Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Hvar komust miðaldamenn í tæri við Biblíuna?

Torfi H. Tulinius

Spurningin í fullri lengd hljóðaði svona:
Við yfirferð á Egils sögu hjá Endurmenntun HÍ kemur fram að í Egils sögu sé sótt samlíking í Biblíuna. Nú er talið að Egils saga sé rituð um 1220. Þá kemur spurningin, hver var staða Bíblíunnar þá? Ekki var prentun kominn til sögunar var hún þá til eins og við þekkjum hana. Er ekki ólíklegt að hún hafi verið til á mörgum heimilum eða kirkjum á þessum tíma. Með Kveðju Óli.

Texti Biblíunnar sem kaþólsk kirkja studdist við á miðöldum var þýðing heilags Híerónymusar á latínu, hin svokallaða Vúlgata. Sá texti var ekki að öllu leyti samhljóða þeim texta sem við nú þekkjum auk þess sem hann var alls ekki í föstum skorðum. Á 12. öld er hann til dæmis gjarnan aukinn útleggingum frá kirkjufeðrum. Það sem skiptir þó höfuðmáli er að hann er á latínu og því óaðgengilegur öðrum en klerklærðum.

Ekki er að sjá að Biblían hafi verið þýdd í heilu lagi á nokkra þjóðtungu Vestur-Evrópu fyrr en undir lok 13. aldar, en frá því skeiði eru til Biblíur á frönsku og þýsku. Fyrsta enska Biblían er hundrað árum yngri og fræðimenn telja fremur ólíklegt að til hafi verið heil Biblíuþýðing á íslenskri tungu fyrr en um siðaskipti.

Á miðöldum studdist kaþólsk kirkja við þýðingu heilags Híerónymusar á Biblíunni. Þýðingin nefnist Vúlgata og er á latínu. Hún var því óaðgengileg öðrum en klerklærðum. Myndin sýnir handrit Vúlgöu frá 13. öld.

Á 12. öld og fyrri hluta þeirrar 13. fjölgar aftur á móti þýðingum á einstökum hlutum Biblíunnar og eru það þá einkum Mósebækurnar fimm, Samúelsbækur og Konungabækur, Davíðssálmar og guðspjöllin.[1] Þetta eru einmitt þeir hlutar hennar sem við vitum að voru þýddir á norræna tungu á miðöldum, annað hvort vegna þess að þýðingarnar hafa varðveist í Stjórn sem nær frá Fyrstu Mósebók til loka Konungsbóka, og Gyðinga sögu, sem er þýðing Makkabeabókanna, eða vegna þess að fræðimönnum hefur tekist að leiða óbein rök að því að þessar þýðingar hafi verið til. Það er þó misjafnt hve gamlar þýðingarnar voru en einhverjir hlutar Stjórnar munu hafa verið til þegar höfundur Egils sögu var að störfum á fyrri hluta 13. aldar.[2]

Fyrir utan beinar þýðingar, var Biblían einnig aðgengileg leikmönnum sem ekki voru latínulærðir í gegnum predikanir og hómilíur, þar sem mikið var vitnað til Biblíunnar, vísað í frásagnir hennar og lagt út af þeim. Hið sama má segja um bænir og trúarkveðskap. Einnig bregður henni fyrir í ræðum leikra höfðingja. Allt þetta gildir jafnt um Ísland sem önnur lönd Vestur-Evrópu á 12. og 13. öld.

Við þetta bætast ýmiss konar útleggingar á Biblíutextanum, bæði sérstakar aðferðir við að skýra hann og heimfæra upp á líf fólks og viðbætur við hann, sem við kannski þekkjum ekki lengur í dag en mjög var haldið að fólki á miðöldum. Dæmi um það er sagan af föllnu englunum sem kemur við Egils sögu. Loks má ekki láta hjá líða að nefna myndskreytingu kirkna: sögur úr Biblíunni voru uppi um alla veggi í kirkjum þeim, sem Vestur-Evrópubúar, Íslendingar jafnt sem aðrir, sátu í með reglulegu millibili, og því greyptust þær í vitund þeirra.

Þrískipt altaristafla frá miðri 14. öld. Á henni sjást myndskreytingar á ýmsum frásögnum úr Biblíunni.

Biblía sem höfundur Eglu kann að hafa vísað til er því ekki bara einn texti, heldur textar og auk þess í afar víðum skilningi, því það má líta á mynd og jafnvel trúarathöfn sem texta. Biblían er því ákaflega miðlæg í menningu þessara tíma: hún er ekki bara í bókum eða orðum, heldur í öllum þeim flókna vefi merkingar sem við köllum menningu og hver einstaklingur þarf að staðsetja sig í.

Tilvísanir:
  1. ^ Um Biblíuna á miðöldum sjá Beryl Smalley: The Study of the Bible in the Middle Ages, Clarendon Press, Oxford 1941.
  2. ^ Um Biblíuna í norrænni þýðingu á miðöldum sjá Ian J. Kirby: Bible Translation in Old-Norse, Droz, Genève 1986.

Myndir:

Texti þessa svars birtist upprunalega í ráðstefnuriti Hugvísindaþings árið 1997. Textinn er lítillega aðlagaður Vísindavefnum.

Höfundur

Torfi H. Tulinius

prófessor í íslenskum miðaldafræðum við HÍ

Útgáfudagur

26.2.2015

Spyrjandi

Ólafur Ingi Jóhannsson

Tilvísun

Torfi H. Tulinius. „Hvar komust miðaldamenn í tæri við Biblíuna?“ Vísindavefurinn, 26. febrúar 2015. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=69392.

Torfi H. Tulinius. (2015, 26. febrúar). Hvar komust miðaldamenn í tæri við Biblíuna? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=69392

Torfi H. Tulinius. „Hvar komust miðaldamenn í tæri við Biblíuna?“ Vísindavefurinn. 26. feb. 2015. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=69392>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvar komust miðaldamenn í tæri við Biblíuna?
Spurningin í fullri lengd hljóðaði svona:

Við yfirferð á Egils sögu hjá Endurmenntun HÍ kemur fram að í Egils sögu sé sótt samlíking í Biblíuna. Nú er talið að Egils saga sé rituð um 1220. Þá kemur spurningin, hver var staða Bíblíunnar þá? Ekki var prentun kominn til sögunar var hún þá til eins og við þekkjum hana. Er ekki ólíklegt að hún hafi verið til á mörgum heimilum eða kirkjum á þessum tíma. Með Kveðju Óli.

Texti Biblíunnar sem kaþólsk kirkja studdist við á miðöldum var þýðing heilags Híerónymusar á latínu, hin svokallaða Vúlgata. Sá texti var ekki að öllu leyti samhljóða þeim texta sem við nú þekkjum auk þess sem hann var alls ekki í föstum skorðum. Á 12. öld er hann til dæmis gjarnan aukinn útleggingum frá kirkjufeðrum. Það sem skiptir þó höfuðmáli er að hann er á latínu og því óaðgengilegur öðrum en klerklærðum.

Ekki er að sjá að Biblían hafi verið þýdd í heilu lagi á nokkra þjóðtungu Vestur-Evrópu fyrr en undir lok 13. aldar, en frá því skeiði eru til Biblíur á frönsku og þýsku. Fyrsta enska Biblían er hundrað árum yngri og fræðimenn telja fremur ólíklegt að til hafi verið heil Biblíuþýðing á íslenskri tungu fyrr en um siðaskipti.

Á miðöldum studdist kaþólsk kirkja við þýðingu heilags Híerónymusar á Biblíunni. Þýðingin nefnist Vúlgata og er á latínu. Hún var því óaðgengileg öðrum en klerklærðum. Myndin sýnir handrit Vúlgöu frá 13. öld.

Á 12. öld og fyrri hluta þeirrar 13. fjölgar aftur á móti þýðingum á einstökum hlutum Biblíunnar og eru það þá einkum Mósebækurnar fimm, Samúelsbækur og Konungabækur, Davíðssálmar og guðspjöllin.[1] Þetta eru einmitt þeir hlutar hennar sem við vitum að voru þýddir á norræna tungu á miðöldum, annað hvort vegna þess að þýðingarnar hafa varðveist í Stjórn sem nær frá Fyrstu Mósebók til loka Konungsbóka, og Gyðinga sögu, sem er þýðing Makkabeabókanna, eða vegna þess að fræðimönnum hefur tekist að leiða óbein rök að því að þessar þýðingar hafi verið til. Það er þó misjafnt hve gamlar þýðingarnar voru en einhverjir hlutar Stjórnar munu hafa verið til þegar höfundur Egils sögu var að störfum á fyrri hluta 13. aldar.[2]

Fyrir utan beinar þýðingar, var Biblían einnig aðgengileg leikmönnum sem ekki voru latínulærðir í gegnum predikanir og hómilíur, þar sem mikið var vitnað til Biblíunnar, vísað í frásagnir hennar og lagt út af þeim. Hið sama má segja um bænir og trúarkveðskap. Einnig bregður henni fyrir í ræðum leikra höfðingja. Allt þetta gildir jafnt um Ísland sem önnur lönd Vestur-Evrópu á 12. og 13. öld.

Við þetta bætast ýmiss konar útleggingar á Biblíutextanum, bæði sérstakar aðferðir við að skýra hann og heimfæra upp á líf fólks og viðbætur við hann, sem við kannski þekkjum ekki lengur í dag en mjög var haldið að fólki á miðöldum. Dæmi um það er sagan af föllnu englunum sem kemur við Egils sögu. Loks má ekki láta hjá líða að nefna myndskreytingu kirkna: sögur úr Biblíunni voru uppi um alla veggi í kirkjum þeim, sem Vestur-Evrópubúar, Íslendingar jafnt sem aðrir, sátu í með reglulegu millibili, og því greyptust þær í vitund þeirra.

Þrískipt altaristafla frá miðri 14. öld. Á henni sjást myndskreytingar á ýmsum frásögnum úr Biblíunni.

Biblía sem höfundur Eglu kann að hafa vísað til er því ekki bara einn texti, heldur textar og auk þess í afar víðum skilningi, því það má líta á mynd og jafnvel trúarathöfn sem texta. Biblían er því ákaflega miðlæg í menningu þessara tíma: hún er ekki bara í bókum eða orðum, heldur í öllum þeim flókna vefi merkingar sem við köllum menningu og hver einstaklingur þarf að staðsetja sig í.

Tilvísanir:
  1. ^ Um Biblíuna á miðöldum sjá Beryl Smalley: The Study of the Bible in the Middle Ages, Clarendon Press, Oxford 1941.
  2. ^ Um Biblíuna í norrænni þýðingu á miðöldum sjá Ian J. Kirby: Bible Translation in Old-Norse, Droz, Genève 1986.

Myndir:

Texti þessa svars birtist upprunalega í ráðstefnuriti Hugvísindaþings árið 1997. Textinn er lítillega aðlagaður Vísindavefnum.

...