Sólin Sólin Rís 05:26 • sest 21:28 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:24 • Sest 05:22 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:10 • Síðdegis: 18:30 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:11 • Síðdegis: 12:20 í Reykjavík

Hverjar eru helstu uppfinningar Kínverja til forna?

Geir Sigurðsson

Vísindaleg nálgun í Kína til forna markaðist mjög af hagnýtum sjónarmiðum landbúnaðarsamfélagsins í óhjákvæmilegu samspili sínu við náttúruna. Heimsfræði Kínverja á síðustu öldum fyrir Krist mótaðist út frá hinu forna spádómskerfi breytinganna (Yijing eða I Ching 易經). Markmiðið var að miklu leyti það sama og verið hafði í öndverðu: að setja fram forspá fyrir ókomna tíð, til dæmis sem varðaði uppskeru, veðurfar, flóð, og fleira. Þannig átti að vera hægt að bregðast rétt við í tæka tíð hverju sinni. Kínverjar lögðu til að mynda snemma áherslu á að reikna út haldbært tímatal og þeirri viðleitni fylgdu viðamiklar rannsóknir á sviði stjörnufræði. Elsta tímatal sem varðveist hefur í Kína er frá 5. öld f.Kr. og þar er árið mælt í 365,25 dögum.

Tækniþróun í Kína fyrr á öldum tengdist oft landbúnaði.

Tæknilegar uppfinningar Kínverja frá upphafi vega eru fjölmargar. Gróska sem einkenndi kínverska tækniþróun byggðist að miklu leyti á skipulegu embættismannakerfi sem átti rætur að rekja til opinbers keisaraskóla (Taixue 太學, síðar Guozijian 國子監), nokkurs konar háskóla, sem leit fyrst dagsins ljós árið 124 f.Kr. Þar með einkenndist þekkingaröflun í Kína af ákveðinni miðstýringu sem vel var haldið utan um, auk þess sem mótað var fræðasamfélag sem keisarastjórnin studdi og verndaði. Frá því að Mongólar hertóku Kína á þrettándu öld dró þó mjög úr virkni þessa fræðasamfélags. Fyrir því eru ýmsar ástæður en tvær virðast veigamestar: annars vegar varð offramboð vinnuafls í kjölfar mikillar fólksfjölgunar til þess að mjög dró úr hvata til að tæknivæða landbúnað og aðra iðnaðarstarfsemi; hins vegar tók hugmyndafræði keisarastjórnarinnar að einkennast í auknum mæli af afturhaldssemi, einangrunarhyggju og alræði. Blómaskeið kínverskra uppfinninga og tækniþróunar nær því um það bil frá Han-veldinu (2. öld f.Kr.) til síðustu aldar Song-veldisins (12.-13. öld). Upplýsingar frá jesúítum sem tóku að leggja leið sína til Kína á 17. öld og kynna uppfinningar og tækni frá Evrópu fyrir keisarahirðinni benda til hægari tækniþróunar í Kína frá Song-tímanum.

Margar af fyrri uppfinningum Kínverja eru á sviði landbúnaðar en ekki síður læknislistar, flóðastjórnunar, málmvinnslu og byggingarlistar. Sem dæmi má nefna að tæknivæðing og notkun sprengiefna gerðu Kínverjum kleift að vinna meira en 114 þúsund tonn af járni úr jörðu árið 1078; á Englandi iðnbyltingarinnar, árið 1788, nam járnvinnsla einungis 68 þúsund tonnum. Einnig er rétt að nefna fágun bæði silki- og postulínsvinnslu í Kína sem hvort um sig eiga nokkur þúsund ára sögu að baki.

Ekki er hægt að ræða kínversk vísindi og tækni án þess að gera stuttlega grein fyrir fjórum kínverskum uppfinningum sem hafa haft ómæld áhrif á þróun og stefnu mannlífs á jörðu.

Líkan af áttavita frá tíma Han-veldisins.

Fyrst skal nefna áttavitann sem þegar var til í frumstæðum myndum í Kína löngu fyrir Krists burð en þá var segulsvið notað til að greina höfuðáttir og ákvarða hagkvæma staði fyrir leiði og síðar búsetu hinna lifandi. Smám saman var farið að beita þekkingunni á annan hátt. Á 12. öld var áttavitinn orðin vel þróaður og átti eftir að nýtast Kínverjum vel í miklum úthafssiglingum sínum á næstu öldum. Talið er að áttavitinn hafi síðan borist með arabískum kaupmönnum til Vesturlanda og ljóst er að án hans hefði útþenslustefna Vesturveldanna frá og með 15. öld tæplega getað átt sér stað.

Næst má nefna pappírinn, sem líklega var fundinn upp á 2. öld e.Kr., en hann gerði kleift að koma upplýsingum áleiðis með einföldum hætti. Þriðja uppfinningin er svo prentlistin sem átti sér langan aðdraganda í Kína en það var á 9. öld sem tekið var til við að prenta efni í stórum stíl. Eins og gildir um áttavitann virðast þessar mikilvægu uppfinningar báðar, pappírinn og prentlistin, hafa borist með íslömskum sæförum til Vesturlanda.

Elsta uppskrift af byssupúðri sem vitað er um, frá 1044 e.Kr.

Loks leit byssupúðrið dagsins ljós í Kína á 10. öld. Kínverjar nýttu það einkum til sprenginga við námuvinnslu en beittu því þó jafnframt að einhverju leyti í hernaðarátökum sínum við aðrar þjóðir. Mongólar voru fljótir að koma auga á kosti púðurs í hernaði, ekki síst vegna fælingarmáttar þess og beittu frumstæðum sprengjum í skæðum árásum sínum vestur yfir alla Evrasíu. Þannig virðist byssupúðrið hafa borist til Evrópu. Notkun byssupúðurs fékk þó fyrst verulega útbreiðslu meðal vestrænna þjóða á nýlendutímanum.

Nokkrar heimildir og myndir:

  • Ancient China‘s Technology and Science. Beijing: Foreign Languages Press, 1983.
  • Fairbank, John King og Merle Goldman. China: A New History. Önnur útgáfa. Cambridge, Mass. og London: The Belknap Press of Harvard University Press, 2006.
  • Gernet, Jacques. A History of Chinese Civilization. Önnur útgáfa. Þýð. J.R. Foster og Charles Hartman. Cambridge: Cambridge University Press, 1996.
  • Hansen, Valerie. The Open Empire: A History of China to 1600. New York og London: W.W. Norton, 2000.
  • Needham, Joseph. Science and Civilisation in China. Vol. 1: Introductory Orientations. Cambridge: Cambridge University Press, 1954.
  • Ancient China's Technology. (Sótt 8. 1. 2016).
  • Compass - Wikipedia, the free encyclopedia. (Sótt 15.01.2016).
  • Chinese Gunpowder Formula.JPG - Wikimedia Commons. (Sótt 7. 1. 2016).

Birgir spurði: Hver fann upp áttavitann?

Höfundur

Geir Sigurðsson

heimspekingur og prófessor í kínverskum fræðum

Útgáfudagur

19.1.2016

Spyrjandi

Birgir Steinþórsson, ritstjórn

Tilvísun

Geir Sigurðsson. „Hverjar eru helstu uppfinningar Kínverja til forna?“ Vísindavefurinn, 19. janúar 2016. Sótt 23. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=71373.

Geir Sigurðsson. (2016, 19. janúar). Hverjar eru helstu uppfinningar Kínverja til forna? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=71373

Geir Sigurðsson. „Hverjar eru helstu uppfinningar Kínverja til forna?“ Vísindavefurinn. 19. jan. 2016. Vefsíða. 23. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=71373>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hverjar eru helstu uppfinningar Kínverja til forna?
Vísindaleg nálgun í Kína til forna markaðist mjög af hagnýtum sjónarmiðum landbúnaðarsamfélagsins í óhjákvæmilegu samspili sínu við náttúruna. Heimsfræði Kínverja á síðustu öldum fyrir Krist mótaðist út frá hinu forna spádómskerfi breytinganna (Yijing eða I Ching 易經). Markmiðið var að miklu leyti það sama og verið hafði í öndverðu: að setja fram forspá fyrir ókomna tíð, til dæmis sem varðaði uppskeru, veðurfar, flóð, og fleira. Þannig átti að vera hægt að bregðast rétt við í tæka tíð hverju sinni. Kínverjar lögðu til að mynda snemma áherslu á að reikna út haldbært tímatal og þeirri viðleitni fylgdu viðamiklar rannsóknir á sviði stjörnufræði. Elsta tímatal sem varðveist hefur í Kína er frá 5. öld f.Kr. og þar er árið mælt í 365,25 dögum.

Tækniþróun í Kína fyrr á öldum tengdist oft landbúnaði.

Tæknilegar uppfinningar Kínverja frá upphafi vega eru fjölmargar. Gróska sem einkenndi kínverska tækniþróun byggðist að miklu leyti á skipulegu embættismannakerfi sem átti rætur að rekja til opinbers keisaraskóla (Taixue 太學, síðar Guozijian 國子監), nokkurs konar háskóla, sem leit fyrst dagsins ljós árið 124 f.Kr. Þar með einkenndist þekkingaröflun í Kína af ákveðinni miðstýringu sem vel var haldið utan um, auk þess sem mótað var fræðasamfélag sem keisarastjórnin studdi og verndaði. Frá því að Mongólar hertóku Kína á þrettándu öld dró þó mjög úr virkni þessa fræðasamfélags. Fyrir því eru ýmsar ástæður en tvær virðast veigamestar: annars vegar varð offramboð vinnuafls í kjölfar mikillar fólksfjölgunar til þess að mjög dró úr hvata til að tæknivæða landbúnað og aðra iðnaðarstarfsemi; hins vegar tók hugmyndafræði keisarastjórnarinnar að einkennast í auknum mæli af afturhaldssemi, einangrunarhyggju og alræði. Blómaskeið kínverskra uppfinninga og tækniþróunar nær því um það bil frá Han-veldinu (2. öld f.Kr.) til síðustu aldar Song-veldisins (12.-13. öld). Upplýsingar frá jesúítum sem tóku að leggja leið sína til Kína á 17. öld og kynna uppfinningar og tækni frá Evrópu fyrir keisarahirðinni benda til hægari tækniþróunar í Kína frá Song-tímanum.

Margar af fyrri uppfinningum Kínverja eru á sviði landbúnaðar en ekki síður læknislistar, flóðastjórnunar, málmvinnslu og byggingarlistar. Sem dæmi má nefna að tæknivæðing og notkun sprengiefna gerðu Kínverjum kleift að vinna meira en 114 þúsund tonn af járni úr jörðu árið 1078; á Englandi iðnbyltingarinnar, árið 1788, nam járnvinnsla einungis 68 þúsund tonnum. Einnig er rétt að nefna fágun bæði silki- og postulínsvinnslu í Kína sem hvort um sig eiga nokkur þúsund ára sögu að baki.

Ekki er hægt að ræða kínversk vísindi og tækni án þess að gera stuttlega grein fyrir fjórum kínverskum uppfinningum sem hafa haft ómæld áhrif á þróun og stefnu mannlífs á jörðu.

Líkan af áttavita frá tíma Han-veldisins.

Fyrst skal nefna áttavitann sem þegar var til í frumstæðum myndum í Kína löngu fyrir Krists burð en þá var segulsvið notað til að greina höfuðáttir og ákvarða hagkvæma staði fyrir leiði og síðar búsetu hinna lifandi. Smám saman var farið að beita þekkingunni á annan hátt. Á 12. öld var áttavitinn orðin vel þróaður og átti eftir að nýtast Kínverjum vel í miklum úthafssiglingum sínum á næstu öldum. Talið er að áttavitinn hafi síðan borist með arabískum kaupmönnum til Vesturlanda og ljóst er að án hans hefði útþenslustefna Vesturveldanna frá og með 15. öld tæplega getað átt sér stað.

Næst má nefna pappírinn, sem líklega var fundinn upp á 2. öld e.Kr., en hann gerði kleift að koma upplýsingum áleiðis með einföldum hætti. Þriðja uppfinningin er svo prentlistin sem átti sér langan aðdraganda í Kína en það var á 9. öld sem tekið var til við að prenta efni í stórum stíl. Eins og gildir um áttavitann virðast þessar mikilvægu uppfinningar báðar, pappírinn og prentlistin, hafa borist með íslömskum sæförum til Vesturlanda.

Elsta uppskrift af byssupúðri sem vitað er um, frá 1044 e.Kr.

Loks leit byssupúðrið dagsins ljós í Kína á 10. öld. Kínverjar nýttu það einkum til sprenginga við námuvinnslu en beittu því þó jafnframt að einhverju leyti í hernaðarátökum sínum við aðrar þjóðir. Mongólar voru fljótir að koma auga á kosti púðurs í hernaði, ekki síst vegna fælingarmáttar þess og beittu frumstæðum sprengjum í skæðum árásum sínum vestur yfir alla Evrasíu. Þannig virðist byssupúðrið hafa borist til Evrópu. Notkun byssupúðurs fékk þó fyrst verulega útbreiðslu meðal vestrænna þjóða á nýlendutímanum.

Nokkrar heimildir og myndir:

  • Ancient China‘s Technology and Science. Beijing: Foreign Languages Press, 1983.
  • Fairbank, John King og Merle Goldman. China: A New History. Önnur útgáfa. Cambridge, Mass. og London: The Belknap Press of Harvard University Press, 2006.
  • Gernet, Jacques. A History of Chinese Civilization. Önnur útgáfa. Þýð. J.R. Foster og Charles Hartman. Cambridge: Cambridge University Press, 1996.
  • Hansen, Valerie. The Open Empire: A History of China to 1600. New York og London: W.W. Norton, 2000.
  • Needham, Joseph. Science and Civilisation in China. Vol. 1: Introductory Orientations. Cambridge: Cambridge University Press, 1954.
  • Ancient China's Technology. (Sótt 8. 1. 2016).
  • Compass - Wikipedia, the free encyclopedia. (Sótt 15.01.2016).
  • Chinese Gunpowder Formula.JPG - Wikimedia Commons. (Sótt 7. 1. 2016).

Birgir spurði: Hver fann upp áttavitann?

...