Sólin Sólin Rís 05:36 • sest 21:19 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 16:44 • Sest 05:50 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:37 • Síðdegis: 17:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:57 • Síðdegis: 23:09 í Reykjavík
Árnastofnun - mynd í *Árnarstofnun

Hvers vegna er slétt tala tvö orð en oddatala eitt orð?

Jóhannes B. Sigtryggsson

Spurningin í fullri lengd var:
Hvers vegna skrifar maður slétt tala í tveimur orðum en oddatala í einu orði?

Slétt tala ‚heil tala sem 2 gengur upp í‘ og oddatala ‚heil tala sem 2 gengur ekki upp í‘ eru þekkt hugtök í stærðfræði. Fyrra hugtakið er orðasamband í íslensku og því ritað í tvennu lagi en hið síðara samsett orð og því ritað í einu lagi.

Lýsingarorðið sléttur hefur hér merkinguna ‚jafn, flatur‘ enda hafa sléttar tölur stundum verið kallaðar jafnar tölur. Orðstofninn slétt- kemur einnig fyrir sem fyrri liður í nokkrum samsetningum, til dæmis sléttbakur, slétthefill, slétthærður og sléttmáll ‚mjúkmáll, tungulipur‘. Það hefði því mátt hugsa sér að myndað hefði verið samsett orð eins og slétttala í staðinn fyrir slétta tölu en þrjú t í röð hafa hugsanlega fælt frá því að þetta væri ritað í einu orði.

Svonefndur Pascalþríhyrningur þar sem búið er að lita oddatölur með bláum lit.

Orðið oddatala er hins vegar samsett orð og eignarfallssamsetning. Samheiti þess í Orðaskrá Íslenska stærðfræðifélagsins eru ójöfn tala og hvöss tala. Fyrri liður þess er karlkynsorðið oddur ‚hvass endi á e-u, broddur‘ (sjá Íslenska nútímamálsorðabók) í eignarfalli fleirtölu. Oddatala er andheiti við slétta eða jafna tölu, þ.e. þær eru ójafnar eða oddhvassar. Það kemur fyrir í fleiri samsetningum, til dæmis oddamaður, oddaflug, og einnig sem fyrri liður í stofnsamsetningum, til dæmis oddborgari, oddhvass.

Elsta dæmið um orðið oddatala í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans er úr Stuttri undirvísun í reikningslistinni og algebra (1785:59) eftir Ólaf Stephensen. Á sama stað er talað um sléttar tölur og þær nefndar jafnar tölur:

Jøfn=tala (numerus par.) nefniz sú, hverri deila má med 2, svo eckert gángi af; en verdi þat ecki, heitir hún ójøfn (numerus impar.) edr oddatala.

Heimildir:

Mynd:

Höfundur

Jóhannes B. Sigtryggsson

rannsóknarlektor á málræktarsviði Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum

Útgáfudagur

13.3.2018

Spyrjandi

Nemendur í stærðfræði í HÍ

Tilvísun

Jóhannes B. Sigtryggsson. „Hvers vegna er slétt tala tvö orð en oddatala eitt orð?“ Vísindavefurinn, 13. mars 2018. Sótt 20. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=75448.

Jóhannes B. Sigtryggsson. (2018, 13. mars). Hvers vegna er slétt tala tvö orð en oddatala eitt orð? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=75448

Jóhannes B. Sigtryggsson. „Hvers vegna er slétt tala tvö orð en oddatala eitt orð?“ Vísindavefurinn. 13. mar. 2018. Vefsíða. 20. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=75448>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvers vegna er slétt tala tvö orð en oddatala eitt orð?
Spurningin í fullri lengd var:

Hvers vegna skrifar maður slétt tala í tveimur orðum en oddatala í einu orði?

Slétt tala ‚heil tala sem 2 gengur upp í‘ og oddatala ‚heil tala sem 2 gengur ekki upp í‘ eru þekkt hugtök í stærðfræði. Fyrra hugtakið er orðasamband í íslensku og því ritað í tvennu lagi en hið síðara samsett orð og því ritað í einu lagi.

Lýsingarorðið sléttur hefur hér merkinguna ‚jafn, flatur‘ enda hafa sléttar tölur stundum verið kallaðar jafnar tölur. Orðstofninn slétt- kemur einnig fyrir sem fyrri liður í nokkrum samsetningum, til dæmis sléttbakur, slétthefill, slétthærður og sléttmáll ‚mjúkmáll, tungulipur‘. Það hefði því mátt hugsa sér að myndað hefði verið samsett orð eins og slétttala í staðinn fyrir slétta tölu en þrjú t í röð hafa hugsanlega fælt frá því að þetta væri ritað í einu orði.

Svonefndur Pascalþríhyrningur þar sem búið er að lita oddatölur með bláum lit.

Orðið oddatala er hins vegar samsett orð og eignarfallssamsetning. Samheiti þess í Orðaskrá Íslenska stærðfræðifélagsins eru ójöfn tala og hvöss tala. Fyrri liður þess er karlkynsorðið oddur ‚hvass endi á e-u, broddur‘ (sjá Íslenska nútímamálsorðabók) í eignarfalli fleirtölu. Oddatala er andheiti við slétta eða jafna tölu, þ.e. þær eru ójafnar eða oddhvassar. Það kemur fyrir í fleiri samsetningum, til dæmis oddamaður, oddaflug, og einnig sem fyrri liður í stofnsamsetningum, til dæmis oddborgari, oddhvass.

Elsta dæmið um orðið oddatala í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans er úr Stuttri undirvísun í reikningslistinni og algebra (1785:59) eftir Ólaf Stephensen. Á sama stað er talað um sléttar tölur og þær nefndar jafnar tölur:

Jøfn=tala (numerus par.) nefniz sú, hverri deila má med 2, svo eckert gángi af; en verdi þat ecki, heitir hún ójøfn (numerus impar.) edr oddatala.

Heimildir:

Mynd:...