Sólin Sólin Rís 05:22 • sest 21:31 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 23:11 • Sest 05:11 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:38 • Síðdegis: 18:56 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:39 • Síðdegis: 12:46 í Reykjavík

Er úruxinn enn til sem sérstök tegund?

Jón Már Halldórsson

Upprunalega hljóðað spurningin svona:
Mér hefur skilist að forfaðir núverandi nautgripa, það er húsdýranna, sé svokalaður úruxi. Er hann ennþá til sem sérstök tegund eða sem undirtegund innan ættkvíslarinnar eins og til dæmis yak eða vatnabuffall?

Úruxinn (Bos primigenius) er réttilega forfaðir núlifandi nautgripa en tegundin sem slík er útdauð. Síðustu dýrin eru talin hafa dáið árið 1627 í Jaktorow-skógi í Póllandi.

Á plíósentímanum (tímabil í jarðsögunni næst á undan ísöld) kólnaði á jörðinni og það leiddi til hnignunar skóglendis og gresjulendi breiddist út. Í kjölfar þessara umhverfisbreytinga komu fram stórir grasbítar svo sem villtir nautgripir. Ein þeirra tegunda sem kom fram á þessu skeiði hefur fengið vísindaheitið Bos acutifrons og er talinn vera forfaðir úruxa en ýmislegt í líkamsbyggingu Bos acutifrons minnir mjög á byggingarlag úruxans. Þessi tegund er talin hafa horfið fyrir tæpum tveimur milljónum ára eða um líkt leyti og úruxinn kom fram. Sennilega kom úruxinn fyrst fram á Indlandi en dreifði sér þaðan vestur á bóginn til Evrópu og eru elstu leifar hans í álfunni um 270 þúsund ára gamlar.

Útbreiðsla hinna þriggja deilitegunda úruxans.

Vísindamenn hafa flokkað úruxann í tvær til þrjár deilitegundir út frá útbreiðslu og líkamsbyggingu. Þær eru evrasíska deilitegundin B. primigenius primigenius sem var útbreidd í barrskógum Evrópu, Síberíu og Mið-Asíu, og indverska deilitegundin B. primigenius namadicus sem lifði á Indlandi. Mögulega var þriðja deilitegundin B. primigenius africanus sem lifði í norður Afríku.

Talið er að menn hafi gert úruxann að húsdýri snemma á nútíma sem hófst fyrir um 10 þúsund árum. Sennilega hefur þetta gerst á tveimur aðskildum svæðum á jörðinni. Annars vegar einhvers staðar á útbreiðslusvæði evrasísku deilitegundarinnar sem leiddi til taurus-nautgripa sem við þekkjum best í Evrópu, og hins vegar á Indlandi þar sem indverska deilitegund úruxans leiddi til zebu-nautgripa sem finnast í Suður-Asíu.

Úruxinn var stórvaxin skepna, sennilega á meðal stærstu grasbíta sem uppi voru á síð-jökultímanum í Evrópu og áþekkur evrópska skógarvísundinum (Bison bonasus). Samkvæmt beinafundum hefur stærðin verið nokkuð breytileg eftir stofnum. Stærstu dýrin voru af stofnunum sem lifðu nyrst á útbreiðslusvæði tegundarinnar. Leifar tarfa sem fundist hafa í Danmörku og Þýskalandi gefa til kynna að þeir hafi verið að jafnaði um 155 til 180 cm á herðakamb en kýrnar verið litlu minni eða 155-160 cm. Þessi dýr hafa vegið rúmlega 700 kg og jafnvel allt að tonn á ákveðnum tímum og hafa þá verið sambærileg við gaur-uxann sem er stærstur allra villtra nautgripa.

Úruxinn hafði mjög öflug horn sem gátu orðið allt að 80 cm á lengd hjá stærstu törfum og allt að 20 cm í þvermál við kúpu. Hornin voru framstæð og því nokkuð lík að byggingarlagi og hjá hinum spænsku bardagatörfum sem hafa verið notaðir í nautaat á Spáni í aldanna rás.

Hellamálverk af úruxa úr Lascaux-helli í Frakklandi.

Úruxar voru algengir í gisnu skóg- og kjarrlendi Evrópu á tímum Rómaveldis og voru þeir vinsælir í hringleikjahúsum Rómverja. Sennilega hófst ofveiði á tegundinni um þetta leyti sem leiddi til þess að dýrum tók að fækka verulega í Evrópu. Á 13. öld var svo komið að einungis voru nokkrar hjarðir eftir í austurhluta álfunnar, meðal annars í Litháen, Rússlandi og Póllandi. Úruxinn var veiddur af aðalsmönnum en seinna voru veiðar bundnar við hirðir konunga. Eftir því sem dýrunum fækkaði dró úr veiðinni en allt kom fyrir ekki. Samkvæmt mati konunglegra veiðivarða var talið að einungis 38 dýr væru eftir árið 1564. Rúmum 60 árum seinna, árið 1627, er talið að síðasti úruxinn hafa dáið af náttúrlegum orsökum í Póllandi.

Ofveiði er eflaust stór hluti af skýringunni á útdauða þessara merkilegu dýra en einnig tók að ganga á villta bithaga þeirra með aukinni kvikfjárrækt. Þá hafa sjúkdómar sem bárust frá tömdum nautgripum líklega tekið sinn toll.

Nú tæpum fjórum öldum eftir að úruxinn dó út eru menn að vinna í því að rækta hann fram að nýju og eru víst vel á veg komnir. Þessar hugmyndir um að endurvekja úruxann eru ekki nýjar af nálinni því Hermann Göring (1893–1946) hinn kunni valdamaður í Þýskalandi nasismans, átti sér draum um að koma upp stofnum úruxa á svæðum í austur Evrópu og hafa þá á einkaveiðilendum sínum þar. Þessar tilraunir í Þýskalandi hófust reyndar nokkuð fyrr eða á 3. áratug síðust aldar, skömmu áður en nasistar náðu þar völdum, með tilraunum bræðranna Lutz (1892-1983) og Heinz Heck (1894-1982). Þeim tókst að rækta fram kyn sem nefnt er eftir þeim, Heck-nautgripir sem minnir að ýmsu leyti á úruxa í útliti en er þó marktækt lágvaxnara. Fleiri verkefni hafa verið í gangi í því skyni að rækta nautgripi sem svipar til úruxans og hafa Heck-nautgripir þar oft komið við sögu. Það á þó ekki við um Tauros verkefnið sem hleypt var af stokkunum 2008 og hefur á að skipa vísindamönnum af ýmsum sviðum. Markmið þess er að rækta tegund sem líkist sem mest hinum útdauða úruxa, ekki bara í útliti heldur einnig í hegðun og fæðuvali. Ráðgert er að árið 2020 verði búið að sleppa út hjörðum í evrópska náttúru þannig að úruxinn verður kominn aftur þar sem hann á heima - eða hvað?

Lengi hefur verið áhugi á að rækta fram dýr sem hafa alla eiginleika úruxans og nokkur verkefni sett á stofn í þeim tilgangi.

Staðreyndin er sú að þrátt fyrir að mönnum hafi tekist með markvissri valræktun að kalla fram einkenni sem minna mjög á aldagamla og útdauða stofna og tegundir, meðal annars hið svokallaða Cumberland-svín, þá er tæplega um erfðafræðilega eins stofna að ræða og þá sem dáið hafa út.

Heimildir:

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Útgáfudagur

14.5.2014

Spyrjandi

Ásgrímur Geirs Gunnarsson

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Er úruxinn enn til sem sérstök tegund?“ Vísindavefurinn, 14. maí 2014. Sótt 24. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=67231.

Jón Már Halldórsson. (2014, 14. maí). Er úruxinn enn til sem sérstök tegund? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=67231

Jón Már Halldórsson. „Er úruxinn enn til sem sérstök tegund?“ Vísindavefurinn. 14. maí. 2014. Vefsíða. 24. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=67231>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Er úruxinn enn til sem sérstök tegund?
Upprunalega hljóðað spurningin svona:

Mér hefur skilist að forfaðir núverandi nautgripa, það er húsdýranna, sé svokalaður úruxi. Er hann ennþá til sem sérstök tegund eða sem undirtegund innan ættkvíslarinnar eins og til dæmis yak eða vatnabuffall?

Úruxinn (Bos primigenius) er réttilega forfaðir núlifandi nautgripa en tegundin sem slík er útdauð. Síðustu dýrin eru talin hafa dáið árið 1627 í Jaktorow-skógi í Póllandi.

Á plíósentímanum (tímabil í jarðsögunni næst á undan ísöld) kólnaði á jörðinni og það leiddi til hnignunar skóglendis og gresjulendi breiddist út. Í kjölfar þessara umhverfisbreytinga komu fram stórir grasbítar svo sem villtir nautgripir. Ein þeirra tegunda sem kom fram á þessu skeiði hefur fengið vísindaheitið Bos acutifrons og er talinn vera forfaðir úruxa en ýmislegt í líkamsbyggingu Bos acutifrons minnir mjög á byggingarlag úruxans. Þessi tegund er talin hafa horfið fyrir tæpum tveimur milljónum ára eða um líkt leyti og úruxinn kom fram. Sennilega kom úruxinn fyrst fram á Indlandi en dreifði sér þaðan vestur á bóginn til Evrópu og eru elstu leifar hans í álfunni um 270 þúsund ára gamlar.

Útbreiðsla hinna þriggja deilitegunda úruxans.

Vísindamenn hafa flokkað úruxann í tvær til þrjár deilitegundir út frá útbreiðslu og líkamsbyggingu. Þær eru evrasíska deilitegundin B. primigenius primigenius sem var útbreidd í barrskógum Evrópu, Síberíu og Mið-Asíu, og indverska deilitegundin B. primigenius namadicus sem lifði á Indlandi. Mögulega var þriðja deilitegundin B. primigenius africanus sem lifði í norður Afríku.

Talið er að menn hafi gert úruxann að húsdýri snemma á nútíma sem hófst fyrir um 10 þúsund árum. Sennilega hefur þetta gerst á tveimur aðskildum svæðum á jörðinni. Annars vegar einhvers staðar á útbreiðslusvæði evrasísku deilitegundarinnar sem leiddi til taurus-nautgripa sem við þekkjum best í Evrópu, og hins vegar á Indlandi þar sem indverska deilitegund úruxans leiddi til zebu-nautgripa sem finnast í Suður-Asíu.

Úruxinn var stórvaxin skepna, sennilega á meðal stærstu grasbíta sem uppi voru á síð-jökultímanum í Evrópu og áþekkur evrópska skógarvísundinum (Bison bonasus). Samkvæmt beinafundum hefur stærðin verið nokkuð breytileg eftir stofnum. Stærstu dýrin voru af stofnunum sem lifðu nyrst á útbreiðslusvæði tegundarinnar. Leifar tarfa sem fundist hafa í Danmörku og Þýskalandi gefa til kynna að þeir hafi verið að jafnaði um 155 til 180 cm á herðakamb en kýrnar verið litlu minni eða 155-160 cm. Þessi dýr hafa vegið rúmlega 700 kg og jafnvel allt að tonn á ákveðnum tímum og hafa þá verið sambærileg við gaur-uxann sem er stærstur allra villtra nautgripa.

Úruxinn hafði mjög öflug horn sem gátu orðið allt að 80 cm á lengd hjá stærstu törfum og allt að 20 cm í þvermál við kúpu. Hornin voru framstæð og því nokkuð lík að byggingarlagi og hjá hinum spænsku bardagatörfum sem hafa verið notaðir í nautaat á Spáni í aldanna rás.

Hellamálverk af úruxa úr Lascaux-helli í Frakklandi.

Úruxar voru algengir í gisnu skóg- og kjarrlendi Evrópu á tímum Rómaveldis og voru þeir vinsælir í hringleikjahúsum Rómverja. Sennilega hófst ofveiði á tegundinni um þetta leyti sem leiddi til þess að dýrum tók að fækka verulega í Evrópu. Á 13. öld var svo komið að einungis voru nokkrar hjarðir eftir í austurhluta álfunnar, meðal annars í Litháen, Rússlandi og Póllandi. Úruxinn var veiddur af aðalsmönnum en seinna voru veiðar bundnar við hirðir konunga. Eftir því sem dýrunum fækkaði dró úr veiðinni en allt kom fyrir ekki. Samkvæmt mati konunglegra veiðivarða var talið að einungis 38 dýr væru eftir árið 1564. Rúmum 60 árum seinna, árið 1627, er talið að síðasti úruxinn hafa dáið af náttúrlegum orsökum í Póllandi.

Ofveiði er eflaust stór hluti af skýringunni á útdauða þessara merkilegu dýra en einnig tók að ganga á villta bithaga þeirra með aukinni kvikfjárrækt. Þá hafa sjúkdómar sem bárust frá tömdum nautgripum líklega tekið sinn toll.

Nú tæpum fjórum öldum eftir að úruxinn dó út eru menn að vinna í því að rækta hann fram að nýju og eru víst vel á veg komnir. Þessar hugmyndir um að endurvekja úruxann eru ekki nýjar af nálinni því Hermann Göring (1893–1946) hinn kunni valdamaður í Þýskalandi nasismans, átti sér draum um að koma upp stofnum úruxa á svæðum í austur Evrópu og hafa þá á einkaveiðilendum sínum þar. Þessar tilraunir í Þýskalandi hófust reyndar nokkuð fyrr eða á 3. áratug síðust aldar, skömmu áður en nasistar náðu þar völdum, með tilraunum bræðranna Lutz (1892-1983) og Heinz Heck (1894-1982). Þeim tókst að rækta fram kyn sem nefnt er eftir þeim, Heck-nautgripir sem minnir að ýmsu leyti á úruxa í útliti en er þó marktækt lágvaxnara. Fleiri verkefni hafa verið í gangi í því skyni að rækta nautgripi sem svipar til úruxans og hafa Heck-nautgripir þar oft komið við sögu. Það á þó ekki við um Tauros verkefnið sem hleypt var af stokkunum 2008 og hefur á að skipa vísindamönnum af ýmsum sviðum. Markmið þess er að rækta tegund sem líkist sem mest hinum útdauða úruxa, ekki bara í útliti heldur einnig í hegðun og fæðuvali. Ráðgert er að árið 2020 verði búið að sleppa út hjörðum í evrópska náttúru þannig að úruxinn verður kominn aftur þar sem hann á heima - eða hvað?

Lengi hefur verið áhugi á að rækta fram dýr sem hafa alla eiginleika úruxans og nokkur verkefni sett á stofn í þeim tilgangi.

Staðreyndin er sú að þrátt fyrir að mönnum hafi tekist með markvissri valræktun að kalla fram einkenni sem minna mjög á aldagamla og útdauða stofna og tegundir, meðal annars hið svokallaða Cumberland-svín, þá er tæplega um erfðafræðilega eins stofna að ræða og þá sem dáið hafa út.

Heimildir:

...