Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Hvar lifa tígrisdýr og hvernig fer æxlun þeirra fram?

Jón Már Halldórsson

Tígrisdýr (Panthera tigris) eru stærstu núlifandi kattardýrin. Að minnsta kosti tvær deilitegundir þeirra eru stærri en afrísk ljón (Panthera leo). Tígrisdýr lifa eingöngu í Asíu en áður fyrr teygðu þau sig að mörkum Evrópu, þegar hið útdauða kaspía- eða turantígrisdýr (P. tigris virgata) ráfaði um Mið-Asíu og allt vestur til Kákasusfjalla.

Heimkynni tígrisdýra.

Núlifandi tígrisdýr eru flokkuð í sex deilitegundir:
  • Bengaltígrisdýr (P. tigris tigris) eru eins konar höfuðættkvísl tígrisdýra, enda bera þau nafn tegundarinnar í ættkvíslarheiti sínu. Bengaltígrisdýr lifa á Indlandi, í Nepal, Bútan og Bangladess. Þessi deilitegund hefur lengi vel verið stærst og er svo enn, þótt nú sé hún í sögulegu lágmarki, eða aðeins um 1.200 dýr.
  • Indókínversk tígrisdýr (P. tigris corbetti) finnast í Indókína, það er í Búrma, Taílandi, Malasíu, Kambódíu, Laos og Víetnam. Deilitegundin er kennd við Jim Corbett (1875-1955) sem á sínum tíma var mikill tígrisdýraveiðimaður og felldi mörg mannætutígrisdýr á áratugunum eftir 1900. Síðar varð hann einn af sporgöngumönnum í verndun tígrisdýra og er þjóðgarður á Indlandi nefndur eftir honum.
  • Malajatígrisdýr (P. tigris jacksoni) voru skilgreind sem sérstök deilitegund árið 2004 en áður tilheyrðu þessi dýr indókínversku deilitegundinni. Malajatígrisdýr lifa einungis á Malaja-skaganum sem tilheyrir Malasíu. Deilitegundin er afar fáliðuð eða um 600 einstaklingar. Þetta eru næstminnstu tígrisdýrin. Karldýrin verða aðeins um 120 kg og kvendýrin um 100 kg.
  • Suður-kínversk tígrisdýr (P. tigris amoyensis) eru að öllum líkindum útdauð í náttúrunni. Frá 1983 hafa engin villt dýr fundist í áður þekktum heimkynnum þeirra í suðurhluta Kína. Reyndar kom bóndi nokkur fram með ljósmynd sem sýndi eitt slíkt dýr úti í skógi en ljósmyndin reyndist vera fölsuð. Vísindamenn hafa ekki fundið nein ummerki eftir þau þannig að sennilega er villta suður-kínverska tígrisdýrið útdautt. Þau eru þó ekki alveg horfin af yfirborði jarðar því nú eru 59 einstaklingar í dýragörðum. Enn fremur reyna menn nú að koma á fót villtum stofni.
  • Súmötrutígrisdýr (P. tigris sumatriensis) finnast eins og nafnið gefur til kynna á eyjunni Súmötru. Þetta eru minnstu núlifandi tígrisdýrin, karldýrin verða aðeins um 100-140 kg en kvendýrin 75-100 kg. Súmötrutígrisdýrum hefur fækkað stórlega á undanförnum árum og teljast dýrin nú aðeins vera um 400.
  • Síberiu-ussuritígrisdýr (P. tigris altaica) er stórvaxnasta deilitegundin. Karldýrin verða rúmlega 300 kg að þyngd en kvendýrin um 180 kg. Skýringin á þessari miklu stærð er sú að því norðar sem tegund teygir sig því stærri verður hún, þar sem aukið rúmmál skrokks varðveitir betur innri varma. Þetta er skýrt með svokallaðri reglu Bergmanns. Ussuritígurinn finnst aðallega í Rússlandi en teygir útbreiðslu sína inn í Mansjúríu í Kína og til Kóreu. Talið er að heildarstofnstærðin sé um 500 dýr.

Tígrisdýr eru rándýr og eru bráðir þeirra yfirleitt spendýr á stærðarbilinu frá 50 til 900 kg. Þetta eru ýmsir grasbítar svo sem svín af ýmsum asískum tegundum, hjartardýr, gáruxi og bjarndýr en skógarbirnir og asískir svartbirnir eru allt að 8% af fæðu ussuritígursins.

Tígrisdýr eru þó tækifærissinnar og leggja minni bráðir að velli ef þær bjóðast, svo sem apa, fugla og nagdýr af ýmsum tegundum. Fílar eru of stór bráð fyrir þessi kattardýr en til er að þau reyni, sérstaklega geta kálfar laðað tígrisdýr að fílahjörðum. Eitt tilvik er þekkt þar sem indverskur nashyrningur var drepinn af tígrisdýri.

Á einum stað á landamærum Indlands og Bangladess, í Sundarbarn-flæðiskógunum, eru menn stundum étnir af bengaltígrisdýrum. Þessi stofn sem þar lifir er mjög stórvaxinn og hefur allt annað og ólíkt háttarlag en önnur tígrisdýr gagnvart manninum þar sem dýrin beinlínis sækjast í menn, synda jafnvel upp í báta til að ná sér í einn slíkan.

Tígrisdýr (Panthera tigris) eru stærstu núlifandi kattardýrin.

Ólíkt ljónum eru tígrisdýr einfarar. Þau helga sér svæði sem þau ferðast um og veiða á. Stærð svæðanna ræðst af fjölda veiðidýra. Því eru dýr sem finnast í þéttum og tegundaauðugum regnskógum með mun minna svæði en dýr sem lifa norður í Rússlandi. Einnig fer stærð heimasvæða karldýra eftir aðgengi að óðölum kvendýra. Samskipti fullorðinna dýra eru flókin og virðast ekki fara eftir neinum sérstökum reglum. Yfirleitt gildir það þó að kynin geta umborið hvort annað á æxlunartíma en forðast frekara samneyti utan hans. Þó eru þekkt tilvik þar sem dýrin deila bráð. Það er hins vegar óþekkt að einstaklingar af sama kyni geri það.

Syðst á útbreiðslusvæðum tígrisdýra fer æxlun fram allt árið um kring en er þó algengust á tímabilinu frá nóvember til apríl. Æxlunartími rússneskra tígrisdýra er styttri. Tígrisynjan er aðeins frjó í nokkra daga í mánuði. Þegar kynin hittast makast þau oft og með miklum látum, urri og öskrum. Meðgöngutími tígrisdýra er 16 vikur. Að jafnaði eru um 3-4 hvolpar í hverju goti og þeir vega um eitt kg. Hvolparnir eru blindir og algerlega upp á móður sína komnir. Tígrisynjan sinnir þeim ein í bæli sem hún gerir oftast í klettum eða jafnvel holum undir stórum trjám.

Að ala önn fyrir hvolpum er afar krefjandi verkefni fyrir móðurina. Til að fæða þá þarf hún að skilja þá eina eftir í bælinu á meðan hún fer á veiðar. Flökkukarldýr sem komast í tæri við hvolpa sem þeir hafa ekki feðrað drepa þá. Ef slíkt gerist þá verður tígrisynjan frjó fljótlega aftur og getur gotið að nýju eftir fimm mánuði frá því hún missti hvolpanna. Lífslíkur hvolpa eru afar litlar, líkurnar á að þeir nái tveggja ára aldri eru innan við 50%.

Tígrisdýr eiga venjulega 3-4 hvolpa í einu.

Öldum saman hefur mönnum staðið ógn af tígrisdýrum. Að jafnaði drápu tígrisdýr rúmlega þúsund manns árlega á Indlandi á þeim tíma sem Bretar réðu þar ríkum. Það má ætla að síðastliðin 500 ár hafi rúmlega ein milljón manna tapað lífi sínu í kjafti tígrisdýra. Nú á tímum hefur þetta þó frekar snúist við, því menn hafa tekið sinn skerf af stofnum tígrisdýra. Fyrir rúmum 100 árum voru sennilega um 100 þúsund tígrisdýr en nú eru þau aðeins um 3.500 talsins. Stofnstærðarupplýsingar eru frá 2010 en tölur eru mismunandi eftir því hvaða heimild er notuð enda um mat að ræða og töluverð óvissa í því.

Tígrisdýrum hefur hrakað alls staðar á síðastliðnum 5 árum nema að vera skyldi í Rússlandi og á Malaja-skaga. Umfangsmikill veiðiþjófnaður og ekki síst eyðing búsvæða eru helstu orsakir þess að tígrisdýrum hefur fækkað svo mjög að þau eru nú talin í útrýmingarhættu.

Heimildir og myndir:

Upprunalega hljóðaði spurningin svona:
Hverjir eru lífshættir tígrisdýra? Sem sagt búsvæði, næringarnám, æxlun og svo framvegis?

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Útgáfudagur

1.12.2011

Spyrjandi

Kolbrún Arna Eyþórsdóttir

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Hvar lifa tígrisdýr og hvernig fer æxlun þeirra fram?“ Vísindavefurinn, 1. desember 2011. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=61021.

Jón Már Halldórsson. (2011, 1. desember). Hvar lifa tígrisdýr og hvernig fer æxlun þeirra fram? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=61021

Jón Már Halldórsson. „Hvar lifa tígrisdýr og hvernig fer æxlun þeirra fram?“ Vísindavefurinn. 1. des. 2011. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=61021>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvar lifa tígrisdýr og hvernig fer æxlun þeirra fram?
Tígrisdýr (Panthera tigris) eru stærstu núlifandi kattardýrin. Að minnsta kosti tvær deilitegundir þeirra eru stærri en afrísk ljón (Panthera leo). Tígrisdýr lifa eingöngu í Asíu en áður fyrr teygðu þau sig að mörkum Evrópu, þegar hið útdauða kaspía- eða turantígrisdýr (P. tigris virgata) ráfaði um Mið-Asíu og allt vestur til Kákasusfjalla.

Heimkynni tígrisdýra.

Núlifandi tígrisdýr eru flokkuð í sex deilitegundir:
  • Bengaltígrisdýr (P. tigris tigris) eru eins konar höfuðættkvísl tígrisdýra, enda bera þau nafn tegundarinnar í ættkvíslarheiti sínu. Bengaltígrisdýr lifa á Indlandi, í Nepal, Bútan og Bangladess. Þessi deilitegund hefur lengi vel verið stærst og er svo enn, þótt nú sé hún í sögulegu lágmarki, eða aðeins um 1.200 dýr.
  • Indókínversk tígrisdýr (P. tigris corbetti) finnast í Indókína, það er í Búrma, Taílandi, Malasíu, Kambódíu, Laos og Víetnam. Deilitegundin er kennd við Jim Corbett (1875-1955) sem á sínum tíma var mikill tígrisdýraveiðimaður og felldi mörg mannætutígrisdýr á áratugunum eftir 1900. Síðar varð hann einn af sporgöngumönnum í verndun tígrisdýra og er þjóðgarður á Indlandi nefndur eftir honum.
  • Malajatígrisdýr (P. tigris jacksoni) voru skilgreind sem sérstök deilitegund árið 2004 en áður tilheyrðu þessi dýr indókínversku deilitegundinni. Malajatígrisdýr lifa einungis á Malaja-skaganum sem tilheyrir Malasíu. Deilitegundin er afar fáliðuð eða um 600 einstaklingar. Þetta eru næstminnstu tígrisdýrin. Karldýrin verða aðeins um 120 kg og kvendýrin um 100 kg.
  • Suður-kínversk tígrisdýr (P. tigris amoyensis) eru að öllum líkindum útdauð í náttúrunni. Frá 1983 hafa engin villt dýr fundist í áður þekktum heimkynnum þeirra í suðurhluta Kína. Reyndar kom bóndi nokkur fram með ljósmynd sem sýndi eitt slíkt dýr úti í skógi en ljósmyndin reyndist vera fölsuð. Vísindamenn hafa ekki fundið nein ummerki eftir þau þannig að sennilega er villta suður-kínverska tígrisdýrið útdautt. Þau eru þó ekki alveg horfin af yfirborði jarðar því nú eru 59 einstaklingar í dýragörðum. Enn fremur reyna menn nú að koma á fót villtum stofni.
  • Súmötrutígrisdýr (P. tigris sumatriensis) finnast eins og nafnið gefur til kynna á eyjunni Súmötru. Þetta eru minnstu núlifandi tígrisdýrin, karldýrin verða aðeins um 100-140 kg en kvendýrin 75-100 kg. Súmötrutígrisdýrum hefur fækkað stórlega á undanförnum árum og teljast dýrin nú aðeins vera um 400.
  • Síberiu-ussuritígrisdýr (P. tigris altaica) er stórvaxnasta deilitegundin. Karldýrin verða rúmlega 300 kg að þyngd en kvendýrin um 180 kg. Skýringin á þessari miklu stærð er sú að því norðar sem tegund teygir sig því stærri verður hún, þar sem aukið rúmmál skrokks varðveitir betur innri varma. Þetta er skýrt með svokallaðri reglu Bergmanns. Ussuritígurinn finnst aðallega í Rússlandi en teygir útbreiðslu sína inn í Mansjúríu í Kína og til Kóreu. Talið er að heildarstofnstærðin sé um 500 dýr.

Tígrisdýr eru rándýr og eru bráðir þeirra yfirleitt spendýr á stærðarbilinu frá 50 til 900 kg. Þetta eru ýmsir grasbítar svo sem svín af ýmsum asískum tegundum, hjartardýr, gáruxi og bjarndýr en skógarbirnir og asískir svartbirnir eru allt að 8% af fæðu ussuritígursins.

Tígrisdýr eru þó tækifærissinnar og leggja minni bráðir að velli ef þær bjóðast, svo sem apa, fugla og nagdýr af ýmsum tegundum. Fílar eru of stór bráð fyrir þessi kattardýr en til er að þau reyni, sérstaklega geta kálfar laðað tígrisdýr að fílahjörðum. Eitt tilvik er þekkt þar sem indverskur nashyrningur var drepinn af tígrisdýri.

Á einum stað á landamærum Indlands og Bangladess, í Sundarbarn-flæðiskógunum, eru menn stundum étnir af bengaltígrisdýrum. Þessi stofn sem þar lifir er mjög stórvaxinn og hefur allt annað og ólíkt háttarlag en önnur tígrisdýr gagnvart manninum þar sem dýrin beinlínis sækjast í menn, synda jafnvel upp í báta til að ná sér í einn slíkan.

Tígrisdýr (Panthera tigris) eru stærstu núlifandi kattardýrin.

Ólíkt ljónum eru tígrisdýr einfarar. Þau helga sér svæði sem þau ferðast um og veiða á. Stærð svæðanna ræðst af fjölda veiðidýra. Því eru dýr sem finnast í þéttum og tegundaauðugum regnskógum með mun minna svæði en dýr sem lifa norður í Rússlandi. Einnig fer stærð heimasvæða karldýra eftir aðgengi að óðölum kvendýra. Samskipti fullorðinna dýra eru flókin og virðast ekki fara eftir neinum sérstökum reglum. Yfirleitt gildir það þó að kynin geta umborið hvort annað á æxlunartíma en forðast frekara samneyti utan hans. Þó eru þekkt tilvik þar sem dýrin deila bráð. Það er hins vegar óþekkt að einstaklingar af sama kyni geri það.

Syðst á útbreiðslusvæðum tígrisdýra fer æxlun fram allt árið um kring en er þó algengust á tímabilinu frá nóvember til apríl. Æxlunartími rússneskra tígrisdýra er styttri. Tígrisynjan er aðeins frjó í nokkra daga í mánuði. Þegar kynin hittast makast þau oft og með miklum látum, urri og öskrum. Meðgöngutími tígrisdýra er 16 vikur. Að jafnaði eru um 3-4 hvolpar í hverju goti og þeir vega um eitt kg. Hvolparnir eru blindir og algerlega upp á móður sína komnir. Tígrisynjan sinnir þeim ein í bæli sem hún gerir oftast í klettum eða jafnvel holum undir stórum trjám.

Að ala önn fyrir hvolpum er afar krefjandi verkefni fyrir móðurina. Til að fæða þá þarf hún að skilja þá eina eftir í bælinu á meðan hún fer á veiðar. Flökkukarldýr sem komast í tæri við hvolpa sem þeir hafa ekki feðrað drepa þá. Ef slíkt gerist þá verður tígrisynjan frjó fljótlega aftur og getur gotið að nýju eftir fimm mánuði frá því hún missti hvolpanna. Lífslíkur hvolpa eru afar litlar, líkurnar á að þeir nái tveggja ára aldri eru innan við 50%.

Tígrisdýr eiga venjulega 3-4 hvolpa í einu.

Öldum saman hefur mönnum staðið ógn af tígrisdýrum. Að jafnaði drápu tígrisdýr rúmlega þúsund manns árlega á Indlandi á þeim tíma sem Bretar réðu þar ríkum. Það má ætla að síðastliðin 500 ár hafi rúmlega ein milljón manna tapað lífi sínu í kjafti tígrisdýra. Nú á tímum hefur þetta þó frekar snúist við, því menn hafa tekið sinn skerf af stofnum tígrisdýra. Fyrir rúmum 100 árum voru sennilega um 100 þúsund tígrisdýr en nú eru þau aðeins um 3.500 talsins. Stofnstærðarupplýsingar eru frá 2010 en tölur eru mismunandi eftir því hvaða heimild er notuð enda um mat að ræða og töluverð óvissa í því.

Tígrisdýrum hefur hrakað alls staðar á síðastliðnum 5 árum nema að vera skyldi í Rússlandi og á Malaja-skaga. Umfangsmikill veiðiþjófnaður og ekki síst eyðing búsvæða eru helstu orsakir þess að tígrisdýrum hefur fækkað svo mjög að þau eru nú talin í útrýmingarhættu.

Heimildir og myndir:

Upprunalega hljóðaði spurningin svona:
Hverjir eru lífshættir tígrisdýra? Sem sagt búsvæði, næringarnám, æxlun og svo framvegis?
...