Sólin Sólin Rís 05:22 • sest 21:31 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 23:11 • Sest 05:11 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:38 • Síðdegis: 18:56 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:39 • Síðdegis: 12:46 í Reykjavík

Ég sá í textavarpinu þann 29. maí að í næstu viku færi Venus fyrir sól miðað við jörð, líkt og um sólmyrkva væri að ræða. Hvaða fyrirbæri er hér á ferðinni?

Stjörnufræðivefurinn

Hér er um þvergöngu Venusar að ræða. Þverganga nefnist það þegar reikistjarna gengur þvert fyrir sólina frá jörðu séð. Slíkir atburðir eru frekar sjaldgæfir en þannig gengur Venus fyrir sólina á 105,5 eða 121,5 ára fresti og þá tvisvar með átta ára millibili. Seinast gekk Venus fyrir sól árið 2004 og sást sú þverganga vel frá Íslandi, sjá umfjöllun á Stjörnufræðivefnum.1

Hér má sjá feril Venusar eftir sólinni.

Þriðjudagskvöldið 5. júní og aðfaranótt miðvikudags 6. júní 2012, gengur Venus í síðasta sinn fyrir sólina á 21. öld. Þvergangan hefst þegar Venus snertir vinstri rönd sólar, ofarlega á skífunni, klukkan 22:04 en þá er sólin lágt á norðvesturhimni. Henni lýkur svo klukkan 04:54 þegar sólin er lágt í norðaustri, samkvæmt upplýsingum úr Almanaki Háskóla Íslands. Þar kemur einnig fram að Reykjavík er eina borgin í heiminum þar sem sólin sest og rís aftur á meðan þvergangan stendur yfir.

Þvergangan stendur yfir í rúmar 6 klukkustundir frá því að reikistjarnan ber fyrst við skífu sólar og þar til hún er komin út fyrir hana aftur. Á þeim tíma sést Venus sem lítill svartur blettur sem hylur 3% sólskífunnar og færist löturhægt yfir hana. Þvergangan svipar til sólmyrkva en þar sem Venus er miklu lengra frá jörðinni en tunglið, sýnist hún miklu smærri og ferðast mun hægar yfir.

Þvergangan sést frá rúmum helmingi jarðarinnar, best frá vestanverðu Kyrrahafi og í austanverðri Asíu og Ástralíu. Íslendingar eru ágætlega staðsettir en landið er hið eina í heiminum þar sem sólin sest og rís aftur á meðan þvergangan stendur yfir.

Í byrjun þvergöngunnar sést tvennt sem fólk ætti að veita athygli: Annars vegar daufur ljómi sem umlykur reikistjörnuna þegar brún hennar er enn rétt fyrir utan sólskífuna og hins vegar svonefnd dropaáhrif.2

Þvergöngur Venusar eru sögulega mikilvægir atburðir því þá gafst vísindamönnum færi á að mæla fjarlægðina milli jarðar og sólar. Fyrstu tilraunir til þess voru gerðar árin 1761 og 1769 og aftur 1874 og 1882 en í öll skiptin lögðu vísindamenn í langa og dýra rannsóknarleiðangra víða um heim.3

Í dag er þverganga Venusar fyrst og fremst forvitnilegt sjónarspil. Stjörnufræðingar munu engu að síður fylgjast náið með og gera ýmsar mælingar með gervitunglum og sjónaukum, þar á meðal Hubble-sjónaukanum, sjá umfjöllun á Stjörnufræðivefnum. Þvergangan er líka gott sýnidæmi um þá aðferð sem menn nota til að leita að reikistjörnum utan okkar sólkerfis.4

Venus sést hér sem svartur depill á sólinni. Mjög mikilvægt er að horfa aldrei á sólina án viðeigandi hlífðarbúnaðs.

Hvernig er best að fylgjast með?

Hægt er að fylgjast með þvergöngu Venusar með sama hætti og sólmyrkvum: Notast verður við viðurkenndar sólarsíur til að koma í veg fyrir varanlegan augnskaða. Þrátt fyrir að sólarsía sé notuð er mikilvægt að fara að öllu með gát og tryggja öryggi sitt í hvívetna. Aldrei skal horfa á sólina án viðeigandi hlífðarbúnaðs, sjá einnig grein um örugga sólskoðun á Stjörnufræðivefnum.

Félagsmenn í Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness munu fylgjast grannt með og hjálpa öðrum að sjá þvergönguna á öruggan hátt en leita má til tengiliða Stjörnuskoðunarfélagsins víða um land.

Myndir:


1 Næsta þverganga verður 10.-11. desember árið 2117 en sú mun ekki sjást frá Íslandi. Næsta þverganga, sem sést frá upphafi til enda frá Íslandi, verður 11. júní árið 2247. Sjá lista yfir þvergöngur á Stjörnufræðivefnum.

2 Ljóminn er af völdum ljósbrots í lofthjúpi Venusar en hann hverfur smám saman þegar reikistjarnan færist lengra inn á sólina. Dropaáhrifin má hins vegar rekja til ókyrrðar í lofthjúpi jarðar og ljósbrots í sjónaukum til blands við jaðarhúmun við rönd sólar. Saman valda þessir þættir því að Venus sýnist dreypa af sólröndinni. Áhrifin eru alræmd því þau komu í veg fyrir áreiðanlegar tímamælingar á þvergöngu Venusar hér áður fyrr.

3 Fræg er sagan af franska stjörnufræðingnum Guillaume Le Gentil sem fór alla leið til Indlands til að fylgjast með þvergöngunni. Vegna stríðsátaka tókst honum ekki að gera tímamælingar á þvergöngunni 1761 en ákvað að halda til við Indlandshaf til að fylgjast með þvergöngunni átta árum síðar. Þegar sá dagur rann upp var skýjað! Ekki gekk þrautalaust að komast heim á ný af ýmsum ástæðum en þegar heim var komið hafði kona hans gifst öðrum manni, eignir hans verið seldar og hann lýstur látinn. Atbeina konungs þurfti til að koma honum á réttan kjöl aftur, ellefu árum eftir að hann fór frá Frakklandi. Lesa má betur um þessa skondnu sorgarsögu á Stjörnufræðivefnum.

4 Kepler geimsjónauki NASA, sem dæmi, starir á tugþúsundir stjarna á himninum í von um að áður óþekktar reikistjörnur komi upp um sjálfar sig þegar þær ganga fyrir sínar móðurstjörnur, rétt eins og Venus gerir þann 5. júní. Birta sólar minnkar um aðeins 0,1% þegar Venus er fyrir henni en í ár gætu aðrir stjörnufræðingar í átta ljósára fjarlægð séð þvergönguna sem við fylgdumst með árið 2004. Með því að rannsaka ljósið frá Venusi gætu þeir áttað sig á að hún er lífvana hnöttur með lofthjúp úr koltvíildi, yfir 400 stiga heitur. Stjörnufræðingar beita sams konar aðferðum í dag í leit að annarri jörð með stærstu sjónaukum jarðar.


Þetta svar er hluti af lengri umfjöllun um þvergöngu Venusar á Stjörnufræðivefnum og er birt hér með góðfúslegu leyfi.

Upprunalega spurningin hljóðaði svona:
Í textavarpinu í kvöld, 29. maí, sá ég að í næstu viku færi Venus fyrir sól miðað við jörð, líkt og um sólmyrkva væri að ræða. Hvaða fyrirbæri er hér á ferðinni?

Útgáfudagur

31.5.2012

Spyrjandi

Hannes Óskarsson

Tilvísun

Stjörnufræðivefurinn. „Ég sá í textavarpinu þann 29. maí að í næstu viku færi Venus fyrir sól miðað við jörð, líkt og um sólmyrkva væri að ræða. Hvaða fyrirbæri er hér á ferðinni?“ Vísindavefurinn, 31. maí 2012. Sótt 24. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=62693.

Stjörnufræðivefurinn. (2012, 31. maí). Ég sá í textavarpinu þann 29. maí að í næstu viku færi Venus fyrir sól miðað við jörð, líkt og um sólmyrkva væri að ræða. Hvaða fyrirbæri er hér á ferðinni? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=62693

Stjörnufræðivefurinn. „Ég sá í textavarpinu þann 29. maí að í næstu viku færi Venus fyrir sól miðað við jörð, líkt og um sólmyrkva væri að ræða. Hvaða fyrirbæri er hér á ferðinni?“ Vísindavefurinn. 31. maí. 2012. Vefsíða. 24. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=62693>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Ég sá í textavarpinu þann 29. maí að í næstu viku færi Venus fyrir sól miðað við jörð, líkt og um sólmyrkva væri að ræða. Hvaða fyrirbæri er hér á ferðinni?
Hér er um þvergöngu Venusar að ræða. Þverganga nefnist það þegar reikistjarna gengur þvert fyrir sólina frá jörðu séð. Slíkir atburðir eru frekar sjaldgæfir en þannig gengur Venus fyrir sólina á 105,5 eða 121,5 ára fresti og þá tvisvar með átta ára millibili. Seinast gekk Venus fyrir sól árið 2004 og sást sú þverganga vel frá Íslandi, sjá umfjöllun á Stjörnufræðivefnum.1

Hér má sjá feril Venusar eftir sólinni.

Þriðjudagskvöldið 5. júní og aðfaranótt miðvikudags 6. júní 2012, gengur Venus í síðasta sinn fyrir sólina á 21. öld. Þvergangan hefst þegar Venus snertir vinstri rönd sólar, ofarlega á skífunni, klukkan 22:04 en þá er sólin lágt á norðvesturhimni. Henni lýkur svo klukkan 04:54 þegar sólin er lágt í norðaustri, samkvæmt upplýsingum úr Almanaki Háskóla Íslands. Þar kemur einnig fram að Reykjavík er eina borgin í heiminum þar sem sólin sest og rís aftur á meðan þvergangan stendur yfir.

Þvergangan stendur yfir í rúmar 6 klukkustundir frá því að reikistjarnan ber fyrst við skífu sólar og þar til hún er komin út fyrir hana aftur. Á þeim tíma sést Venus sem lítill svartur blettur sem hylur 3% sólskífunnar og færist löturhægt yfir hana. Þvergangan svipar til sólmyrkva en þar sem Venus er miklu lengra frá jörðinni en tunglið, sýnist hún miklu smærri og ferðast mun hægar yfir.

Þvergangan sést frá rúmum helmingi jarðarinnar, best frá vestanverðu Kyrrahafi og í austanverðri Asíu og Ástralíu. Íslendingar eru ágætlega staðsettir en landið er hið eina í heiminum þar sem sólin sest og rís aftur á meðan þvergangan stendur yfir.

Í byrjun þvergöngunnar sést tvennt sem fólk ætti að veita athygli: Annars vegar daufur ljómi sem umlykur reikistjörnuna þegar brún hennar er enn rétt fyrir utan sólskífuna og hins vegar svonefnd dropaáhrif.2

Þvergöngur Venusar eru sögulega mikilvægir atburðir því þá gafst vísindamönnum færi á að mæla fjarlægðina milli jarðar og sólar. Fyrstu tilraunir til þess voru gerðar árin 1761 og 1769 og aftur 1874 og 1882 en í öll skiptin lögðu vísindamenn í langa og dýra rannsóknarleiðangra víða um heim.3

Í dag er þverganga Venusar fyrst og fremst forvitnilegt sjónarspil. Stjörnufræðingar munu engu að síður fylgjast náið með og gera ýmsar mælingar með gervitunglum og sjónaukum, þar á meðal Hubble-sjónaukanum, sjá umfjöllun á Stjörnufræðivefnum. Þvergangan er líka gott sýnidæmi um þá aðferð sem menn nota til að leita að reikistjörnum utan okkar sólkerfis.4

Venus sést hér sem svartur depill á sólinni. Mjög mikilvægt er að horfa aldrei á sólina án viðeigandi hlífðarbúnaðs.

Hvernig er best að fylgjast með?

Hægt er að fylgjast með þvergöngu Venusar með sama hætti og sólmyrkvum: Notast verður við viðurkenndar sólarsíur til að koma í veg fyrir varanlegan augnskaða. Þrátt fyrir að sólarsía sé notuð er mikilvægt að fara að öllu með gát og tryggja öryggi sitt í hvívetna. Aldrei skal horfa á sólina án viðeigandi hlífðarbúnaðs, sjá einnig grein um örugga sólskoðun á Stjörnufræðivefnum.

Félagsmenn í Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness munu fylgjast grannt með og hjálpa öðrum að sjá þvergönguna á öruggan hátt en leita má til tengiliða Stjörnuskoðunarfélagsins víða um land.

Myndir:


1 Næsta þverganga verður 10.-11. desember árið 2117 en sú mun ekki sjást frá Íslandi. Næsta þverganga, sem sést frá upphafi til enda frá Íslandi, verður 11. júní árið 2247. Sjá lista yfir þvergöngur á Stjörnufræðivefnum.

2 Ljóminn er af völdum ljósbrots í lofthjúpi Venusar en hann hverfur smám saman þegar reikistjarnan færist lengra inn á sólina. Dropaáhrifin má hins vegar rekja til ókyrrðar í lofthjúpi jarðar og ljósbrots í sjónaukum til blands við jaðarhúmun við rönd sólar. Saman valda þessir þættir því að Venus sýnist dreypa af sólröndinni. Áhrifin eru alræmd því þau komu í veg fyrir áreiðanlegar tímamælingar á þvergöngu Venusar hér áður fyrr.

3 Fræg er sagan af franska stjörnufræðingnum Guillaume Le Gentil sem fór alla leið til Indlands til að fylgjast með þvergöngunni. Vegna stríðsátaka tókst honum ekki að gera tímamælingar á þvergöngunni 1761 en ákvað að halda til við Indlandshaf til að fylgjast með þvergöngunni átta árum síðar. Þegar sá dagur rann upp var skýjað! Ekki gekk þrautalaust að komast heim á ný af ýmsum ástæðum en þegar heim var komið hafði kona hans gifst öðrum manni, eignir hans verið seldar og hann lýstur látinn. Atbeina konungs þurfti til að koma honum á réttan kjöl aftur, ellefu árum eftir að hann fór frá Frakklandi. Lesa má betur um þessa skondnu sorgarsögu á Stjörnufræðivefnum.

4 Kepler geimsjónauki NASA, sem dæmi, starir á tugþúsundir stjarna á himninum í von um að áður óþekktar reikistjörnur komi upp um sjálfar sig þegar þær ganga fyrir sínar móðurstjörnur, rétt eins og Venus gerir þann 5. júní. Birta sólar minnkar um aðeins 0,1% þegar Venus er fyrir henni en í ár gætu aðrir stjörnufræðingar í átta ljósára fjarlægð séð þvergönguna sem við fylgdumst með árið 2004. Með því að rannsaka ljósið frá Venusi gætu þeir áttað sig á að hún er lífvana hnöttur með lofthjúp úr koltvíildi, yfir 400 stiga heitur. Stjörnufræðingar beita sams konar aðferðum í dag í leit að annarri jörð með stærstu sjónaukum jarðar.


Þetta svar er hluti af lengri umfjöllun um þvergöngu Venusar á Stjörnufræðivefnum og er birt hér með góðfúslegu leyfi.

Upprunalega spurningin hljóðaði svona:
Í textavarpinu í kvöld, 29. maí, sá ég að í næstu viku færi Venus fyrir sól miðað við jörð, líkt og um sólmyrkva væri að ræða. Hvaða fyrirbæri er hér á ferðinni?
...