Sólin Sólin Rís 05:19 • sest 21:35 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:18 • Sest 04:56 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:07 • Síðdegis: 19:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:08 • Síðdegis: 13:14 í Reykjavík

Hvenær komu klukkur til Íslands og hvernig vissu menn hvað tímanum leið áður en þær komu til sögunnar?

Birna Lárusdóttir

Sjálfvirkar stundaklukkur, það er klukkur sem miða við mínútur og klukkustundir, litu dagsins ljós suður í Evrópu á 14. öld og voru helst í stórum dómkirkjum. Þær voru ekki framleiddar til einkanota fyrr en um 1500. Klukkur voru sjaldgæfar hér á landi framan af en þó er talið að slíkur gripur hafi verið í eigu Hólastóls á seinni hluta 16. aldar og einnig er nefnd stundaklukkan stóra í Skálholti á 17. öld. Fyrsta almenningsklukkan hér á landi var sett í turn Dómkirkjunnar í Reykjavík árið 1848.

Almenningsklukkan á Lækjartorgi.

Klukkur voru sjaldgæfar meðal almennings lengi framan af en tóku þó að breiðast út á síðasta fjórðungi 19. aldar. Þetta munu hafa verið bæði heimilisklukkur og vasaúr, forverar armbandsúranna. Elsta vasaúr sem varðveitt er á Þjóðminjasafninu er frá því um 1700 og talið að afkomendur Þórðar Þorlákssonar biskups hafi átt það. Armbandsúr komu á hinn bóginn ekki til sögunnar fyrr en mun síðar og eru naumast talin algeng fyrr en eftir fyrri heimsstyrjöld.

Þótt klukkur yrðu ekki algengar fyrr en á 19. öld höfðu menn ýmsar aðrar aðferðir til að vita hvað tímanum leið. Stundaglasa eða tímaglasa er getið í heimildum á 17. og 18. öld og talið er að þau hafi flust í einhverjum mæli til landsins eftir 1760 þótt þau hafi sennilega fyrst og fremst verið notuð til að mæla stutta stund í einu. Gera má ráð fyrir að tímaviðmið alþýðunnar hafi fyrst og fremst verið náttúruleg. Slík viðmið geta verið af ýmsu tagi, til dæmis flóð og fjara hjá þeim sem bjuggu við sjávarsíðuna, eða gangur himintungla og stjarna. Oft eru litlar vísbendingar um slíkar tímamælingar í dag en helst má þó nefna eyktamörk sem eru fastir staðir í landslagi sem sólina ber í á vissum tímum dags.

Vörður voru stundum hlaðnar til að merkja tilteknar eyktir. Hér sést varða á Nónholti á bænum Tungu í Svínadal. ©Fornleifastofnun Íslands

Eyktamörk eru oft náttúruleg og helsta vísbendingin um þau eru örnefni sem vísa til eykta, til dæmis Dagmálahnúkur, Nónhæð eða Miðmorgunsás. Stundum hafa þó vörður verið hlaðnar til að merkja tilteknar eyktir. Það ber að taka fram að sérhver bær eða dvalarstaður þarf að hafa sín eigin eyktamörk sem eru miðuð út frá honum, enda breytist sjónarhorn á slíka punkta þegar frá bænum er komið. Frekari upplýsingar um sögu tímamælinga á Íslandi má nálgast á vef Þjóðminjasafns Íslands.

Árna Björnssyni er þökkuð aðstoð við gerð svarsins.

Heimild:
  • Árni Björnsson. 1990. Tímamælar. Íslensk þjóðmenning VII, bls. 85-91.

Myndir:

Upphaflega hljómaði spurningin svo:
Hvenær komu klukkur til Íslands?

Höfundur

Birna Lárusdóttir

fornleifafræðingur og sérfræðingur hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum

Útgáfudagur

14.3.2012

Spyrjandi

Þorsteinn Davíð Stefánsson, f. 1998

Tilvísun

Birna Lárusdóttir. „Hvenær komu klukkur til Íslands og hvernig vissu menn hvað tímanum leið áður en þær komu til sögunnar?“ Vísindavefurinn, 14. mars 2012. Sótt 25. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=62068.

Birna Lárusdóttir. (2012, 14. mars). Hvenær komu klukkur til Íslands og hvernig vissu menn hvað tímanum leið áður en þær komu til sögunnar? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=62068

Birna Lárusdóttir. „Hvenær komu klukkur til Íslands og hvernig vissu menn hvað tímanum leið áður en þær komu til sögunnar?“ Vísindavefurinn. 14. mar. 2012. Vefsíða. 25. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=62068>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvenær komu klukkur til Íslands og hvernig vissu menn hvað tímanum leið áður en þær komu til sögunnar?
Sjálfvirkar stundaklukkur, það er klukkur sem miða við mínútur og klukkustundir, litu dagsins ljós suður í Evrópu á 14. öld og voru helst í stórum dómkirkjum. Þær voru ekki framleiddar til einkanota fyrr en um 1500. Klukkur voru sjaldgæfar hér á landi framan af en þó er talið að slíkur gripur hafi verið í eigu Hólastóls á seinni hluta 16. aldar og einnig er nefnd stundaklukkan stóra í Skálholti á 17. öld. Fyrsta almenningsklukkan hér á landi var sett í turn Dómkirkjunnar í Reykjavík árið 1848.

Almenningsklukkan á Lækjartorgi.

Klukkur voru sjaldgæfar meðal almennings lengi framan af en tóku þó að breiðast út á síðasta fjórðungi 19. aldar. Þetta munu hafa verið bæði heimilisklukkur og vasaúr, forverar armbandsúranna. Elsta vasaúr sem varðveitt er á Þjóðminjasafninu er frá því um 1700 og talið að afkomendur Þórðar Þorlákssonar biskups hafi átt það. Armbandsúr komu á hinn bóginn ekki til sögunnar fyrr en mun síðar og eru naumast talin algeng fyrr en eftir fyrri heimsstyrjöld.

Þótt klukkur yrðu ekki algengar fyrr en á 19. öld höfðu menn ýmsar aðrar aðferðir til að vita hvað tímanum leið. Stundaglasa eða tímaglasa er getið í heimildum á 17. og 18. öld og talið er að þau hafi flust í einhverjum mæli til landsins eftir 1760 þótt þau hafi sennilega fyrst og fremst verið notuð til að mæla stutta stund í einu. Gera má ráð fyrir að tímaviðmið alþýðunnar hafi fyrst og fremst verið náttúruleg. Slík viðmið geta verið af ýmsu tagi, til dæmis flóð og fjara hjá þeim sem bjuggu við sjávarsíðuna, eða gangur himintungla og stjarna. Oft eru litlar vísbendingar um slíkar tímamælingar í dag en helst má þó nefna eyktamörk sem eru fastir staðir í landslagi sem sólina ber í á vissum tímum dags.

Vörður voru stundum hlaðnar til að merkja tilteknar eyktir. Hér sést varða á Nónholti á bænum Tungu í Svínadal. ©Fornleifastofnun Íslands

Eyktamörk eru oft náttúruleg og helsta vísbendingin um þau eru örnefni sem vísa til eykta, til dæmis Dagmálahnúkur, Nónhæð eða Miðmorgunsás. Stundum hafa þó vörður verið hlaðnar til að merkja tilteknar eyktir. Það ber að taka fram að sérhver bær eða dvalarstaður þarf að hafa sín eigin eyktamörk sem eru miðuð út frá honum, enda breytist sjónarhorn á slíka punkta þegar frá bænum er komið. Frekari upplýsingar um sögu tímamælinga á Íslandi má nálgast á vef Þjóðminjasafns Íslands.

Árna Björnssyni er þökkuð aðstoð við gerð svarsins.

Heimild:
  • Árni Björnsson. 1990. Tímamælar. Íslensk þjóðmenning VII, bls. 85-91.

Myndir:

Upphaflega hljómaði spurningin svo:
Hvenær komu klukkur til Íslands?
...