Sólin Sólin Rís 05:19 • sest 21:35 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:18 • Sest 04:56 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:07 • Síðdegis: 19:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:08 • Síðdegis: 13:14 í Reykjavík

Hvaða ártöl notuðu víkingar?

Gunnar Karlsson (1939-2019)

Í heild hljóðaði spurningin svona:
Hvaða ártal notuðu víkingar? Til dæmis það sem við köllum núna árið 870 hvað kölluðu landnámsmenn það ár?

Kristnir menn voru ekki fyrstir til að telja ár í einni röð frá einum upphafspunkti. Í Rómaveldi voru ár talin frá stofnun Rómaborgar, sem var árið 753 fyrir Krist samkvæmt tímatali okkar. Sjálfsagt hefur eitthvað svipað tíðkast víðar, en ekki er vitað til að germanskar þjóðir Evrópu hafi talið frá neinu slíku upphafsári. Þar hafa menn væntanlega talið ríkisár konunga, eins og haldið var áfram að gera langt fram yfir kristnitöku þessara þjóða, samhliða kristnu tímatali.

Haraldur hárfagri tekur við konungdómi af föður sínum. Úr Flateyjarbók.

Umfangsmesta leifin af þess konar tímatali sem er varðveitt í íslenskum heimildum er í kvæði sem er kallað Noregskonungatal og er sagt ort til heiðurs Jóni Loftssyni héraðshöfðingja í Odda, en hann var dóttursonur Magnúsar Ólafssonar Noregskonungs sem var kallaður berfættur. En samkvæmt því sem stendur í sjálfu kvæðinu er fyrri hluti þess reistur á konungatali eftir Sæmund fróða sem lést árið 1133. Kvæðið hefst á föður Haralds hárfagra, Hálfdani svarta sem átti ríki í Noregi um miðja 9. öld. Síðan er rakin valdatíð Haralds, sem fyrstur taldist Noregskonungur, og eftirmanna hans hvers af öðrum allt til Sverris konungs Sigurðssonar, sem telst hafa ríkt á árunum 1184–1202. Jafnan er tekið fram hve lengi hver og einn hafi ríkt. Þannig er ort um Eirík Haraldsson blóðöx sem er sagður hafa ríkt í fimm vetur:

var vígfimur
vetur að landi
Eirekur alls
einn og fjóra.

Ef menn vilja nota svona konungatal til að finna út lengd tímabila sem spanna meira en valdatíð eins konungs verður niðurstaðan einatt óörugg. Í fyrsta lagi voru valdaár konunga ekki alltaf talin á einn og sama hátt. Stundum voru aðeins taldir heilir vetur sem konungar ríktu svo að eitt ár gat fallið niður ef konungaskipti urðu um vetur og hvor um sig taldist aðeins hafa ríkt hluta af tilteknum vetri. Svo var hitt til líka að miðað væri við fjölda áramóta sem konungur ríkti, og kom það eins út og þegar lengd tímabils er reiknuð með því að draga lægra ártalið frá því hærra. Nú voru áramót sett á ólíka tíma ársins langt fram á kristinn tíma, 1. janúar, 25. mars (boðunardag Maríu), 1. september, 24. september og fleira, en það skekkti ekki einstakar talningar valdatímabila ef sá sem taldi hélt sig við áramót á sama tíma ársins. Önnur skekkja gat svo komið upp ef tveir konungar, til dæmis faðir og sonur, deildu með sér völdum á einhverju árabili. Þá gátu sagnaritarar eignað þeim báðum þessi ár og fengið þannig út of langt tímabil í heild.

Íslendingabók Ara fróða er elsta ritheimild okkar um upphaf Íslandsbyggðar. Til hennar sækir fyrirspyrjandi það vafalaust að tiltaka ártalið 870 því að Ari skrifar:
Ísland byggðist fyrst úr Norvegi á dögum Haralds ens hárfagra, Hálfdanarsonar ens svarta, í þann tíð … er Ívar Ragnarssonur loðbrókar lét drepa Eadmund enn helga Englakonung, en það var sjö tigum vetra ens níunda hundraðs eftir burð Krists
En víg Játmundar þessa konungs á Englandi er þekktur atburður í evrópskri miðaldasögu og tímasett ýmist 869 eða 870. Óvissa um það þarf ekki að stafa af öðru en því að reiknað var með áramótum á mismunandi tíma ársins.

Þessa kristnu tímatalsákvörðun tengir Ari svo við gamalt konungatímatal Norðmanna og skrifar að Ingólfur landnámsmaður hafi fyrst farið til Íslands „þá er Haraldur enn hárfagri var sextán vetra gamall, en í annað sinn fám vetrum síðar.“ Loks skorðar Ari upphaf og endi landnámsaldar með því að segja
að á sex tigum vetra yrði Ísland albyggt, svo að eigi væri meir síðan. Því nær tók Hrafn lögsögu Hængssonur landnámamanns, næstur Úlfljóti, og hafði tuttugu sumur … Það var sex tigum vetra eftir dráp Eadmundar konungs, vetri eða tveim áður Haraldur enn hárfagri yrði dauður …
En áður hefur hann sagt að Haraldur „væri sjö tigu vetra konungur og yrði áttræður." Hér er líka tengt við lögsögumannatal Íslendinga því að Ari nefnir árafjölda hvers lögsögumanns fram á ritunartíma bókar sinnar, og kemur það heim að Hrafn hafi fyrst orðið lögsögumaður árið 930.

Það er ólíklegt að víkingar sem komu til L’Anse aux Meadow á Nýfundnalandi fyrir um 1000 árum hafi mikið velt því fyrir sér hvaða ár það var.

Ari vinnur sýnilega með eins konar líkan sem telur upphaf landnámsaldar árið 870 og lok hennar 930. En jafnframt viðurkennir hann sífellt að þar kunni að skakka örfáum árum, segir að landið hafi farið að byggjast „í þann tíð“ sem Játmundur konungur var veginn, ekki nákvæmlega sama ár, að Ingólfur hafi farið í landnámsferð sína „fám vetrum síðar“ en Haraldur var 16 vetra, að Hrafn hafi tekið lögsögu „því nær“ sem Ísland var albyggt, „vetri eða tveim“ áður en Haraldur dó. Því miður eru heimildir ekki samhljóða um fæðingarár Haralds hárfagra svo að ekki er hægt að ganga úr skugga um hvort Ara tekst að tengja konungatímatalið og kristilega tímatalið rétt saman.

Ekki vitum við hve mikill hluti fólks í Noregi á níundu eða tíundu öld fylgdist með því hvað konungur þess væri búinn að ríkja í mörg ár og hafði þannig meðvitund um einhvers konar ártal. Líklega hefur þetta fólk komist ágætlega af án þess að vita að árið í ár hefði eitthvert númer. Frá vissu sjónarmiði hefur mátt líta svo á að það væri sama árið sem kæmi aftur og aftur með vetur sinn, vor, sumar og haust.

Heimildir og mynd:

  • Íslenzk fornrit I. Íslendingabók. Landnámabók. Jakob Benediktsson gaf út. Reykjavík, Fornritafélag, 1968.
  • Jansson, Sam Owen: „Era.“ Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder IV (Reykjavík, Bókaverzlun Ísafoldar, 1959), 2¬–3.
  • Jansson, Sam Owen: „Tideräkning.“ Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder XVIII (Reykjavík, Bókaverzlun Ísafoldar, 1974), 270¬–77.
  • Den norsk-islandske Skjaldedigtning ved Finnur Jónsson. B. Rettet Tekst I. København, Gyldendal, 1915.
  • Ólafía Einarsdóttir: Studier i kronologisk metode i tidlig islandsk historieskrivning. Stockholm, Natur och kultur, 1964.
  • Mynd úr Flateyjarbók: Flateyjarbok Haraldr Halfdan.jpg - Wikimedia Commons. (Sótt 5. 1. 2015).
  • Mynd frá L’Anse aux Meadow: Day 75, Tuesday, August 13 Rocky Harbor to L’anse aux Meadows, NL | RV Road Trip to Canada (Sótt 5. 1. 2015).

Höfundur

Gunnar Karlsson (1939-2019)

prófessor emeritus í sagnfræði við HÍ

Útgáfudagur

12.1.2015

Spyrjandi

Björn Arnar Hauksson, Pétur Einarssson, Jón Ágúst, Máni Atlason

Tilvísun

Gunnar Karlsson (1939-2019). „Hvaða ártöl notuðu víkingar? “ Vísindavefurinn, 12. janúar 2015. Sótt 25. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=68734.

Gunnar Karlsson (1939-2019). (2015, 12. janúar). Hvaða ártöl notuðu víkingar? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=68734

Gunnar Karlsson (1939-2019). „Hvaða ártöl notuðu víkingar? “ Vísindavefurinn. 12. jan. 2015. Vefsíða. 25. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=68734>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvaða ártöl notuðu víkingar?
Í heild hljóðaði spurningin svona:

Hvaða ártal notuðu víkingar? Til dæmis það sem við köllum núna árið 870 hvað kölluðu landnámsmenn það ár?

Kristnir menn voru ekki fyrstir til að telja ár í einni röð frá einum upphafspunkti. Í Rómaveldi voru ár talin frá stofnun Rómaborgar, sem var árið 753 fyrir Krist samkvæmt tímatali okkar. Sjálfsagt hefur eitthvað svipað tíðkast víðar, en ekki er vitað til að germanskar þjóðir Evrópu hafi talið frá neinu slíku upphafsári. Þar hafa menn væntanlega talið ríkisár konunga, eins og haldið var áfram að gera langt fram yfir kristnitöku þessara þjóða, samhliða kristnu tímatali.

Haraldur hárfagri tekur við konungdómi af föður sínum. Úr Flateyjarbók.

Umfangsmesta leifin af þess konar tímatali sem er varðveitt í íslenskum heimildum er í kvæði sem er kallað Noregskonungatal og er sagt ort til heiðurs Jóni Loftssyni héraðshöfðingja í Odda, en hann var dóttursonur Magnúsar Ólafssonar Noregskonungs sem var kallaður berfættur. En samkvæmt því sem stendur í sjálfu kvæðinu er fyrri hluti þess reistur á konungatali eftir Sæmund fróða sem lést árið 1133. Kvæðið hefst á föður Haralds hárfagra, Hálfdani svarta sem átti ríki í Noregi um miðja 9. öld. Síðan er rakin valdatíð Haralds, sem fyrstur taldist Noregskonungur, og eftirmanna hans hvers af öðrum allt til Sverris konungs Sigurðssonar, sem telst hafa ríkt á árunum 1184–1202. Jafnan er tekið fram hve lengi hver og einn hafi ríkt. Þannig er ort um Eirík Haraldsson blóðöx sem er sagður hafa ríkt í fimm vetur:

var vígfimur
vetur að landi
Eirekur alls
einn og fjóra.

Ef menn vilja nota svona konungatal til að finna út lengd tímabila sem spanna meira en valdatíð eins konungs verður niðurstaðan einatt óörugg. Í fyrsta lagi voru valdaár konunga ekki alltaf talin á einn og sama hátt. Stundum voru aðeins taldir heilir vetur sem konungar ríktu svo að eitt ár gat fallið niður ef konungaskipti urðu um vetur og hvor um sig taldist aðeins hafa ríkt hluta af tilteknum vetri. Svo var hitt til líka að miðað væri við fjölda áramóta sem konungur ríkti, og kom það eins út og þegar lengd tímabils er reiknuð með því að draga lægra ártalið frá því hærra. Nú voru áramót sett á ólíka tíma ársins langt fram á kristinn tíma, 1. janúar, 25. mars (boðunardag Maríu), 1. september, 24. september og fleira, en það skekkti ekki einstakar talningar valdatímabila ef sá sem taldi hélt sig við áramót á sama tíma ársins. Önnur skekkja gat svo komið upp ef tveir konungar, til dæmis faðir og sonur, deildu með sér völdum á einhverju árabili. Þá gátu sagnaritarar eignað þeim báðum þessi ár og fengið þannig út of langt tímabil í heild.

Íslendingabók Ara fróða er elsta ritheimild okkar um upphaf Íslandsbyggðar. Til hennar sækir fyrirspyrjandi það vafalaust að tiltaka ártalið 870 því að Ari skrifar:
Ísland byggðist fyrst úr Norvegi á dögum Haralds ens hárfagra, Hálfdanarsonar ens svarta, í þann tíð … er Ívar Ragnarssonur loðbrókar lét drepa Eadmund enn helga Englakonung, en það var sjö tigum vetra ens níunda hundraðs eftir burð Krists
En víg Játmundar þessa konungs á Englandi er þekktur atburður í evrópskri miðaldasögu og tímasett ýmist 869 eða 870. Óvissa um það þarf ekki að stafa af öðru en því að reiknað var með áramótum á mismunandi tíma ársins.

Þessa kristnu tímatalsákvörðun tengir Ari svo við gamalt konungatímatal Norðmanna og skrifar að Ingólfur landnámsmaður hafi fyrst farið til Íslands „þá er Haraldur enn hárfagri var sextán vetra gamall, en í annað sinn fám vetrum síðar.“ Loks skorðar Ari upphaf og endi landnámsaldar með því að segja
að á sex tigum vetra yrði Ísland albyggt, svo að eigi væri meir síðan. Því nær tók Hrafn lögsögu Hængssonur landnámamanns, næstur Úlfljóti, og hafði tuttugu sumur … Það var sex tigum vetra eftir dráp Eadmundar konungs, vetri eða tveim áður Haraldur enn hárfagri yrði dauður …
En áður hefur hann sagt að Haraldur „væri sjö tigu vetra konungur og yrði áttræður." Hér er líka tengt við lögsögumannatal Íslendinga því að Ari nefnir árafjölda hvers lögsögumanns fram á ritunartíma bókar sinnar, og kemur það heim að Hrafn hafi fyrst orðið lögsögumaður árið 930.

Það er ólíklegt að víkingar sem komu til L’Anse aux Meadow á Nýfundnalandi fyrir um 1000 árum hafi mikið velt því fyrir sér hvaða ár það var.

Ari vinnur sýnilega með eins konar líkan sem telur upphaf landnámsaldar árið 870 og lok hennar 930. En jafnframt viðurkennir hann sífellt að þar kunni að skakka örfáum árum, segir að landið hafi farið að byggjast „í þann tíð“ sem Játmundur konungur var veginn, ekki nákvæmlega sama ár, að Ingólfur hafi farið í landnámsferð sína „fám vetrum síðar“ en Haraldur var 16 vetra, að Hrafn hafi tekið lögsögu „því nær“ sem Ísland var albyggt, „vetri eða tveim“ áður en Haraldur dó. Því miður eru heimildir ekki samhljóða um fæðingarár Haralds hárfagra svo að ekki er hægt að ganga úr skugga um hvort Ara tekst að tengja konungatímatalið og kristilega tímatalið rétt saman.

Ekki vitum við hve mikill hluti fólks í Noregi á níundu eða tíundu öld fylgdist með því hvað konungur þess væri búinn að ríkja í mörg ár og hafði þannig meðvitund um einhvers konar ártal. Líklega hefur þetta fólk komist ágætlega af án þess að vita að árið í ár hefði eitthvert númer. Frá vissu sjónarmiði hefur mátt líta svo á að það væri sama árið sem kæmi aftur og aftur með vetur sinn, vor, sumar og haust.

Heimildir og mynd:

  • Íslenzk fornrit I. Íslendingabók. Landnámabók. Jakob Benediktsson gaf út. Reykjavík, Fornritafélag, 1968.
  • Jansson, Sam Owen: „Era.“ Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder IV (Reykjavík, Bókaverzlun Ísafoldar, 1959), 2¬–3.
  • Jansson, Sam Owen: „Tideräkning.“ Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder XVIII (Reykjavík, Bókaverzlun Ísafoldar, 1974), 270¬–77.
  • Den norsk-islandske Skjaldedigtning ved Finnur Jónsson. B. Rettet Tekst I. København, Gyldendal, 1915.
  • Ólafía Einarsdóttir: Studier i kronologisk metode i tidlig islandsk historieskrivning. Stockholm, Natur och kultur, 1964.
  • Mynd úr Flateyjarbók: Flateyjarbok Haraldr Halfdan.jpg - Wikimedia Commons. (Sótt 5. 1. 2015).
  • Mynd frá L’Anse aux Meadow: Day 75, Tuesday, August 13 Rocky Harbor to L’anse aux Meadows, NL | RV Road Trip to Canada (Sótt 5. 1. 2015).

...