hversu lengi þarf að sjóða beinin, fiska er nóg að sjóða í 2-3 klukkustundir en bein spendýra þarf yfirleitt að sjóða í 4-8 tíma þar sem í þeim er mikil fita sem tekur tíma að ná úr (Wheeler, 2009, bls. 179). Ef ekki tekst að hreinsa fituna að fullu úr beinunum verða þau klístruð og geta farið að lykta illa.

Hundahauskúpur frá uppgreftrinum á Alþingisreit.

Líklega besta en jafnframt verst lyktandi leiðin til að hreinsa beinagrindur er að nota vessagrotnun (e. maceration). Við vessagrotnun sjá bakteríur um að hreinsa beinin í vatni. Þá er megnið af holdi hreinsað af beinagrindinni og hún svo látin í ílát sem fyllt er af heitu vatni. Gott er að bæta smá hrossaskít í vatnið en í honum eru bakteríur sem munu hreinsa beinagrindina (Post, 2004, bls. 4). Loftgöt þurfa að vera á ílátinu svo súrefni komist að og best er að halda vatninu milli 30-50°C heitu, en við það hitastig vinna bakteríurnar hraðast við að hreinsa beinagrindina. Þetta er hægt að gera til dæmis með því að láta fiskabúrshitara með í ílátið. Á nokkurra vikna fresti er svo skipt um vatn, en hluti af gamla vatninu með þeim bakteríum sem þar eru er látið í nýja vatnið. Þetta getur þurft að gera nokkuð oft og lyktin sem fylgir er mjög vond, sérstaklega þegar skipt er um vatnið. Vessagrotnun þarf því að fara fram þar sem er góð loftræsting. Eftir að búið er að skipta nokkrum sinnum um vatn og bakteríurnar eru búnar að éta af beinunum allt hold og mjúkvefi þarf að hreinsa fituna úr beinunum líkt og þegar beinin hafa verið soðin (Davis og Payne, 1992, bls. 98–99; van Gestel, e.d.). Vessagrotnun tekur yfirleitt um 2-4 mánuði (Post, 2004, bls. 4). Þrátt fyrir að vera nokkuð ógeðfelld og illa lyktandi aðferð er vessagrotnun besta leiðin til að hreinsa bein þar sem þau litast ekki líkt og þegar þau eru grafin heldur verða fallega hvít og þau skemmast minna en við það að vera soðin.

Önnur útfærsla á vessagrotnun er að setja hræið sem á að hreinsa í nælonsokk, þvottaskjóðu eða annan fínan netapoka og sökkva í vatn eða sjó. Þetta ferli tekur einnig 2-4 mánuði og nokkur hætta er á að smærri bein úr beinagrindinni týnist (Post, 2004, bls. 4).

Hægt er að hreinsa fitu úr beinum með nokkrum öðrum aðferðum svo sem með því að leggja þau í bleyti í vatni blönduðu með uppþvottalegi eða uppþvottavéladufti. Hreint aseton getur einnig virkað vel til þess að ná fitu úr beinum (Post, 2004, bls. 4). Fyrir stærri bein og dýr sem hafa mikla fitu í beinunum, svo sem seli, getur þurft að leggja beinin nokkrum sinnum í bleyti í fituhreinsi í nokkra daga í senn.

Nauðsynlegt er að fá aðstoð og leyfi frá fullorðnum þegar verið er að vinna með hræ af dauðum dýrum og æskilegt er að nota hanska og hlífðarfatnað. Eftir alla meðhöndlun á dýrahræjum þarf líka að þvo sér vel um hendur og hreinsa öll verkfæri sem notuð voru.

En af hverju þarf maður eiginlega að hreinsa bein? Sumum finnast bein falleg og nota þau til skrauts heima hjá sér. Bein og beinagrindur eru líka notuð við kennslu í líffræði og öðrum fögum. Beinagrindur af dýrum eru mikilvæg fyrir rannsóknir í dýrabeinafornleifafræði en þar eru þær notaðar við greiningu á dýrabeinum sem finnast í fornleifauppgröftum.

Heimildaskrá:
  • Davis, S. og Payne, S. (1992). 101 ways to deal with a dead hedgehog: notes on the preparation of disarticulated skeletons for zoo-archaeological use. Circaea, 8(2), 95-104.
  • formaldehyde - Encyclopedia - Britannica Online Encyclopedia. (e.d.). Encyclopædia Britannica. Encyclopædia Britannica Online School Edition. Sótt 3. október 2011 af http://www.school.eb.co.uk/all/eb/article-9034890?query=formaldehyde&ct=null.
  • van Gestel, W. (e.d.). Cleaning Skulls and Skeletons by maceration. Sótt 3. október 2011 af http://www.skullsite.com/misc/.
  • Post, L. (2004). Pinniped projects: articulating seal and sea lion skeletons. [Homer AK]: L. Post.
  • Sörenson, S. (1984). Ensk-íslensk orðabók með alfræðilegu ívafi. Reykjavík: Örn og Örlygur.
  • Wheeler, A. (2009). Fishes. Cambridge: Cambridge University Press.

Myndir:
  • Beinagrind af hrossi. Mynd tekin af höfundi.
  • Hundahauskúpur. Mynd tekin af Brynju Guðmundsdóttur. Birt með góðfúslegu leyfi.
...