Sólin Sólin Rís 05:26 • sest 21:28 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:24 • Sest 05:22 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:10 • Síðdegis: 18:30 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:11 • Síðdegis: 12:20 í Reykjavík

Hvenær urðu Bandaríkin það stórveldi sem þau eru í dag?

Stefanía Óskarsdóttir

Spurningin í fullri lengd hljóðaði svona:

Hvenær byrjuðu Bandaríkin að beita sér á heimsvettvangi og hvenær urðu Bandaríkin það stórveldi sem þau eru í dag?

Bandaríkin urðu til sem nýtt, fullvalda ríki með sigri í sjálfstæðisstríðinu (1775-1783) gegn Bretlandi. Nýja ríkið var sambandsríki. Hvert og eitt ríki Bandaríkjanna hafði mikið sjálfstæði en utanríkismál og varnarmál voru í höndum alríkisstjórnarinnar í Washington. Á 19. öldinni stækkuðu Bandaríkin einkum til vesturs og suðurs. Bandaríkin keyptu landsvæði af Frakklandi (Louisiana Purchase) og Rússlandi (Alaska Purchase) og unnu Flórída af Spánverjum með stuttu stríði. Bandaríkin tryggðu einnig landamæri sín til norðurs með stríði og samningum við Breta (1812). Þá unnust líka stór landsvæði í suðri ýmist í stríði eða samningum við Mexíkó.

Öll þessi stríð við erlend ríki, sem og átök við þjóðir frumbyggja innanlands, efldu hernaðarmátt Bandaríkjanna til muna og tryggðu stöðu þeirra sem voldugasta ríkisins í Vesturheimi. Í krafti þessara yfirburða einsettu Bandaríkin sér einnig að sporna gegn yfirráðum evrópskra nýlenduríkja í sínum heimshluta. Á sama tíma lýstu þau þó jafnframt yfir vilja til að blanda sér ekki í átök ríkja innan Evrópu. Þessi stefnumörkun í utanríkismálum átti að draga úr líkum á því að Evrópuríki hyggðu á nýja landvinninga í ríkjum Ameríku og forða Bandaríkjunum frá því að dragast inn í stríðsátök í Evrópu. Þessi stefna var fyrst sett fram 1823 og var síðar nefnd Monroe-kenningin (kennd við James Monroe, fimmta forseta Bandaríkjanna). Frá þeim tíma varð Monroe-kenningin hryggjarstykkið í bandarískri utanríkisstefnu í Vesturheimi. Hún var notuð sem réttlæting og skýring á margs konar íhlutun Bandaríkjanna í ríkjum í Mið- og Suður-Ameríku allt fram á 21. öldina. Kanada reiddi sig líka á vernd Bandaríkjanna í skjóli Monroe-kenningarinnar.

Frá 1823 var svokölluð Monroe-kenning (e. Monroe doctrine) hryggjarstykkið í bandarískri utanríkisstefnu í Vesturheimi. Skopmynd í blaði frá 1912 um Monroe-kenninguna.

Í lok 19. aldar færðu Bandaríkjamenn áhrifasvæði sitt til fjarlægari eyja samhliða því sem Bandaríkin styrktust sem flotaveldi. Bandaríkin hröktu Spánverja frá völdum á Kúbu í stuttu stríði 1898. Í friðarsamningum sem fylgdu í kjölfarið fengu Bandaríkin yfirráð yfir leifunum af nýlenduveldi Spánverja. Það er að segja Púertó Ríkó, Gvam og Filippseyjum auk Kúbu. Næstu áratugina lögðu leiðtogar Bandaríkjanna mikla áherslu á að viðhalda áhrifum sínum á þessum stöðum. Árið 1898 féllst Hawaii einnig á að lúta yfirráðum Bandaríkjanna. Síðar varð Hawaii svo eitt af fylkjum Bandaríkanna (1959) en hvorki Púertó Ríkó né Gvam hafa enn stöðu fylkja þótt landsvæðin tilheyri enn Bandaríkjunum.

Bygging Panamaskurðarins, sem stytti siglingar á milli Kyrrahafsins og Atlantshafsins til muna, kallaði á aukin áhrif Bandaríkjanna í Panama og nálægum ríkjum. Stytting siglingaleiðarinnar var þýðingamikil fyrir bandaríska viðskipta- og hernaðarhagsmuni enda teygja Bandaríkin sig á milli stranda Atlantshafsins og Kyrrahafsins. Þessir hagsmunir voru hvati að íhlutun Bandaríkjanna í uppreisn Panamabúa gegn Kólumbíu (1903). Sigur þeirra tryggði viðvarandi áhrif Bandaríkjanna í Panama. Bygging Panamaskurðarins hófst svo 1904 og lauk 1914. Bandaríkin höfðu full yfirráð yfir Panamaskurðinum, og landsvæðinu við hann, allt til 1977.

Bandaríkin tóku við forystuhlutverki á vettvangi alþjóðastjórnmála eftir að síðari heimsstyrjöldinni lauk. Þá voru ýmsar nýjar lykilstofnanir á sviði alþjóðastjórnmála stofnaðar og staðsettar í Bandaríkjunum. Á myndinni sjást höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna í New York.

Sem fyrr segir var það andstætt Monroe-kenningunni að blanda sér í átök í Evrópu. Þess vegna stóðu Bandaríkin meðal annars utan fyrri heimsstyrjaldarinnar fram til ársins 1917. Það sem réð því einkum að þau lýstu loks yfir stríði gegn Þýskalandi á lokametrum styrjaldarinnar var að þýski sjóherinn hafði ítrekað grandað bandarískum skipum. Eftir fyrri heimsstyrjöldina sóttust Bandaríkin í vaxandi mæli eftir því að hafa áhrif á gang mála í Evrópu. Byltingin í Rússlandi (1917) og óstöðug stjórnmál í álfunni voru þeim áhyggjuefni. Þegar síðari heimsstyrjöldin braust út haustið 1939 stóðu Bandaríkin utan hennar allt til ársloka 1941.

Síðari heimsstyrjöldin var vendipunktur í bandarískri hernaðar- og utanríkissögu. Í lok stríðins voru Bandaríkin mesta hernaðar- og iðnaðarveldi heims. Þau tóku við forystuhlutverki á vettvangi alþjóðastjórnmála. Nýjar lykilstofnanir á sviði alþjóðastjórnmála voru stofnaðar og staðsettar í Bandaríkjunum, til dæmis Sameinuðu þjóðirnar, Alþjóðabankinn og Alþjóðgjaldeyrirsjóðurinn. Jafnframt voru Bandaríkin í forystu nýs hernaðarbandalags, Atlantshafsbandalagsins (NATO), sem tók að sér að tryggja öryggi aðildarríkjanna. Tími Pax Americana hafði haldið innreið sína.

Pax Americana er latína og þýðir ameríski friðurinn. Hugtakið vísar til yfirburðastöðu Bandaríkjanna á sviði alþjóðastjórnmála frá lokum síðari heimstyrjaldarinnar og fram til loka síðustu aldar. Tímabilið einkenndist af friði á milli helstu stórvelda heims. Undir niðri kraumaði þó kalt stríð á milli Vesturlanda, undir forystu Bandaríkjanna, og Sovétríkjanna og leppríkja þeirra sem stundum braust út í átökum á jaðri áhrifasvæða þeirra. Áður hafði hugtakið Pax Britannica verið notað um yfirburðastöðu breska heimsveldisins frá lokum Napóleonsstyrjaldanna og fram að fyrri heimstyrjöld (1815-1914). Og enn fyrr hafði hugtakið Pax Romana verið notað um rómverska heimsveldið.

Myndir:

Höfundur

Stefanía Óskarsdóttir

prófessor í stjórnmálafræðideild við HÍ

Útgáfudagur

14.3.2018

Spyrjandi

Þorvaldur

Tilvísun

Stefanía Óskarsdóttir. „Hvenær urðu Bandaríkin það stórveldi sem þau eru í dag?“ Vísindavefurinn, 14. mars 2018. Sótt 23. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=70689.

Stefanía Óskarsdóttir. (2018, 14. mars). Hvenær urðu Bandaríkin það stórveldi sem þau eru í dag? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=70689

Stefanía Óskarsdóttir. „Hvenær urðu Bandaríkin það stórveldi sem þau eru í dag?“ Vísindavefurinn. 14. mar. 2018. Vefsíða. 23. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=70689>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvenær urðu Bandaríkin það stórveldi sem þau eru í dag?
Spurningin í fullri lengd hljóðaði svona:

Hvenær byrjuðu Bandaríkin að beita sér á heimsvettvangi og hvenær urðu Bandaríkin það stórveldi sem þau eru í dag?

Bandaríkin urðu til sem nýtt, fullvalda ríki með sigri í sjálfstæðisstríðinu (1775-1783) gegn Bretlandi. Nýja ríkið var sambandsríki. Hvert og eitt ríki Bandaríkjanna hafði mikið sjálfstæði en utanríkismál og varnarmál voru í höndum alríkisstjórnarinnar í Washington. Á 19. öldinni stækkuðu Bandaríkin einkum til vesturs og suðurs. Bandaríkin keyptu landsvæði af Frakklandi (Louisiana Purchase) og Rússlandi (Alaska Purchase) og unnu Flórída af Spánverjum með stuttu stríði. Bandaríkin tryggðu einnig landamæri sín til norðurs með stríði og samningum við Breta (1812). Þá unnust líka stór landsvæði í suðri ýmist í stríði eða samningum við Mexíkó.

Öll þessi stríð við erlend ríki, sem og átök við þjóðir frumbyggja innanlands, efldu hernaðarmátt Bandaríkjanna til muna og tryggðu stöðu þeirra sem voldugasta ríkisins í Vesturheimi. Í krafti þessara yfirburða einsettu Bandaríkin sér einnig að sporna gegn yfirráðum evrópskra nýlenduríkja í sínum heimshluta. Á sama tíma lýstu þau þó jafnframt yfir vilja til að blanda sér ekki í átök ríkja innan Evrópu. Þessi stefnumörkun í utanríkismálum átti að draga úr líkum á því að Evrópuríki hyggðu á nýja landvinninga í ríkjum Ameríku og forða Bandaríkjunum frá því að dragast inn í stríðsátök í Evrópu. Þessi stefna var fyrst sett fram 1823 og var síðar nefnd Monroe-kenningin (kennd við James Monroe, fimmta forseta Bandaríkjanna). Frá þeim tíma varð Monroe-kenningin hryggjarstykkið í bandarískri utanríkisstefnu í Vesturheimi. Hún var notuð sem réttlæting og skýring á margs konar íhlutun Bandaríkjanna í ríkjum í Mið- og Suður-Ameríku allt fram á 21. öldina. Kanada reiddi sig líka á vernd Bandaríkjanna í skjóli Monroe-kenningarinnar.

Frá 1823 var svokölluð Monroe-kenning (e. Monroe doctrine) hryggjarstykkið í bandarískri utanríkisstefnu í Vesturheimi. Skopmynd í blaði frá 1912 um Monroe-kenninguna.

Í lok 19. aldar færðu Bandaríkjamenn áhrifasvæði sitt til fjarlægari eyja samhliða því sem Bandaríkin styrktust sem flotaveldi. Bandaríkin hröktu Spánverja frá völdum á Kúbu í stuttu stríði 1898. Í friðarsamningum sem fylgdu í kjölfarið fengu Bandaríkin yfirráð yfir leifunum af nýlenduveldi Spánverja. Það er að segja Púertó Ríkó, Gvam og Filippseyjum auk Kúbu. Næstu áratugina lögðu leiðtogar Bandaríkjanna mikla áherslu á að viðhalda áhrifum sínum á þessum stöðum. Árið 1898 féllst Hawaii einnig á að lúta yfirráðum Bandaríkjanna. Síðar varð Hawaii svo eitt af fylkjum Bandaríkanna (1959) en hvorki Púertó Ríkó né Gvam hafa enn stöðu fylkja þótt landsvæðin tilheyri enn Bandaríkjunum.

Bygging Panamaskurðarins, sem stytti siglingar á milli Kyrrahafsins og Atlantshafsins til muna, kallaði á aukin áhrif Bandaríkjanna í Panama og nálægum ríkjum. Stytting siglingaleiðarinnar var þýðingamikil fyrir bandaríska viðskipta- og hernaðarhagsmuni enda teygja Bandaríkin sig á milli stranda Atlantshafsins og Kyrrahafsins. Þessir hagsmunir voru hvati að íhlutun Bandaríkjanna í uppreisn Panamabúa gegn Kólumbíu (1903). Sigur þeirra tryggði viðvarandi áhrif Bandaríkjanna í Panama. Bygging Panamaskurðarins hófst svo 1904 og lauk 1914. Bandaríkin höfðu full yfirráð yfir Panamaskurðinum, og landsvæðinu við hann, allt til 1977.

Bandaríkin tóku við forystuhlutverki á vettvangi alþjóðastjórnmála eftir að síðari heimsstyrjöldinni lauk. Þá voru ýmsar nýjar lykilstofnanir á sviði alþjóðastjórnmála stofnaðar og staðsettar í Bandaríkjunum. Á myndinni sjást höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna í New York.

Sem fyrr segir var það andstætt Monroe-kenningunni að blanda sér í átök í Evrópu. Þess vegna stóðu Bandaríkin meðal annars utan fyrri heimsstyrjaldarinnar fram til ársins 1917. Það sem réð því einkum að þau lýstu loks yfir stríði gegn Þýskalandi á lokametrum styrjaldarinnar var að þýski sjóherinn hafði ítrekað grandað bandarískum skipum. Eftir fyrri heimsstyrjöldina sóttust Bandaríkin í vaxandi mæli eftir því að hafa áhrif á gang mála í Evrópu. Byltingin í Rússlandi (1917) og óstöðug stjórnmál í álfunni voru þeim áhyggjuefni. Þegar síðari heimsstyrjöldin braust út haustið 1939 stóðu Bandaríkin utan hennar allt til ársloka 1941.

Síðari heimsstyrjöldin var vendipunktur í bandarískri hernaðar- og utanríkissögu. Í lok stríðins voru Bandaríkin mesta hernaðar- og iðnaðarveldi heims. Þau tóku við forystuhlutverki á vettvangi alþjóðastjórnmála. Nýjar lykilstofnanir á sviði alþjóðastjórnmála voru stofnaðar og staðsettar í Bandaríkjunum, til dæmis Sameinuðu þjóðirnar, Alþjóðabankinn og Alþjóðgjaldeyrirsjóðurinn. Jafnframt voru Bandaríkin í forystu nýs hernaðarbandalags, Atlantshafsbandalagsins (NATO), sem tók að sér að tryggja öryggi aðildarríkjanna. Tími Pax Americana hafði haldið innreið sína.

Pax Americana er latína og þýðir ameríski friðurinn. Hugtakið vísar til yfirburðastöðu Bandaríkjanna á sviði alþjóðastjórnmála frá lokum síðari heimstyrjaldarinnar og fram til loka síðustu aldar. Tímabilið einkenndist af friði á milli helstu stórvelda heims. Undir niðri kraumaði þó kalt stríð á milli Vesturlanda, undir forystu Bandaríkjanna, og Sovétríkjanna og leppríkja þeirra sem stundum braust út í átökum á jaðri áhrifasvæða þeirra. Áður hafði hugtakið Pax Britannica verið notað um yfirburðastöðu breska heimsveldisins frá lokum Napóleonsstyrjaldanna og fram að fyrri heimstyrjöld (1815-1914). Og enn fyrr hafði hugtakið Pax Romana verið notað um rómverska heimsveldið.

Myndir:

...