Sólin Sólin Rís 05:19 • sest 21:35 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:18 • Sest 04:56 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:07 • Síðdegis: 19:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:08 • Síðdegis: 13:14 í Reykjavík

Hvað getið þið sagt mér um plastmengun á landi?

Stefán Gíslason og Birgitta Stefánsdóttir

Plastmengun í hafinu hefur mikið verið rannsökuð síðustu ár en menn vita miklu minna um plastmengun á landi. Þannig liggja hvorki fyrir tölur um líklegt magn af plasti sem velkist um lönd heimsins né um skaðsemi þessarar mengunar til skamms og langs tíma litið. Málið er þó alla vega komið á dagskrá og vel hægt að geta sér til um umfangið.

Samkvæmt upplýsingum frá Samtökum plastframleiðenda í Evrópu voru framleidd 322 milljón tonn af plasti í heiminum árið 2015 og miðað við þróun síðustu ára gæti framleiðslan numið um 345 milljónum tonna árið 2017. Ætla má að um það bil helmingur af öllu þessu plasti verði að úrgangi, sem er að mestum hluta brenndur eða urðaður. Aðeins um 9% af plastúrganginum fara í endurvinnslu. Hluti plastsins sleppur út í veður og vind vegna mistaka í framleiðslu, þegar plast er flutt milli staða eða þegar það er meðhöndlað sem úrgangur, eða vegna þess að fólk einfaldlega kastar því frá sér á víðavangi. Þar við bætist svo plast sem slitnar af heyrúllum eða fer á kreik vegna slysa og náttúruhamfara, að ógleymdum örsmáum plastögnum (örplasti) sem berast út í náttúruna með ýmsum leiðum, til dæmis frá plastframleiðslu, við slit á hjólbörðum, veðrun plasthluta, úr utanhússmálningu, frá gervigrasvöllum, úr tilteknum snyrtivörum og svo framvegis.

Plastframleiðsla ársins 2017 gæti numið um 345 milljónum tonna.

Enginn veit hversu mikið af plasti sleppur út í náttúruna þegar allt er talið, en stundum er miðað við 3% af árlegri heimsframleiðslu. Það gætu þá verið rúm 10 milljón tonn á ári. Plast brotnar seint eða aldrei niður í náttúrunni, þannig að heildarmagnið hlýtur þá að aukast árlega sem þessu nemur. Höfundar greinar sem birtist sumarið 2017 í tímaritinu Science Advances hafa áætlað að samtals hafi verið framleidd 8.600 milljón tonn af plasti í heiminum frá upphafi og sé áfram miðað við 3% má giska á að núna séu um 250 milljón tonn af plasti einhvers staðar á flækingi. Þar við bætist svo miklu meira plast sem er „geymt“ á urðunarstöðum og þaðan gætu efni úr plastinu losnað út í umhverfið smátt og smátt.

Hvort sem lausbeislaða plastruslið í heiminum er meira eða minna en 250 milljón tonn hlýtur það bæði að ferðast um og setjast að á sjó og landi. Sem fyrr segir veit enginn hversu stór hluti af þessu er á landi, en einhverjar mælingar hafa þó verið gerðar á því. Vorið 2017 var til dæmis sagt frá rannsókn sem gerð var á Hendersoneyju í sunnanverðu Kyrrahafi, langt frá allri mannabyggð. Eyjan er ekki nema 3,7 km2 að flatarmáli og þar eru talin liggja um 38 milljón plaststykki, stór og smá, sem vega samtals um 17,6 tonn. Þar af eru um 68% ósýnileg vegna smæðar. Og á hverjum degi er áætlað að 13.000 ný plaststykki bætist við. Það samsvarar um 6 kílóum ef gert er ráð fyrir að nýju stykkin hafi sömu meðalþyngd og þau sem fyrir eru. Séu þessar tölur margfaldaðar með 103.000/3,7, það er að segja í hlutfalli við flatarmál Íslands, bendir það til að núna liggi um 1.058 milljarðar plaststykkja einhvers staðar á íslensku landi. Samanlagður massi þessara stykkja væri um 490.000 tonn miðað við sömu útreikninga og á hverjum degi myndu bætast við um 362 milljón stykki sem vega um 167 tonn. Líklega eru þessar tölur þó ofreiknaðar, af því að stærstur hluti Íslands liggur miklu lengra frá sjó en „meginland“ Hendersoneyju og mestur hluti plastsins sem þar finnst hefur líklega borist af hafi. En á móti kemur að Ísland er nær öðrum iðnríkjum þar sem mikið fellur til af plasti, auk þess sem Íslendingar leggja örugglega sjálfir talsvert af plasti í púkkið. Þegar svona tölur eru skoðaðar má líka velta því fyrir sér hvort plast á fjörum eigi að teljast með plasti í sjó eða plasti á landi.

Plast á landi liggur ekki allt á yfirborðinu.

Plast á landi liggur ekki allt á yfirborðinu. Sumt hangir í trjám eða á öðrum gróði ofanjarðar en annað grefst í jörðu með tíð og tíma, bæði vegna hreyfingar og þykknunar jarðvegs en líka fyrir tilstilli lífvera. Þannig hafa vísindamenn sýnt fram á að jarðormar (svo sem ánamaðkar) og tiltekin jarðvegsskordýr (stökkmor (Collembola)) flytja með sér örplast af yfirborði niður í svörðinn.

Skaðsemi plasts á landi hefur verið minna til umræðu en skaðsemi plastsins í hafinu. Í aðalatriðum eru vandamálin þó þau sömu, þó að landið sé í fljótu bragði ekki eins alltumlykjandi og sjórinn gagnvart lífverum sem þar hafast við. Að hluta til liggur skaðsemin í augum uppi, sérstaklega þegar um er að ræða stærri plasthluti. Dýr geta til dæmis kafnað við að gleypa plaststykki – og plastpokar, net og aðrir slíkir hlutir geta kyrkt spendýr og fugla. Skaðsemi smærri plasthluta og örplasts er ekki eins augljós. Örplast getur meðal annars truflað starfsemi örsmárra jarðvegslífvera sem skipta miklu máli fyrir frjósemi jarðvegsins. Í rannsóknum kínverskra vísindamanna á svæðum þar sem plastyfirbreiðslur hafa verið notaðar í landbúnaði áratugum saman, hefur til dæmis komið í ljós að lífmassi og virkni jarðvegslífvera fer minnkandi samfara fjölgun plastagna í jarðveginum.

Neikvæð áhrif plastmengunar á lífríki eru yfirleitt ekki tengd mengun af völdum plastsins sem efnis, heldur frekar formi þess og stærð, auk þeirrar staðreyndar að það brotnar ekki niður og safnast því fyrir eftir því sem tímar líða. Skaðsemi plastmengunar getur líka legið í íblöndunarefnum sem upphaflega var bætt í plastið til að gefa því einhverja ákjósanlega eiginleika. Þetta geta til dæmis verið mýkingarefni, herðingarefni, eldvarnarefni eða rotvarnarefni. Þar við bætast svo eiturefni sem hugsanlega hafa „tekið sér far“ með plastinu. Kannski eru þessir „laumufarþegar“ meira vandamál í sjó en á landi, því að í sjónum draga plastagnir til sín fituleysanlegar sameindir á borð við DDT, PCP og PAH-efni sem þar kunna að vera á floti. En hér ber þó að hafa í huga að plast á landi og plast í sjó eru ekki aðskildir heimar, því að plast af landi berst stöðugt til sjávar með vatni og vindi – og plast úr sjónum rekur stöðugt á fjörur eða berst þangað með særoki og svo framvegis.

Plastrusl í fjöru við Bournemouth á Englandi.

Íblöndunarefni og eiturefni sem finnast í eða á örplasti hljóta að eiga tiltölulega greiða leið inn í fæðukeðjuna og þar með inn í líkama manna. Efnin sem þangað berast ferðast hins vegar ekki með vegabréf og því er ógjörningur að vita hvort plastagnir hafi komið meira eða minna við sögu í dreifingu þeirra. Sum þessara efna geta truflað hormónastarfsemi líkamans, valdið krabbameini og þar fram eftir götunum. Hvert efni er eflaust í mjög lágum styrk á hverjum stað og á hverjum tíma, en samanlögð skaðleg áhrif geta samt verið veruleg þegar til lengri tíma er litið. Hér koma hin svonefndu „kokteiláhrif“ við sögu.

Nú er eðlilegt að spurt sé hvað hinn venjulegi Íslendingur geti gert til að bregðast við þeim mikla vanda sem plastmengun er vissulega orðin. Þar sem víðar gildir sú meginregla að „enginn getur gert allt en allir geta gert eitthvað“. Það fyrsta sem hver og einn getur gert er að sniðganga einnota plastvörur, svo sem burðarplastpoka, borðbúnað úr plasti, eyrnapinna úr plasti og svo framvegis. Í öðru lagi þurfa allir að leggjast á eitt um að hætta að henda frá sér plastrusli á víðavangi og að tína upp laust plast sem verður á vegi þeirra. Plast sem enginn hirðir um mun að öllum líkindum velkjast um í náttúrunni næstu aldir. Á þeim tíma mun það brotna niður í örsmáar agnir, en hugsanleg skaðsemi hverfur ekki við það. Plast sem við komumst ekki hjá að nota þarf að fara í endurvinnslu að notkun lokinni. Ef það fer í ruslið mun það safnast upp á urðunarstöðum og láta hugsanlega til sín taka í náttúrunni síðar meir. Þar fyrir utan ætti fólk að hætta að kaupa snyrtivörur (húðskrúbb og svo framvegis) með plastögnum. Reyndar munu slíkar snyrtivörur væntanlega heyra sögunni til áður en langt um líður. Og svo er bara um að gera að lesa sér til um plast og læra sem mest. Eftir því sem þekking fólks á vandanum eykst eru meiri líkur á lausnum.

Heimildir og lesefni:

Myndir:

Plastic Bottles Free Stock Photo - Public Domain Pictures. (Sótt 29.09.2017).

Höfundar

Stefán Gíslason

umhverfisstjórnunarfræðingur MSc

Birgitta Stefánsdóttir

umhverfisfræðingur MSc

Útgáfudagur

29.9.2017

Spyrjandi

Sylvía Ösp Jónsdóttir

Tilvísun

Stefán Gíslason og Birgitta Stefánsdóttir. „Hvað getið þið sagt mér um plastmengun á landi?“ Vísindavefurinn, 29. september 2017. Sótt 25. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=70635.

Stefán Gíslason og Birgitta Stefánsdóttir. (2017, 29. september). Hvað getið þið sagt mér um plastmengun á landi? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=70635

Stefán Gíslason og Birgitta Stefánsdóttir. „Hvað getið þið sagt mér um plastmengun á landi?“ Vísindavefurinn. 29. sep. 2017. Vefsíða. 25. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=70635>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað getið þið sagt mér um plastmengun á landi?
Plastmengun í hafinu hefur mikið verið rannsökuð síðustu ár en menn vita miklu minna um plastmengun á landi. Þannig liggja hvorki fyrir tölur um líklegt magn af plasti sem velkist um lönd heimsins né um skaðsemi þessarar mengunar til skamms og langs tíma litið. Málið er þó alla vega komið á dagskrá og vel hægt að geta sér til um umfangið.

Samkvæmt upplýsingum frá Samtökum plastframleiðenda í Evrópu voru framleidd 322 milljón tonn af plasti í heiminum árið 2015 og miðað við þróun síðustu ára gæti framleiðslan numið um 345 milljónum tonna árið 2017. Ætla má að um það bil helmingur af öllu þessu plasti verði að úrgangi, sem er að mestum hluta brenndur eða urðaður. Aðeins um 9% af plastúrganginum fara í endurvinnslu. Hluti plastsins sleppur út í veður og vind vegna mistaka í framleiðslu, þegar plast er flutt milli staða eða þegar það er meðhöndlað sem úrgangur, eða vegna þess að fólk einfaldlega kastar því frá sér á víðavangi. Þar við bætist svo plast sem slitnar af heyrúllum eða fer á kreik vegna slysa og náttúruhamfara, að ógleymdum örsmáum plastögnum (örplasti) sem berast út í náttúruna með ýmsum leiðum, til dæmis frá plastframleiðslu, við slit á hjólbörðum, veðrun plasthluta, úr utanhússmálningu, frá gervigrasvöllum, úr tilteknum snyrtivörum og svo framvegis.

Plastframleiðsla ársins 2017 gæti numið um 345 milljónum tonna.

Enginn veit hversu mikið af plasti sleppur út í náttúruna þegar allt er talið, en stundum er miðað við 3% af árlegri heimsframleiðslu. Það gætu þá verið rúm 10 milljón tonn á ári. Plast brotnar seint eða aldrei niður í náttúrunni, þannig að heildarmagnið hlýtur þá að aukast árlega sem þessu nemur. Höfundar greinar sem birtist sumarið 2017 í tímaritinu Science Advances hafa áætlað að samtals hafi verið framleidd 8.600 milljón tonn af plasti í heiminum frá upphafi og sé áfram miðað við 3% má giska á að núna séu um 250 milljón tonn af plasti einhvers staðar á flækingi. Þar við bætist svo miklu meira plast sem er „geymt“ á urðunarstöðum og þaðan gætu efni úr plastinu losnað út í umhverfið smátt og smátt.

Hvort sem lausbeislaða plastruslið í heiminum er meira eða minna en 250 milljón tonn hlýtur það bæði að ferðast um og setjast að á sjó og landi. Sem fyrr segir veit enginn hversu stór hluti af þessu er á landi, en einhverjar mælingar hafa þó verið gerðar á því. Vorið 2017 var til dæmis sagt frá rannsókn sem gerð var á Hendersoneyju í sunnanverðu Kyrrahafi, langt frá allri mannabyggð. Eyjan er ekki nema 3,7 km2 að flatarmáli og þar eru talin liggja um 38 milljón plaststykki, stór og smá, sem vega samtals um 17,6 tonn. Þar af eru um 68% ósýnileg vegna smæðar. Og á hverjum degi er áætlað að 13.000 ný plaststykki bætist við. Það samsvarar um 6 kílóum ef gert er ráð fyrir að nýju stykkin hafi sömu meðalþyngd og þau sem fyrir eru. Séu þessar tölur margfaldaðar með 103.000/3,7, það er að segja í hlutfalli við flatarmál Íslands, bendir það til að núna liggi um 1.058 milljarðar plaststykkja einhvers staðar á íslensku landi. Samanlagður massi þessara stykkja væri um 490.000 tonn miðað við sömu útreikninga og á hverjum degi myndu bætast við um 362 milljón stykki sem vega um 167 tonn. Líklega eru þessar tölur þó ofreiknaðar, af því að stærstur hluti Íslands liggur miklu lengra frá sjó en „meginland“ Hendersoneyju og mestur hluti plastsins sem þar finnst hefur líklega borist af hafi. En á móti kemur að Ísland er nær öðrum iðnríkjum þar sem mikið fellur til af plasti, auk þess sem Íslendingar leggja örugglega sjálfir talsvert af plasti í púkkið. Þegar svona tölur eru skoðaðar má líka velta því fyrir sér hvort plast á fjörum eigi að teljast með plasti í sjó eða plasti á landi.

Plast á landi liggur ekki allt á yfirborðinu.

Plast á landi liggur ekki allt á yfirborðinu. Sumt hangir í trjám eða á öðrum gróði ofanjarðar en annað grefst í jörðu með tíð og tíma, bæði vegna hreyfingar og þykknunar jarðvegs en líka fyrir tilstilli lífvera. Þannig hafa vísindamenn sýnt fram á að jarðormar (svo sem ánamaðkar) og tiltekin jarðvegsskordýr (stökkmor (Collembola)) flytja með sér örplast af yfirborði niður í svörðinn.

Skaðsemi plasts á landi hefur verið minna til umræðu en skaðsemi plastsins í hafinu. Í aðalatriðum eru vandamálin þó þau sömu, þó að landið sé í fljótu bragði ekki eins alltumlykjandi og sjórinn gagnvart lífverum sem þar hafast við. Að hluta til liggur skaðsemin í augum uppi, sérstaklega þegar um er að ræða stærri plasthluti. Dýr geta til dæmis kafnað við að gleypa plaststykki – og plastpokar, net og aðrir slíkir hlutir geta kyrkt spendýr og fugla. Skaðsemi smærri plasthluta og örplasts er ekki eins augljós. Örplast getur meðal annars truflað starfsemi örsmárra jarðvegslífvera sem skipta miklu máli fyrir frjósemi jarðvegsins. Í rannsóknum kínverskra vísindamanna á svæðum þar sem plastyfirbreiðslur hafa verið notaðar í landbúnaði áratugum saman, hefur til dæmis komið í ljós að lífmassi og virkni jarðvegslífvera fer minnkandi samfara fjölgun plastagna í jarðveginum.

Neikvæð áhrif plastmengunar á lífríki eru yfirleitt ekki tengd mengun af völdum plastsins sem efnis, heldur frekar formi þess og stærð, auk þeirrar staðreyndar að það brotnar ekki niður og safnast því fyrir eftir því sem tímar líða. Skaðsemi plastmengunar getur líka legið í íblöndunarefnum sem upphaflega var bætt í plastið til að gefa því einhverja ákjósanlega eiginleika. Þetta geta til dæmis verið mýkingarefni, herðingarefni, eldvarnarefni eða rotvarnarefni. Þar við bætast svo eiturefni sem hugsanlega hafa „tekið sér far“ með plastinu. Kannski eru þessir „laumufarþegar“ meira vandamál í sjó en á landi, því að í sjónum draga plastagnir til sín fituleysanlegar sameindir á borð við DDT, PCP og PAH-efni sem þar kunna að vera á floti. En hér ber þó að hafa í huga að plast á landi og plast í sjó eru ekki aðskildir heimar, því að plast af landi berst stöðugt til sjávar með vatni og vindi – og plast úr sjónum rekur stöðugt á fjörur eða berst þangað með særoki og svo framvegis.

Plastrusl í fjöru við Bournemouth á Englandi.

Íblöndunarefni og eiturefni sem finnast í eða á örplasti hljóta að eiga tiltölulega greiða leið inn í fæðukeðjuna og þar með inn í líkama manna. Efnin sem þangað berast ferðast hins vegar ekki með vegabréf og því er ógjörningur að vita hvort plastagnir hafi komið meira eða minna við sögu í dreifingu þeirra. Sum þessara efna geta truflað hormónastarfsemi líkamans, valdið krabbameini og þar fram eftir götunum. Hvert efni er eflaust í mjög lágum styrk á hverjum stað og á hverjum tíma, en samanlögð skaðleg áhrif geta samt verið veruleg þegar til lengri tíma er litið. Hér koma hin svonefndu „kokteiláhrif“ við sögu.

Nú er eðlilegt að spurt sé hvað hinn venjulegi Íslendingur geti gert til að bregðast við þeim mikla vanda sem plastmengun er vissulega orðin. Þar sem víðar gildir sú meginregla að „enginn getur gert allt en allir geta gert eitthvað“. Það fyrsta sem hver og einn getur gert er að sniðganga einnota plastvörur, svo sem burðarplastpoka, borðbúnað úr plasti, eyrnapinna úr plasti og svo framvegis. Í öðru lagi þurfa allir að leggjast á eitt um að hætta að henda frá sér plastrusli á víðavangi og að tína upp laust plast sem verður á vegi þeirra. Plast sem enginn hirðir um mun að öllum líkindum velkjast um í náttúrunni næstu aldir. Á þeim tíma mun það brotna niður í örsmáar agnir, en hugsanleg skaðsemi hverfur ekki við það. Plast sem við komumst ekki hjá að nota þarf að fara í endurvinnslu að notkun lokinni. Ef það fer í ruslið mun það safnast upp á urðunarstöðum og láta hugsanlega til sín taka í náttúrunni síðar meir. Þar fyrir utan ætti fólk að hætta að kaupa snyrtivörur (húðskrúbb og svo framvegis) með plastögnum. Reyndar munu slíkar snyrtivörur væntanlega heyra sögunni til áður en langt um líður. Og svo er bara um að gera að lesa sér til um plast og læra sem mest. Eftir því sem þekking fólks á vandanum eykst eru meiri líkur á lausnum.

Heimildir og lesefni:

Myndir:

Plastic Bottles Free Stock Photo - Public Domain Pictures. (Sótt 29.09.2017).

...