Sólin Sólin Rís 05:26 • sest 21:28 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:24 • Sest 05:22 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:10 • Síðdegis: 18:30 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:11 • Síðdegis: 12:20 í Reykjavík

Hvenær voru pappírspeningar fundnir upp?

Sverrir Jakobsson

Spurningin hljóðaði upphaflega svona:

Hvernig verða peningar til?

Peningar geta verið af þrennu tagi. Í fyrsta lagi vara sem er verðmæti í sjálfum sér (e. commodity money), líkt og mynt sem slegin er úr eðalmálmum, svo sem gulli, silfri eða kopar. Í öðru lagi bein ávísun á verðmæti (e. representative money) sem til að mynda gæti falist í gulltryggðum peningaseðlum sem ávallt er hægt að fá skipt yfir í gull hjá þeim aðila er gefur þá út. Og í þriðja lagi valdboðsgjaldmiðlar (e. fiat money) þar sem ríkisvaldið hefur slegið eða prentað gjaldmiðil og fyrirskipað hann sem verðeiningu en tryggir ekki virði hans að öðru leyti. Stundum er það kallað fótalaust fé enda án tryggingar. Nær allir nútíma gjaldmiðlar falla í þennan síðasta flokk.

Peningaseðlar hafa ekkert verðmæti sem varningur í sjálfu sér heldur eru þeir valdboðsgjaldmiðill. Pappírspeningur sem missir gildi sitt sem gjaldmiðill er verðlaus. Að því leyti er eðli pappírspeninga sem gjaldmiðill nátengdara viðskiptum en eðli myntar; verðmæti þeirra felst ekki í neinu öðru en að vera gjaldmiðill. Af þeim sökum þróuðust pappírspeningar hægt þar sem samfélög virðast þurfa að búa við öflugt ríkisvald, eða annan aðila sem getur tryggt verðmæti gjaldmiðilsins til þess að hægt sé að notast við gjaldmiðil sem hefur einungis gildi sem slíkur.

Áður fyrr voru gjaldmiðlar iðulega á svonefndum gullfæti. Þá gilti að hver peningaseðill eða mynt var í raun ávísun á tiltekið magn af gulli. Myndin sýnir hluta af gullforða Englandsbanka árið 2011.

Í kringum 800 hófu Kínverjar notkun svokallaðra „fljúgandi peninga“ (fei qian 飛錢) í viðskiptum milli fjarlægra héraða og landa. Þá gátu kaupmenn lagt inn peninga á einum stað, fengið kvittun og leyst þá út annars staðar en ekki þurfti að senda mynt á milli landa. Þeir gegndu ekki jafn víðtæku hlutverki og bankaseðlar gerðu síðar því að ekki var hægt að skipta seðlunum eða nota þá í öðrum tilgangi en að leysa út peningana sem kvittunin var gefin út fyrir. Þessir seðlar líktust því frekar víxlum heldur en peningaseðlum. Nýmælið fólst hins vegar í útliti og hönnun seðlanna. Til að fyrirbyggja falsanir þurftu seðlar af þessu tagi að vera staðlaðir og því fengu þeir samræmt útlit. Þeir voru á gulum pappír með svörtu bleki en einnig var á þeim opinbert innsigli með rauðu bleki. Útlit hinna fljúgandi peninga og hönnun bauð þannig upp á víðtækari notkun og ekki leið á löngu þangað til víxlar af þessu tagi umbreyttust og þróuðust yfir í peningaseðla.

Kína var eitt fárra öflugra ríkja sem til var á þessum tíma, það var eini staðurinn þar sem pappír var fjöldaframleiddur og eini staðurinn þar sem prentlist var stunduð; en hún gerði alla hönnun og stöðlun slíkra seðla mun einfaldari. Hér er hins vegar ekki hægt að tala um banka í seinni tíma skilningi; ríkissjóður gegndi hlutverki bankans.

Næsta skref í þróun peningaseðla var stigið þegar Song-ríki var við völd í Kína (960-1279). Þá veitti ríkisstjórn Zhenzong (r. 998-1022) sextán kaupmönnum í Sichuan-héraði leyfi til að prenta seðla til að nota sem gjaldmiðil í viðskiptum sín á milli. Þetta var gert til að bregðast við myntskorti í héraðinu. Þessir pappírspeningar kölluðust jiaozi og eru fyrsti valdboðsgjaldmiðill sögunnar. Eftirspurn eftir þessum pappírspeningum olli verðbólgu þannig að árið 1023 yfirtók ríkið prentun þeirra. Voru gefnir út seðlar með mismunandi verðgildi gagnvart mynt. Þessir seðlar voru að óverulegu leyti frábrugðnir fyrri seðlum að útliti og hönnun; nýjungin fólst í notkuninni. Seðlarnir voru ekki einungis ávísun á peninga sem hægt var að sækja á tilteknum stað heldur mátti nota þá í öllum viðskiptum samhliða koparpeningum.

Prentplata fyrir jiaozi, fyrsta valdboðsgjaldmiðil sögunnar.

Á dögum hinnar mongólsku Yuan-ættar (1279-1368) var prentun pappírsseðla í hámarki. Voru pappírspeningar þá í almennri notkun í Kína en einnig í Persíu, Kóreu, Japan og Víetnam. Á 15. öld ríkti verðbólga í Kína og brást ríkisstjórnin við með því að hætta prentun pappírspeninga en leggja þess í stað áherslu á koparmynt sem grunngjaldmiðil í bland við óslegið silfur. Aldrei virðist hafa verið tekin ákvörðun um að hætta að nota peningaseðla en notkun þeirra fjaraði út um miðja 15. öld. Síðan voru pappírspeningar ekki í notkun í Kína um margar aldir.

Leið pappírspeninga lá að lokum frá Austur-Asíu til Norðurlanda og hafa Svíar raunar iðulega haldið því fram að þeir hafi fundið upp pappírspeninga. Upphaf peningaseðlaútgáfu sænska ríkisbankans var árið 1661. Sænska ríkisstjórnin hafði veitt Johan Palmstruch (1611-1671) leyfi til að stofna banka árið 1656 og hann fékk þá hugmynd að prenta seðla sem mætti skipta fyrir málmpeninga. Hins vegar voru of margir seðlar prentaðir sem olli verðbólgu og loka þurfti bankanum árið 1668.

Fleiri vestræn ríki tóku upp peningaseðla eftir að Svíar höfðu riðið á vaðið en útbreiðsla þeirra var oft takmörkuð. Áhrifin af notkun pappírspeninga voru einna mest í nýlendum Breta í Norður-Ameríku. Þar ríkti skortur á góðmálmum vegna viðvarandi viðskiptahalla gagnvart Bretlandi og var því tilhneiging til að mynt flyttist úr landi. Í Massachusetts-nýlendunni var peningaskortur árið 1690 og var þá gripið til þess ráðs að hefja prentun pappírspeninga til að bregðast við vaxandi herkostnaði gegn Frökkum í Kanada. Aðrar nýlendur Breta í Norður-Ameríku fylgdu smátt og smátt í kjölfarið, seinast Virginia árið 1755, en þar hafði skortur á mynt fram að því verið leystur með því að nota tóbak sem gjaldmiðil.

Skortur á mynt í Virginíu í Bandaríkjunum á fyrri hluta 18. aldar leiddi til þess að tóbak var notað sem gjaldmiðill. Á myndinni sést tóbaksplantan Nicotiana tabacum.

Fyrirkomulag seðlaútgáfu í Norður-Ameríku var það að einstakir bankar gáfu út peningaseðla en þar sem þeir höfðu engin útibú minnkaði gildi seðlanna eftir því sem lengra var til bankans sem gaf þá út. Hvert ríki hafði eigin gjaldmiðil sem var misverðmætur. Þessi prentun pappírspeninga var takmörkuð af breskum stjórnvöldum árið 1751 vegna hættu á verðbólgu. Fleiri hömlur voru settar á dreifingu pappírspeninga árið 1764 og var það ein af orsökum uppreisnar nýlendubúa gegn Bretum.

Öflugt ríkisvald greiddi fyrir notkun peningaseðla í Kína en í Svíþjóð studdist konungurinn við einkaaðila og í Vesturheimi hófst prentun þeirra að hluta til vegna peningaskorts og lítils stuðnings frá herraþjóðinni austan hafsins. Bankar voru á frumstigi í þessum samfélögum. Á hinn bóginn var þensla í öllum þessum samfélögum, uppgangur í atvinnulífi og því þörf fyrir meira peningamagn í umferð heldur en forði eðalmálma gaf tilefni til. Tilraunir Svía með peningaseðla tókust illa en nýlendubúar í Vesturheimi settu síður fyrir sig rýrt verðgildi seðlanna og verðbólguna sem stundum fylgdi notkun þeirra. Þar urðu bankaseðlar einnig tákn um sjálfstæðisvilja og andstöðu við að lúta handleiðslu nýlenduherranna í London í fjármálum.

Heimildir og ítarefni:
  • Dewey, Donald, „In Palmstruch We Trust“, Scandinavian Review 95:1 (2007), 60-64.
  • Ernst, Joseph Albert, Money and Politics in America 1755-1775. A Study in the Currency Act of 1764 and the Political Economy of Revolution, Chapel Hill: University of North Carolina Press, 1973.
  • Galbraith, John Kenneth, Money. When It Came, Where It Went. Boston: Houghton Mifflin, 1975.
  • Goldberg, Dror, „The Massachusetts Paper Money of 1690“, Journal of Economic History 69:4 (2009), bls. 1092-1106.
  • Hecksher, Eli Filip, An Economic History of Sweden. Cambridge, Mass.: Harvard University Press, 1954.
  • Horesh, Niv, „From Chengdu to Stockholm. A Comparative Study of the Emergence of Paper Money in East and West“, Provincial China 4:1 (2012), 68-99.
  • Kuhn, Dieter, The Age of Confucian Rule. The Song Transformation of China. Cambridge, Mass. & London: The Belknap Press of Harvard University Press, 2009.
  • Letwin, William, „Monetary Practice and Theory of the North American Colonies during the 17th and 18th Centuries“, La Moneta Nell’economia Europea, Secoli XIII-XVIII, ritstj. Barbagli Bagnoli, Flórens: Le Monnier, 1981, 439-469.
  • Peng Xinwei, A Monetary History of China. 3. útgáfa. Þýð. Edward H. Kaplan. Bellingham, Washington: Center for East Asian Studies, University of Western Washington, 1994, I. bindi.
  • Schaps, David M., „The Invention of Coinage in Lydia, in India, and in China“, Bulletin du cercle d’études numismatiques 44 (2007), 281-300, 313-322.
  • Von Glahn, Richard, Fountain of Fortune. Money and Monetary Policy in China, 1000-1700. Berkeley & Los Angeles: University of California Press, 1996.

Myndir:

Höfundur

Sverrir Jakobsson

prófessor í miðaldasögu við HÍ

Útgáfudagur

31.10.2018

Spyrjandi

Bergþóra Gísladóttir, Árni Arent Guðlaugsson

Tilvísun

Sverrir Jakobsson. „Hvenær voru pappírspeningar fundnir upp?“ Vísindavefurinn, 31. október 2018. Sótt 23. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=69771.

Sverrir Jakobsson. (2018, 31. október). Hvenær voru pappírspeningar fundnir upp? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=69771

Sverrir Jakobsson. „Hvenær voru pappírspeningar fundnir upp?“ Vísindavefurinn. 31. okt. 2018. Vefsíða. 23. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=69771>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvenær voru pappírspeningar fundnir upp?
Spurningin hljóðaði upphaflega svona:

Hvernig verða peningar til?

Peningar geta verið af þrennu tagi. Í fyrsta lagi vara sem er verðmæti í sjálfum sér (e. commodity money), líkt og mynt sem slegin er úr eðalmálmum, svo sem gulli, silfri eða kopar. Í öðru lagi bein ávísun á verðmæti (e. representative money) sem til að mynda gæti falist í gulltryggðum peningaseðlum sem ávallt er hægt að fá skipt yfir í gull hjá þeim aðila er gefur þá út. Og í þriðja lagi valdboðsgjaldmiðlar (e. fiat money) þar sem ríkisvaldið hefur slegið eða prentað gjaldmiðil og fyrirskipað hann sem verðeiningu en tryggir ekki virði hans að öðru leyti. Stundum er það kallað fótalaust fé enda án tryggingar. Nær allir nútíma gjaldmiðlar falla í þennan síðasta flokk.

Peningaseðlar hafa ekkert verðmæti sem varningur í sjálfu sér heldur eru þeir valdboðsgjaldmiðill. Pappírspeningur sem missir gildi sitt sem gjaldmiðill er verðlaus. Að því leyti er eðli pappírspeninga sem gjaldmiðill nátengdara viðskiptum en eðli myntar; verðmæti þeirra felst ekki í neinu öðru en að vera gjaldmiðill. Af þeim sökum þróuðust pappírspeningar hægt þar sem samfélög virðast þurfa að búa við öflugt ríkisvald, eða annan aðila sem getur tryggt verðmæti gjaldmiðilsins til þess að hægt sé að notast við gjaldmiðil sem hefur einungis gildi sem slíkur.

Áður fyrr voru gjaldmiðlar iðulega á svonefndum gullfæti. Þá gilti að hver peningaseðill eða mynt var í raun ávísun á tiltekið magn af gulli. Myndin sýnir hluta af gullforða Englandsbanka árið 2011.

Í kringum 800 hófu Kínverjar notkun svokallaðra „fljúgandi peninga“ (fei qian 飛錢) í viðskiptum milli fjarlægra héraða og landa. Þá gátu kaupmenn lagt inn peninga á einum stað, fengið kvittun og leyst þá út annars staðar en ekki þurfti að senda mynt á milli landa. Þeir gegndu ekki jafn víðtæku hlutverki og bankaseðlar gerðu síðar því að ekki var hægt að skipta seðlunum eða nota þá í öðrum tilgangi en að leysa út peningana sem kvittunin var gefin út fyrir. Þessir seðlar líktust því frekar víxlum heldur en peningaseðlum. Nýmælið fólst hins vegar í útliti og hönnun seðlanna. Til að fyrirbyggja falsanir þurftu seðlar af þessu tagi að vera staðlaðir og því fengu þeir samræmt útlit. Þeir voru á gulum pappír með svörtu bleki en einnig var á þeim opinbert innsigli með rauðu bleki. Útlit hinna fljúgandi peninga og hönnun bauð þannig upp á víðtækari notkun og ekki leið á löngu þangað til víxlar af þessu tagi umbreyttust og þróuðust yfir í peningaseðla.

Kína var eitt fárra öflugra ríkja sem til var á þessum tíma, það var eini staðurinn þar sem pappír var fjöldaframleiddur og eini staðurinn þar sem prentlist var stunduð; en hún gerði alla hönnun og stöðlun slíkra seðla mun einfaldari. Hér er hins vegar ekki hægt að tala um banka í seinni tíma skilningi; ríkissjóður gegndi hlutverki bankans.

Næsta skref í þróun peningaseðla var stigið þegar Song-ríki var við völd í Kína (960-1279). Þá veitti ríkisstjórn Zhenzong (r. 998-1022) sextán kaupmönnum í Sichuan-héraði leyfi til að prenta seðla til að nota sem gjaldmiðil í viðskiptum sín á milli. Þetta var gert til að bregðast við myntskorti í héraðinu. Þessir pappírspeningar kölluðust jiaozi og eru fyrsti valdboðsgjaldmiðill sögunnar. Eftirspurn eftir þessum pappírspeningum olli verðbólgu þannig að árið 1023 yfirtók ríkið prentun þeirra. Voru gefnir út seðlar með mismunandi verðgildi gagnvart mynt. Þessir seðlar voru að óverulegu leyti frábrugðnir fyrri seðlum að útliti og hönnun; nýjungin fólst í notkuninni. Seðlarnir voru ekki einungis ávísun á peninga sem hægt var að sækja á tilteknum stað heldur mátti nota þá í öllum viðskiptum samhliða koparpeningum.

Prentplata fyrir jiaozi, fyrsta valdboðsgjaldmiðil sögunnar.

Á dögum hinnar mongólsku Yuan-ættar (1279-1368) var prentun pappírsseðla í hámarki. Voru pappírspeningar þá í almennri notkun í Kína en einnig í Persíu, Kóreu, Japan og Víetnam. Á 15. öld ríkti verðbólga í Kína og brást ríkisstjórnin við með því að hætta prentun pappírspeninga en leggja þess í stað áherslu á koparmynt sem grunngjaldmiðil í bland við óslegið silfur. Aldrei virðist hafa verið tekin ákvörðun um að hætta að nota peningaseðla en notkun þeirra fjaraði út um miðja 15. öld. Síðan voru pappírspeningar ekki í notkun í Kína um margar aldir.

Leið pappírspeninga lá að lokum frá Austur-Asíu til Norðurlanda og hafa Svíar raunar iðulega haldið því fram að þeir hafi fundið upp pappírspeninga. Upphaf peningaseðlaútgáfu sænska ríkisbankans var árið 1661. Sænska ríkisstjórnin hafði veitt Johan Palmstruch (1611-1671) leyfi til að stofna banka árið 1656 og hann fékk þá hugmynd að prenta seðla sem mætti skipta fyrir málmpeninga. Hins vegar voru of margir seðlar prentaðir sem olli verðbólgu og loka þurfti bankanum árið 1668.

Fleiri vestræn ríki tóku upp peningaseðla eftir að Svíar höfðu riðið á vaðið en útbreiðsla þeirra var oft takmörkuð. Áhrifin af notkun pappírspeninga voru einna mest í nýlendum Breta í Norður-Ameríku. Þar ríkti skortur á góðmálmum vegna viðvarandi viðskiptahalla gagnvart Bretlandi og var því tilhneiging til að mynt flyttist úr landi. Í Massachusetts-nýlendunni var peningaskortur árið 1690 og var þá gripið til þess ráðs að hefja prentun pappírspeninga til að bregðast við vaxandi herkostnaði gegn Frökkum í Kanada. Aðrar nýlendur Breta í Norður-Ameríku fylgdu smátt og smátt í kjölfarið, seinast Virginia árið 1755, en þar hafði skortur á mynt fram að því verið leystur með því að nota tóbak sem gjaldmiðil.

Skortur á mynt í Virginíu í Bandaríkjunum á fyrri hluta 18. aldar leiddi til þess að tóbak var notað sem gjaldmiðill. Á myndinni sést tóbaksplantan Nicotiana tabacum.

Fyrirkomulag seðlaútgáfu í Norður-Ameríku var það að einstakir bankar gáfu út peningaseðla en þar sem þeir höfðu engin útibú minnkaði gildi seðlanna eftir því sem lengra var til bankans sem gaf þá út. Hvert ríki hafði eigin gjaldmiðil sem var misverðmætur. Þessi prentun pappírspeninga var takmörkuð af breskum stjórnvöldum árið 1751 vegna hættu á verðbólgu. Fleiri hömlur voru settar á dreifingu pappírspeninga árið 1764 og var það ein af orsökum uppreisnar nýlendubúa gegn Bretum.

Öflugt ríkisvald greiddi fyrir notkun peningaseðla í Kína en í Svíþjóð studdist konungurinn við einkaaðila og í Vesturheimi hófst prentun þeirra að hluta til vegna peningaskorts og lítils stuðnings frá herraþjóðinni austan hafsins. Bankar voru á frumstigi í þessum samfélögum. Á hinn bóginn var þensla í öllum þessum samfélögum, uppgangur í atvinnulífi og því þörf fyrir meira peningamagn í umferð heldur en forði eðalmálma gaf tilefni til. Tilraunir Svía með peningaseðla tókust illa en nýlendubúar í Vesturheimi settu síður fyrir sig rýrt verðgildi seðlanna og verðbólguna sem stundum fylgdi notkun þeirra. Þar urðu bankaseðlar einnig tákn um sjálfstæðisvilja og andstöðu við að lúta handleiðslu nýlenduherranna í London í fjármálum.

Heimildir og ítarefni:
  • Dewey, Donald, „In Palmstruch We Trust“, Scandinavian Review 95:1 (2007), 60-64.
  • Ernst, Joseph Albert, Money and Politics in America 1755-1775. A Study in the Currency Act of 1764 and the Political Economy of Revolution, Chapel Hill: University of North Carolina Press, 1973.
  • Galbraith, John Kenneth, Money. When It Came, Where It Went. Boston: Houghton Mifflin, 1975.
  • Goldberg, Dror, „The Massachusetts Paper Money of 1690“, Journal of Economic History 69:4 (2009), bls. 1092-1106.
  • Hecksher, Eli Filip, An Economic History of Sweden. Cambridge, Mass.: Harvard University Press, 1954.
  • Horesh, Niv, „From Chengdu to Stockholm. A Comparative Study of the Emergence of Paper Money in East and West“, Provincial China 4:1 (2012), 68-99.
  • Kuhn, Dieter, The Age of Confucian Rule. The Song Transformation of China. Cambridge, Mass. & London: The Belknap Press of Harvard University Press, 2009.
  • Letwin, William, „Monetary Practice and Theory of the North American Colonies during the 17th and 18th Centuries“, La Moneta Nell’economia Europea, Secoli XIII-XVIII, ritstj. Barbagli Bagnoli, Flórens: Le Monnier, 1981, 439-469.
  • Peng Xinwei, A Monetary History of China. 3. útgáfa. Þýð. Edward H. Kaplan. Bellingham, Washington: Center for East Asian Studies, University of Western Washington, 1994, I. bindi.
  • Schaps, David M., „The Invention of Coinage in Lydia, in India, and in China“, Bulletin du cercle d’études numismatiques 44 (2007), 281-300, 313-322.
  • Von Glahn, Richard, Fountain of Fortune. Money and Monetary Policy in China, 1000-1700. Berkeley & Los Angeles: University of California Press, 1996.

Myndir:

...