Sólin Sólin Rís 05:36 • sest 21:19 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 16:44 • Sest 05:50 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:37 • Síðdegis: 17:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:57 • Síðdegis: 23:09 í Reykjavík

Hvaða tjón gæti mögulega hlotist af gosi í Bárðarbungu?

Guðrún Larsen, Magnús Tumi Guðmundsson, Páll Einarsson og Þorvaldur Þórðarson

Tjón af völdum gosa á jökulþöktum hluta Bárðarbungu-Veiðivatnakerfis getur bæði stafað af gjóskufalli og jökulhlaupum. Gjóskufall í byggð olli líklega einna mestu tjóni í gosi í ágúst og september 1717. Þá féll gjóska um Norður- og Austurland frá Eyjafirði austur á Hérað, svo að haglaust varð og tafir á heyskap.[1]

Tjón af völdum jökulhlaupa sem sögur fara af í Skjálfandafljóti og þó einkum í Jökulsá á Fjöllum var verulegt, enda ollu þau fjársköðum og landskemmdum þótt ekki væru hamfarahlaup.[2] Hlaup í Jökulsá verða ekki eingöngu af völdum eldgosa, en á árunum 1711-1729 má telja fullvíst að eldgos hafi valdið að minnsta kosti níu jökulhlaupum sem skemmdu engi og tún í Öxarfirði og Kelduhverfi með aurburði. Nokkrum áratugum áður, 1684, fórst maður í jökulhlaupi, sem einnig hreif með sér 200 fjár, 14 hesta, fjóra báta og tvo brúarfleka og skemmdi að auki land með malarburði. Gosið sem þessu olli var að öllum líkindum í Grímsvötnum.[3]

Gjóskulag úr Veiðivatnagosinu um 1477. Gjóskan er dökkleit basaltgjóska og féll á um helming landsins. Gossprungan lá eftir miðri Veiðivatnadældinni þar sem grunnvatnsstaða var há, og stöðuvötn voru þar fyrir gosið. Helstu gosstöðvar voru gígar í Hraunvötnum, Veiðivötnum, og Svartakróki ásamt Ljótapolli. Gjóskulagið var nýfallið nálægt 10 rúmkílómetrum og er eitt stærsta gjóskulagið frá sögulegum tíma. Það var upphaflega kortlagt sem tvö gjóskulög. Á Norðausturlandi sem lag „a“ og á Suðurlandi og miðhálendi sem Veiðivatnalag.

Hamfarahlaupin í Jökulsá á Fjöllum voru af annarri stærðargráðu og breyttu landslaginu. Þau hefluðu berggrunninn og grófu í hann gljúfur, og fluttu til óhemju magn af aur og grjóti. Í byggð eru Jökulsárgljúfur, allt of stór fyrir núverandi jökulsá, og þurra gljúfrið Ásbyrgi þekktustu ummerki þessara hlaupa.[4]

Tjón og umhverfisbreytingar vegna eldgosa á sprungureininni utan jökulsins geta bæði orðið vegna hraunrennslis og gjóskufalls - og hugsanlega vegna hreyfinga á sprungum og misgengjum. Sprungureinin er alls staðar fjarri byggð. Stærstu forsögulegu gosin á suðvesturhluta hennar ollu stórfelldum umhverfisbreytingum. Hraun þaðan runnu niður á láglendi eftir farvegum Tungnaár og Þjórsár og meira en 130 kílómetra frá upptökum. Gjóskufall í tveimur sögulegum gosum á suðversturhluta sprungureinarinnar náði til að minnsta kosti helmings landsins. Þótt það hafi ekki verið stórfellt í byggð, voru áhrif þess á hálendinu mjög skaðleg og breyttu stórum svæðum í gróðurvana auðnir. Fimm stórar vatnsaflsvirkjanir og allmargar stíflur á vatnasvæði Tungnaár og Þjórsár hafa verið byggðar í nágrenni sprungureinarinnar. Öll mannvirkin eru innan þess svæðis sem 20 sentimetra gjóskufall getur náð til, fjórar virkjanir á svæðum þar sem hraun kann að renna, og hugsanlegt er að sprunguhreyfingar geti náð til mannvirkja næst jaðri sprungureinarinnar. Stór en skammlíf stöðuvötn eða lón mynduðust í Veiðivatnadældinni og einnig farvegi Tungnaár eftir Vatnaöldugos um 870 og Veiðivatnagos um 1477, vegna þess að gígar hlóðust upp í farveginum og stífluðu ána tímabundið.[5] Lónið eftir Vatnaöldugosið var um 140 ferkílómetrar og hafði miðlunarrými sem svaraði til eins rúmkílómetra. Miklu minni lón urðu til eftir Veiðivatnagosið, það stærsta með um 0,3 rúmkílómetra miðlunarrými. Gígveggirnir sem héldu vatninu uppi, rofnuðu, líklega vegna yfirflæðis. Allstór flóð runnu því út á hraunin og niður farveg Tungnaár eftir gosin. Ekki er vitað um áhrif þeirra að öðru leyti en því að eldra flóðið rann út í og ræsti fram svokallað Krókslón þar sem Sigöldulón er nú.

Tilvísanir:
  1. ^ Annálar 1400-1800 (6 bindi og tvær lykilbækur), 1922-2002. Hannes Þorsteinsson, Jón Jóhannesson, Þórhallur Vilmundarson og Guðrún Ása Grímsdóttir önnuðust útgáfu. Hið íslenzka bókmenntafélag, Reykjavík.
  2. ^ Annálar 1400-1800; Sigurður Þórarinsson, 1950. Jökulhlaup og eldgos á jökulvatnasvæði Jökulsár á Fjöllum. Náttúrufræðingurinn, 20, 113-133.
  3. ^ Sigurður Þórarinsson, 1950; Sigurður Þórarinsson, 1974. Vötnin stríð. Saga Skeiðarárhlaupa og Grímsvatnagosa. Bókaútgáfa Menningarsjóðs, Reykjavík.
  4. ^ Haukur Tómasson, 1973. Hamfarahlaup í Jökulsá á Fjöllum, Náttúrufræðingurinn, 43, 12-34 ; Kristján Sæmundsson, 1973. Straumrákaðar klappir í kringum Ásbyrgi. Náttúrufræðingurinn, 43, 52-60.
  5. ^ Guðmundur Kjartansson, 1961. Tungná. Skýrsla um jarðfræðirannsóknir á hugsanlegum virkjunarstöðum. Raforkumálastjórinn, Reykjavík; Guðrún Larsen, 1984. Recent volcanic history of the Veidivötn fissure swarm, Southern Iceland. An approach to volcanic risk assessment. Journal of Volcanology and Geothermal Research, 22, 33-58.

Mynd:
  • Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar, bls. 258.


Þetta svar er úr bókinni Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar og birt með góðfúslegu leyfi.

Höfundar

Guðrún Larsen

jarðfræðingur á Jarðvísindastofnun HÍ

Magnús Tumi Guðmundsson

prófessor í jarðeðlisfræði við HÍ

Páll Einarsson

prófessor emeritus í jarðeðlisfræði við HÍ

Þorvaldur Þórðarson

eldfjallafræðingur á Jarðvísindastofnun HÍ

Útgáfudagur

20.8.2014

Spyrjandi

Hulda Sif Ólafsdóttir

Tilvísun

Guðrún Larsen, Magnús Tumi Guðmundsson, Páll Einarsson og Þorvaldur Þórðarson. „Hvaða tjón gæti mögulega hlotist af gosi í Bárðarbungu?“ Vísindavefurinn, 20. ágúst 2014. Sótt 20. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=67909.

Guðrún Larsen, Magnús Tumi Guðmundsson, Páll Einarsson og Þorvaldur Þórðarson. (2014, 20. ágúst). Hvaða tjón gæti mögulega hlotist af gosi í Bárðarbungu? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=67909

Guðrún Larsen, Magnús Tumi Guðmundsson, Páll Einarsson og Þorvaldur Þórðarson. „Hvaða tjón gæti mögulega hlotist af gosi í Bárðarbungu?“ Vísindavefurinn. 20. ágú. 2014. Vefsíða. 20. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=67909>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvaða tjón gæti mögulega hlotist af gosi í Bárðarbungu?
Tjón af völdum gosa á jökulþöktum hluta Bárðarbungu-Veiðivatnakerfis getur bæði stafað af gjóskufalli og jökulhlaupum. Gjóskufall í byggð olli líklega einna mestu tjóni í gosi í ágúst og september 1717. Þá féll gjóska um Norður- og Austurland frá Eyjafirði austur á Hérað, svo að haglaust varð og tafir á heyskap.[1]

Tjón af völdum jökulhlaupa sem sögur fara af í Skjálfandafljóti og þó einkum í Jökulsá á Fjöllum var verulegt, enda ollu þau fjársköðum og landskemmdum þótt ekki væru hamfarahlaup.[2] Hlaup í Jökulsá verða ekki eingöngu af völdum eldgosa, en á árunum 1711-1729 má telja fullvíst að eldgos hafi valdið að minnsta kosti níu jökulhlaupum sem skemmdu engi og tún í Öxarfirði og Kelduhverfi með aurburði. Nokkrum áratugum áður, 1684, fórst maður í jökulhlaupi, sem einnig hreif með sér 200 fjár, 14 hesta, fjóra báta og tvo brúarfleka og skemmdi að auki land með malarburði. Gosið sem þessu olli var að öllum líkindum í Grímsvötnum.[3]

Gjóskulag úr Veiðivatnagosinu um 1477. Gjóskan er dökkleit basaltgjóska og féll á um helming landsins. Gossprungan lá eftir miðri Veiðivatnadældinni þar sem grunnvatnsstaða var há, og stöðuvötn voru þar fyrir gosið. Helstu gosstöðvar voru gígar í Hraunvötnum, Veiðivötnum, og Svartakróki ásamt Ljótapolli. Gjóskulagið var nýfallið nálægt 10 rúmkílómetrum og er eitt stærsta gjóskulagið frá sögulegum tíma. Það var upphaflega kortlagt sem tvö gjóskulög. Á Norðausturlandi sem lag „a“ og á Suðurlandi og miðhálendi sem Veiðivatnalag.

Hamfarahlaupin í Jökulsá á Fjöllum voru af annarri stærðargráðu og breyttu landslaginu. Þau hefluðu berggrunninn og grófu í hann gljúfur, og fluttu til óhemju magn af aur og grjóti. Í byggð eru Jökulsárgljúfur, allt of stór fyrir núverandi jökulsá, og þurra gljúfrið Ásbyrgi þekktustu ummerki þessara hlaupa.[4]

Tjón og umhverfisbreytingar vegna eldgosa á sprungureininni utan jökulsins geta bæði orðið vegna hraunrennslis og gjóskufalls - og hugsanlega vegna hreyfinga á sprungum og misgengjum. Sprungureinin er alls staðar fjarri byggð. Stærstu forsögulegu gosin á suðvesturhluta hennar ollu stórfelldum umhverfisbreytingum. Hraun þaðan runnu niður á láglendi eftir farvegum Tungnaár og Þjórsár og meira en 130 kílómetra frá upptökum. Gjóskufall í tveimur sögulegum gosum á suðversturhluta sprungureinarinnar náði til að minnsta kosti helmings landsins. Þótt það hafi ekki verið stórfellt í byggð, voru áhrif þess á hálendinu mjög skaðleg og breyttu stórum svæðum í gróðurvana auðnir. Fimm stórar vatnsaflsvirkjanir og allmargar stíflur á vatnasvæði Tungnaár og Þjórsár hafa verið byggðar í nágrenni sprungureinarinnar. Öll mannvirkin eru innan þess svæðis sem 20 sentimetra gjóskufall getur náð til, fjórar virkjanir á svæðum þar sem hraun kann að renna, og hugsanlegt er að sprunguhreyfingar geti náð til mannvirkja næst jaðri sprungureinarinnar. Stór en skammlíf stöðuvötn eða lón mynduðust í Veiðivatnadældinni og einnig farvegi Tungnaár eftir Vatnaöldugos um 870 og Veiðivatnagos um 1477, vegna þess að gígar hlóðust upp í farveginum og stífluðu ána tímabundið.[5] Lónið eftir Vatnaöldugosið var um 140 ferkílómetrar og hafði miðlunarrými sem svaraði til eins rúmkílómetra. Miklu minni lón urðu til eftir Veiðivatnagosið, það stærsta með um 0,3 rúmkílómetra miðlunarrými. Gígveggirnir sem héldu vatninu uppi, rofnuðu, líklega vegna yfirflæðis. Allstór flóð runnu því út á hraunin og niður farveg Tungnaár eftir gosin. Ekki er vitað um áhrif þeirra að öðru leyti en því að eldra flóðið rann út í og ræsti fram svokallað Krókslón þar sem Sigöldulón er nú.

Tilvísanir:
  1. ^ Annálar 1400-1800 (6 bindi og tvær lykilbækur), 1922-2002. Hannes Þorsteinsson, Jón Jóhannesson, Þórhallur Vilmundarson og Guðrún Ása Grímsdóttir önnuðust útgáfu. Hið íslenzka bókmenntafélag, Reykjavík.
  2. ^ Annálar 1400-1800; Sigurður Þórarinsson, 1950. Jökulhlaup og eldgos á jökulvatnasvæði Jökulsár á Fjöllum. Náttúrufræðingurinn, 20, 113-133.
  3. ^ Sigurður Þórarinsson, 1950; Sigurður Þórarinsson, 1974. Vötnin stríð. Saga Skeiðarárhlaupa og Grímsvatnagosa. Bókaútgáfa Menningarsjóðs, Reykjavík.
  4. ^ Haukur Tómasson, 1973. Hamfarahlaup í Jökulsá á Fjöllum, Náttúrufræðingurinn, 43, 12-34 ; Kristján Sæmundsson, 1973. Straumrákaðar klappir í kringum Ásbyrgi. Náttúrufræðingurinn, 43, 52-60.
  5. ^ Guðmundur Kjartansson, 1961. Tungná. Skýrsla um jarðfræðirannsóknir á hugsanlegum virkjunarstöðum. Raforkumálastjórinn, Reykjavík; Guðrún Larsen, 1984. Recent volcanic history of the Veidivötn fissure swarm, Southern Iceland. An approach to volcanic risk assessment. Journal of Volcanology and Geothermal Research, 22, 33-58.

Mynd:
  • Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar, bls. 258.


Þetta svar er úr bókinni Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar og birt með góðfúslegu leyfi....