Sólin Sólin Rís 05:22 • sest 21:31 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 23:11 • Sest 05:11 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:38 • Síðdegis: 18:56 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:39 • Síðdegis: 12:46 í Reykjavík

Hvað er gagnrýnin hugsun?

Henry Alexander Henrysson og Elsa Haraldsdóttir

Samkvæmt íslenskri orðabók merkir lýsingarorðið „gagnrýninn“ annaðhvort „skarpur í gagnrýni sinni, athugull á allar hliðar máls“ eða „aðfinnslusamur“. Sú merking sem er mest viðeigandi í orðasambandinu „gagnrýnin hugsun“ er að vera „athugull á allar hliðar máls“. Ekkert bendir til að þegar hugsun einhvers er lýst sem gagnrýninni merki það að viðkomandi „rýni til gagns“, eins og vinsælt er að halda fram.

Gagnrýnin hugsun á sér rætur í þróun heimspekilegrar hugsunar. Fyrirmyndir eru fjölmargar en hér er látið nægja að nefna þrjár slíkar. Fyrsta skal nefna þá rökræðuaðferð sem Sókrates tileinkaði sér. Samkvæmt henni ber vel hugsandi einstaklingi að horfa framhjá stöðu viðmælanda síns og sannfæringakrafti orða hans en einbeita sér þess í stað að því hvort viðkomandi færi rök fyrir skoðunum sínum. Önnur fyrirmynd er greining enska sautjándu aldar heimspekingsins Francis Bacon á þeim hugsanavillum sem leiða fólk til rangra skoðana og þröngsýni. Hann greindi rætur slíkra villna meðal annars í samfélaginu, tungumálinu og mannlegu eðli. Síðasta fyrirmyndin eru þær reglur hugsunarinnar sem franski heimspekingurinn René Descartes kynnti í verki sínu Orðræðu um aðferð. Þessar reglur fela það í sér að mynda sér enga skoðun sem maður getur ekki sjálfur fært rök fyrir, ávallt greina öll vandamál niður í smæstu einingar, vera skipulagður í hugsun og forðast ekki ítarlegar röksemdafærslur.

Einkenni gagnrýninnar hugsunar eru rökvísi, ígrundun og sköpun.

Á sjöunda áratug síðustu aldar fór að bera á umræðum um eflingu gagnrýninnar hugsunar (e. Critical Thinking) í menntun. Varð sú umræða einna fjörlegust í Bandaríkjunum. Fyrst í stað var lögð mikil áhersla á nemendur fengju þjálfun í rökleikni og greiningu vandamála af ýmsu tagi en síðar fór að bera meira á hugmyndum um að þjálfun í gagnrýninni hugsun ætti ekki síður að fela í sér að nemendur tileinkuðu sér ýmsa eftirsóknarverða eiginleika í hugsun. Dæmi um slíka eiginleika eru það að temja sér að nálgast mál með opnum huga, leyfa sér að vera spurull, vera ekki of íhaldssamur í skoðunum, sækjast eftir réttum upplýsingum og temja sér virðingu fyrir skoðunum annarra. Í samtímanum reyna fræðimenn gjarnan að setja fram eigin kenningar um hvernig best er að flétta saman þessum tveimur ólíkum nálgunum.

Gagnrýnin hugsun er því ekki einungis leikni í að beita hugsuninni. Hún er ákveðin hæfni sem hefur til að bera ákveðin einkenni og markmið. Með einkennum gagnrýninnar hugsunar er átt við þá þætti sem saman greina hana frá annars konar hugsun. Einkenni gagnrýninnar hugsunar eru rökvísi, ígrundun og sköpun. Rökvísi felur í sér beitingu rökhugsunar. Slík beiting felur í sér að huga að orsakatengslum, athuga forsendur, þekkja helstu rökvillur og geta greint hvort röksemdafærslur eru gildar eða ekki. Jafnframt er nauðsynlegt að gæta að skilningi sem lagður er í mikilvæg hugtök. Ígrundun felur í sér forsendu þess að beita gagnrýninni hugsun: að staldra við og gefa sér tíma til að hugsa. Ígrundun felur í sér þá viðleitni til að setja ólíkar niðurstöður í samhengi og að skoða allar hliðar máls. Ígrundun gefur til kynna að gagnrýnin hugsun sé vönduð og fræðileg hugsun. Sköpun, eða skapandi hugsun, felur í sér víðsýni, það að nota ímyndunaraflið, leyfa sér að hugsa út fyrir rammann eins og sagt er, að taka ekki öllu sem gefnum hlut og að gera ráð fyrir mögulegum afleiðingum þess að breyta í samræmi við skoðanir sínar.

Markmið gagnrýninnar hugsunar eru ýmist skilgreind sem bættur sjálfsskilningur, skilningur á öðrum og veruleikanum, leið að sameiginlegri (ásættanlegri) niðurstöðu í skoðanamyndun, eða þekking. Markmiðin eiga sem sagt að vera hagnýt, bæði fyrir einstaklinginn sjálfan og samfélagið í heild sinni. Öll eiga þau sér þá sameiginlegu grundvallarforsendu að minna verði um ákvarðanir teknar á röngum og ófullnægjandi forsendum ef hver og einn samfélagsþegn tileinki sér að beita gagnrýninni hugsun í auknu mæli. Markmiðið er því að stuðla að betra samfélagi og bættum lífsgæðum.

Í íslenskri umræðuhefð hefur gagnrýnin hugsun aldrei verið einvörðungu tengd rökleikni. Fremur má segja að hún hafi verið órjúfanlega tengd siðfræði. Rök fyrir mikilvægi þjálfunar í gagnrýninni hugsun hafa því ekki síst byggst á þeirri hugmynd að rétt breytni sé markmið gagnrýninnar hugsunar og að án þess að beita henni dafni fólk ekki sem siðferðisverur. Í fyrsta lagi felur það að staðhæfa ekkert um menn og málefni án þess að hafa fyrir því haldbær rök í sér ákveðna siðferðilega afstöðu. Þá er ekki hægt að fjalla um siðferðileg álitamál án þess að hugsa á gagnrýninn hátt um efni þeirra. Þar að auki er eitt af hlutverkum gagnrýninnar hugsunar að gera okkur kleift að meta siðferðilegt innsæi, samvisku og réttlætiskennd. Að lokum er beiting gagnrýninnar hugsunar leið til að öðlast þekkingu en þekking sem slík er dæmi um siðferðileg verðmæti ef henni er beitt á réttan máta. Þessi sýn á hlutverk gagnrýninnar hugsunar fyrir einstaklinginn í samfélagi við annað fólk varpar ljósi á mikilvægi þess að efla gagnrýna hugsun í almennri menntun.

Mynd:


Þetta svar birtist áður á vefnum Gagnrýnin hugsun og siðfræði og er birt hér með góðfúslegu leyfi.

Höfundar

Henry Alexander Henrysson

doktor í heimspeki

MA í heimspeki

Útgáfudagur

10.9.2013

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Henry Alexander Henrysson og Elsa Haraldsdóttir. „Hvað er gagnrýnin hugsun?“ Vísindavefurinn, 10. september 2013. Sótt 24. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=65785.

Henry Alexander Henrysson og Elsa Haraldsdóttir. (2013, 10. september). Hvað er gagnrýnin hugsun? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=65785

Henry Alexander Henrysson og Elsa Haraldsdóttir. „Hvað er gagnrýnin hugsun?“ Vísindavefurinn. 10. sep. 2013. Vefsíða. 24. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=65785>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað er gagnrýnin hugsun?
Samkvæmt íslenskri orðabók merkir lýsingarorðið „gagnrýninn“ annaðhvort „skarpur í gagnrýni sinni, athugull á allar hliðar máls“ eða „aðfinnslusamur“. Sú merking sem er mest viðeigandi í orðasambandinu „gagnrýnin hugsun“ er að vera „athugull á allar hliðar máls“. Ekkert bendir til að þegar hugsun einhvers er lýst sem gagnrýninni merki það að viðkomandi „rýni til gagns“, eins og vinsælt er að halda fram.

Gagnrýnin hugsun á sér rætur í þróun heimspekilegrar hugsunar. Fyrirmyndir eru fjölmargar en hér er látið nægja að nefna þrjár slíkar. Fyrsta skal nefna þá rökræðuaðferð sem Sókrates tileinkaði sér. Samkvæmt henni ber vel hugsandi einstaklingi að horfa framhjá stöðu viðmælanda síns og sannfæringakrafti orða hans en einbeita sér þess í stað að því hvort viðkomandi færi rök fyrir skoðunum sínum. Önnur fyrirmynd er greining enska sautjándu aldar heimspekingsins Francis Bacon á þeim hugsanavillum sem leiða fólk til rangra skoðana og þröngsýni. Hann greindi rætur slíkra villna meðal annars í samfélaginu, tungumálinu og mannlegu eðli. Síðasta fyrirmyndin eru þær reglur hugsunarinnar sem franski heimspekingurinn René Descartes kynnti í verki sínu Orðræðu um aðferð. Þessar reglur fela það í sér að mynda sér enga skoðun sem maður getur ekki sjálfur fært rök fyrir, ávallt greina öll vandamál niður í smæstu einingar, vera skipulagður í hugsun og forðast ekki ítarlegar röksemdafærslur.

Einkenni gagnrýninnar hugsunar eru rökvísi, ígrundun og sköpun.

Á sjöunda áratug síðustu aldar fór að bera á umræðum um eflingu gagnrýninnar hugsunar (e. Critical Thinking) í menntun. Varð sú umræða einna fjörlegust í Bandaríkjunum. Fyrst í stað var lögð mikil áhersla á nemendur fengju þjálfun í rökleikni og greiningu vandamála af ýmsu tagi en síðar fór að bera meira á hugmyndum um að þjálfun í gagnrýninni hugsun ætti ekki síður að fela í sér að nemendur tileinkuðu sér ýmsa eftirsóknarverða eiginleika í hugsun. Dæmi um slíka eiginleika eru það að temja sér að nálgast mál með opnum huga, leyfa sér að vera spurull, vera ekki of íhaldssamur í skoðunum, sækjast eftir réttum upplýsingum og temja sér virðingu fyrir skoðunum annarra. Í samtímanum reyna fræðimenn gjarnan að setja fram eigin kenningar um hvernig best er að flétta saman þessum tveimur ólíkum nálgunum.

Gagnrýnin hugsun er því ekki einungis leikni í að beita hugsuninni. Hún er ákveðin hæfni sem hefur til að bera ákveðin einkenni og markmið. Með einkennum gagnrýninnar hugsunar er átt við þá þætti sem saman greina hana frá annars konar hugsun. Einkenni gagnrýninnar hugsunar eru rökvísi, ígrundun og sköpun. Rökvísi felur í sér beitingu rökhugsunar. Slík beiting felur í sér að huga að orsakatengslum, athuga forsendur, þekkja helstu rökvillur og geta greint hvort röksemdafærslur eru gildar eða ekki. Jafnframt er nauðsynlegt að gæta að skilningi sem lagður er í mikilvæg hugtök. Ígrundun felur í sér forsendu þess að beita gagnrýninni hugsun: að staldra við og gefa sér tíma til að hugsa. Ígrundun felur í sér þá viðleitni til að setja ólíkar niðurstöður í samhengi og að skoða allar hliðar máls. Ígrundun gefur til kynna að gagnrýnin hugsun sé vönduð og fræðileg hugsun. Sköpun, eða skapandi hugsun, felur í sér víðsýni, það að nota ímyndunaraflið, leyfa sér að hugsa út fyrir rammann eins og sagt er, að taka ekki öllu sem gefnum hlut og að gera ráð fyrir mögulegum afleiðingum þess að breyta í samræmi við skoðanir sínar.

Markmið gagnrýninnar hugsunar eru ýmist skilgreind sem bættur sjálfsskilningur, skilningur á öðrum og veruleikanum, leið að sameiginlegri (ásættanlegri) niðurstöðu í skoðanamyndun, eða þekking. Markmiðin eiga sem sagt að vera hagnýt, bæði fyrir einstaklinginn sjálfan og samfélagið í heild sinni. Öll eiga þau sér þá sameiginlegu grundvallarforsendu að minna verði um ákvarðanir teknar á röngum og ófullnægjandi forsendum ef hver og einn samfélagsþegn tileinki sér að beita gagnrýninni hugsun í auknu mæli. Markmiðið er því að stuðla að betra samfélagi og bættum lífsgæðum.

Í íslenskri umræðuhefð hefur gagnrýnin hugsun aldrei verið einvörðungu tengd rökleikni. Fremur má segja að hún hafi verið órjúfanlega tengd siðfræði. Rök fyrir mikilvægi þjálfunar í gagnrýninni hugsun hafa því ekki síst byggst á þeirri hugmynd að rétt breytni sé markmið gagnrýninnar hugsunar og að án þess að beita henni dafni fólk ekki sem siðferðisverur. Í fyrsta lagi felur það að staðhæfa ekkert um menn og málefni án þess að hafa fyrir því haldbær rök í sér ákveðna siðferðilega afstöðu. Þá er ekki hægt að fjalla um siðferðileg álitamál án þess að hugsa á gagnrýninn hátt um efni þeirra. Þar að auki er eitt af hlutverkum gagnrýninnar hugsunar að gera okkur kleift að meta siðferðilegt innsæi, samvisku og réttlætiskennd. Að lokum er beiting gagnrýninnar hugsunar leið til að öðlast þekkingu en þekking sem slík er dæmi um siðferðileg verðmæti ef henni er beitt á réttan máta. Þessi sýn á hlutverk gagnrýninnar hugsunar fyrir einstaklinginn í samfélagi við annað fólk varpar ljósi á mikilvægi þess að efla gagnrýna hugsun í almennri menntun.

Mynd:


Þetta svar birtist áður á vefnum Gagnrýnin hugsun og siðfræði og er birt hér með góðfúslegu leyfi.

...