Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Hvað er jökulhlaup?

Helgi Björnsson

Jökulhlaup eru snögg vatnsflóð frá lónum við jökuljaðar eða jökulbotn sem bræðsluvatn og regn safnast í. Jaðarlónin myndast þar sem jökull stíflar þverdal eða gil. Vatn rís uns það nær að þrengja sér undir ísstífluna og opna rásir. Í fyrstu eru þær örsmáar en víkka síðan við ísbráðnun vegna núningsvarma því að ísfarg nær ekki að halda á móti þótt vatnsþrýstingur falli. Óstöðvandi vatnsflaumur ryðst fram undir jöklinum niður í jökulár. Rennslið vex mun hraðar en við flóð vegna leysingar eða rigningar. Dæmigerð jökulhlaup vaxa sem veldisfall með tíma uns ísfarg nær loks að þrýsta göngunum skyndilega saman og hlaupi lýkur, jafnvel áður en lónið nær að tæmast; útvíkkun við ísbráðnun nær ekki að halda í við aðstreymi íss þegar ísgöngin víkka og styrkur þeirra minnkar og núningsvarmi í vatninu á stöðugt lengri leið út að ísveggjunum. Að hlaupi loknu stíflast útfallið og vatn safnast fyrir á ný uns aftur hleypur. Um 15 jaðarlón eru nú á Íslandi en hlaup úr þeim eru lítil. Hlaup úr jaðarlónum jökulbreiðna við lok síðasta jökulskeiðs voru mun stærri.

Sums staðar er ísstíflan svo mikil og þétt að vatn nær ekki að finna sér leið undir hana og vatnsborð rís í jaðarlóni uns það flæðir með jöfnum straumi yfir berghaft eða setfyllu. Þess eru dæmi að slík jaðarvegsstífla bresti undan vatnsfargi eða við það að ofan á hana hrynji ís og berg, og lón tæmist mjög snögglega. Slíkt hlaup varð þegar berghnaus féll ofan á Steinholtsjökul árið 1967.

Skeiðarárhlaup 1996.

Jökullón geta myndast á jarðhitasvæðum undir jökli. Þar bráðnar ís við jökulbotn og bræðsluvatnið lokast af undir dæld sem myndast í yfirborð jökulsins. Ís streymir stöðugt undan halla inn að miðju dældarinnar, bráðnar og upp rís vatnsbóla við jökulbotn. Smám saman grynnist ísketillinn, vatnsþrýstingur vex við botn lónsins, vatnstota teygir sig stöðugt lengra undir ísstífluna og svo fer að vatn nær að þrengja sér leið undir hana og jökulhlaup hefst. Vatnsrásin stækkar stöðugt í jökulhlaupi og vatnsbólan hjaðnar og sigketill dýpkar á yfirborði jökulsins. Slíkir katlar eru í Vatnajökli og Mýrdalsjökli.

Loks geta lón myndast í dældum á yfirborði jökuls en þau verða sjaldan stór því að vatn úr þeim nær fljótlega niður á jökulbotn um sprungur og svelgi. Þau hafa sést í sigkötlum á Mýrdalsjökli og Vatnajökli, en einnig í dældum á leysingarsvæðum til dæmis við Esjufjöll. Við hlýnun andrúmslofts hafa æ fleiri lón sést á sumrin á yfirborði Grænlandsjökuls. Tæmist þau ekki frjósa þau á veturna og sameinast jökulísnum.

Svonefnt Kötlubjarg barst með jökulhlaupi eftir gos í Kötlu 1918.

Jökulhlaup hefjast venjulega áður en vatnsþrýstingur verður nægur til þess að lyfta ísstíflunni. Nokkur dæmi eru þó um að vatnsborð lónsins hækki þar til ísstífla flýtur upp og í stað þess að rennslið sé í upphafi hlaups einskorðað við eina rás, nær breið vatnstunga snögglega að flæða frá lóninu, vatnslag dreifist undir allan jökulinn og fer fram sem bylgja með svo miklum þrýstingi að jökullinn lyftist og rýmir þannig til fyrir vatni á leið sinni niður að jaðrinum. Svo mikill er þá þrýstingur vatnsins að það getur spýst upp á yfirborð hans um sprungur og svelgi en einnig eru dæmi um að það sprengi sér leið gegnum ísinn upp á yfirborð. Þannig nær rennsli að vaxa mun hraðar en þegar bráðnun ein opnar vatni leið um ísgöng. Slík hlaup vaxa línulega með tíma. Vatnsbreiðan getur síðan klofnað í stakar rásir sem bera vatnið hratt fram undan jöklinum.

Við eldgos undir jökli bræðir kvika ís og jökulhlaup falla. Mest verður bræðsluvatn þegar gýs lengi undir þykkum jökli að því tilskildu að þrýstingurinn sé ekki svo mikill að bólstrar myndist og dragi úr varmaflutningi frá gosefnum. Þegar lægð hefur myndast gæti vatnið tekið að safnast í vatnsbólu og eftir það gosið þar í vatni. Dæmigerð jökulhlaup valda ekki framhlaupi jökla en við eldvirkni undir jökli getur hann staðbundið skriðið hratt fram. Frá bröttum jökulklæddum eldfjöllum geta fallið hættuleg eðju- og aurflóð.

Myndir:


Þetta svar er úr bókinni Jöklar á Íslandi og birt með góðfúslegu leyfi höfundar.

Höfundur

Helgi Björnsson

prófessor emeritus í jöklafræði

Útgáfudagur

9.12.2015

Spyrjandi

Andrea Einarsdóttir

Tilvísun

Helgi Björnsson. „Hvað er jökulhlaup?“ Vísindavefurinn, 9. desember 2015. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=70658.

Helgi Björnsson. (2015, 9. desember). Hvað er jökulhlaup? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=70658

Helgi Björnsson. „Hvað er jökulhlaup?“ Vísindavefurinn. 9. des. 2015. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=70658>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað er jökulhlaup?
Jökulhlaup eru snögg vatnsflóð frá lónum við jökuljaðar eða jökulbotn sem bræðsluvatn og regn safnast í. Jaðarlónin myndast þar sem jökull stíflar þverdal eða gil. Vatn rís uns það nær að þrengja sér undir ísstífluna og opna rásir. Í fyrstu eru þær örsmáar en víkka síðan við ísbráðnun vegna núningsvarma því að ísfarg nær ekki að halda á móti þótt vatnsþrýstingur falli. Óstöðvandi vatnsflaumur ryðst fram undir jöklinum niður í jökulár. Rennslið vex mun hraðar en við flóð vegna leysingar eða rigningar. Dæmigerð jökulhlaup vaxa sem veldisfall með tíma uns ísfarg nær loks að þrýsta göngunum skyndilega saman og hlaupi lýkur, jafnvel áður en lónið nær að tæmast; útvíkkun við ísbráðnun nær ekki að halda í við aðstreymi íss þegar ísgöngin víkka og styrkur þeirra minnkar og núningsvarmi í vatninu á stöðugt lengri leið út að ísveggjunum. Að hlaupi loknu stíflast útfallið og vatn safnast fyrir á ný uns aftur hleypur. Um 15 jaðarlón eru nú á Íslandi en hlaup úr þeim eru lítil. Hlaup úr jaðarlónum jökulbreiðna við lok síðasta jökulskeiðs voru mun stærri.

Sums staðar er ísstíflan svo mikil og þétt að vatn nær ekki að finna sér leið undir hana og vatnsborð rís í jaðarlóni uns það flæðir með jöfnum straumi yfir berghaft eða setfyllu. Þess eru dæmi að slík jaðarvegsstífla bresti undan vatnsfargi eða við það að ofan á hana hrynji ís og berg, og lón tæmist mjög snögglega. Slíkt hlaup varð þegar berghnaus féll ofan á Steinholtsjökul árið 1967.

Skeiðarárhlaup 1996.

Jökullón geta myndast á jarðhitasvæðum undir jökli. Þar bráðnar ís við jökulbotn og bræðsluvatnið lokast af undir dæld sem myndast í yfirborð jökulsins. Ís streymir stöðugt undan halla inn að miðju dældarinnar, bráðnar og upp rís vatnsbóla við jökulbotn. Smám saman grynnist ísketillinn, vatnsþrýstingur vex við botn lónsins, vatnstota teygir sig stöðugt lengra undir ísstífluna og svo fer að vatn nær að þrengja sér leið undir hana og jökulhlaup hefst. Vatnsrásin stækkar stöðugt í jökulhlaupi og vatnsbólan hjaðnar og sigketill dýpkar á yfirborði jökulsins. Slíkir katlar eru í Vatnajökli og Mýrdalsjökli.

Loks geta lón myndast í dældum á yfirborði jökuls en þau verða sjaldan stór því að vatn úr þeim nær fljótlega niður á jökulbotn um sprungur og svelgi. Þau hafa sést í sigkötlum á Mýrdalsjökli og Vatnajökli, en einnig í dældum á leysingarsvæðum til dæmis við Esjufjöll. Við hlýnun andrúmslofts hafa æ fleiri lón sést á sumrin á yfirborði Grænlandsjökuls. Tæmist þau ekki frjósa þau á veturna og sameinast jökulísnum.

Svonefnt Kötlubjarg barst með jökulhlaupi eftir gos í Kötlu 1918.

Jökulhlaup hefjast venjulega áður en vatnsþrýstingur verður nægur til þess að lyfta ísstíflunni. Nokkur dæmi eru þó um að vatnsborð lónsins hækki þar til ísstífla flýtur upp og í stað þess að rennslið sé í upphafi hlaups einskorðað við eina rás, nær breið vatnstunga snögglega að flæða frá lóninu, vatnslag dreifist undir allan jökulinn og fer fram sem bylgja með svo miklum þrýstingi að jökullinn lyftist og rýmir þannig til fyrir vatni á leið sinni niður að jaðrinum. Svo mikill er þá þrýstingur vatnsins að það getur spýst upp á yfirborð hans um sprungur og svelgi en einnig eru dæmi um að það sprengi sér leið gegnum ísinn upp á yfirborð. Þannig nær rennsli að vaxa mun hraðar en þegar bráðnun ein opnar vatni leið um ísgöng. Slík hlaup vaxa línulega með tíma. Vatnsbreiðan getur síðan klofnað í stakar rásir sem bera vatnið hratt fram undan jöklinum.

Við eldgos undir jökli bræðir kvika ís og jökulhlaup falla. Mest verður bræðsluvatn þegar gýs lengi undir þykkum jökli að því tilskildu að þrýstingurinn sé ekki svo mikill að bólstrar myndist og dragi úr varmaflutningi frá gosefnum. Þegar lægð hefur myndast gæti vatnið tekið að safnast í vatnsbólu og eftir það gosið þar í vatni. Dæmigerð jökulhlaup valda ekki framhlaupi jökla en við eldvirkni undir jökli getur hann staðbundið skriðið hratt fram. Frá bröttum jökulklæddum eldfjöllum geta fallið hættuleg eðju- og aurflóð.

Myndir:


Þetta svar er úr bókinni Jöklar á Íslandi og birt með góðfúslegu leyfi höfundar.

...