Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Hver var Simone de Beauvoir og hvert var framlag hennar til heimspekinnar?

Sigríður Þorgeirsdóttir

Simone de Beauvoir (1908-1986) var franskur heimspekingur, rithöfundur og femínisti. Rit hennar Hitt kynið sem kom út árið 1949 er í hópi áhrifamestu bóka 20. aldar og er talið hafa átt stóran þátt í að hrinda af stað því sem kallað er „önnur bylgja“ femínismans. Beauvoir gaf út skáldverk, heimspekirit og rit um samfélag, menningu og pólitík. Nafn hennar er einnig órofa tengt tilvistarspekinni sem hún og annar franskur heimspekingur og rithöfundur, Jean-Paul Sartre (1905-1980), áttu stóran þátt í að móta og miðla. Engu að síður var Beauvoir framan af minna þekkt fyrir heimspeki sína en önnur hugverk sín og það var ekki fyrr en eftir dauða hennar að rannsóknir á heimspekilegu verki hennar hófust af alvöru. Beauvoir ýtti reyndar sjálf undir afskiptaleysi af eigin heimspeki með því að lýsa sér sem hugsuði undir áhrifum af heimspeki Sartre. Engu að síður hafa síðari tíma rannsóknir á heimspeki hennar dregið hana út úr skugga Sartres bæði með því að sýna sérstöðu hugsunar og aðferða hennar sem og að varpa ljósi á þau áhrif sem hún hafði á heimspeki Sartres. Á undanförnum árum hafa komið út fjölmargar bækur og greinar um þetta framlag Beauvoir til heimspekilegrar siðfræði, tilvistarspeki, fyrirbærafræði og femínskra fræða. Er nú svo komið að ekki er unnt að veita yfirlit yfir vestræna heimspeki 20. aldar án þess að gefa gaum að kenningum hennar um viðfangsefni á borð við „hina“, líkamann, frelsi, illsku, ofbeldi, ábyrgð gagnvart öðrum, örlæti og siðfræði skáldskapar, svo aðeins það helsta sé nefnt.

Simone de Beauvoir (1908-1986).

Beauvoir nam heimspeki við Sorbonne-háskólann og fjallaði lokaritgerð hennar um þýska heimspekinginn Leibniz (1646-1716). Framan af í náminu var hún var samferða tveimur öðrum merkum frönskum fræðimönnum, Maurice Merleau-Ponty (1908-1961) og Claude Lévi-Strauss (1908-2009), en þegar hún var að undirbúa sig undir „agrégation“-próf í heimspeki kynntist hún Sartre, sem prófnefndin úrskurðaði efstan í prófinu, rétt á undan Beauvoir sem varð í öðru sæti. Persónulegt samband þeirra Sartre og Beauvoir olli miklu umtali og hneykslun á sínum tíma, en þau kusu að löghelga það ekki og áttu sér einnig aðra elskhuga. Í skáldsögum Beauvoir er meðal annars fjallað um ástarþríhyrninga sem drógu dám af eigin reynslu. Ævisöguritarar greina einnig frá nánum tengslum Beauvoir við kvennemendur þegar hún var ungur menntaskólakennari.

Í fyrstu heimspekiritum sínum fjallar Beauvoir um tilvistarleg tengsl okkar við okkur sjálf og siðfræðilegt inntak þeirra. Þessi rit byggja á fyrirbærafræðilegri greiningu á veru manna í heiminum og þeim aðstæðum og félagslegu tengslum sem einkenna hana. Beauvoir veltir meðal annars fyrir sér siðfræði félagslegra samskipta og var skilningur hennar á siðverunni hvað þetta varðar um margt raunsærri en skilningur Sartres. Að vera maður jafngildir því að vera frjáls til að velja, en valinu eru einnig takmörk sett af valfrelsi annarra manna og þeim veraldlegu aðstæðum sem við búum við. Ábyrgð okkar gagnvart öðrum felst í því að styðja við mennsku þeirra og við þurfum að sama skapi á öðrum að halda til að geta framfylgt vali okkar. Huggun okkar mannanna sem dauðlegra vera felst í því að aðrir taki upp merki okkar og beri það með einhverjum hætti áfram.

Hernám Frakklands af hálfu Þjóðverja í seinni heimsstyrjöldinni opnaði augu Beauvoir fyrir því að til að gera grein fyrir siðfræði félagstengsla mannsins mætti ekki einskorða sig við einstaklinginn og samskipti hans við aðra einstaklinga. Hún komst að raun um að maðurinn stæði frammi fyrir því vali að taka afstöðu með eða á móti illum öflum eins og hún fjallaði um í verki sínu um Siðfræði tvíræðninnar. Þar sem tilvistarspekin tekur þessa grundvallarafstöðu okkar til annarra alvarlega er hún, að dómi Beauvoir, eina heimspekin sem getur höndlað fyrirbrigði á borð við illsku og veitt andsvar við tómhyggju, það er þeirri afstöðu að ef guð er dauður sé allt leyfilegt. Illskan, segir Beauvoir, felst í því að afneita eigin frelsi og frelsi annarra. Það er undir okkur komið að tryggja efnisleg og pólitísk skilyrði frelsisins. Það er enn fremur ógerningur að vera frjáls og verja eigið frelsi án þess að árétta jafnframt frelsi hinna. Við mótun þessara kenninga leitaði Beauvoir fanga í greiningu Hegels (1770-1831) á eðli millimannlegrar og félagslegrar viðurkenningar og rannsóknum Husserls (1859-1938) á vitund mannsins. Í framhaldinu túlkar Beauvoir ástríðuna sem býr að baki siðlegri hegðun sem örlæti. Örlæti mitt felst í því að skynja frelsi „hinnar“ og að vera meðvitaður um að hún er okkur ævinlega að einhverju leyti hulin í annarleika sínum. Við getum aldrei skilið hina til fulls því það myndi jafngilda því að gera hana að viðfangi eigin vilja og vanvirða þannig frelsi hennar. Annarleikinn eða mismunurinn í sambandi manna gerir að verkum að samskipti fela í senn í sér áhættu og vaxtarmöguleika.

Simone de Beauvoir og Jean-Paul Sartre. Persónulegt samband þeirra olli miklu umtali og hneykslun á sínum tíma, en þau kusu að löghelga það ekki og áttu sér einnig aðra elskhuga.

Í Hinu kyninu beitir Beauvoir kenningunni um hinn/hina í því skyni að greina stöðu kvenna í vestrænni menningarsögu. Bein þýðing á Le Deuxième Sexe er „annað kynið“ og vísar til þeirrar afstöðu að kvenkyn sé leitt af hinu eina og algilda karlkyni og þannig „afleitt“ frávik sem stendur karlkyni að baki. Þessi afstaða birtist ekki aðeins í beinni kúgun eða kvenfyrirlitningu, heldur ekki síður í því að í menningarsögunni hafa konur iðulega verið sveipaðar dulúð og settar fram margvíslegar kenningar um eðlislægan kvenleika. Beauvoir heggur að rótum þessarar eðlishyggju með hinni fleygu setningu að „maður fæðist ekki kona heldur verður kona“. Með þessu á hún við að ekki séu til einhverjir eilífir og óbreytanlegir eiginleikar sem einkenni allar konur á öllum tímum og öllum stöðum heldur eru það öðru fremur menningin og samfélagið sem móta kynin og skilgreina eiginleika þeirra. Með greiningu sinni bjó Beauvoir í haginn fyrir síðari tíma aðgreiningu félagsmótunarkenninga á kyni og kyngervi. Í anda siðfræði tilvistarstefnunnar boðaði hún að konur þyrftu að losa sig undan kúgandi skilgreiningum menningar og samfélags. Markmiðið með þessu er ekki að konur taki sér þá eiginleika sem hingað til hafa verið eignaðir körlum heldur miklu fremur að hvetja þær til að nýta sér frelsi sitt til að skilgreina sig sjálfar. Konur hafi hingað til ekki þurft að skilgreina sig sem hóp þrátt fyrir að hafa verið í stöðu hins, líkt og aðrir kúgaðir hópar hafa þurft að gera, en Beauvoir beitti kenningu sinni einnig til að greina stöðu gyðinga, blökkumanna, aldraðra, kúgaðra þjóðfélagsstétta og annarra hópa sem búa við mismunun. Bók hennar um öldrun sem var ein fyrsta fræðilega úttektin á þessu aldursskeiði er greining á hvernig roskið fólk og aldrað er útsett „öðrun“ og „jöðrun“.

Beauvoir boðar að gagnkvæm viðurkenning milli hópa og milli kynjanna sé möguleg. Hún eygir vísi að slíku í ástarsamböndum þar sem báðir aðilar öðlast reynslu af tvíræðri stöðu mannsins þegar þeir upplifa sjálfa sig í senn sem hold og sál og sem sjálf og hinn. Í skrifum sínum um Sade markgreifa greinir hún hvernig hann kom auga á hvernig kúgarinn og hinn kúgaði endurspegla einmitt þá staðreynd að við erum í fjötrum holdsins en um leið frjáls. Sade afskræmir hins vegar ástarsambandið með því að smætta það í samspil yfirráða og undirgefni. Að dómi Beauvoir fyrirgerir hann þannig möguleikanum á því að ná til hins. Samskipti ástarinnar einkennast af því að gefa sig öðrum á vald sem opinberar áhættu, varnarleysi og það sem Beauvoir nefnir ákall. Þetta ákall er siðferðilegs eðlis vegna þess að það er ákall um að virða mennsku hins og sýna honum réttlæti. Í veröld þar sem allstaðar er að finna vanvirðingu, kúgun og misnotkun þeirra sem lenda í stöðu „hins“ er heimspekileg greining Beauvoir eitt allsherjarákall um heim sem getur hafið sig upp yfir ofbeldi gagnvart öllum þessum „hinum“.

Heimildir:

  • Debra Bergoffen, Simone de Beauvoir, Stanford Encyclopedia of Philosophy.
  • Irma Erlingsdóttir og Sigríður Þorgeirsdóttir (ritstj.), Simone de Beauvoir, heimspekingur, rithöfundur, femínisti. Háskólaútgáfan, 1999.
  • Eva Lundgren-Gothlin, Sex and Existence: Simone de Beauvoir's The Second Sex, Hanover, Wesleyan University Press, 1996.
  • Hazel Rowley, Tête-à-Tête: Simone de Beauvoir and Jean-Paul Sartre, New York, Harper, 2005.

Verk Beauvoir sem einkum er vísað til:

  • Pyrrhus et Cinéas, Paris, Gallimard, 1944.
  • Pour une morale de l'ambigüité, Paris, Gallimard, 1947.
  • Le Deuxième sexe, Paris, Gallimard, 1949.
  • “Faut-il brûler Sade?”, Les Temps modernes, 1951, 74: 1002-33.
  • “Faut-il brûler Sade?”, Les Temps modernes, 1952, 75: 1197-230.
  • La Vieillesse, Paris, Gallimard, 1970.
  • Allir menn eru dauðlegir, Jón Óskar þýddi, Ísafold, 1982.

Myndir:
  • Beauvoir: Spiegel. Sótt 28. 12. 2011.
  • Beauvoir and Sartre: The Age. Sótt 28. 12. 2011.

Höfundur

prófessor í heimspeki við HÍ

Útgáfudagur

29.12.2011

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Sigríður Þorgeirsdóttir. „Hver var Simone de Beauvoir og hvert var framlag hennar til heimspekinnar?“ Vísindavefurinn, 29. desember 2011. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=61567.

Sigríður Þorgeirsdóttir. (2011, 29. desember). Hver var Simone de Beauvoir og hvert var framlag hennar til heimspekinnar? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=61567

Sigríður Þorgeirsdóttir. „Hver var Simone de Beauvoir og hvert var framlag hennar til heimspekinnar?“ Vísindavefurinn. 29. des. 2011. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=61567>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver var Simone de Beauvoir og hvert var framlag hennar til heimspekinnar?
Simone de Beauvoir (1908-1986) var franskur heimspekingur, rithöfundur og femínisti. Rit hennar Hitt kynið sem kom út árið 1949 er í hópi áhrifamestu bóka 20. aldar og er talið hafa átt stóran þátt í að hrinda af stað því sem kallað er „önnur bylgja“ femínismans. Beauvoir gaf út skáldverk, heimspekirit og rit um samfélag, menningu og pólitík. Nafn hennar er einnig órofa tengt tilvistarspekinni sem hún og annar franskur heimspekingur og rithöfundur, Jean-Paul Sartre (1905-1980), áttu stóran þátt í að móta og miðla. Engu að síður var Beauvoir framan af minna þekkt fyrir heimspeki sína en önnur hugverk sín og það var ekki fyrr en eftir dauða hennar að rannsóknir á heimspekilegu verki hennar hófust af alvöru. Beauvoir ýtti reyndar sjálf undir afskiptaleysi af eigin heimspeki með því að lýsa sér sem hugsuði undir áhrifum af heimspeki Sartre. Engu að síður hafa síðari tíma rannsóknir á heimspeki hennar dregið hana út úr skugga Sartres bæði með því að sýna sérstöðu hugsunar og aðferða hennar sem og að varpa ljósi á þau áhrif sem hún hafði á heimspeki Sartres. Á undanförnum árum hafa komið út fjölmargar bækur og greinar um þetta framlag Beauvoir til heimspekilegrar siðfræði, tilvistarspeki, fyrirbærafræði og femínskra fræða. Er nú svo komið að ekki er unnt að veita yfirlit yfir vestræna heimspeki 20. aldar án þess að gefa gaum að kenningum hennar um viðfangsefni á borð við „hina“, líkamann, frelsi, illsku, ofbeldi, ábyrgð gagnvart öðrum, örlæti og siðfræði skáldskapar, svo aðeins það helsta sé nefnt.

Simone de Beauvoir (1908-1986).

Beauvoir nam heimspeki við Sorbonne-háskólann og fjallaði lokaritgerð hennar um þýska heimspekinginn Leibniz (1646-1716). Framan af í náminu var hún var samferða tveimur öðrum merkum frönskum fræðimönnum, Maurice Merleau-Ponty (1908-1961) og Claude Lévi-Strauss (1908-2009), en þegar hún var að undirbúa sig undir „agrégation“-próf í heimspeki kynntist hún Sartre, sem prófnefndin úrskurðaði efstan í prófinu, rétt á undan Beauvoir sem varð í öðru sæti. Persónulegt samband þeirra Sartre og Beauvoir olli miklu umtali og hneykslun á sínum tíma, en þau kusu að löghelga það ekki og áttu sér einnig aðra elskhuga. Í skáldsögum Beauvoir er meðal annars fjallað um ástarþríhyrninga sem drógu dám af eigin reynslu. Ævisöguritarar greina einnig frá nánum tengslum Beauvoir við kvennemendur þegar hún var ungur menntaskólakennari.

Í fyrstu heimspekiritum sínum fjallar Beauvoir um tilvistarleg tengsl okkar við okkur sjálf og siðfræðilegt inntak þeirra. Þessi rit byggja á fyrirbærafræðilegri greiningu á veru manna í heiminum og þeim aðstæðum og félagslegu tengslum sem einkenna hana. Beauvoir veltir meðal annars fyrir sér siðfræði félagslegra samskipta og var skilningur hennar á siðverunni hvað þetta varðar um margt raunsærri en skilningur Sartres. Að vera maður jafngildir því að vera frjáls til að velja, en valinu eru einnig takmörk sett af valfrelsi annarra manna og þeim veraldlegu aðstæðum sem við búum við. Ábyrgð okkar gagnvart öðrum felst í því að styðja við mennsku þeirra og við þurfum að sama skapi á öðrum að halda til að geta framfylgt vali okkar. Huggun okkar mannanna sem dauðlegra vera felst í því að aðrir taki upp merki okkar og beri það með einhverjum hætti áfram.

Hernám Frakklands af hálfu Þjóðverja í seinni heimsstyrjöldinni opnaði augu Beauvoir fyrir því að til að gera grein fyrir siðfræði félagstengsla mannsins mætti ekki einskorða sig við einstaklinginn og samskipti hans við aðra einstaklinga. Hún komst að raun um að maðurinn stæði frammi fyrir því vali að taka afstöðu með eða á móti illum öflum eins og hún fjallaði um í verki sínu um Siðfræði tvíræðninnar. Þar sem tilvistarspekin tekur þessa grundvallarafstöðu okkar til annarra alvarlega er hún, að dómi Beauvoir, eina heimspekin sem getur höndlað fyrirbrigði á borð við illsku og veitt andsvar við tómhyggju, það er þeirri afstöðu að ef guð er dauður sé allt leyfilegt. Illskan, segir Beauvoir, felst í því að afneita eigin frelsi og frelsi annarra. Það er undir okkur komið að tryggja efnisleg og pólitísk skilyrði frelsisins. Það er enn fremur ógerningur að vera frjáls og verja eigið frelsi án þess að árétta jafnframt frelsi hinna. Við mótun þessara kenninga leitaði Beauvoir fanga í greiningu Hegels (1770-1831) á eðli millimannlegrar og félagslegrar viðurkenningar og rannsóknum Husserls (1859-1938) á vitund mannsins. Í framhaldinu túlkar Beauvoir ástríðuna sem býr að baki siðlegri hegðun sem örlæti. Örlæti mitt felst í því að skynja frelsi „hinnar“ og að vera meðvitaður um að hún er okkur ævinlega að einhverju leyti hulin í annarleika sínum. Við getum aldrei skilið hina til fulls því það myndi jafngilda því að gera hana að viðfangi eigin vilja og vanvirða þannig frelsi hennar. Annarleikinn eða mismunurinn í sambandi manna gerir að verkum að samskipti fela í senn í sér áhættu og vaxtarmöguleika.

Simone de Beauvoir og Jean-Paul Sartre. Persónulegt samband þeirra olli miklu umtali og hneykslun á sínum tíma, en þau kusu að löghelga það ekki og áttu sér einnig aðra elskhuga.

Í Hinu kyninu beitir Beauvoir kenningunni um hinn/hina í því skyni að greina stöðu kvenna í vestrænni menningarsögu. Bein þýðing á Le Deuxième Sexe er „annað kynið“ og vísar til þeirrar afstöðu að kvenkyn sé leitt af hinu eina og algilda karlkyni og þannig „afleitt“ frávik sem stendur karlkyni að baki. Þessi afstaða birtist ekki aðeins í beinni kúgun eða kvenfyrirlitningu, heldur ekki síður í því að í menningarsögunni hafa konur iðulega verið sveipaðar dulúð og settar fram margvíslegar kenningar um eðlislægan kvenleika. Beauvoir heggur að rótum þessarar eðlishyggju með hinni fleygu setningu að „maður fæðist ekki kona heldur verður kona“. Með þessu á hún við að ekki séu til einhverjir eilífir og óbreytanlegir eiginleikar sem einkenni allar konur á öllum tímum og öllum stöðum heldur eru það öðru fremur menningin og samfélagið sem móta kynin og skilgreina eiginleika þeirra. Með greiningu sinni bjó Beauvoir í haginn fyrir síðari tíma aðgreiningu félagsmótunarkenninga á kyni og kyngervi. Í anda siðfræði tilvistarstefnunnar boðaði hún að konur þyrftu að losa sig undan kúgandi skilgreiningum menningar og samfélags. Markmiðið með þessu er ekki að konur taki sér þá eiginleika sem hingað til hafa verið eignaðir körlum heldur miklu fremur að hvetja þær til að nýta sér frelsi sitt til að skilgreina sig sjálfar. Konur hafi hingað til ekki þurft að skilgreina sig sem hóp þrátt fyrir að hafa verið í stöðu hins, líkt og aðrir kúgaðir hópar hafa þurft að gera, en Beauvoir beitti kenningu sinni einnig til að greina stöðu gyðinga, blökkumanna, aldraðra, kúgaðra þjóðfélagsstétta og annarra hópa sem búa við mismunun. Bók hennar um öldrun sem var ein fyrsta fræðilega úttektin á þessu aldursskeiði er greining á hvernig roskið fólk og aldrað er útsett „öðrun“ og „jöðrun“.

Beauvoir boðar að gagnkvæm viðurkenning milli hópa og milli kynjanna sé möguleg. Hún eygir vísi að slíku í ástarsamböndum þar sem báðir aðilar öðlast reynslu af tvíræðri stöðu mannsins þegar þeir upplifa sjálfa sig í senn sem hold og sál og sem sjálf og hinn. Í skrifum sínum um Sade markgreifa greinir hún hvernig hann kom auga á hvernig kúgarinn og hinn kúgaði endurspegla einmitt þá staðreynd að við erum í fjötrum holdsins en um leið frjáls. Sade afskræmir hins vegar ástarsambandið með því að smætta það í samspil yfirráða og undirgefni. Að dómi Beauvoir fyrirgerir hann þannig möguleikanum á því að ná til hins. Samskipti ástarinnar einkennast af því að gefa sig öðrum á vald sem opinberar áhættu, varnarleysi og það sem Beauvoir nefnir ákall. Þetta ákall er siðferðilegs eðlis vegna þess að það er ákall um að virða mennsku hins og sýna honum réttlæti. Í veröld þar sem allstaðar er að finna vanvirðingu, kúgun og misnotkun þeirra sem lenda í stöðu „hins“ er heimspekileg greining Beauvoir eitt allsherjarákall um heim sem getur hafið sig upp yfir ofbeldi gagnvart öllum þessum „hinum“.

Heimildir:

  • Debra Bergoffen, Simone de Beauvoir, Stanford Encyclopedia of Philosophy.
  • Irma Erlingsdóttir og Sigríður Þorgeirsdóttir (ritstj.), Simone de Beauvoir, heimspekingur, rithöfundur, femínisti. Háskólaútgáfan, 1999.
  • Eva Lundgren-Gothlin, Sex and Existence: Simone de Beauvoir's The Second Sex, Hanover, Wesleyan University Press, 1996.
  • Hazel Rowley, Tête-à-Tête: Simone de Beauvoir and Jean-Paul Sartre, New York, Harper, 2005.

Verk Beauvoir sem einkum er vísað til:

  • Pyrrhus et Cinéas, Paris, Gallimard, 1944.
  • Pour une morale de l'ambigüité, Paris, Gallimard, 1947.
  • Le Deuxième sexe, Paris, Gallimard, 1949.
  • “Faut-il brûler Sade?”, Les Temps modernes, 1951, 74: 1002-33.
  • “Faut-il brûler Sade?”, Les Temps modernes, 1952, 75: 1197-230.
  • La Vieillesse, Paris, Gallimard, 1970.
  • Allir menn eru dauðlegir, Jón Óskar þýddi, Ísafold, 1982.

Myndir:
  • Beauvoir: Spiegel. Sótt 28. 12. 2011.
  • Beauvoir and Sartre: The Age. Sótt 28. 12. 2011.

...