Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Hvenær var Þales fyrst kallaður heimspekingur?

Geir Þ. Þórarinsson

Spurningin í heild sinni var svona:
Í svari vefjarins við spurningu um Þales frá Míletos segir: „Heimspeki er iðja sem menn hafa stundað, að því er vestræn menningarsaga hermir, í 2500 ár, með 1000 ára hléi yfir hörðustu miðaldir. Þessi iðja varð til í Grikklandi hinu forna. Fyrsti heimspekingurinn er talinn Þales frá Míletos sem vann sér tvennt til frægðar: Hann datt ofan í brunn því hann var svo utan við sig. Þá hló vinnukona að honum og sagði: „Þið heimspekingar ættuð heldur að horfa fram fyrir fæturna á ykkur en góna upp í stjörnurnar!“ Þales er þá sagður hafa mælt þessi orð: „Allt er vatn.“.“ Hafi Þales verið fyrsti heimspekingurinn, hví sagði vinnukonan þá „þið heimspekingar“?
Svarið, sem hér er vísað til, er eftir Hauk Má Helgason og fjallar reyndar ekki um Þales sérstaklega, heldur um skilgreininguna á heimspeki.

Í stuttu máli er svarið á þá leið að vinnukonan sagði ekki „þið heimspekingar“, að minnsta kosti eru engar heimildir um það. Þessi texti, sem Haukur Már hefur innan gæsalappa, er einfaldlega ekki bein tilvitnun, sem er neins staðar varðveitt. Það er Platon sem varðveitir þessa sögu og segir hana rétt rúmlega 200 árum eftir að Þales var upp á sitt besta. Platon greinir frá viðbrögðum konunnar en hefur ekkert eftir henni í beinni ræðu. Hann segir hana hafa gert gys að Þalesi fyrir að fylgjast svo grannt með því sem hann sá á himnum að hann hafi ekki tekið eftir því sem var við fótmál hans (Þeæt. 174A).

Þessi beina ræða, sem Haukur býður lesandanum upp á þarna, er því nokkurs konar sögulegur skáldskapur, sem gæðir frásögnina lífi en á sér enga stoð í neinni heimild, ekki ósvipað og hin fræga lína „Et tu, Brute“ í leikriti Shakespeares Júlíus Caesar. Fornar ævisögur Caesars eigna honum nefnilega ekki þessi orð. Í ævisögu Caesars eftir Plútarkos segir að Caesar hafi dregið kuflinn yfir höfuð sér og dáið án þess að segja orð en í ævisögu þeirri sem Suetonius samdi er hann sagður hafa mælt til Brútusar á grísku καὶ σὺ τέκνον, sem þýðir „Þú líka, barn“. En áhorfendur leikritsins hefðu fæstir skilið grískuna.

Fornar rústir í Míletos á vesturströnd Tyrklands. Hver veit nema Þales hafi verið á þessum slóðum þegar hann setti fram þá kenningu að frumnáttúran sé vatn.

Eftir að Platon hefur lokið frásögninni af Þalesi og vinnukonunni segir hann að það megi heimfæra þetta sama grín upp á alla þá sem leggja stund á heimspeki en þau orð er ekki með neinu móti hægt að eigna vinnukonunni í sögunni. Aftur á móti virðist Platon sjálfur líta svo á að Þales hafi annaðhvort verið heimspekingur eða hafi að minnsta kosti átt eitthvað sameiginlegt með heimspekingum.

Orðið sem við þýðum á íslensku „heimspeki“ (φιλοσοφία) og afleidd orð eins og „heimspekingur“ (φιλόσοφος) voru ekki til þegar Þales var á dögum. Sagt er að Pýþagóras hafi smíðað orðið φιλόσοφος og fyrstur lýst sjálfum sér þannig, hvað svo sem hæft er í því. En Pýþagóras var af næstu kynslóð á eftir Þalesi og var líklega hálfþrítugur þegar Þales lést. Það er afar ósennilegt að nýyrði hans hafi borist til Míletos áður en Þales lést. Enn fremur er óvíst hvenær sagan um fall Þalesar í brunninn á að hafa gerst; ef hún er á annað borð sönn gæti atvikið allt eins hafa átt sér stað áður en Pýþagóras var fæddur. Svo að jafnvel þótt konan í sögunni hefði viljað kalla Þales heimspeking hefði hana að öllum líkindum skort orð til þess. Hún hefði getað notað annað orð eins og lýsingarorðið „sófos“ (σοφός), sem þýðir „vitur“ og þegar það er notað með greini eins og nafnorð þýðir það „vitringur“, „spekingur“ eða eitthvað þvíumlíkt. En það eru bara engar heimildir um að hún hafi gert það. Eins og áður sagði leggur Platon konunni engin orð í munn í frásögn sinni.

Aristóteles rekur upphaf heimspekinnar til Þalesar í fyrstu bók Frumspekinnar (3. kafli, 938b6). Hann segir: „Þales, sem var höfuðsmiður þessarar heimspeki, sagði að frumnáttúran væri vatn“ (þýðing Svavars Hrafns Svavarssonar). Með öðrum orðum segir Aristóteles afar skýrt að Þales hafi verið upphafsmaður (ἀρχηγός) ákveðinnar tegundar af heimspeki, það er að segja jónísku náttúruspekinnar. Um þetta má lesa nánar í svari undirritaðs við spurningunni Hvenær varð grísk heimspeki til? Eftir þetta er komin rík hefð fyrir því að tala um iðju Þalesar sem heimspeki þannig að heimildir yngri en Aristóteles kalla hann heimspeking án þess að hika.

Hér skal athygli lesandans að lokum einnig beint að öðru, sem Haukur Már segir í svari sínu. Haukur segir: „Þales er þá sagður hafa mælt þessi orð: „Allt er vatn.““ Þetta segir Haukur í beinu framhaldi af sögunni um fallið í brunninn. En hér ber að gæta að því Haukur nefnir þetta sem seinna atriðið, sem hann telur Þales frægastan fyrir. Lesandinn þarf að gæta sín á að orðið „þá“ hefur ekki tíðarmerkingu hér. Það er að segja, ekki ber að líta svo á að Þales hafi sagt þetta við þetta tækifæri. En þar að auki ætti lesandinn að hafa í huga að þrátt fyrir gæsalappirnar er þetta ekki bein tilvitnun. Í fornum heimildum er Þalesi einvörðungu eignuð sú hugmynd að allt sé vatn en ekki þau orð. Í tilvitnuninni í Aristóteles hér að ofan hefur Aristóteles til dæmis ekkert orðrétt eftir Þalesi, heldur eignar hann honum einungis ákveðna hugmynd. Og í safni Hermanns Diels og Walthers Kranz, Die Fragmente der Vorsokratiker, þar sem er að finna allar varðveittar tilvitnanir í og allan vitnisburð um forvera Sókratesar, eru engin B-brot (fragmenta eða beinar tilvitnanir) í kaflanum um Þales, heldur einungis A-brot (testimonia eða frásagnir).

Af Þalesi eru til ýmsar aðrar sögur. Hann á til að mynd að hafa spáð fyrir um sólmyrkva, hann var sagður hafa gert merka stærðfræðiuppgötvun og á að hafa hagnast á spákaupmennsku þegar hann keypti upp allar ólífupressurnar í Míletos. Hvort sem sögurnar eru allar sannar eða ekki var Þales þó frægur fyrir eitt og annað í fornöld. Um það má lesa í svari undirritaðs um Þales.

Mynd:

Höfundur

Geir Þ. Þórarinsson

aðjúnkt í grísku og latínu við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

11.2.2013

Spyrjandi

Atli Steinn Guðmundsson

Tilvísun

Geir Þ. Þórarinsson. „Hvenær var Þales fyrst kallaður heimspekingur?“ Vísindavefurinn, 11. febrúar 2013. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=63755.

Geir Þ. Þórarinsson. (2013, 11. febrúar). Hvenær var Þales fyrst kallaður heimspekingur? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=63755

Geir Þ. Þórarinsson. „Hvenær var Þales fyrst kallaður heimspekingur?“ Vísindavefurinn. 11. feb. 2013. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=63755>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvenær var Þales fyrst kallaður heimspekingur?
Spurningin í heild sinni var svona:

Í svari vefjarins við spurningu um Þales frá Míletos segir: „Heimspeki er iðja sem menn hafa stundað, að því er vestræn menningarsaga hermir, í 2500 ár, með 1000 ára hléi yfir hörðustu miðaldir. Þessi iðja varð til í Grikklandi hinu forna. Fyrsti heimspekingurinn er talinn Þales frá Míletos sem vann sér tvennt til frægðar: Hann datt ofan í brunn því hann var svo utan við sig. Þá hló vinnukona að honum og sagði: „Þið heimspekingar ættuð heldur að horfa fram fyrir fæturna á ykkur en góna upp í stjörnurnar!“ Þales er þá sagður hafa mælt þessi orð: „Allt er vatn.“.“ Hafi Þales verið fyrsti heimspekingurinn, hví sagði vinnukonan þá „þið heimspekingar“?
Svarið, sem hér er vísað til, er eftir Hauk Má Helgason og fjallar reyndar ekki um Þales sérstaklega, heldur um skilgreininguna á heimspeki.

Í stuttu máli er svarið á þá leið að vinnukonan sagði ekki „þið heimspekingar“, að minnsta kosti eru engar heimildir um það. Þessi texti, sem Haukur Már hefur innan gæsalappa, er einfaldlega ekki bein tilvitnun, sem er neins staðar varðveitt. Það er Platon sem varðveitir þessa sögu og segir hana rétt rúmlega 200 árum eftir að Þales var upp á sitt besta. Platon greinir frá viðbrögðum konunnar en hefur ekkert eftir henni í beinni ræðu. Hann segir hana hafa gert gys að Þalesi fyrir að fylgjast svo grannt með því sem hann sá á himnum að hann hafi ekki tekið eftir því sem var við fótmál hans (Þeæt. 174A).

Þessi beina ræða, sem Haukur býður lesandanum upp á þarna, er því nokkurs konar sögulegur skáldskapur, sem gæðir frásögnina lífi en á sér enga stoð í neinni heimild, ekki ósvipað og hin fræga lína „Et tu, Brute“ í leikriti Shakespeares Júlíus Caesar. Fornar ævisögur Caesars eigna honum nefnilega ekki þessi orð. Í ævisögu Caesars eftir Plútarkos segir að Caesar hafi dregið kuflinn yfir höfuð sér og dáið án þess að segja orð en í ævisögu þeirri sem Suetonius samdi er hann sagður hafa mælt til Brútusar á grísku καὶ σὺ τέκνον, sem þýðir „Þú líka, barn“. En áhorfendur leikritsins hefðu fæstir skilið grískuna.

Fornar rústir í Míletos á vesturströnd Tyrklands. Hver veit nema Þales hafi verið á þessum slóðum þegar hann setti fram þá kenningu að frumnáttúran sé vatn.

Eftir að Platon hefur lokið frásögninni af Þalesi og vinnukonunni segir hann að það megi heimfæra þetta sama grín upp á alla þá sem leggja stund á heimspeki en þau orð er ekki með neinu móti hægt að eigna vinnukonunni í sögunni. Aftur á móti virðist Platon sjálfur líta svo á að Þales hafi annaðhvort verið heimspekingur eða hafi að minnsta kosti átt eitthvað sameiginlegt með heimspekingum.

Orðið sem við þýðum á íslensku „heimspeki“ (φιλοσοφία) og afleidd orð eins og „heimspekingur“ (φιλόσοφος) voru ekki til þegar Þales var á dögum. Sagt er að Pýþagóras hafi smíðað orðið φιλόσοφος og fyrstur lýst sjálfum sér þannig, hvað svo sem hæft er í því. En Pýþagóras var af næstu kynslóð á eftir Þalesi og var líklega hálfþrítugur þegar Þales lést. Það er afar ósennilegt að nýyrði hans hafi borist til Míletos áður en Þales lést. Enn fremur er óvíst hvenær sagan um fall Þalesar í brunninn á að hafa gerst; ef hún er á annað borð sönn gæti atvikið allt eins hafa átt sér stað áður en Pýþagóras var fæddur. Svo að jafnvel þótt konan í sögunni hefði viljað kalla Þales heimspeking hefði hana að öllum líkindum skort orð til þess. Hún hefði getað notað annað orð eins og lýsingarorðið „sófos“ (σοφός), sem þýðir „vitur“ og þegar það er notað með greini eins og nafnorð þýðir það „vitringur“, „spekingur“ eða eitthvað þvíumlíkt. En það eru bara engar heimildir um að hún hafi gert það. Eins og áður sagði leggur Platon konunni engin orð í munn í frásögn sinni.

Aristóteles rekur upphaf heimspekinnar til Þalesar í fyrstu bók Frumspekinnar (3. kafli, 938b6). Hann segir: „Þales, sem var höfuðsmiður þessarar heimspeki, sagði að frumnáttúran væri vatn“ (þýðing Svavars Hrafns Svavarssonar). Með öðrum orðum segir Aristóteles afar skýrt að Þales hafi verið upphafsmaður (ἀρχηγός) ákveðinnar tegundar af heimspeki, það er að segja jónísku náttúruspekinnar. Um þetta má lesa nánar í svari undirritaðs við spurningunni Hvenær varð grísk heimspeki til? Eftir þetta er komin rík hefð fyrir því að tala um iðju Þalesar sem heimspeki þannig að heimildir yngri en Aristóteles kalla hann heimspeking án þess að hika.

Hér skal athygli lesandans að lokum einnig beint að öðru, sem Haukur Már segir í svari sínu. Haukur segir: „Þales er þá sagður hafa mælt þessi orð: „Allt er vatn.““ Þetta segir Haukur í beinu framhaldi af sögunni um fallið í brunninn. En hér ber að gæta að því Haukur nefnir þetta sem seinna atriðið, sem hann telur Þales frægastan fyrir. Lesandinn þarf að gæta sín á að orðið „þá“ hefur ekki tíðarmerkingu hér. Það er að segja, ekki ber að líta svo á að Þales hafi sagt þetta við þetta tækifæri. En þar að auki ætti lesandinn að hafa í huga að þrátt fyrir gæsalappirnar er þetta ekki bein tilvitnun. Í fornum heimildum er Þalesi einvörðungu eignuð sú hugmynd að allt sé vatn en ekki þau orð. Í tilvitnuninni í Aristóteles hér að ofan hefur Aristóteles til dæmis ekkert orðrétt eftir Þalesi, heldur eignar hann honum einungis ákveðna hugmynd. Og í safni Hermanns Diels og Walthers Kranz, Die Fragmente der Vorsokratiker, þar sem er að finna allar varðveittar tilvitnanir í og allan vitnisburð um forvera Sókratesar, eru engin B-brot (fragmenta eða beinar tilvitnanir) í kaflanum um Þales, heldur einungis A-brot (testimonia eða frásagnir).

Af Þalesi eru til ýmsar aðrar sögur. Hann á til að mynd að hafa spáð fyrir um sólmyrkva, hann var sagður hafa gert merka stærðfræðiuppgötvun og á að hafa hagnast á spákaupmennsku þegar hann keypti upp allar ólífupressurnar í Míletos. Hvort sem sögurnar eru allar sannar eða ekki var Þales þó frægur fyrir eitt og annað í fornöld. Um það má lesa í svari undirritaðs um Þales.

Mynd:

...