Sólin Sólin Rís 05:36 • sest 21:19 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 16:44 • Sest 05:50 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:37 • Síðdegis: 17:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:57 • Síðdegis: 23:09 í Reykjavík

Hvaða munur var á vísindalegri hugsun í Kína og á Vesturlöndum fyrr á öldum?

Geir Sigurðsson

Fram að vísindabyltingu Vesturlanda á 17. öld voru Kínverjar að öllum líkindum fremstir meðal þjóða heimsins í vísinda- og tækniþróun. Vísi að vísindalegri nálgun til að skilja og skýra hræringar veraldarinnar var þegar að finna í Kína á síðustu öldum fyrir Krists burð og hafði hún þróast út frá ævafornu forspárkerfi sem tekið var saman með kerfisbundnar hætti í hinni svonefndu Breytingaritningu (Yijing, eða samkvæmt eldri umritun kínverskra tákna, I Ching 易經). Um er að ræða nálgun sem er talsvert frábrugðin þeirri sem mótaðist á Vesturlöndum á nýöld, þótt hún minni að nokkru leyti á eldri vestræn kerfi sem mótuðust út frá forngrískri heimspeki.

Síða úr Breytingaritningu, riti sem tekið var saman á síðustu öldum f.Kr. og byggði á ævafornu forspárkerfi. Myndin er af eintaki frá tíma Song-keisaraættarinnar (960-1279).

Stóri munurinn á hefðbundinni nálgun Kínverja og vestrænum nútímavísindum er að í hinni fyrrnefndu er ekki leitast við að finna „hlutlægar“ skýringar á atburðum veraldarinnar eða uppgötva algild lögmál sem stýra þeim, heldur fremur að meta innbyrðis áhrif afmarkaðra þátta hver á annan. Meginmarkmiðið er að nýta sér þekkinguna á þessum áhrifum til að bæta aðstæður til mannlífs. Vísað hefur verið til þeirrar hugsunar sem þessi nálgun grundvallast á sem „samsvörunar-“ eða „hliðstæðuhugsunar“ (e. correlative thinking) til aðgreiningar frá „sundurgreinandi“ eða „orsakamiðaðri hugsun“ (e. analytical eða causal thinking) sem einkennir vestræna þekkingarnálgun um það bil frá og með Galíleó Galíleí (1564-1642).

Í heimsfræði Kínverja til forna leika táknrænar hliðstæður lykilhlutverk. Raunar léku þær einnig lykilhlutverk í vestrænum fræðum og vísindum áður en Galíleó setti fram vísindalega aðferðafræði sína á grundvelli megindlegra stærða og orsakatengsla. Hin fjögur frumefni Empedóklesar (um 490 – um 430 f.Kr.) og hinir fjórir vessar Hippókratesar (um 460 – um 375 f.Kr.) eru dæmi um slíka samsvörunarhugsun þar sem leitast er við að setja saman eitt allsherjar kerfi með gagnkvæmum tengslum eiginleika veruleikans í heild. Jafnvel hugmyndir Jóhannesar Keplers (1571-1630), eins mikilvægasta brautryðjanda vísindalegrar hugsunar nútímans, einkenndust enn talsvert af viðleitni samsvörunarhugsunar. Þrjú lögmál Keplers um göngu reikistjarnanna eru líklega fyrstu eiginlegu náttúrulögmálin sem uppgötvuðust síðan á tímum Forngrikkja en Kepler reyndi að finna lögmálunum stað í samsvörunarheimsfræði sinni þar sem sólin, reikistjörnurnar og fastastjörnurnar myndu samsvara föður, syni og heilögum anda í heilagri þrenningu.

Í Kína er helsta birtingarmynd samsvörunarhugsunarinnar heimsfræðikerfi yin-yang 陰陽 sem flestir kannast við. Yin og yang eru tákngervingar andstæðra eiginleika sem gera okkur kleift að meta ríkjandi og víkjandi tilhneigingar í stöðugu stórstreymi veruleikans sem og að koma á skipulagi á meðal þátta hans. Þannig búa tímabil, til dæmis keisaraveldi og árstíðir, yfir ákveðnum tilhneigingum sem auðkenna þau og gert er síðan ráð fyrir því að í breytingaferlinu muni þessar tilhneigingar ná hámarki og hverfa síðan aftur til andstæðu sinnar. Yang verður hreint yang en síðan snýr það til baka í átt til yin, eins og gefið er til kynna í kafla 40 í Bókinni um veginn (Daodejing 道德經): „Hræringar dao felast í viðsnúningi.“ Óræður hlutur, atburður eða eiginleiki birtist í umhverfi sínu og tekur á sig tiltekna mynd í samspili við það. Þegar birtingarmyndin nær hámarki tekur hún aftur að fjara út í hið óræða. Það eru yin og yang sem tjá andstæða póla þessa ferlis sem tekur til allra þátta heimsins.

Yin og yang eru tákngervingar andstæðra eiginleika.

Í þessum skilningi má tala um yin og yang sem ákveðnar sértekningar allra þessara eiginleika. Þessar sértekningar eru þó hvorki í líkingu platonskra frummynda, aristótelískra almennra hugtaka eða algildra vísindalegra lögmála – þær eru einungis táknrænar framsetningar á tilteknum eiginleikum á tilteknum tíma sem stöðugt taka breytingum. Frá og með tíma Han-keisaraættarinnar (207 f.Kr.-220 e.Kr.) var gengið mjög langt í að tengja öll fyrirbæri heimsins þessum eiginleikum, svo sem litum, höfuðáttum, hljóðum, tegundum lyktar og bragðs, líkamshlutum og svo framvegis og skapa þannig veraldarskipulag þar sem manneskjan og allir eiginleikar hennar voru settir fram í nánum og merkingarbærum samskiptum við hina ytri veröld. Hápunkti þessarar heimsfræði var væntanlega náð í nýkonfúsíanisma á 12.-13. öld, sem mótaðist út frá daoískum, búddískum og konfúsíanískum nálgunum, en þar er um að ræða síkvikt, sjálfbært og „lífrænt“ heildarkerfi þar sem stöðugt er leitast við að koma á jafnvægi í innbyrðis afstæðum þáttum þess. Þar léku meginhlutverkin hugtökin li 理, „mynstur“ eða „form“, og qi 氣, „efnisleg orka“ eða „lífsafl“, sem beitt var til að öðlast skilning á atburðum og hræringum alls sem er, jafnt náttúru sem mannfélags, enda gengið út frá því að svið þessi lytu fullkomlega sömu lögmálum.

Heimsfræði þessi þykir með öllu ósamrýmanleg hinu vélræna og „hlutlæga“ aflfræðilega módeli Isaacs Newtons (1642-1727), enda má segja að í Kína hafi hún alveg vikið fyrir vestrænum nálgunum um og eftir miðja 19. öld. Hins vegar þykir ýmislegt í henni minna á þá sýn skammtafræðinnar að hræringar heimsins standi í flóknum, heildrænum og gagnkvæmum tengslum og séu því hvorki aðgreinanlegar né með öllu fyrirsjáanlegar. Aukin umhverfisvitund og vaxandi áhugi á beinum áhrifum mannlegs hversdagslífs á hræringar heimsins hefur nú aftur beint athygli fræðanna að þeirri hugsun sem kerfi þessi liggur til grundvallar, þar eð hún þykir stuðla að aukinni ábyrgðarkennd gagnvart lífríki okkar og umhverfi.

Nokkrar heimildir og myndir:

  • Graham, A.C. Disputers of the Tao. Philosophical Arguments in Ancient China. Chicago and La Salle: Open Court, 1989.
  • Graham, A.C. Yin-Yang and the Nature of Correlative Thinking. Singapore: The Institute of East Asian Philosophies, 1986.
  • Hall, David L. og Roger T. Ames. Anticipating China: Thinking Through the Narratives of Chinese and Western Culture. Albany: State University of New York Press, 1995.
  • Jón Egill Eyþórsson. „Tákn og merkingar í Breytingaritningunni – Yi Jing“. Hugur. Tímarit um heimspeki 20 (2008), s. 45-63.
  • Kalton, Michael C. “Extending the Neo-Confucian Tradition: Questions and Reconceptualization for the Twenty-first Century”. Í Confucianism and Ecology: The Interrelation of Heaven, Earth, and Humans. Ritstj. Mary Evelyn Tucker og John Berthrong. Cambridge, Mass.: Harvard University Press, 1998; s. 77-101.
  • Sigurdsson, Geir. “Anthropocosmic Processes in the Anthropocene: Revisiting Quantum Mechanics vs. Chinese Cosmology Comparison”. Í The Bright Dark Ages: Comparative and Connective Perspectives. Ritstj. Arun Bala og Prasenjit Duara. Leiden: Brill, 2016.
  • Fyrri mynd: Ching Song Dynasty print.jpg - Wikimedia Commons. (Sótt 6. 1. 2016).
  • Seinni mynd: Yin yang.svg - Wikimedia Commons. (Sótt 6. 1. 2016).

Upprunaleg spurning Oddnýjar hljómaði svona:
Er ekkert hérna um vísindi í Kína til forna?

Höfundur

Geir Sigurðsson

heimspekingur og prófessor í kínverskum fræðum

Útgáfudagur

18.1.2016

Spyrjandi

Odddný Ragna Fahning

Tilvísun

Geir Sigurðsson. „Hvaða munur var á vísindalegri hugsun í Kína og á Vesturlöndum fyrr á öldum?“ Vísindavefurinn, 18. janúar 2016. Sótt 20. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=71364.

Geir Sigurðsson. (2016, 18. janúar). Hvaða munur var á vísindalegri hugsun í Kína og á Vesturlöndum fyrr á öldum? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=71364

Geir Sigurðsson. „Hvaða munur var á vísindalegri hugsun í Kína og á Vesturlöndum fyrr á öldum?“ Vísindavefurinn. 18. jan. 2016. Vefsíða. 20. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=71364>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvaða munur var á vísindalegri hugsun í Kína og á Vesturlöndum fyrr á öldum?
Fram að vísindabyltingu Vesturlanda á 17. öld voru Kínverjar að öllum líkindum fremstir meðal þjóða heimsins í vísinda- og tækniþróun. Vísi að vísindalegri nálgun til að skilja og skýra hræringar veraldarinnar var þegar að finna í Kína á síðustu öldum fyrir Krists burð og hafði hún þróast út frá ævafornu forspárkerfi sem tekið var saman með kerfisbundnar hætti í hinni svonefndu Breytingaritningu (Yijing, eða samkvæmt eldri umritun kínverskra tákna, I Ching 易經). Um er að ræða nálgun sem er talsvert frábrugðin þeirri sem mótaðist á Vesturlöndum á nýöld, þótt hún minni að nokkru leyti á eldri vestræn kerfi sem mótuðust út frá forngrískri heimspeki.

Síða úr Breytingaritningu, riti sem tekið var saman á síðustu öldum f.Kr. og byggði á ævafornu forspárkerfi. Myndin er af eintaki frá tíma Song-keisaraættarinnar (960-1279).

Stóri munurinn á hefðbundinni nálgun Kínverja og vestrænum nútímavísindum er að í hinni fyrrnefndu er ekki leitast við að finna „hlutlægar“ skýringar á atburðum veraldarinnar eða uppgötva algild lögmál sem stýra þeim, heldur fremur að meta innbyrðis áhrif afmarkaðra þátta hver á annan. Meginmarkmiðið er að nýta sér þekkinguna á þessum áhrifum til að bæta aðstæður til mannlífs. Vísað hefur verið til þeirrar hugsunar sem þessi nálgun grundvallast á sem „samsvörunar-“ eða „hliðstæðuhugsunar“ (e. correlative thinking) til aðgreiningar frá „sundurgreinandi“ eða „orsakamiðaðri hugsun“ (e. analytical eða causal thinking) sem einkennir vestræna þekkingarnálgun um það bil frá og með Galíleó Galíleí (1564-1642).

Í heimsfræði Kínverja til forna leika táknrænar hliðstæður lykilhlutverk. Raunar léku þær einnig lykilhlutverk í vestrænum fræðum og vísindum áður en Galíleó setti fram vísindalega aðferðafræði sína á grundvelli megindlegra stærða og orsakatengsla. Hin fjögur frumefni Empedóklesar (um 490 – um 430 f.Kr.) og hinir fjórir vessar Hippókratesar (um 460 – um 375 f.Kr.) eru dæmi um slíka samsvörunarhugsun þar sem leitast er við að setja saman eitt allsherjar kerfi með gagnkvæmum tengslum eiginleika veruleikans í heild. Jafnvel hugmyndir Jóhannesar Keplers (1571-1630), eins mikilvægasta brautryðjanda vísindalegrar hugsunar nútímans, einkenndust enn talsvert af viðleitni samsvörunarhugsunar. Þrjú lögmál Keplers um göngu reikistjarnanna eru líklega fyrstu eiginlegu náttúrulögmálin sem uppgötvuðust síðan á tímum Forngrikkja en Kepler reyndi að finna lögmálunum stað í samsvörunarheimsfræði sinni þar sem sólin, reikistjörnurnar og fastastjörnurnar myndu samsvara föður, syni og heilögum anda í heilagri þrenningu.

Í Kína er helsta birtingarmynd samsvörunarhugsunarinnar heimsfræðikerfi yin-yang 陰陽 sem flestir kannast við. Yin og yang eru tákngervingar andstæðra eiginleika sem gera okkur kleift að meta ríkjandi og víkjandi tilhneigingar í stöðugu stórstreymi veruleikans sem og að koma á skipulagi á meðal þátta hans. Þannig búa tímabil, til dæmis keisaraveldi og árstíðir, yfir ákveðnum tilhneigingum sem auðkenna þau og gert er síðan ráð fyrir því að í breytingaferlinu muni þessar tilhneigingar ná hámarki og hverfa síðan aftur til andstæðu sinnar. Yang verður hreint yang en síðan snýr það til baka í átt til yin, eins og gefið er til kynna í kafla 40 í Bókinni um veginn (Daodejing 道德經): „Hræringar dao felast í viðsnúningi.“ Óræður hlutur, atburður eða eiginleiki birtist í umhverfi sínu og tekur á sig tiltekna mynd í samspili við það. Þegar birtingarmyndin nær hámarki tekur hún aftur að fjara út í hið óræða. Það eru yin og yang sem tjá andstæða póla þessa ferlis sem tekur til allra þátta heimsins.

Yin og yang eru tákngervingar andstæðra eiginleika.

Í þessum skilningi má tala um yin og yang sem ákveðnar sértekningar allra þessara eiginleika. Þessar sértekningar eru þó hvorki í líkingu platonskra frummynda, aristótelískra almennra hugtaka eða algildra vísindalegra lögmála – þær eru einungis táknrænar framsetningar á tilteknum eiginleikum á tilteknum tíma sem stöðugt taka breytingum. Frá og með tíma Han-keisaraættarinnar (207 f.Kr.-220 e.Kr.) var gengið mjög langt í að tengja öll fyrirbæri heimsins þessum eiginleikum, svo sem litum, höfuðáttum, hljóðum, tegundum lyktar og bragðs, líkamshlutum og svo framvegis og skapa þannig veraldarskipulag þar sem manneskjan og allir eiginleikar hennar voru settir fram í nánum og merkingarbærum samskiptum við hina ytri veröld. Hápunkti þessarar heimsfræði var væntanlega náð í nýkonfúsíanisma á 12.-13. öld, sem mótaðist út frá daoískum, búddískum og konfúsíanískum nálgunum, en þar er um að ræða síkvikt, sjálfbært og „lífrænt“ heildarkerfi þar sem stöðugt er leitast við að koma á jafnvægi í innbyrðis afstæðum þáttum þess. Þar léku meginhlutverkin hugtökin li 理, „mynstur“ eða „form“, og qi 氣, „efnisleg orka“ eða „lífsafl“, sem beitt var til að öðlast skilning á atburðum og hræringum alls sem er, jafnt náttúru sem mannfélags, enda gengið út frá því að svið þessi lytu fullkomlega sömu lögmálum.

Heimsfræði þessi þykir með öllu ósamrýmanleg hinu vélræna og „hlutlæga“ aflfræðilega módeli Isaacs Newtons (1642-1727), enda má segja að í Kína hafi hún alveg vikið fyrir vestrænum nálgunum um og eftir miðja 19. öld. Hins vegar þykir ýmislegt í henni minna á þá sýn skammtafræðinnar að hræringar heimsins standi í flóknum, heildrænum og gagnkvæmum tengslum og séu því hvorki aðgreinanlegar né með öllu fyrirsjáanlegar. Aukin umhverfisvitund og vaxandi áhugi á beinum áhrifum mannlegs hversdagslífs á hræringar heimsins hefur nú aftur beint athygli fræðanna að þeirri hugsun sem kerfi þessi liggur til grundvallar, þar eð hún þykir stuðla að aukinni ábyrgðarkennd gagnvart lífríki okkar og umhverfi.

Nokkrar heimildir og myndir:

  • Graham, A.C. Disputers of the Tao. Philosophical Arguments in Ancient China. Chicago and La Salle: Open Court, 1989.
  • Graham, A.C. Yin-Yang and the Nature of Correlative Thinking. Singapore: The Institute of East Asian Philosophies, 1986.
  • Hall, David L. og Roger T. Ames. Anticipating China: Thinking Through the Narratives of Chinese and Western Culture. Albany: State University of New York Press, 1995.
  • Jón Egill Eyþórsson. „Tákn og merkingar í Breytingaritningunni – Yi Jing“. Hugur. Tímarit um heimspeki 20 (2008), s. 45-63.
  • Kalton, Michael C. “Extending the Neo-Confucian Tradition: Questions and Reconceptualization for the Twenty-first Century”. Í Confucianism and Ecology: The Interrelation of Heaven, Earth, and Humans. Ritstj. Mary Evelyn Tucker og John Berthrong. Cambridge, Mass.: Harvard University Press, 1998; s. 77-101.
  • Sigurdsson, Geir. “Anthropocosmic Processes in the Anthropocene: Revisiting Quantum Mechanics vs. Chinese Cosmology Comparison”. Í The Bright Dark Ages: Comparative and Connective Perspectives. Ritstj. Arun Bala og Prasenjit Duara. Leiden: Brill, 2016.
  • Fyrri mynd: Ching Song Dynasty print.jpg - Wikimedia Commons. (Sótt 6. 1. 2016).
  • Seinni mynd: Yin yang.svg - Wikimedia Commons. (Sótt 6. 1. 2016).

Upprunaleg spurning Oddnýjar hljómaði svona:
Er ekkert hérna um vísindi í Kína til forna?

...