Sólin Sólin Rís 05:43 • sest 21:13 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 13:37 • Sest 06:11 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:59 • Síðdegis: 15:47 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:39 • Síðdegis: 21:50 í Reykjavík

Hver eru einkenni krabbameina í endaþarmi?

Jón Gunnlaugur Jónasson og Laufey Tryggvadóttir

Krabbamein í endaþarmi eru um 2-3% allra illkynja æxla á Íslandi. Þau eru algengari meðal karla en kvenna. Aldursstaðlað nýgengi var 8,2 af 100.000 hjá körlum á tímabilinu 2006-2010, en 6,6 af 100.000 hjá konum. Þessi krabbamein hafa ekki verið eins algengt á Íslandi og annars staðar á Norðurlöndunum. Skýring þess er ekki ljós. Nýgengi hefur verið að hækka en meðferð hefur orðið markvissari með nákvæmari aðferðum til að greina útbreiðslu þessara meina fyrir aðgerð. Hægt er að gefa viðbótarmeðferð með geislum eða lyfjum allt eftir því á hvaða stigi meinin greinast. Sjálf skurðaðgerðin hefur líka breyst og hefur aðgerðartæknin orðið miklu nákvæmari, sem hefur leitt til minni áhættu á staðbundinni endurkomu meinsins. Einnig hefur fylgikvillum aðgerðar fækkað svo sem taugasköðum í grindarbotni. Meðalaldur sjúklinga sem greinast með krabbamein í endaþarmi er um 65 ár.

Árlegt aldursstaðlað nýgengi krabbameina í endaþarmi.

Árleg aldursstöðluð dánartíðni vegna krabbameina í endaþarmi.

Endaþarmurinn (rectum) er um það bil 15 cm að lengd og er neðsti hluti þarmanna. Hann tengir saman ristilinn (colon) og endaþarmsopið (anus). Endaþarmsopið hefur hringvöðva með flókinni uppbyggingu; innra sléttvöðvalag, sem lýtur ekki viljastjórn, og ytra þverrákótt vöðvalag, sem unnt er að stjórna og koma þannig í veg fyrir ótímabæra losun hægða. Meginhlutverk endaþarmsins er að geyma hægðir milli tæminga. Þegar þrýstingur eykst í endaþarminum slaknar á innri hringvöðvanum og hægðirnar færast neðar í ganginn á endaþarmsopinu. Þegar hægðirnar færast neðar vekja þær viðbragð í ytri hringvöðvanum, sem er viljastýrður, og heldur hann aftur af tæmingu þar til heppilegar aðstæður hafa skapast til að losa hægðirnar.

Orsakir og áhættuþættir

Áhættuþættir fyrir krabbamein í endaþarmi eru í stórum dráttum þeir sömu og fyrir ristilkrabbamein. Langvarandi bólgusjúkdómar í ristli og endaþarmi, sérstaklega sáraristilbólga (procto-colitis ulcerosa) eru taldir áhættuþættir. Einnig virðast lífshættir vega þungt. Talið er að mataræði geti skipt miklu máli varðandi áhættuna á endaþarmskrabbameini, en ekki er ljóst á hvern hátt. Svo virðist sem hærra hlutfall af rauðu kjöti á kostnað grænmetis í fæðu auki áhættu. Regluleg líkamleg hreyfing virðist draga úr áhættu á að fá endaþarmskrabbamein en offita og mikil áfengisneysla geta aukið áhættuna.

Langflest illkynja æxli í endaþarmi eru kirtilmyndandi krabbamein og eru þau talin myndast í æxlissepum í slímhúð endaþarmsins.

Landfræðilegur munur

Endaþarmskrabbamein er mun algengara á Vesturlöndum, svo sem í Norður-Evrópu og Norður-Ameríku, en í Suður-Ameríku, Asíu og Afríku. Nýgengi á Norðurlöndum er talið um tuttugu sinnum hærra en í Mið-Afríku. Þessi landfræðilegi munur er talinn stafa fyrst og fremst af mismunandi lífsháttum, einkum mismunandi matarvenjum. Ef horft er til Norðurlandanna hefur nýgengið hækkað hratt síðustu áratugi í Noregi og er nú hæst meðal Norðmanna og Dana, bæði hjá körlum og konum, svipað og gildir um nýgengi ristilkrabbameins. Nýgengi hjá íslenskum körlum er mun lægra en meðal hinna norrænu karlanna, en konurnar hafa svipað nýgengi og finnskar og sænskar konur. Ekki er vitað hvað veldur þessum mun.

Einkenni

Einkenni endaþarmskrabbameins eru fyrst og fremst blóð í hægðum og breytingar á hægðavenjum. Nýtilkomið harðlífi og/eða niðurgangur, ásamt fersku blóði utan á hægðum eru algeng fyrstu einkenni sjúkdómsins. Þessi einkenni eru þó alls ekki alltaf og í raun sjaldnast vegna krabbameins. Blóð í hægðum er oftast af öðrum orsökum, til dæmis vegna gyllinæðar eða sára (afrifa) í endaþarmi en slíkt þarf þó að athuga. Verkir geta einnig verið einkenni, ásamt fleiru svo sem lítilli matarlyst, þreytu, slappleika og þyngdartapi.

Greining

Þegar einkenni, svo sem blóð á hægðum eða breytingar á hægðavenjum koma fram er rétt að fara í læknisrannsókn. Hluti af hefðbundinni læknisskoðun í slíkum tilvikum er þreifing með fingri í endaþarm (rectal exploratio) og við slíka skoðun getur fundist æxlisvöxtur eða fyrirferð sem þarf að rannsaka nánar. Með stuttri endaþarmsspeglun (proctoscopy) er unnt að skoða endaþarmsslímhúðina og greina óeðlilegan vöxt. Hægt er að taka vefjasýni til að komast að því hvort um krabbamein sé að ræða. Einnig er unnt við slíka speglun að fjarlægja sepa, sem geta verið forstig endaþarmskrabbameins. Með ómskoðun og segulómrannsóknum má leitast við að kanna hversu djúpt æxli er vaxið í endaþarmsvegginn og er mjög gagnlegt að gera slíka forrannsókn áður en til skurðaðgerðar kemur.

Meðferð

Endaþarmskrabbamein er fyrst og fremst meðhöndlað með skurðaðgerð, mismunandi skurðaðgerðum er beitt eftir staðsetningu æxlisins. Ef æxlið er ofarlega í endaþarminum er oft möguleiki á að fjarlægja aðeins hluta endaþarmsins og tengja aftur saman þarmaendana svo að sjúklingur geti haldið endaþarmsopi og vöðvum þess og tæmt endaþarminn á venjubundinn hátt. Sé æxlið staðsett í neðsta hluta endaþarmsins getur þurft að fjarlægja allan endaþarminn, svo og endaþarmsopið. Þá þarf að leiða þarminn út á kviðvegginn í stóma svo þarmainnihaldið komist út.

Skurðaðgerð á endaþarmskrabbameini er umfangsmikil, flókin og mikið nákvæmnisverk. Gæta þarf þess að taka burt aðlægan vef til að komast fyrir æxlisvöxtinn. Jafnframt þarf þó að gæta þess að taka ekki meira en nauðsynlegt er vegna mikilvægra aðlægra líffæra og tauga sem stjórna þvagblöðrutæmingu og stinningu.

Í vissum tilvikum er geislameðferð gefin fyrir aðgerð til þess að minnka líkur á staðbundinni endurkomu æxlisins og til þess að minnka æxlið og auðvelda aðgerðina. Byggt er á vefjarannsókn á æxlissýni úr aðgerð þar sem fram kemur dýpt æxlis og dreifing til eitla og tekin ákvörðun um hvort viðbótarmeðferð með krabbameinslyfjameðferð á við. Oft er miðað við það hvort æxlið hefur náð að dreifa sér í eitla, þá er gjarnan gefin krabbameinslyfjameðferð eftir aðgerðina og getur hún tekið um hálft ár.

Fimm ára hlutfallsleg lifun.

Horfur

Horfur sjúklinga sem greinast með endaþarmskrabbamein fara aðallega eftir tegund og stigi krabbameinsins. Ef æxlið hefur ekki vaxið út fyrir þarmavegginn eru miklar líkur á fullri lækningu. Í heild hafa horfur batnað mikið vegna markvissari og betri meðferða.

Mynd og gröf:


Þessi texti er úr bókinni Krabbamein á Íslandi - Upplýsingar úr Krabbameinsskrá fyrir tímabilið 1955-2010 í ritstjórn Jóns Gunnlaugs Jónassonar og Laufeyjar Tryggvadóttur og gefin út af Krabbameinsfélaginu árið 2012.

Höfundar

Jón Gunnlaugur Jónasson

prófessor og meinafræðingur, yfirlæknir Krabbameinsskrár Íslands

Laufey Tryggvadóttir

faraldsfræðingur, framkvæmdastjóri Krabbameinsskrár Krabbameinsfélags Íslands

Útgáfudagur

28.10.2015

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Jón Gunnlaugur Jónasson og Laufey Tryggvadóttir. „Hver eru einkenni krabbameina í endaþarmi?“ Vísindavefurinn, 28. október 2015. Sótt 18. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=70694.

Jón Gunnlaugur Jónasson og Laufey Tryggvadóttir. (2015, 28. október). Hver eru einkenni krabbameina í endaþarmi? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=70694

Jón Gunnlaugur Jónasson og Laufey Tryggvadóttir. „Hver eru einkenni krabbameina í endaþarmi?“ Vísindavefurinn. 28. okt. 2015. Vefsíða. 18. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=70694>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver eru einkenni krabbameina í endaþarmi?
Krabbamein í endaþarmi eru um 2-3% allra illkynja æxla á Íslandi. Þau eru algengari meðal karla en kvenna. Aldursstaðlað nýgengi var 8,2 af 100.000 hjá körlum á tímabilinu 2006-2010, en 6,6 af 100.000 hjá konum. Þessi krabbamein hafa ekki verið eins algengt á Íslandi og annars staðar á Norðurlöndunum. Skýring þess er ekki ljós. Nýgengi hefur verið að hækka en meðferð hefur orðið markvissari með nákvæmari aðferðum til að greina útbreiðslu þessara meina fyrir aðgerð. Hægt er að gefa viðbótarmeðferð með geislum eða lyfjum allt eftir því á hvaða stigi meinin greinast. Sjálf skurðaðgerðin hefur líka breyst og hefur aðgerðartæknin orðið miklu nákvæmari, sem hefur leitt til minni áhættu á staðbundinni endurkomu meinsins. Einnig hefur fylgikvillum aðgerðar fækkað svo sem taugasköðum í grindarbotni. Meðalaldur sjúklinga sem greinast með krabbamein í endaþarmi er um 65 ár.

Árlegt aldursstaðlað nýgengi krabbameina í endaþarmi.

Árleg aldursstöðluð dánartíðni vegna krabbameina í endaþarmi.

Endaþarmurinn (rectum) er um það bil 15 cm að lengd og er neðsti hluti þarmanna. Hann tengir saman ristilinn (colon) og endaþarmsopið (anus). Endaþarmsopið hefur hringvöðva með flókinni uppbyggingu; innra sléttvöðvalag, sem lýtur ekki viljastjórn, og ytra þverrákótt vöðvalag, sem unnt er að stjórna og koma þannig í veg fyrir ótímabæra losun hægða. Meginhlutverk endaþarmsins er að geyma hægðir milli tæminga. Þegar þrýstingur eykst í endaþarminum slaknar á innri hringvöðvanum og hægðirnar færast neðar í ganginn á endaþarmsopinu. Þegar hægðirnar færast neðar vekja þær viðbragð í ytri hringvöðvanum, sem er viljastýrður, og heldur hann aftur af tæmingu þar til heppilegar aðstæður hafa skapast til að losa hægðirnar.

Orsakir og áhættuþættir

Áhættuþættir fyrir krabbamein í endaþarmi eru í stórum dráttum þeir sömu og fyrir ristilkrabbamein. Langvarandi bólgusjúkdómar í ristli og endaþarmi, sérstaklega sáraristilbólga (procto-colitis ulcerosa) eru taldir áhættuþættir. Einnig virðast lífshættir vega þungt. Talið er að mataræði geti skipt miklu máli varðandi áhættuna á endaþarmskrabbameini, en ekki er ljóst á hvern hátt. Svo virðist sem hærra hlutfall af rauðu kjöti á kostnað grænmetis í fæðu auki áhættu. Regluleg líkamleg hreyfing virðist draga úr áhættu á að fá endaþarmskrabbamein en offita og mikil áfengisneysla geta aukið áhættuna.

Langflest illkynja æxli í endaþarmi eru kirtilmyndandi krabbamein og eru þau talin myndast í æxlissepum í slímhúð endaþarmsins.

Landfræðilegur munur

Endaþarmskrabbamein er mun algengara á Vesturlöndum, svo sem í Norður-Evrópu og Norður-Ameríku, en í Suður-Ameríku, Asíu og Afríku. Nýgengi á Norðurlöndum er talið um tuttugu sinnum hærra en í Mið-Afríku. Þessi landfræðilegi munur er talinn stafa fyrst og fremst af mismunandi lífsháttum, einkum mismunandi matarvenjum. Ef horft er til Norðurlandanna hefur nýgengið hækkað hratt síðustu áratugi í Noregi og er nú hæst meðal Norðmanna og Dana, bæði hjá körlum og konum, svipað og gildir um nýgengi ristilkrabbameins. Nýgengi hjá íslenskum körlum er mun lægra en meðal hinna norrænu karlanna, en konurnar hafa svipað nýgengi og finnskar og sænskar konur. Ekki er vitað hvað veldur þessum mun.

Einkenni

Einkenni endaþarmskrabbameins eru fyrst og fremst blóð í hægðum og breytingar á hægðavenjum. Nýtilkomið harðlífi og/eða niðurgangur, ásamt fersku blóði utan á hægðum eru algeng fyrstu einkenni sjúkdómsins. Þessi einkenni eru þó alls ekki alltaf og í raun sjaldnast vegna krabbameins. Blóð í hægðum er oftast af öðrum orsökum, til dæmis vegna gyllinæðar eða sára (afrifa) í endaþarmi en slíkt þarf þó að athuga. Verkir geta einnig verið einkenni, ásamt fleiru svo sem lítilli matarlyst, þreytu, slappleika og þyngdartapi.

Greining

Þegar einkenni, svo sem blóð á hægðum eða breytingar á hægðavenjum koma fram er rétt að fara í læknisrannsókn. Hluti af hefðbundinni læknisskoðun í slíkum tilvikum er þreifing með fingri í endaþarm (rectal exploratio) og við slíka skoðun getur fundist æxlisvöxtur eða fyrirferð sem þarf að rannsaka nánar. Með stuttri endaþarmsspeglun (proctoscopy) er unnt að skoða endaþarmsslímhúðina og greina óeðlilegan vöxt. Hægt er að taka vefjasýni til að komast að því hvort um krabbamein sé að ræða. Einnig er unnt við slíka speglun að fjarlægja sepa, sem geta verið forstig endaþarmskrabbameins. Með ómskoðun og segulómrannsóknum má leitast við að kanna hversu djúpt æxli er vaxið í endaþarmsvegginn og er mjög gagnlegt að gera slíka forrannsókn áður en til skurðaðgerðar kemur.

Meðferð

Endaþarmskrabbamein er fyrst og fremst meðhöndlað með skurðaðgerð, mismunandi skurðaðgerðum er beitt eftir staðsetningu æxlisins. Ef æxlið er ofarlega í endaþarminum er oft möguleiki á að fjarlægja aðeins hluta endaþarmsins og tengja aftur saman þarmaendana svo að sjúklingur geti haldið endaþarmsopi og vöðvum þess og tæmt endaþarminn á venjubundinn hátt. Sé æxlið staðsett í neðsta hluta endaþarmsins getur þurft að fjarlægja allan endaþarminn, svo og endaþarmsopið. Þá þarf að leiða þarminn út á kviðvegginn í stóma svo þarmainnihaldið komist út.

Skurðaðgerð á endaþarmskrabbameini er umfangsmikil, flókin og mikið nákvæmnisverk. Gæta þarf þess að taka burt aðlægan vef til að komast fyrir æxlisvöxtinn. Jafnframt þarf þó að gæta þess að taka ekki meira en nauðsynlegt er vegna mikilvægra aðlægra líffæra og tauga sem stjórna þvagblöðrutæmingu og stinningu.

Í vissum tilvikum er geislameðferð gefin fyrir aðgerð til þess að minnka líkur á staðbundinni endurkomu æxlisins og til þess að minnka æxlið og auðvelda aðgerðina. Byggt er á vefjarannsókn á æxlissýni úr aðgerð þar sem fram kemur dýpt æxlis og dreifing til eitla og tekin ákvörðun um hvort viðbótarmeðferð með krabbameinslyfjameðferð á við. Oft er miðað við það hvort æxlið hefur náð að dreifa sér í eitla, þá er gjarnan gefin krabbameinslyfjameðferð eftir aðgerðina og getur hún tekið um hálft ár.

Fimm ára hlutfallsleg lifun.

Horfur

Horfur sjúklinga sem greinast með endaþarmskrabbamein fara aðallega eftir tegund og stigi krabbameinsins. Ef æxlið hefur ekki vaxið út fyrir þarmavegginn eru miklar líkur á fullri lækningu. Í heild hafa horfur batnað mikið vegna markvissari og betri meðferða.

Mynd og gröf:


Þessi texti er úr bókinni Krabbamein á Íslandi - Upplýsingar úr Krabbameinsskrá fyrir tímabilið 1955-2010 í ritstjórn Jóns Gunnlaugs Jónassonar og Laufeyjar Tryggvadóttur og gefin út af Krabbameinsfélaginu árið 2012.

...