Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Hvaða munur er á leysiljósi og öðru ljósi?

Þorsteinn J. Halldórsson

Munurinn á leysiljósi og ljósi algengra ljósgjafa til dæmis sólar, kertis, ljósaperu, ljóspípu eða ljóstvists (e. LED) er sá, að bylgjulengd (eða sveiflutíðni) ljóss leysisins takmarkast við örþröngt bil í rófi rafsegulbylgna, en ljós hinna ljósgjafanna dreifist þar yfir umfangsmikið svæði.

Ljós leysis er þess vegna eins og bylgjur útvarpsstöðvar með einni skarpri senditíðni. Það líkist hreinum tóni hljóðfæris eða regulegum öldugangi frá steini sem fellur á vatnsflöt og nefnist því einlitt (e. monochrome) ljós eða ljós með hreinni tíðni. En ljós annarra ljósgjafa svipar í þessari samlíkingu til óreglulegs tónakliðs hljómsveitar við að stilla hljóðfæri sín eða öldumergðar frá handfylli af sandi sem fellur á vatnsyfirborð.

Leysiljós breiðist út í grönnum geisla.

Annað einkenni leysiljóss er að það breiðist út í grönnum geisla, leysigeisla, sem er í byrjun aðeins nokkrir millimetrar að þvermáli með bylgjulengd á sýnilega hluta rófsins sem nemur um hálfum þúsundasta parti úr millimetra. Allar öldurnar eru í takt hver við aðra, bæði þvert yfir geislann og langt fram eftir honum. Þessi eiginleiki leysiljóssins kallast samheldni (e. coherence) í rúmi og tíma. Samheldnin skiptir meginmáli fyrir ýmiskonar notkun leysigeisla. Ljós annarra ljósgjafa breiðist hins vegar út til allra átta og öldur þess falla fljótt úr takti vegna ólíkra bylgjulengda aldna innan þess.

Vegna hreinnar tíðni leysiljóss kemur tvíeðli alls ljóss skýrt fram í því. Tvíeðlið felst í því að ljós hegðar sér ýmist sem ölduhreyfing rafsegulsviðsins eða straumur stakra ljósorkuskammta, ljóseinda (e. photons). Þetta lýsir sér í því, að ölduvíxl (e. interference) geta myndast á milli ljósgeisla frá sömu uppsprettu þegar þeir hittast aftur á ferðalagi sínu. Samt skilar ljós sér alltaf á áfangastað sem eindir.

Orkuskammtinn E, sem hver ljósalda ber með sér, uppgötvuðu þýsku eðlisfræðingarnir Max Planck (1858 – 1947) og Albert Einstein (1889 – 1955) í byrjun síðustu aldar og nemur hann E = hf eða margfeldi tíðninnar f og svonefnds fasta Plancks h. Þessi vitneskja er einn af hornsteinum skammtafræðinnar. En hún er grundvöllur nútímaeðlisfræði.

Mynd:

Höfundur

Þorsteinn J. Halldórsson

eðlisfræðingur, starfaði m.a. við rannsóknir og þróun á leysum hjá EADS og Daimler

Útgáfudagur

26.1.2015

Spyrjandi

Friðrik G. Friðriksson, Sigríður Helga Grétarsdóttir

Tilvísun

Þorsteinn J. Halldórsson. „Hvaða munur er á leysiljósi og öðru ljósi?“ Vísindavefurinn, 26. janúar 2015. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=69019.

Þorsteinn J. Halldórsson. (2015, 26. janúar). Hvaða munur er á leysiljósi og öðru ljósi? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=69019

Þorsteinn J. Halldórsson. „Hvaða munur er á leysiljósi og öðru ljósi?“ Vísindavefurinn. 26. jan. 2015. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=69019>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvaða munur er á leysiljósi og öðru ljósi?
Munurinn á leysiljósi og ljósi algengra ljósgjafa til dæmis sólar, kertis, ljósaperu, ljóspípu eða ljóstvists (e. LED) er sá, að bylgjulengd (eða sveiflutíðni) ljóss leysisins takmarkast við örþröngt bil í rófi rafsegulbylgna, en ljós hinna ljósgjafanna dreifist þar yfir umfangsmikið svæði.

Ljós leysis er þess vegna eins og bylgjur útvarpsstöðvar með einni skarpri senditíðni. Það líkist hreinum tóni hljóðfæris eða regulegum öldugangi frá steini sem fellur á vatnsflöt og nefnist því einlitt (e. monochrome) ljós eða ljós með hreinni tíðni. En ljós annarra ljósgjafa svipar í þessari samlíkingu til óreglulegs tónakliðs hljómsveitar við að stilla hljóðfæri sín eða öldumergðar frá handfylli af sandi sem fellur á vatnsyfirborð.

Leysiljós breiðist út í grönnum geisla.

Annað einkenni leysiljóss er að það breiðist út í grönnum geisla, leysigeisla, sem er í byrjun aðeins nokkrir millimetrar að þvermáli með bylgjulengd á sýnilega hluta rófsins sem nemur um hálfum þúsundasta parti úr millimetra. Allar öldurnar eru í takt hver við aðra, bæði þvert yfir geislann og langt fram eftir honum. Þessi eiginleiki leysiljóssins kallast samheldni (e. coherence) í rúmi og tíma. Samheldnin skiptir meginmáli fyrir ýmiskonar notkun leysigeisla. Ljós annarra ljósgjafa breiðist hins vegar út til allra átta og öldur þess falla fljótt úr takti vegna ólíkra bylgjulengda aldna innan þess.

Vegna hreinnar tíðni leysiljóss kemur tvíeðli alls ljóss skýrt fram í því. Tvíeðlið felst í því að ljós hegðar sér ýmist sem ölduhreyfing rafsegulsviðsins eða straumur stakra ljósorkuskammta, ljóseinda (e. photons). Þetta lýsir sér í því, að ölduvíxl (e. interference) geta myndast á milli ljósgeisla frá sömu uppsprettu þegar þeir hittast aftur á ferðalagi sínu. Samt skilar ljós sér alltaf á áfangastað sem eindir.

Orkuskammtinn E, sem hver ljósalda ber með sér, uppgötvuðu þýsku eðlisfræðingarnir Max Planck (1858 – 1947) og Albert Einstein (1889 – 1955) í byrjun síðustu aldar og nemur hann E = hf eða margfeldi tíðninnar f og svonefnds fasta Plancks h. Þessi vitneskja er einn af hornsteinum skammtafræðinnar. En hún er grundvöllur nútímaeðlisfræði.

Mynd:

...