Sólin Sólin Rís 05:36 • sest 21:19 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 16:44 • Sest 05:50 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:37 • Síðdegis: 17:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:57 • Síðdegis: 23:09 í Reykjavík

Hvenær fréttu Íslendingar fyrst af afstæðiskenningu Einsteins?

Einar H. Guðmundsson

Árið 1913 var í fyrsta sinn fjallað um takmörkuðu afstæðiskenninguna hér á landi. Það var í greininni „Ýmsar skoðanir á eðli rúmsins“ eftir Ólaf Dan Daníelsson stærðfræðing, sem birtist í tímaritinu Skírni.[1] Ólafur ræðir þar bæði um heimspekilegar undirstöður rúmfræðinnar og afstæðiskenninguna, án þess þó að minnast einu orði á Einstein. Greinin var ætluð almenningi, en ekki er að sjá að hún hafi vakið mikil viðbrögð hjá landsmönnum. Þorvaldur Thoroddsen vísaði þó í hana neðanmáls í grein um stjörnufræði árið 1917.[2]

Ekki virðist hafa verið fjallað aftur um afstæðiskenninguna hér heima fyrr en eftir að fréttir bárust af sólmyrkvamælingunum í nóvember 1919. Eins og fjallað er um í svari við spurningunni Varð Albert Einstein frægur vegna sólmyrkva? voru fyrstu viðbrögð mikil umfjöllun um Einstein sjálfan, skoðanir hans, yfirlýsingar og athafnir. Slíkur fréttaflutningur hélt áfram áratugum saman, en inn á milli birtust einnig ritsmíðar þar sem reynt var að útskýra kenningar meistarans í einföldu máli.

Fyrsta erlenda alþýðuritið um afstæðiskenninguna sem hingað barst var Vort fysiske Verdensbillede og Einsteins Relativitetsteori eftir danska eðlisfræðinginn Helge Holst. Sala á bókinni hófst síðla sumars 1920 og hún virðist hafa selst í talsverðu upplagi (sjá mynd 1).[3]

Mynd 1: Auglýsing á forsíðu Tímans, 28. ágúst 1920. Bók Holsts mun hafa verið fyrsta ritið um kenningar Einsteins sem kom í íslenskar bókabúðir.

Í febrúar 1921 hélt Ólafur Dan Daníelsson fræðilegt erindi um takmörkuðu afstæðiskenninguna fyrir félaga sína í Verkfræðingafélagi Íslands. Erindið birtist síðar á prenti.[4] Ári síðar, í byrjun febrúar 1922, hélt hann svo almennan fyrirlestur um báðar kenningar Einsteins í Mensa academica undir heitinu „Einstein og relativitetskenningin“. Erindið þótti takast með afbrigðum vel:

Dr. Ólafur Daníelsson flutti all-langt erindi um afstöðukenning[u] Einsteins. Var efnið mörgum harla lítt kunnugt og eigi auðskilið í eðli sínu [...] Því merkilegra var það, hversu Ólafur hafði ríkt vald á efninu og fékk skilmerkilega skýrt það fyrir þeim, er á hlýddu. Kendi þar og máttar tungu vorrar [...] Fékk Ólafur maklegt lof að málslokum.[5]

Fyrirlestur Ólafs birtist í heild í Skírni sama ár og á mynd 2 má sjá örlítið brot úr honum. Um er að ræða fyrstu frumsömdu ritsmíðina um almennu afstæðiskenninguna eftir íslenskan höfund. Þá ber að geta þess, að Ólafur er höfundur íslenska orðsins afstæðiskenning.[6]

Á árunum 1921 til 1922 birtust einnig í íslenskum tímaritum tvær þýddar greinar um Einstein og kenningar hans. Önnur var eftir norska eðlisfræðinginn J. P. Holtsmark og hin eftir þýska rithöfundinn og útgefandann A. Moszkowski. Greinarnar fjalla báðar um almennu afstæðiskenninguna, þar á meðal brautarsnúnig Merkúríusar, ljóssveigjuna og sólmyrkvamælingarnar 1919.[7]

Árið 1926 hélt Þorkell Þorkelsson eðlisfræðingur fræðilegt erindi í Verkfræðingafélaginu um ýmsar mælingar og tilraunir sem gerðar höfðu verið árin þar á undan til að kanna sannleiksgildi kenninga Einsteins. Meðal annars fjallaði hann um mælingar á afstæðilegum massa, brautarsnúningi Merkúríusar, ljóssveigjunni og þyngdarrauðviki.[8]

Mynd 2: Teikning Ólafs Dan Daníelssonar af ljóssveigjunni í grein hans um afstæðiskenninguna í Skírni árið 1922. Í greininni segir um myndina: „Frá [stjörnunni] St ganga geislar í allar áttir, og jeg skoða sjerstaklega geislann g, sem stefnir framhjá sólunni [S] og jörðunni [J]. Þegar hann kemur inn í sólkerfið, inn á það svið, þar sem þyngdarkraftur sólarinnar er merkjanlegur, er hann kominn inn á rúmsvið [...] þar sem þyngdarkraftar verka í áttina til sólarinnar. Sje nú í stað þessara þyndarkrafta sett acceleruð hreyfing sólkerfisins í öfuga átt, hlýtur jörðin að verða fyrir einhverjum geislum, sem annars hefðu farið framhjá henni, t.d. geislanum g, eins og punktamyndin af sólunni og jörðunni sýnir. Stjarnan sjest með öðrum orðum frá jörðunni þrátt fyrir það, þó að geislinn stefndi fram hjá henni. Fyrir okkar sjónum, sem skoðum jörðina kyrra, hlýtur það að líta út eins og geislinn hafi svignað í áttina til jarðarinnar við það að fara fram hjá sólunni. Hann kemur því til jarðarinnar úr nokkuð annari stefnu, en hann upphaflega hafði, svo að stjarnan sýnist lítið eitt fjær sólu en hún er (mynd b).“

Heimspekingurinn Ágúst H. Bjarnason var mikill áhugamaður um raunvísindi og fann sig knúinn til að kynna þau íslenskum almenningi. Hann fjallaði meðal annars um afstæðiskenninguna í bókinni Himingeimurinn árið 1926 og studdist þar einkum við alþýðurit eftir Eddington og heimspekinginn Bertrand Russell. Nokkrum árum síðar sendi hann svo frá sér Heimsmynd vísindanna, rit ætlað almenningi. Þar útskýrir hann kenningar Einsteins í nokkrum smáatriðum og styðst nú einkum við bók Einsteins sjálfs frá 1917 og alþýðurit eftir J. Jeans frá 1929.[9]

Óhætt mun að fullyrða að í kringum 1930 hafi fróðleiksfúsir Íslendingar verið búnir að fá all nákvæmar fréttir af Einstein og kenningum hans um rúm, tíma og þyngd. Langur tími átti þó enn eftir að líða þar til íslenskir vísindamenn tóku að beita þessari nýju og byltingarkenndu eðlisfræði í verkum sínum.[10]

Tilvísanir:
  1. ^ Ólafur Daníelsson: „Ýmsar skoðanir á eðli rúmsins.“ Skírnir 1913, 87, bls. 361-370. Um þessa grein Ólafs og aðrar ritsmíðar hans um afstæðiskenninguna er fjallað hjá Einari H. Guðmundssyni og Skúla Sigurðssyni: „Eðli rúms og tíma: Ólafur Dan Daníelsson og greinar hans um afstæðiskenninguna.“ Tímarit um raunvísindi og stærðfræði 2005, 3, bls. 21-39 (vefslóð: http://www.raust.is/2005/1/02/). Þar er einnig rætt all ítarlega um það hvaða viðtökur afstæðiskenningin fékk í hinum ýmsu löndum í vestrænum heimi, þar á meðal á Norðurlöndum.
  2. ^ Þorvaldur Thoroddsen: „Heimur og geimur: Þættir úr alþýðlegri stjörnufræði.“ Ársrit hins íslenska fræðafjelags í Kaupmannahöfn 1917, bls. 1-42. Tilvitnunin er neðanmáls á bls. 33.
  3. ^ H. Holst: Vort fysiske Verdensbillede og Einsteins Relativitetsteori. Kaupmannahöfn 1920.
  4. ^ Ólafur Dan Daníelsson: „Um tímarúm Minkowskis í sambandi við afstæðiskenninguna þrengri.“ Tímarit Verkfræðingafélags Íslands 1921, 6, bls. 14-19.
  5. ^ Vísir, 7. febrúar 1922, bls. 2.
  6. ^ Ólafur Daníelsson: „Afstæðiskenningin.“ Skírnir 1922, 96, bls. 34-52. Nánar má lesa um Ólaf og kynningu hans á afstæðiskenningunni í fyrrnefndri grein Einars H. Guðmundssonar og Skúla Sigurðssonar frá 2005.
  7. ^ J. P. Holtsmark: „Einsteinskenning.“ (Þýðanda er ekki getið.) Andvari 1921, 46, bls. 86-107; A. Moszkowski: „Einstein.“ Þýðandi Ágúst H. Bjarnason. Iðunn. Nýr flokkur 1921-22, 7, bls. 110-129.
  8. ^ Þorkell Þorkelsson: „Afstæðiskenningin og tilraun Michelsons.“ Tímarit Verkfræðingafélags Íslands 1926, 11, bls. 21-25.
  9. ^ Ágúst H. Bjarnason: Himingeimurinn. Akureyri 1926; Ágúst H. Bjarnason: Heimsmynd vísindanna. Fylgirit Árbókar Háskóla Íslands 1928-1929. Reykjavík 1931. Sjá einng ritdóm Trausta Einarssonar um seinni bókina í Eimreiðinni 1931, 37, bls. 305-313.
  10. ^ Nánar er um þetta fjallað í fyrrnefndri grein Einars H. Guðmundssonar og Skúla Sigurðssonar frá 2005.

Myndir:
  • Myndirnar eru fengnar úr grein höfundar.

Þetta svar er hluti af grein höfundar (https://notendur.hi.is/~einar/Afstaediskenning/Myrkvi1919.pdf) sem birtist fyrst í mars 2015. Svarið er lítillega aðlagað að Vísindavefnum og birt þar með góðfúslegu leyfi höfundar.

Höfundur

Einar H. Guðmundsson

prófessor í stjarneðlisfræði við HÍ

Útgáfudagur

23.3.2015

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Einar H. Guðmundsson. „Hvenær fréttu Íslendingar fyrst af afstæðiskenningu Einsteins?“ Vísindavefurinn, 23. mars 2015. Sótt 20. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=69605.

Einar H. Guðmundsson. (2015, 23. mars). Hvenær fréttu Íslendingar fyrst af afstæðiskenningu Einsteins? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=69605

Einar H. Guðmundsson. „Hvenær fréttu Íslendingar fyrst af afstæðiskenningu Einsteins?“ Vísindavefurinn. 23. mar. 2015. Vefsíða. 20. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=69605>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvenær fréttu Íslendingar fyrst af afstæðiskenningu Einsteins?
Árið 1913 var í fyrsta sinn fjallað um takmörkuðu afstæðiskenninguna hér á landi. Það var í greininni „Ýmsar skoðanir á eðli rúmsins“ eftir Ólaf Dan Daníelsson stærðfræðing, sem birtist í tímaritinu Skírni.[1] Ólafur ræðir þar bæði um heimspekilegar undirstöður rúmfræðinnar og afstæðiskenninguna, án þess þó að minnast einu orði á Einstein. Greinin var ætluð almenningi, en ekki er að sjá að hún hafi vakið mikil viðbrögð hjá landsmönnum. Þorvaldur Thoroddsen vísaði þó í hana neðanmáls í grein um stjörnufræði árið 1917.[2]

Ekki virðist hafa verið fjallað aftur um afstæðiskenninguna hér heima fyrr en eftir að fréttir bárust af sólmyrkvamælingunum í nóvember 1919. Eins og fjallað er um í svari við spurningunni Varð Albert Einstein frægur vegna sólmyrkva? voru fyrstu viðbrögð mikil umfjöllun um Einstein sjálfan, skoðanir hans, yfirlýsingar og athafnir. Slíkur fréttaflutningur hélt áfram áratugum saman, en inn á milli birtust einnig ritsmíðar þar sem reynt var að útskýra kenningar meistarans í einföldu máli.

Fyrsta erlenda alþýðuritið um afstæðiskenninguna sem hingað barst var Vort fysiske Verdensbillede og Einsteins Relativitetsteori eftir danska eðlisfræðinginn Helge Holst. Sala á bókinni hófst síðla sumars 1920 og hún virðist hafa selst í talsverðu upplagi (sjá mynd 1).[3]

Mynd 1: Auglýsing á forsíðu Tímans, 28. ágúst 1920. Bók Holsts mun hafa verið fyrsta ritið um kenningar Einsteins sem kom í íslenskar bókabúðir.

Í febrúar 1921 hélt Ólafur Dan Daníelsson fræðilegt erindi um takmörkuðu afstæðiskenninguna fyrir félaga sína í Verkfræðingafélagi Íslands. Erindið birtist síðar á prenti.[4] Ári síðar, í byrjun febrúar 1922, hélt hann svo almennan fyrirlestur um báðar kenningar Einsteins í Mensa academica undir heitinu „Einstein og relativitetskenningin“. Erindið þótti takast með afbrigðum vel:

Dr. Ólafur Daníelsson flutti all-langt erindi um afstöðukenning[u] Einsteins. Var efnið mörgum harla lítt kunnugt og eigi auðskilið í eðli sínu [...] Því merkilegra var það, hversu Ólafur hafði ríkt vald á efninu og fékk skilmerkilega skýrt það fyrir þeim, er á hlýddu. Kendi þar og máttar tungu vorrar [...] Fékk Ólafur maklegt lof að málslokum.[5]

Fyrirlestur Ólafs birtist í heild í Skírni sama ár og á mynd 2 má sjá örlítið brot úr honum. Um er að ræða fyrstu frumsömdu ritsmíðina um almennu afstæðiskenninguna eftir íslenskan höfund. Þá ber að geta þess, að Ólafur er höfundur íslenska orðsins afstæðiskenning.[6]

Á árunum 1921 til 1922 birtust einnig í íslenskum tímaritum tvær þýddar greinar um Einstein og kenningar hans. Önnur var eftir norska eðlisfræðinginn J. P. Holtsmark og hin eftir þýska rithöfundinn og útgefandann A. Moszkowski. Greinarnar fjalla báðar um almennu afstæðiskenninguna, þar á meðal brautarsnúnig Merkúríusar, ljóssveigjuna og sólmyrkvamælingarnar 1919.[7]

Árið 1926 hélt Þorkell Þorkelsson eðlisfræðingur fræðilegt erindi í Verkfræðingafélaginu um ýmsar mælingar og tilraunir sem gerðar höfðu verið árin þar á undan til að kanna sannleiksgildi kenninga Einsteins. Meðal annars fjallaði hann um mælingar á afstæðilegum massa, brautarsnúningi Merkúríusar, ljóssveigjunni og þyngdarrauðviki.[8]

Mynd 2: Teikning Ólafs Dan Daníelssonar af ljóssveigjunni í grein hans um afstæðiskenninguna í Skírni árið 1922. Í greininni segir um myndina: „Frá [stjörnunni] St ganga geislar í allar áttir, og jeg skoða sjerstaklega geislann g, sem stefnir framhjá sólunni [S] og jörðunni [J]. Þegar hann kemur inn í sólkerfið, inn á það svið, þar sem þyngdarkraftur sólarinnar er merkjanlegur, er hann kominn inn á rúmsvið [...] þar sem þyngdarkraftar verka í áttina til sólarinnar. Sje nú í stað þessara þyndarkrafta sett acceleruð hreyfing sólkerfisins í öfuga átt, hlýtur jörðin að verða fyrir einhverjum geislum, sem annars hefðu farið framhjá henni, t.d. geislanum g, eins og punktamyndin af sólunni og jörðunni sýnir. Stjarnan sjest með öðrum orðum frá jörðunni þrátt fyrir það, þó að geislinn stefndi fram hjá henni. Fyrir okkar sjónum, sem skoðum jörðina kyrra, hlýtur það að líta út eins og geislinn hafi svignað í áttina til jarðarinnar við það að fara fram hjá sólunni. Hann kemur því til jarðarinnar úr nokkuð annari stefnu, en hann upphaflega hafði, svo að stjarnan sýnist lítið eitt fjær sólu en hún er (mynd b).“

Heimspekingurinn Ágúst H. Bjarnason var mikill áhugamaður um raunvísindi og fann sig knúinn til að kynna þau íslenskum almenningi. Hann fjallaði meðal annars um afstæðiskenninguna í bókinni Himingeimurinn árið 1926 og studdist þar einkum við alþýðurit eftir Eddington og heimspekinginn Bertrand Russell. Nokkrum árum síðar sendi hann svo frá sér Heimsmynd vísindanna, rit ætlað almenningi. Þar útskýrir hann kenningar Einsteins í nokkrum smáatriðum og styðst nú einkum við bók Einsteins sjálfs frá 1917 og alþýðurit eftir J. Jeans frá 1929.[9]

Óhætt mun að fullyrða að í kringum 1930 hafi fróðleiksfúsir Íslendingar verið búnir að fá all nákvæmar fréttir af Einstein og kenningum hans um rúm, tíma og þyngd. Langur tími átti þó enn eftir að líða þar til íslenskir vísindamenn tóku að beita þessari nýju og byltingarkenndu eðlisfræði í verkum sínum.[10]

Tilvísanir:
  1. ^ Ólafur Daníelsson: „Ýmsar skoðanir á eðli rúmsins.“ Skírnir 1913, 87, bls. 361-370. Um þessa grein Ólafs og aðrar ritsmíðar hans um afstæðiskenninguna er fjallað hjá Einari H. Guðmundssyni og Skúla Sigurðssyni: „Eðli rúms og tíma: Ólafur Dan Daníelsson og greinar hans um afstæðiskenninguna.“ Tímarit um raunvísindi og stærðfræði 2005, 3, bls. 21-39 (vefslóð: http://www.raust.is/2005/1/02/). Þar er einnig rætt all ítarlega um það hvaða viðtökur afstæðiskenningin fékk í hinum ýmsu löndum í vestrænum heimi, þar á meðal á Norðurlöndum.
  2. ^ Þorvaldur Thoroddsen: „Heimur og geimur: Þættir úr alþýðlegri stjörnufræði.“ Ársrit hins íslenska fræðafjelags í Kaupmannahöfn 1917, bls. 1-42. Tilvitnunin er neðanmáls á bls. 33.
  3. ^ H. Holst: Vort fysiske Verdensbillede og Einsteins Relativitetsteori. Kaupmannahöfn 1920.
  4. ^ Ólafur Dan Daníelsson: „Um tímarúm Minkowskis í sambandi við afstæðiskenninguna þrengri.“ Tímarit Verkfræðingafélags Íslands 1921, 6, bls. 14-19.
  5. ^ Vísir, 7. febrúar 1922, bls. 2.
  6. ^ Ólafur Daníelsson: „Afstæðiskenningin.“ Skírnir 1922, 96, bls. 34-52. Nánar má lesa um Ólaf og kynningu hans á afstæðiskenningunni í fyrrnefndri grein Einars H. Guðmundssonar og Skúla Sigurðssonar frá 2005.
  7. ^ J. P. Holtsmark: „Einsteinskenning.“ (Þýðanda er ekki getið.) Andvari 1921, 46, bls. 86-107; A. Moszkowski: „Einstein.“ Þýðandi Ágúst H. Bjarnason. Iðunn. Nýr flokkur 1921-22, 7, bls. 110-129.
  8. ^ Þorkell Þorkelsson: „Afstæðiskenningin og tilraun Michelsons.“ Tímarit Verkfræðingafélags Íslands 1926, 11, bls. 21-25.
  9. ^ Ágúst H. Bjarnason: Himingeimurinn. Akureyri 1926; Ágúst H. Bjarnason: Heimsmynd vísindanna. Fylgirit Árbókar Háskóla Íslands 1928-1929. Reykjavík 1931. Sjá einng ritdóm Trausta Einarssonar um seinni bókina í Eimreiðinni 1931, 37, bls. 305-313.
  10. ^ Nánar er um þetta fjallað í fyrrnefndri grein Einars H. Guðmundssonar og Skúla Sigurðssonar frá 2005.

Myndir:
  • Myndirnar eru fengnar úr grein höfundar.

Þetta svar er hluti af grein höfundar (https://notendur.hi.is/~einar/Afstaediskenning/Myrkvi1919.pdf) sem birtist fyrst í mars 2015. Svarið er lítillega aðlagað að Vísindavefnum og birt þar með góðfúslegu leyfi höfundar.

...