Sólin Sólin Rís 05:36 • sest 21:19 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 16:44 • Sest 05:50 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:37 • Síðdegis: 17:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:57 • Síðdegis: 23:09 í Reykjavík

Hver er munurinn á eldstöð, eldstöðvakerfi og megineldstöð? Er þetta allt það sama?

Sigurður Steinþórsson

Ekki er allt þetta alveg það sama, eins og skýrt er hér að neðan:

Eldstöð er samkvæmt Íslenzkri orðabók Menningarsjóðs: Eldfjall, staður þar sem eldgos er eða hefur orðið. Orðið er þannig almennt, án tillits til gerðar eða stærðar: Hekla er eldstöð, einnig Eldborg á Mýrum, Skjaldbreiður og Krafla.

Eldborg á Mýrum.

Eldstöðvakerfi nefnist hópur eldstöðva sem ætla má að tengist sameiginlegu kvikuhólfi eða upptakasvæði bergkviku í jarðmöttlinum. Hugtakið er tiltölulega nýtt, frá því um 1970, og kemst meðal annars kringum þá spurningu hversu mörg eldfjöll/eldstöðvar séu á Íslandi — eru Snæfellsjökull eða Lakagígar til dæmis ein eldstöð eða margar? Eldstöðvakerfi á Íslandi ofansjávar eru 30 að tölu. Flest eru eldstöðvakerfin mynduð af megineldstöð og sprungusveimi (-rein) sem sker hana; megineldstöðin er virkasti hluti kerfisins. Í rekbeltunum raðast sprungusveimar skástígt eftir flekamótunum og liggur megineldstöð kerfisins yfir skurðpunkti flekamóta og sprungusveims (mynd). Eldstöðvakerfin er nefnd ýmist eftir megineldstöðinni - Hekla, Grímsvötn, Krafla - eða (ef hún er ógreinileg) eftir jarðhitakerfi hennar (Svartsengi, Reykjanes).

Á Norður-rekbeltinu raðast fimm eldstöðvakerfi skástígt eftir flekamótunum (feitdregin lína). Megineldstöð myndast þar sem sprungusveimur hvers eldstöðvakerfis sker flekamótin.

Megineldstöð er staður, oftast fjall, þar sem gýs (hefur gosið) aftur og aftur, þar sem „þróuð“ bergkvika (ísúr, súr) kemur upp auk basalts, og sem iðulega tengist háhita-jarðvarmakerfi. Megineldstöðvar „þróast“ með tímanum, en talið er að líftími þeirra geti verið um milljón ár: Á Reykjanesskaga eru fjórir sprungusveimar þar sem jarðhitakerfi skilgreinir miðju þeirra: Reykjanes, Svartsengi, Krýsuvík, Brennisteinsfjöll. Þetta má líta á sem megineldstöðvar á frumstigi, endurtekin basaltgos en engar þróaðar bergtegundir, og einungis lágreistir fjallshryggir marka flekamótin undir. Jarðhitanum veldur grunnstæð kvika sem hitar grunnvatnið þannig að það streymir til yfirborðsins.

Þroskaðar megineldstöðvar á rekbeltinu eru til dæmis Askja og Krafla, með öflugu jarðhitakerfi, líparíti (ríólíti) og öskju (ketilsigi), yfir kvikuhólfi á 3ja km dýpi. Þarna er skorpan of þunn til að geta borið háreist eldfjall.

Utan rekbeltanna er skorpan þykkri og dýpra á kviku – til dæmis 7-10 km undir Heklu og sennilega ennþá dýpra undir Snæfellsjökli og Öræfajökli, enda eru þessi eldfjöll reisuleg. Þau gjósa eða hafa gosið mörgum sinnum og bergtegundir þeirra spanna allt frá basalti til líparíts. Hins vegar tengjast þau ekki jarðhitakerfi, að öllum líkindum vegna þess hve djúpt er á bráð.

Myndir:
  • Mynd af Eldborg: Mats: Íslandsmyndasafn © Mats Wibe Lund. (Sótt 10. 5. 2016).
  • Teikning: Teiknað eftir korti Axels Björnssonar: Dynamics of crustal rifting in NE Iceland. Journal of Geophysics 90: 10151-10162 (1985).

Höfundur

Sigurður Steinþórsson

prófessor emeritus

Útgáfudagur

17.5.2016

Spyrjandi

Garðar Friðrik Harðarson

Tilvísun

Sigurður Steinþórsson. „Hver er munurinn á eldstöð, eldstöðvakerfi og megineldstöð? Er þetta allt það sama?“ Vísindavefurinn, 17. maí 2016. Sótt 20. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=69223.

Sigurður Steinþórsson. (2016, 17. maí). Hver er munurinn á eldstöð, eldstöðvakerfi og megineldstöð? Er þetta allt það sama? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=69223

Sigurður Steinþórsson. „Hver er munurinn á eldstöð, eldstöðvakerfi og megineldstöð? Er þetta allt það sama?“ Vísindavefurinn. 17. maí. 2016. Vefsíða. 20. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=69223>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver er munurinn á eldstöð, eldstöðvakerfi og megineldstöð? Er þetta allt það sama?
Ekki er allt þetta alveg það sama, eins og skýrt er hér að neðan:

Eldstöð er samkvæmt Íslenzkri orðabók Menningarsjóðs: Eldfjall, staður þar sem eldgos er eða hefur orðið. Orðið er þannig almennt, án tillits til gerðar eða stærðar: Hekla er eldstöð, einnig Eldborg á Mýrum, Skjaldbreiður og Krafla.

Eldborg á Mýrum.

Eldstöðvakerfi nefnist hópur eldstöðva sem ætla má að tengist sameiginlegu kvikuhólfi eða upptakasvæði bergkviku í jarðmöttlinum. Hugtakið er tiltölulega nýtt, frá því um 1970, og kemst meðal annars kringum þá spurningu hversu mörg eldfjöll/eldstöðvar séu á Íslandi — eru Snæfellsjökull eða Lakagígar til dæmis ein eldstöð eða margar? Eldstöðvakerfi á Íslandi ofansjávar eru 30 að tölu. Flest eru eldstöðvakerfin mynduð af megineldstöð og sprungusveimi (-rein) sem sker hana; megineldstöðin er virkasti hluti kerfisins. Í rekbeltunum raðast sprungusveimar skástígt eftir flekamótunum og liggur megineldstöð kerfisins yfir skurðpunkti flekamóta og sprungusveims (mynd). Eldstöðvakerfin er nefnd ýmist eftir megineldstöðinni - Hekla, Grímsvötn, Krafla - eða (ef hún er ógreinileg) eftir jarðhitakerfi hennar (Svartsengi, Reykjanes).

Á Norður-rekbeltinu raðast fimm eldstöðvakerfi skástígt eftir flekamótunum (feitdregin lína). Megineldstöð myndast þar sem sprungusveimur hvers eldstöðvakerfis sker flekamótin.

Megineldstöð er staður, oftast fjall, þar sem gýs (hefur gosið) aftur og aftur, þar sem „þróuð“ bergkvika (ísúr, súr) kemur upp auk basalts, og sem iðulega tengist háhita-jarðvarmakerfi. Megineldstöðvar „þróast“ með tímanum, en talið er að líftími þeirra geti verið um milljón ár: Á Reykjanesskaga eru fjórir sprungusveimar þar sem jarðhitakerfi skilgreinir miðju þeirra: Reykjanes, Svartsengi, Krýsuvík, Brennisteinsfjöll. Þetta má líta á sem megineldstöðvar á frumstigi, endurtekin basaltgos en engar þróaðar bergtegundir, og einungis lágreistir fjallshryggir marka flekamótin undir. Jarðhitanum veldur grunnstæð kvika sem hitar grunnvatnið þannig að það streymir til yfirborðsins.

Þroskaðar megineldstöðvar á rekbeltinu eru til dæmis Askja og Krafla, með öflugu jarðhitakerfi, líparíti (ríólíti) og öskju (ketilsigi), yfir kvikuhólfi á 3ja km dýpi. Þarna er skorpan of þunn til að geta borið háreist eldfjall.

Utan rekbeltanna er skorpan þykkri og dýpra á kviku – til dæmis 7-10 km undir Heklu og sennilega ennþá dýpra undir Snæfellsjökli og Öræfajökli, enda eru þessi eldfjöll reisuleg. Þau gjósa eða hafa gosið mörgum sinnum og bergtegundir þeirra spanna allt frá basalti til líparíts. Hins vegar tengjast þau ekki jarðhitakerfi, að öllum líkindum vegna þess hve djúpt er á bráð.

Myndir:
  • Mynd af Eldborg: Mats: Íslandsmyndasafn © Mats Wibe Lund. (Sótt 10. 5. 2016).
  • Teikning: Teiknað eftir korti Axels Björnssonar: Dynamics of crustal rifting in NE Iceland. Journal of Geophysics 90: 10151-10162 (1985).

...