Sólin Sólin Rís 05:43 • sest 21:13 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 13:37 • Sest 06:11 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:59 • Síðdegis: 15:47 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:39 • Síðdegis: 21:50 í Reykjavík

Hver var Páll postuli og hvert var framlag hans til kristinnar trúar?

Haraldur Hreinsson

Páll postuli er ein af athyglisverðustu og mikilvægustu persónum í sögu kristinna trúarbragða. Það er auðvelt að færa rök fyrir því að með trúboðsstarfi sínu og stofnun söfnuða í löndunum fyrir botni Miðjarðarhafs á 1. öld þessa tímatals hafi hann lagt grunninn að starfi kristinna kirkna allt fram á okkar daga.

Ef ætlunin er að komast að því hver Páll var, það er hvaðan hann var, hvað hann gerði, hvers vegna hann gerði það sem hann gerði og svo framvegis þá liggur beinast við að líta á hvað ráða megi af áreiðanlegustu heimildunum um hann. Traustustu heimildirnar sem til eru um Pál eru án vafa nokkur bréf sem hann skrifaði sjálfur og má finna í Nýja testamentinu. Auk þess að vera helstu heimildir um Pál sjálfan, þá eru þessi bréf einnig elstu varðveittu heimildir um kristin trúarbrögð (að minnsta kosti tíu árum eldri en Markúsarguðspjall, sem er elsta guðspjallið í Nýja testamentinu). Elsta bréfið, Fyrra Þessaloníkubréf var skrifað um árið 50 og yngsta bréfið ef til vill fimm eða sex árum síðar en flestir fræðimenn eru á því að það sé Rómverjabréfið. Önnur bréf sem eignuð eru Páli eru Fyrra og Síðara Korintubréf, Galatabréfið, Fílemonsbréfið og Filippíbréfið.

En hvað má þá segja um Pál á grundvelli bréfanna sem hann skrifaði? Því miður fæst ekki mjög skýr mynd af honum vegna þess að þegar hann skrifaði bréfin var honum alls ekki efst í huga að kynna sjálfan sig. Ef frá er talið Rómverjabréfið, þá var Páll alltaf að skrifa til fólks sem hann þekkti þá þegar og var yfirleitt að takast á við vandamál sem upp höfðu komið í söfnuðunum sem hann hafði stofnað. Í bréfum sínum segir Páll til að mynda aldrei hvaðan hann var eða hvaða menntun hann hafði. Í Postulasögunni, riti í Nýja testamentinu þar sem sagt er frá störfum postulanna fyrstu árin eftir dauða Jesú, segir að Páll hafi verið fæddur í Tarsus í Kilikíu, sem nú er Suður-Tyrkland (21.39; hér og í því sem á eftir kemur vísar fyrri talan til kaflanúmers og hin síðari til versatölu). Þar segir einnig að hann hafi lært hjá frægum rabbína sem hét Gamalíel (22.3) og kunnað til verka sem tjaldgerðarmaður (18.3).

Þessar upplýsingar hafa fylgt umræðu um uppruna postulans frá upphafi, en mikilvægt er að hafa í huga að Postulasagan er skrifuð þegar nokkrir áratugir voru liðnir frá atburðunum sem hún lýsir. Þá er alls óvíst hver tengsl höfundarins voru við Pál ef þau voru einhver. Þess vegna skiptir máli að leyfa bréfunum að tala sínu máli áður en litið er til Postulasögunnar sem er langt í frá jafn áreiðanleg heimild um líf og störf Páls en þau bréf sem hann ritaði eigin hendi.

Páll postuli við skriftir. Málverk frá 17. öld eftir Valentin de Boulogne (1591–1632).

Það er ef til vill gagnlegt að huga að því að bréf Páls gefa ýmislegt til kynna án þess að það sé sagt berum orðum. Til dæmis má benda á þá augljósu staðreynd að Páll kann að lesa og skrifa sem var alls ekki sjálfsagt á þeim tíma sem hann var uppi. Þá hafa fræðimenn sýnt fram á að bréfin eru byggð upp með tilteknum hætti, svokölluðum mælskufræðilegum aðferðum sem var ætlað að gera skrifin sannfærandi. Það gefur til kynna að Páll hafi hlotið nokkurn framgang í skólakerfinu eins og það var uppbyggt í hinum grísk-rómverska menningarheimi. Hann virðist einnig hafa haft góða kunnáttu í sögu og helgiritum gyðingdóms, en ritningarnar gjörþekkti hann og virðist oft vísa í þær eftir minni. Vert er þó að taka fram að Páll notaðist við gríska þýðingu á hebreskum textum Gyðinga, sem jafnan er kölluð Septúaginta. Móðurmál Páls var gríska sem bendir til þess að hann hafi tilheyrt hinni svokölluðu dreifingu (gr. diaspora) sem vísar til þeirra Gyðinga sem bjuggu annars staðar en í Júdeu.

Þessar grófu útlínur koma ágætlega heim og saman við orð Páls sjálfs í bréfum hans en þar segir Páll að sem ungur maður hafi hann lagt sig allan fram um að rækta gyðinglega trú sína og fylgja boðum hennar í hvívetna. Í Galatabréfinu (1.14) segir Páll: „Ég fór lengra í gyðingdóminum en margir jafnaldrar mínir meðal þjóðar minnar og var miklu vandlátari um erfikenningu forfeðra minna.“ Í Filippíbréfinu (3.14) segir hann enn fremur: „Ég var umskorinn á áttunda degi, af kyni Ísraels, ættkvísl Benjamíns, Hebrei af Hebreum, í lögmálshlýðni farísei, svo kappsfullur að ég ofsótti kirkjuna. Ef litið er á réttlætið, sem fæst með lögmálinu, var ég vammlaus.“ Á grundvelli þessara upplýsinga er óhætt að draga upp mynd af Páli sem áköfum og trúföstum Gyðingi úr dreifingunni sem var staðráðinn í að skilja og iðka trú sína í samræmi við ströngustu kröfur sem tíðkuðust á hans tíma. Ákefð hans virðist hafa leitt hann út í að ofsækja átrúnað þann sem hann átti eftir að boða síðar meir.

Straumhvörf urðu í lífi Páls þegar hann varð fyrir þeirri reynslu að Jesús vitraðist honum. Þessi sýn Páls hefur oft verið kölluð Damaskusreynslan vegna þess að í Postulasögunni er greint frá því að þegar Jesús vitrast Páli þá hafi hann verið á leiðinni til Damaskus. Sýnina ræðir Páll bæði í Fyrra Korintubréfi (15.8) og í Galatabréfinu (1.15-16), þar sem hann útskýrir hana svo: „En þegar Guði, sem hafði útvalið mig frá móðurlífi og af náð sinni kallað, þóknaðist að opinbera mér son sinn til þess að ég boðaði heiðingjunum fagnaðarerindið um hann, þá ráðgaðist ég ekki við neinn mann.“ Reynsla Páls markaði þáttaskil vegna þess að upp frá henni hóf hann að boða trú á Jesú Krist og fór mjög víða í þeim erindagjörðum. Í Rómverjabréfinu (15.19) segist Páll hafa „lokið því af að boða fagnaðarerindið um Krist alla leið frá Jerúsalem og hringinn til Illýríu.“ Af þessum orðum og öðrum bréfum hans má ráða að Páll hafi ferðast um Sýrland, víða um Litlu-Asíu, Makedóníu, og Akkeu en í dag samsvara þessi svæði Sýrlandi, Tyrklandi og Grikklandi. Í Rómverjabréfinu segist Páll einnig hafa í hyggju að heimsækja kristna söfnuðinn í Róm, höfuðborg rómverska heimsveldisins, og síðar jafnvel alla leið til Spánar (15.28).

Jesús vitrast Páli postula á leið hans til Damaskus. Málverk eftir Hans Speckaert (um 1540 – um 1577), málað um 1570-1577.

Það er ekki einfalt mál að gera grein fyrir innihaldi boðunar Páls og fræðimenn deila enn í dag um hvort hægt sé að greina þungamiðju eða kjarna í guðfræði hans. Ástæðan er sú að bréf Páls eru ekki guðfræðiritgerðir í þeim skilningi að markmið hans hafi verið að gera grein fyrir hugsun sinni með kerfisbundnum hætti. Páll er nefnilega alltaf að skrifa inn í ákveðnar aðstæður. Bréfin eru leið hans til þess að takast á við álitaefni og vandamál sem upp hafa komið í söfnuðunum sem hann stofnaði.

Hér verða tvö atriði valin – af sjálfu leiðir að um valið má deila – til þess að gefa eilitla innsýn í guðfræðihugsun Páls: Í fyrsta lagi er athyglisvert að Páll gerir dauða Jesú Krists algerlega miðlægan fyrir endurlausn allra manna frá syndum. Páll skrifar lítið sem ekkert um líf Jesú og vitnar sárasjaldan í þau orð sem annars staðar eru höfð eftir honum. Fyrir Páli er sú hugmynd langmikilvægust að dauði Jesú og upprisa hans hafi gerbreytandi afleiðingar fyrir þá sem samþykkja boðskapinn sem Páll boðaði. Í öðru lagi er mikilvægt að veita því athygli að Páll var óbifanlegur í þeirri trú að boðskapurinn um Jesú hefði gildi fyrir alla menn, ekki bara Gyðinga eins og ýmsir héldu fram á þessum tíma. Gríska orðið Christos, sem kemur ósjaldan fyrir í skrifum Páls, er þýðing á hebreska orðinu Mashiah, Messíasi. Það voru fáir sem biðu eftir honum aðrir en þeir sem tilheyrðu húsi Ísraels, það er Gyðingar. Þess vegna lenti Páll oft í vandræðum, bæði gagnvart Gyðingum og fólki af öðru þjóðerni, þegar hann hélt þessari skoðun sinni til streitu (sjá til dæmis 11. kafla Síðara Korintubréfs eða 2. kafla Galatabréfsins). En ef hann hefði ekki lagt það á sig er ekki víst að hinn kristni átrúnaður hefði nokkru sinni náð jafn mikilli útbreiðslu og raun ber vitni í dag.

Það síðasta sem heyrðist frá Páli postula var það sem hann skrifaði í Rómverjabréfinu. Ekkert er vitað með vissu um örlög hans. Í þá eyðu og aðrar þær sem skildar eftir eru í bréfum hans hafa margir reynt að fylla. Páll postuli hefur þannig undið upp á sig – ef svo mætti að orði komast – eftir því sem árin hafa liðið. Um það vitna rit af mörgum toga frá ýmsum tímum. Í Nýja testamentinu eru allnokkur bréf sem skrifuð voru í hans nafni af einhverjum sem vildu auka vægi orða sinna með því að eigna þau postulanum. Í Postulasögunni, sem áður hefur verið minnst á, er Páll sá maður sem næst kemst því að vera söguhetjan. Utan Nýja testamentisins er að finna fjöldann allan af sögum um Pál og boðun hans. Sums staðar, til dæmis í Sögunni af Páli og Þeklu er hann dáður af þeim sem hann kemst í kynni við, annars staðar, eins og í Skugga-Klemensarritunum er hann erkióvinurinn. Þessar fjölbreyttu myndir af Páli postula segja okkur mest lítið um hann sjálfan, en þeim mun meira um hversu mikilvægur hann var á bernskuárum kristindómsins. Mikilvægi Páls átti síst eftir að dvína; þess var ekki langt að bíða að bréf hans yrðu kyrfilega fest í helgiritasafn kristinna manna og hann gerður að einum af höfuðdýrlingum þeirrar kirkju sem síðar átti eftir að verða allsráðandi í hinum kristna heimi um alda skeið.

Heimild og myndir:

Höfundur

stundakennari við guðfræði- og trúarbragðafræðideild HÍ

Útgáfudagur

9.1.2013

Spyrjandi

Ragnar Gunnarsson

Tilvísun

Haraldur Hreinsson. „Hver var Páll postuli og hvert var framlag hans til kristinnar trúar?“ Vísindavefurinn, 9. janúar 2013. Sótt 18. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=61127.

Haraldur Hreinsson. (2013, 9. janúar). Hver var Páll postuli og hvert var framlag hans til kristinnar trúar? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=61127

Haraldur Hreinsson. „Hver var Páll postuli og hvert var framlag hans til kristinnar trúar?“ Vísindavefurinn. 9. jan. 2013. Vefsíða. 18. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=61127>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver var Páll postuli og hvert var framlag hans til kristinnar trúar?
Páll postuli er ein af athyglisverðustu og mikilvægustu persónum í sögu kristinna trúarbragða. Það er auðvelt að færa rök fyrir því að með trúboðsstarfi sínu og stofnun söfnuða í löndunum fyrir botni Miðjarðarhafs á 1. öld þessa tímatals hafi hann lagt grunninn að starfi kristinna kirkna allt fram á okkar daga.

Ef ætlunin er að komast að því hver Páll var, það er hvaðan hann var, hvað hann gerði, hvers vegna hann gerði það sem hann gerði og svo framvegis þá liggur beinast við að líta á hvað ráða megi af áreiðanlegustu heimildunum um hann. Traustustu heimildirnar sem til eru um Pál eru án vafa nokkur bréf sem hann skrifaði sjálfur og má finna í Nýja testamentinu. Auk þess að vera helstu heimildir um Pál sjálfan, þá eru þessi bréf einnig elstu varðveittu heimildir um kristin trúarbrögð (að minnsta kosti tíu árum eldri en Markúsarguðspjall, sem er elsta guðspjallið í Nýja testamentinu). Elsta bréfið, Fyrra Þessaloníkubréf var skrifað um árið 50 og yngsta bréfið ef til vill fimm eða sex árum síðar en flestir fræðimenn eru á því að það sé Rómverjabréfið. Önnur bréf sem eignuð eru Páli eru Fyrra og Síðara Korintubréf, Galatabréfið, Fílemonsbréfið og Filippíbréfið.

En hvað má þá segja um Pál á grundvelli bréfanna sem hann skrifaði? Því miður fæst ekki mjög skýr mynd af honum vegna þess að þegar hann skrifaði bréfin var honum alls ekki efst í huga að kynna sjálfan sig. Ef frá er talið Rómverjabréfið, þá var Páll alltaf að skrifa til fólks sem hann þekkti þá þegar og var yfirleitt að takast á við vandamál sem upp höfðu komið í söfnuðunum sem hann hafði stofnað. Í bréfum sínum segir Páll til að mynda aldrei hvaðan hann var eða hvaða menntun hann hafði. Í Postulasögunni, riti í Nýja testamentinu þar sem sagt er frá störfum postulanna fyrstu árin eftir dauða Jesú, segir að Páll hafi verið fæddur í Tarsus í Kilikíu, sem nú er Suður-Tyrkland (21.39; hér og í því sem á eftir kemur vísar fyrri talan til kaflanúmers og hin síðari til versatölu). Þar segir einnig að hann hafi lært hjá frægum rabbína sem hét Gamalíel (22.3) og kunnað til verka sem tjaldgerðarmaður (18.3).

Þessar upplýsingar hafa fylgt umræðu um uppruna postulans frá upphafi, en mikilvægt er að hafa í huga að Postulasagan er skrifuð þegar nokkrir áratugir voru liðnir frá atburðunum sem hún lýsir. Þá er alls óvíst hver tengsl höfundarins voru við Pál ef þau voru einhver. Þess vegna skiptir máli að leyfa bréfunum að tala sínu máli áður en litið er til Postulasögunnar sem er langt í frá jafn áreiðanleg heimild um líf og störf Páls en þau bréf sem hann ritaði eigin hendi.

Páll postuli við skriftir. Málverk frá 17. öld eftir Valentin de Boulogne (1591–1632).

Það er ef til vill gagnlegt að huga að því að bréf Páls gefa ýmislegt til kynna án þess að það sé sagt berum orðum. Til dæmis má benda á þá augljósu staðreynd að Páll kann að lesa og skrifa sem var alls ekki sjálfsagt á þeim tíma sem hann var uppi. Þá hafa fræðimenn sýnt fram á að bréfin eru byggð upp með tilteknum hætti, svokölluðum mælskufræðilegum aðferðum sem var ætlað að gera skrifin sannfærandi. Það gefur til kynna að Páll hafi hlotið nokkurn framgang í skólakerfinu eins og það var uppbyggt í hinum grísk-rómverska menningarheimi. Hann virðist einnig hafa haft góða kunnáttu í sögu og helgiritum gyðingdóms, en ritningarnar gjörþekkti hann og virðist oft vísa í þær eftir minni. Vert er þó að taka fram að Páll notaðist við gríska þýðingu á hebreskum textum Gyðinga, sem jafnan er kölluð Septúaginta. Móðurmál Páls var gríska sem bendir til þess að hann hafi tilheyrt hinni svokölluðu dreifingu (gr. diaspora) sem vísar til þeirra Gyðinga sem bjuggu annars staðar en í Júdeu.

Þessar grófu útlínur koma ágætlega heim og saman við orð Páls sjálfs í bréfum hans en þar segir Páll að sem ungur maður hafi hann lagt sig allan fram um að rækta gyðinglega trú sína og fylgja boðum hennar í hvívetna. Í Galatabréfinu (1.14) segir Páll: „Ég fór lengra í gyðingdóminum en margir jafnaldrar mínir meðal þjóðar minnar og var miklu vandlátari um erfikenningu forfeðra minna.“ Í Filippíbréfinu (3.14) segir hann enn fremur: „Ég var umskorinn á áttunda degi, af kyni Ísraels, ættkvísl Benjamíns, Hebrei af Hebreum, í lögmálshlýðni farísei, svo kappsfullur að ég ofsótti kirkjuna. Ef litið er á réttlætið, sem fæst með lögmálinu, var ég vammlaus.“ Á grundvelli þessara upplýsinga er óhætt að draga upp mynd af Páli sem áköfum og trúföstum Gyðingi úr dreifingunni sem var staðráðinn í að skilja og iðka trú sína í samræmi við ströngustu kröfur sem tíðkuðust á hans tíma. Ákefð hans virðist hafa leitt hann út í að ofsækja átrúnað þann sem hann átti eftir að boða síðar meir.

Straumhvörf urðu í lífi Páls þegar hann varð fyrir þeirri reynslu að Jesús vitraðist honum. Þessi sýn Páls hefur oft verið kölluð Damaskusreynslan vegna þess að í Postulasögunni er greint frá því að þegar Jesús vitrast Páli þá hafi hann verið á leiðinni til Damaskus. Sýnina ræðir Páll bæði í Fyrra Korintubréfi (15.8) og í Galatabréfinu (1.15-16), þar sem hann útskýrir hana svo: „En þegar Guði, sem hafði útvalið mig frá móðurlífi og af náð sinni kallað, þóknaðist að opinbera mér son sinn til þess að ég boðaði heiðingjunum fagnaðarerindið um hann, þá ráðgaðist ég ekki við neinn mann.“ Reynsla Páls markaði þáttaskil vegna þess að upp frá henni hóf hann að boða trú á Jesú Krist og fór mjög víða í þeim erindagjörðum. Í Rómverjabréfinu (15.19) segist Páll hafa „lokið því af að boða fagnaðarerindið um Krist alla leið frá Jerúsalem og hringinn til Illýríu.“ Af þessum orðum og öðrum bréfum hans má ráða að Páll hafi ferðast um Sýrland, víða um Litlu-Asíu, Makedóníu, og Akkeu en í dag samsvara þessi svæði Sýrlandi, Tyrklandi og Grikklandi. Í Rómverjabréfinu segist Páll einnig hafa í hyggju að heimsækja kristna söfnuðinn í Róm, höfuðborg rómverska heimsveldisins, og síðar jafnvel alla leið til Spánar (15.28).

Jesús vitrast Páli postula á leið hans til Damaskus. Málverk eftir Hans Speckaert (um 1540 – um 1577), málað um 1570-1577.

Það er ekki einfalt mál að gera grein fyrir innihaldi boðunar Páls og fræðimenn deila enn í dag um hvort hægt sé að greina þungamiðju eða kjarna í guðfræði hans. Ástæðan er sú að bréf Páls eru ekki guðfræðiritgerðir í þeim skilningi að markmið hans hafi verið að gera grein fyrir hugsun sinni með kerfisbundnum hætti. Páll er nefnilega alltaf að skrifa inn í ákveðnar aðstæður. Bréfin eru leið hans til þess að takast á við álitaefni og vandamál sem upp hafa komið í söfnuðunum sem hann stofnaði.

Hér verða tvö atriði valin – af sjálfu leiðir að um valið má deila – til þess að gefa eilitla innsýn í guðfræðihugsun Páls: Í fyrsta lagi er athyglisvert að Páll gerir dauða Jesú Krists algerlega miðlægan fyrir endurlausn allra manna frá syndum. Páll skrifar lítið sem ekkert um líf Jesú og vitnar sárasjaldan í þau orð sem annars staðar eru höfð eftir honum. Fyrir Páli er sú hugmynd langmikilvægust að dauði Jesú og upprisa hans hafi gerbreytandi afleiðingar fyrir þá sem samþykkja boðskapinn sem Páll boðaði. Í öðru lagi er mikilvægt að veita því athygli að Páll var óbifanlegur í þeirri trú að boðskapurinn um Jesú hefði gildi fyrir alla menn, ekki bara Gyðinga eins og ýmsir héldu fram á þessum tíma. Gríska orðið Christos, sem kemur ósjaldan fyrir í skrifum Páls, er þýðing á hebreska orðinu Mashiah, Messíasi. Það voru fáir sem biðu eftir honum aðrir en þeir sem tilheyrðu húsi Ísraels, það er Gyðingar. Þess vegna lenti Páll oft í vandræðum, bæði gagnvart Gyðingum og fólki af öðru þjóðerni, þegar hann hélt þessari skoðun sinni til streitu (sjá til dæmis 11. kafla Síðara Korintubréfs eða 2. kafla Galatabréfsins). En ef hann hefði ekki lagt það á sig er ekki víst að hinn kristni átrúnaður hefði nokkru sinni náð jafn mikilli útbreiðslu og raun ber vitni í dag.

Það síðasta sem heyrðist frá Páli postula var það sem hann skrifaði í Rómverjabréfinu. Ekkert er vitað með vissu um örlög hans. Í þá eyðu og aðrar þær sem skildar eftir eru í bréfum hans hafa margir reynt að fylla. Páll postuli hefur þannig undið upp á sig – ef svo mætti að orði komast – eftir því sem árin hafa liðið. Um það vitna rit af mörgum toga frá ýmsum tímum. Í Nýja testamentinu eru allnokkur bréf sem skrifuð voru í hans nafni af einhverjum sem vildu auka vægi orða sinna með því að eigna þau postulanum. Í Postulasögunni, sem áður hefur verið minnst á, er Páll sá maður sem næst kemst því að vera söguhetjan. Utan Nýja testamentisins er að finna fjöldann allan af sögum um Pál og boðun hans. Sums staðar, til dæmis í Sögunni af Páli og Þeklu er hann dáður af þeim sem hann kemst í kynni við, annars staðar, eins og í Skugga-Klemensarritunum er hann erkióvinurinn. Þessar fjölbreyttu myndir af Páli postula segja okkur mest lítið um hann sjálfan, en þeim mun meira um hversu mikilvægur hann var á bernskuárum kristindómsins. Mikilvægi Páls átti síst eftir að dvína; þess var ekki langt að bíða að bréf hans yrðu kyrfilega fest í helgiritasafn kristinna manna og hann gerður að einum af höfuðdýrlingum þeirrar kirkju sem síðar átti eftir að verða allsráðandi í hinum kristna heimi um alda skeið.

Heimild og myndir:

...