Sólin Sólin Rís 05:43 • sest 21:13 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 13:37 • Sest 06:11 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:59 • Síðdegis: 15:47 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:39 • Síðdegis: 21:50 í Reykjavík

Hvaða staðreyndir eru til um vatn á Mars?

Sævar Helgi Bragason og EDS

Í lok september 2015 staðfestu vísindamenn hjá NASA að fundist hefði rennandi vatn á Mars. Í raun er þetta ekki ný uppgötvun heldur frekar staðfesting á því sem vísindamenn menn töldu sig hafa greint á myndum fyrir nokkrum árum.

Lengi hefur verið vitað að ís er að finna undir yfirborðinu á Mars, bæði á pólunum og einnig víða á reikistjörnunni. Árið 2011 tilkynntu vísindamenn að á myndum HiRISE-myndavélarinnar á Mars Reconnaissance Orbiter hefðu fundist merki um að fljótandi vatn streymdi niður hlíðar í gígum yfir hlýjustu mánuði ársins. Á myndunum sáust dökkar rákir í þeim hlíðum gíga sem snúa að miðbaug á miðlægum breiddargráðum á suðurhveli reikistjörnunnar. Þessar jarðmyndanir eru kallaðar „endurteknar hlíðarrákir“ (e. recurring slope lineae, RSL) eða „árstíðabundið streymi í hlýjum hlíðum gíga á Mars“. Hlíðarrákirnar eru mjóar, 0,5 til 5 metrar á breidd en allt að nokkur hundruð metrar á lengd. Vatn streymir úr hlíðum þar sem hallinn er 25 til 40 gráður.

Nú hefur verið staðfest að á Mars er árstíðabundið flæði saltvatns (dökku rákirnar á myndinni) á ákveðnum stöðum.

Á miðlægum breiddargráðum á Mars er hitastigið á sumrin nógu hátt til þess að frosið vatn bráðni og taki að flæða niður hlíðar þeirra gíga sem snúa að sól, annað hvort á yfirborðinu eða rétt undir því. Hitastigið á þessum stöðum á sumrin er frá -23°C til +27°C sem er of hátt til þess að um koltvíildi sé að ræða en kemur vel heim og saman við saltvatn. Salt lækkar frostmark vatns eins og flestir kannast við. Saltan sjó leggur síðar en ferskvatn. Vatnið sem hér um ræðir þarf að vera álíka salt og sjórinn á jörðinni til þess að geta flætt. Hreint vatn myndi hins vegar frjósa. Á Mars er enginn hörgull á söltum og því líklegt að sölt séu í reikula efninu sem lækki frostmark þess.

Þegar greint var frá hlíðarrákunum var ekki hægt að staðfesta að um vatn væri að ræða en stjörnufræðingar töldu það þó líklegustu skýringuna. Tilkynningin frá Nasa í september 2015 var því í raun staðfesting á þessu. Hins vegar er því enn ósvarað hvaðan vatnið kemur, hvort það hefur þéttst úr lofthjúpnum, er ís sem hefur bráðnað eða seytlar í gegnum sprungur úr einhvers konar vatnsgeymi undir yfirborðinu?

En hvaða þýðingu hefur það að finna rennandi vatn á Mars? Það má nefna tvennt í því sambandi. Í fyrsta lagi hafa menn lengi velt því fyrir sér hvort það sé hugsanlegt að einhvern tíma hafi verið líf á Mars, hvort plánetan sé lífvænleg og hvort það sé líf á Mars núna. Miðað við það sem við vitum um líf er vatn eitt þeirra grundvallarefna sem þarf að vera til staðar til að líf þrífist.

Í öðru lagi getur rennandi vatn á Mars hugsanlega auðveldað mönnum að fara til plánetunnar í framtíðinni. Þetta opnar þann möguleika að vinna vatnið þannig að það verði drykkjarhæft og leysa þannig eitt af þeim mörgu vandamálum sem annars koma í veg fyrir mannaðar ferðir til Mars. Ef við förum skrefinu lengra þá væri hægt að hugsa sér að vatnið mætti nýta til að rækta plöntur í gróðurhúsum fyrir mögulega Marsfara í framtíðinni.

Mynd:


Þetta svar er unnið af ritstjórn Vísindavefsins upp úr greinum eftir og viðtölum við Sævar Helga Bragason.

Upprunalega spurningin hljóðaði svona:
Hvaða staðreyndir eru til um að vatn er til, og/eða var til, og hvernig líta þær út, á reikistjörnunni Mars?

Höfundar

Sævar Helgi Bragason

stjörnufræðikennari

Útgáfudagur

21.10.2015

Spyrjandi

N.N.

Tilvísun

Sævar Helgi Bragason og EDS. „Hvaða staðreyndir eru til um vatn á Mars?“ Vísindavefurinn, 21. október 2015. Sótt 18. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=70642.

Sævar Helgi Bragason og EDS. (2015, 21. október). Hvaða staðreyndir eru til um vatn á Mars? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=70642

Sævar Helgi Bragason og EDS. „Hvaða staðreyndir eru til um vatn á Mars?“ Vísindavefurinn. 21. okt. 2015. Vefsíða. 18. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=70642>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvaða staðreyndir eru til um vatn á Mars?
Í lok september 2015 staðfestu vísindamenn hjá NASA að fundist hefði rennandi vatn á Mars. Í raun er þetta ekki ný uppgötvun heldur frekar staðfesting á því sem vísindamenn menn töldu sig hafa greint á myndum fyrir nokkrum árum.

Lengi hefur verið vitað að ís er að finna undir yfirborðinu á Mars, bæði á pólunum og einnig víða á reikistjörnunni. Árið 2011 tilkynntu vísindamenn að á myndum HiRISE-myndavélarinnar á Mars Reconnaissance Orbiter hefðu fundist merki um að fljótandi vatn streymdi niður hlíðar í gígum yfir hlýjustu mánuði ársins. Á myndunum sáust dökkar rákir í þeim hlíðum gíga sem snúa að miðbaug á miðlægum breiddargráðum á suðurhveli reikistjörnunnar. Þessar jarðmyndanir eru kallaðar „endurteknar hlíðarrákir“ (e. recurring slope lineae, RSL) eða „árstíðabundið streymi í hlýjum hlíðum gíga á Mars“. Hlíðarrákirnar eru mjóar, 0,5 til 5 metrar á breidd en allt að nokkur hundruð metrar á lengd. Vatn streymir úr hlíðum þar sem hallinn er 25 til 40 gráður.

Nú hefur verið staðfest að á Mars er árstíðabundið flæði saltvatns (dökku rákirnar á myndinni) á ákveðnum stöðum.

Á miðlægum breiddargráðum á Mars er hitastigið á sumrin nógu hátt til þess að frosið vatn bráðni og taki að flæða niður hlíðar þeirra gíga sem snúa að sól, annað hvort á yfirborðinu eða rétt undir því. Hitastigið á þessum stöðum á sumrin er frá -23°C til +27°C sem er of hátt til þess að um koltvíildi sé að ræða en kemur vel heim og saman við saltvatn. Salt lækkar frostmark vatns eins og flestir kannast við. Saltan sjó leggur síðar en ferskvatn. Vatnið sem hér um ræðir þarf að vera álíka salt og sjórinn á jörðinni til þess að geta flætt. Hreint vatn myndi hins vegar frjósa. Á Mars er enginn hörgull á söltum og því líklegt að sölt séu í reikula efninu sem lækki frostmark þess.

Þegar greint var frá hlíðarrákunum var ekki hægt að staðfesta að um vatn væri að ræða en stjörnufræðingar töldu það þó líklegustu skýringuna. Tilkynningin frá Nasa í september 2015 var því í raun staðfesting á þessu. Hins vegar er því enn ósvarað hvaðan vatnið kemur, hvort það hefur þéttst úr lofthjúpnum, er ís sem hefur bráðnað eða seytlar í gegnum sprungur úr einhvers konar vatnsgeymi undir yfirborðinu?

En hvaða þýðingu hefur það að finna rennandi vatn á Mars? Það má nefna tvennt í því sambandi. Í fyrsta lagi hafa menn lengi velt því fyrir sér hvort það sé hugsanlegt að einhvern tíma hafi verið líf á Mars, hvort plánetan sé lífvænleg og hvort það sé líf á Mars núna. Miðað við það sem við vitum um líf er vatn eitt þeirra grundvallarefna sem þarf að vera til staðar til að líf þrífist.

Í öðru lagi getur rennandi vatn á Mars hugsanlega auðveldað mönnum að fara til plánetunnar í framtíðinni. Þetta opnar þann möguleika að vinna vatnið þannig að það verði drykkjarhæft og leysa þannig eitt af þeim mörgu vandamálum sem annars koma í veg fyrir mannaðar ferðir til Mars. Ef við förum skrefinu lengra þá væri hægt að hugsa sér að vatnið mætti nýta til að rækta plöntur í gróðurhúsum fyrir mögulega Marsfara í framtíðinni.

Mynd:


Þetta svar er unnið af ritstjórn Vísindavefsins upp úr greinum eftir og viðtölum við Sævar Helga Bragason.

Upprunalega spurningin hljóðaði svona:
Hvaða staðreyndir eru til um að vatn er til, og/eða var til, og hvernig líta þær út, á reikistjörnunni Mars?

...