Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Hvað getur þú sagt mér um gosið í Eyjafjallajökli árið 2010?

Guðrún Larsen, Magnús Tumi Guðmundsson, Freysteinn Sigmundsson, Ármann Höskuldsson, Steinunn S. Jakobsdóttir, Björn Oddsson, Eyjólfur Magnússon, Þórdís Högnadóttir, Þorvaldur Þórðarson og Halldór Björnsson

Mikil umbrot urðu í Eyjafjallajökli fyrri hluta árs 2010. Í kjölfar mikilla jarðskorpuhreyfinga, landriss og jarðskjálftavirkni, varð lítið flæðigos á norðanverðum Fimmvörðuhálsi. Það gos hófst 20. mars og stóð í 23 daga. Hlé varð í hálfan annan sólarhring, en 14. apríl hófst sprengigos í toppöskju Eyjafjallajökuls. Nokkur jökulhlaup urðu fyrstu dagana. Öskufall varð verulegt og náði allt til meginlands Evrópu. Farþegaflug lagðist þar niður að mestu í fimm sólarhringa og meira en 100.000 áætlunarferðum var aflýst. Þetta gos stóð í 39 daga. Það tók sig upp aftur í nokkra daga í byrjun júní, en sú gosvirkni var smávægileg miðað við megingosið.

Yfirlit

Framvindu eldgossins í Eyjafjallajökli í apríl og maí 2010 má skipta í fjóra fasa eða tímabil, með mismunandi kvikuflæði, sprengivirkni og tvístrun kviku, dreifingu ösku og skjálftaóróa.1

Gosmökkur 17. apríl séður frá Hvolsvelli. Öskukóf liggur á Eyjafjallajökli og í suðurhlíðum hans.

Frá 14. til 18. apríl. Ríkjandi goshegðun var sprengivirkni, þar sem vatn komst að kvikunni og tætti hana enn frekar. Tímabilið einkenndist af gjósku með miklu af fínefnum. Gjóskufall var mest í byggð 17. apríl. Aska barst vítt og breitt um Norður-Atlantshafssvæðið og varð vart langt suður um Evrópu. Kvikuflæðið var á bilinu 300-1000 tonn á sekúndu (120-400 rúmmetrar á sekúndu).

Frá 18. apríl til 4. maí. Blandað flæði- og sprengigos, hægfara hraunrennsli, sprengivikni lítil miðað við 14.-18. apríl og áhrif utanaðkomandi vatns takmörkuð. Skjálftaórói var mikill, en kvikuuppstreymi mun minna en áður, eða 10-100 tonn á sekúndu, að mestum hluta hraunrennsli.

Frá 5. til 17. maí. Sprengivirkni með hverfandi áhrifum frá utanaðkomandi vatni, lítill órói, ekkert hraunrennsli. Kvikuuppstreymi mun meira en seinni hluta apríl, og gosvirkni náði í þrígang hámarki í kjölfar nýrrar skjálftavirkni undir eldfjallinu. Kvikuflæðið var á bilinu 100-400 tonn á sekúndu. Gosefnin voru fínkorna gjóska, en yfirleitt grófari en í fyrsta fasanum.

Frá 18. til 22. maí. Minnkandi uppstreymi kviku og lækkandi gosmökkur, þar til samfelldu gosi lauk að kvöldi 22. maí.

Mynd tekin 16. september 2010 úr SPOT-gervitunglinu. Hún sýnir vel ösku á heiðum og jöklum. Einnig sést að gróður á láglendi undir Eyjafjöllum hafði náð sér allvel um sumarið.

Magn gjósku sem féll hér á landi, er talið nærri 140 milljónum rúmmetra.2 Verulegan hluta þess efnis er að finna á Eyjafjallajökli. Gosefni sem bárust með vatni, fylltu Gígjökulslón, hlóðust upp þar sem lónið var áður og streymdu fram á Markarfljótsaura, eru talin hafa numið 30 milljón rúmmetrum. Að lokum er ótalin sú gjóska sem féll í hafið sunnan landsins, eða barst til Evrópu. Hún er talin nema um 130 milljón rúmmetrum. Heildarmagn loftborinnar gjósku var því talið nema 270 milljón rúmmetrum. Vatnsborin gjóska var um 30 milljón rúmmetrar, og hraunið sjálft telur tæplega 25 milljón. Heildarmagn gosefna samsvarar um 180 milljón rúmmetrum af föstu bergi, þar af er loftborin gjóska um 140 milljón. Þetta er um tvöfalt meira efni en kom upp í Heklugosinu 1947, en heildarmagn gjósku í því var talið vera 210 milljón rúmmetrar.

Efnismagn gjósku í gosinu í Eyjafjallajökli er þannig töluvert meira, og þurfti að fara allt aftur til Kötlugossins 1918 til að finna stærra gjóskugos hér á landi. Ekki stóðst sá samanburður lengi, því að Grímsvatnagosið í maí 2011 var nokkru stærra hvað magn gosefna varðar.

Gosið í Eyjafjallajökli 2010 er sérstætt og fellur ekki allskostar að skilgreiningum í skólabókum. Jarðskjálftaórói var mestur meðan hraunið leitaði niður Gígjökul, en þá var kvikuuppstreymið tiltölulega lítið. Fyrstu fjóra dagana og á tímabilinu 5.-17. maí var kvikuuppstreymi mest, en órói tiltölulega lítill. Svo virðist sem titringur í þessu gosi hafi einkum tengst hraunflæði, meðan lítil fylgni var við ákafa sprengigossins. Mikið magn fínefna vekur athygli og er ein helsta orsök þess hve víða gosefnin bárust. Sé litið til gossins í heild er það blandgos. Sprengivirknin var þó oftast ráðandi og ber ýmis einkenni vúlkanskra gosa.3

Tilvísanir:

1 Magnús Tumi Guðmundsson og fleiri, 2012. Ash generation and distribution from the April-May 2010 eruption of Eyjafjallajökull, Iceland. Scientific Reports, 2, grein númer 572, doi:10.1038/srep00572.

Dellino og fleiri, 2012. Ash from the Eyjafjallajökull eruption (Iceland): Fragmentation processes and aerodynamic behaviour. Journal of Geophysical Research, 117, B00C04; doi:10.1029/2011JB008726.

Barði Þorkelsson (ritstjóri), 2012. The 2010 eruption of Eyjafjallajökull, Iceland. Skýrsla til ICAO. Veðurstofa Íslands, Jarðvísindastofnun Háskólans, Almannavarnardeild Ríkislögreglustjóra, Reykjavík. 206 bls.

2 Magnús Tumi Guðmundsson og fleiri, 2012. Ash generation and distribution from the April-May 2010 eruption of Eyjafjallajökull, Iceland. Scientific Reports, 2, grein númer 572, doi:10.1038/srep00572.

3 Morrisey, M. og L. G. Mastin, 2000. Volcanic eruptions. Encyclopedia of volcanoes. Academic Press, San Diego.


Hér er einnig svarað spurningunni:
Hversu mikið magn af ösku (gjósku) féll til jarðar í kjölfar gossins í Eyjafjallajökli 2010?


Þetta svar er fengið úr bókinni Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar og birt með góðfúslegu leyfi. Í bókinni er að finna mun ítarlegri umfjöllun um gosið í Eyjafjallajökli árið 2010. Myndir eru fengnar úr sama riti, bls. 305 og 310.

Höfundar

Guðrún Larsen

jarðfræðingur á Jarðvísindastofnun HÍ

Magnús Tumi Guðmundsson

prófessor í jarðeðlisfræði við HÍ

Freysteinn Sigmundsson

Norræna eldfjallasetrinu, Jarðvísindastofnun Háskólans

Ármann Höskuldsson

eldfjallafræðingur við Jarðvísindastofnun Háskólans

jarðeðlisfræðingur

jarðeðlisfræðingur á Jarðvísindastofnun HÍ

jarðeðlisfræðingur á Jarðvísindastofnun HÍ

jarðfræðingur á Jarðvísindastofnun HÍ

Þorvaldur Þórðarson

eldfjallafræðingur á Jarðvísindastofnun HÍ

Halldór Björnsson

veðurfræðingur

Útgáfudagur

31.5.2013

Spyrjandi

Linda Margrét Eyþórsdóttir, f. 1996, Sara Þorsteinsdóttir

Tilvísun

Guðrún Larsen, Magnús Tumi Guðmundsson, Freysteinn Sigmundsson, Ármann Höskuldsson, Steinunn S. Jakobsdóttir, Björn Oddsson, Eyjólfur Magnússon, Þórdís Högnadóttir, Þorvaldur Þórðarson og Halldór Björnsson. „Hvað getur þú sagt mér um gosið í Eyjafjallajökli árið 2010?“ Vísindavefurinn, 31. maí 2013. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=63474.

Guðrún Larsen, Magnús Tumi Guðmundsson, Freysteinn Sigmundsson, Ármann Höskuldsson, Steinunn S. Jakobsdóttir, Björn Oddsson, Eyjólfur Magnússon, Þórdís Högnadóttir, Þorvaldur Þórðarson og Halldór Björnsson. (2013, 31. maí). Hvað getur þú sagt mér um gosið í Eyjafjallajökli árið 2010? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=63474

Guðrún Larsen, Magnús Tumi Guðmundsson, Freysteinn Sigmundsson, Ármann Höskuldsson, Steinunn S. Jakobsdóttir, Björn Oddsson, Eyjólfur Magnússon, Þórdís Högnadóttir, Þorvaldur Þórðarson og Halldór Björnsson. „Hvað getur þú sagt mér um gosið í Eyjafjallajökli árið 2010?“ Vísindavefurinn. 31. maí. 2013. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=63474>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað getur þú sagt mér um gosið í Eyjafjallajökli árið 2010?
Mikil umbrot urðu í Eyjafjallajökli fyrri hluta árs 2010. Í kjölfar mikilla jarðskorpuhreyfinga, landriss og jarðskjálftavirkni, varð lítið flæðigos á norðanverðum Fimmvörðuhálsi. Það gos hófst 20. mars og stóð í 23 daga. Hlé varð í hálfan annan sólarhring, en 14. apríl hófst sprengigos í toppöskju Eyjafjallajökuls. Nokkur jökulhlaup urðu fyrstu dagana. Öskufall varð verulegt og náði allt til meginlands Evrópu. Farþegaflug lagðist þar niður að mestu í fimm sólarhringa og meira en 100.000 áætlunarferðum var aflýst. Þetta gos stóð í 39 daga. Það tók sig upp aftur í nokkra daga í byrjun júní, en sú gosvirkni var smávægileg miðað við megingosið.

Yfirlit

Framvindu eldgossins í Eyjafjallajökli í apríl og maí 2010 má skipta í fjóra fasa eða tímabil, með mismunandi kvikuflæði, sprengivirkni og tvístrun kviku, dreifingu ösku og skjálftaóróa.1

Gosmökkur 17. apríl séður frá Hvolsvelli. Öskukóf liggur á Eyjafjallajökli og í suðurhlíðum hans.

Frá 14. til 18. apríl. Ríkjandi goshegðun var sprengivirkni, þar sem vatn komst að kvikunni og tætti hana enn frekar. Tímabilið einkenndist af gjósku með miklu af fínefnum. Gjóskufall var mest í byggð 17. apríl. Aska barst vítt og breitt um Norður-Atlantshafssvæðið og varð vart langt suður um Evrópu. Kvikuflæðið var á bilinu 300-1000 tonn á sekúndu (120-400 rúmmetrar á sekúndu).

Frá 18. apríl til 4. maí. Blandað flæði- og sprengigos, hægfara hraunrennsli, sprengivikni lítil miðað við 14.-18. apríl og áhrif utanaðkomandi vatns takmörkuð. Skjálftaórói var mikill, en kvikuuppstreymi mun minna en áður, eða 10-100 tonn á sekúndu, að mestum hluta hraunrennsli.

Frá 5. til 17. maí. Sprengivirkni með hverfandi áhrifum frá utanaðkomandi vatni, lítill órói, ekkert hraunrennsli. Kvikuuppstreymi mun meira en seinni hluta apríl, og gosvirkni náði í þrígang hámarki í kjölfar nýrrar skjálftavirkni undir eldfjallinu. Kvikuflæðið var á bilinu 100-400 tonn á sekúndu. Gosefnin voru fínkorna gjóska, en yfirleitt grófari en í fyrsta fasanum.

Frá 18. til 22. maí. Minnkandi uppstreymi kviku og lækkandi gosmökkur, þar til samfelldu gosi lauk að kvöldi 22. maí.

Mynd tekin 16. september 2010 úr SPOT-gervitunglinu. Hún sýnir vel ösku á heiðum og jöklum. Einnig sést að gróður á láglendi undir Eyjafjöllum hafði náð sér allvel um sumarið.

Magn gjósku sem féll hér á landi, er talið nærri 140 milljónum rúmmetra.2 Verulegan hluta þess efnis er að finna á Eyjafjallajökli. Gosefni sem bárust með vatni, fylltu Gígjökulslón, hlóðust upp þar sem lónið var áður og streymdu fram á Markarfljótsaura, eru talin hafa numið 30 milljón rúmmetrum. Að lokum er ótalin sú gjóska sem féll í hafið sunnan landsins, eða barst til Evrópu. Hún er talin nema um 130 milljón rúmmetrum. Heildarmagn loftborinnar gjósku var því talið nema 270 milljón rúmmetrum. Vatnsborin gjóska var um 30 milljón rúmmetrar, og hraunið sjálft telur tæplega 25 milljón. Heildarmagn gosefna samsvarar um 180 milljón rúmmetrum af föstu bergi, þar af er loftborin gjóska um 140 milljón. Þetta er um tvöfalt meira efni en kom upp í Heklugosinu 1947, en heildarmagn gjósku í því var talið vera 210 milljón rúmmetrar.

Efnismagn gjósku í gosinu í Eyjafjallajökli er þannig töluvert meira, og þurfti að fara allt aftur til Kötlugossins 1918 til að finna stærra gjóskugos hér á landi. Ekki stóðst sá samanburður lengi, því að Grímsvatnagosið í maí 2011 var nokkru stærra hvað magn gosefna varðar.

Gosið í Eyjafjallajökli 2010 er sérstætt og fellur ekki allskostar að skilgreiningum í skólabókum. Jarðskjálftaórói var mestur meðan hraunið leitaði niður Gígjökul, en þá var kvikuuppstreymið tiltölulega lítið. Fyrstu fjóra dagana og á tímabilinu 5.-17. maí var kvikuuppstreymi mest, en órói tiltölulega lítill. Svo virðist sem titringur í þessu gosi hafi einkum tengst hraunflæði, meðan lítil fylgni var við ákafa sprengigossins. Mikið magn fínefna vekur athygli og er ein helsta orsök þess hve víða gosefnin bárust. Sé litið til gossins í heild er það blandgos. Sprengivirknin var þó oftast ráðandi og ber ýmis einkenni vúlkanskra gosa.3

Tilvísanir:

1 Magnús Tumi Guðmundsson og fleiri, 2012. Ash generation and distribution from the April-May 2010 eruption of Eyjafjallajökull, Iceland. Scientific Reports, 2, grein númer 572, doi:10.1038/srep00572.

Dellino og fleiri, 2012. Ash from the Eyjafjallajökull eruption (Iceland): Fragmentation processes and aerodynamic behaviour. Journal of Geophysical Research, 117, B00C04; doi:10.1029/2011JB008726.

Barði Þorkelsson (ritstjóri), 2012. The 2010 eruption of Eyjafjallajökull, Iceland. Skýrsla til ICAO. Veðurstofa Íslands, Jarðvísindastofnun Háskólans, Almannavarnardeild Ríkislögreglustjóra, Reykjavík. 206 bls.

2 Magnús Tumi Guðmundsson og fleiri, 2012. Ash generation and distribution from the April-May 2010 eruption of Eyjafjallajökull, Iceland. Scientific Reports, 2, grein númer 572, doi:10.1038/srep00572.

3 Morrisey, M. og L. G. Mastin, 2000. Volcanic eruptions. Encyclopedia of volcanoes. Academic Press, San Diego.


Hér er einnig svarað spurningunni:
Hversu mikið magn af ösku (gjósku) féll til jarðar í kjölfar gossins í Eyjafjallajökli 2010?


Þetta svar er fengið úr bókinni Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar og birt með góðfúslegu leyfi. Í bókinni er að finna mun ítarlegri umfjöllun um gosið í Eyjafjallajökli árið 2010. Myndir eru fengnar úr sama riti, bls. 305 og 310....