Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík
Aldarafmæli sjálfstæðis og fullveldis Íslands

Hvað var að gerast í leikhúslífi Íslendinga um 1918?

Magnús Þór Þorbergsson

Fullveldisárið 1918 var um margt heldur litlaust þegar horft er til leiklistar á Íslandi. Með einni undantekningu, leikritinu Landafræði og ást eftir Björnstjerne Björnson, voru uppfærslur Leikfélags Reykjavíkur á árinu allt verk sem félagið hafði sýnt áður. Fyrsta frumsýning ársins var Heimilið eftir Hermann Sudermann sem fyrst hafði verið sett upp 1902 og var nú tekið upp aftur til að fagna 25 ára leikafmæli aðalleikkonu Leikfélagsins, Stefaníu Guðmundsdóttur. Ókunni maðurinn eftir Jerome K. Jerome var tekið upp frá fyrra leikári og gamanleikurinn Frænka Charleys var dreginn fram, sem hafði notið vinsælda á íslensku leiksviði undir lok nítjándu aldar. Spænska veikin hafði sín áhrif á starfsemi Leikfélagsins með þeim afleiðingum að fyrsta frumsýning haustsins, sem oftast leit dagsins ljós í október eða byrjun nóvember, átti sér ekki stað fyrr en annan í jólum, þegar Lénharður fógeti eftir Einar Kvaran var tekinn upp á ný, fimm árum eftir frumuppfærslu verksins.

Með einni undantekningu, leikritinu Landafræði og ást eftir Björnstjerne Björnson, voru uppfærslur Leikfélags Reykjavíkur á árinu allt verk sem félagið hafði sýnt áður. Auglýsing fyrir Landafræði og ást, birt í dagblaðinu Vísi þann 11. maí 1918.

Við fyrstu sýn bendir þessi deyfð til þess að fullveldið hafi ekki markað nein sérstök spor í íslenskt leikhúslíf, en annað kemur á daginn ef horft er til starfsemi Leikfélags Reykjavíkur í aðdraganda fullveldisins. Á fyrsta áratuginum eftir stofnun Leikfélagsins 1897 hafði það aðeins sýnt eitt íslenskt verk, en aftur á mótu urðu þau fjórtán frá 1907 til 1920, tímabil sem fyrir vikið hefur verið kallað „íslenski áratugurinn“. Hvert á sinn hátt snertu þessi verk á mörgum þeirra átakamála sem áberandi voru í umræðunni í aðdraganda fullveldisins, svo sem tengsl Íslands við Danmörku, sjálfsmynd þjóðarinnar, innreið nútímamenningar og stöðu kvenna svo fátt eitt sé nefnt. Sem ein mikilvægasta menningarstofnun þjóðarinnar í upphafi tuttugustu aldar tók Leikfélag Reykjavíkur þannig virkan þátt í umræðu um fullveldi og framtíðarsýn þjóðarinnar.

Upphaf þessarar bylgju má rekja til frumsýningar Leikfélagsins á Nýársnótt Indriða Einarssonar á annan í jólum 1907. Nýársnóttin hafði upphaflega verið sýnd í Lærða skólanum 1872 sem ævintýraverk um samskipti manna og álfa, en Indriði endurskrifaði verkið fyrir sýningu Leikfélagsins og bætti töluverðu við það. Mikilvægustu viðbæturnar fólust í auknu vægi álfheimanna í verkinu og valdabaráttu sem þar átti sér stað. Álfarnir gera uppreisn gegn harðstjórn og afturhaldssemi gamla álfakóngsins sem leyfir engar umbætur á stjórn sinni og enda með því að kjósa sér öllu víðsýnni og umburðarlyndari stjórnanda í álfkonunni Áslaugu. Ekki fór á milli mála að gamli álfakóngurinn stóð fyrir Danaveldi en fjallkonumynd Áslaugar leyndi sér heldur ekki. Í lok verksins stígur Áslaug fram á sviðið með skjöld prýddum skjaldarmerki Íslands – silfurlituðum fálka á bláum grunni – og hefur á loft bláhvítan fána.

Fjallkonumynd Áslaugar leyndi sér ekki. Úr uppsetningu Leikfélagsins á Nýársnótt frá árinu 1907. Stefanía Guðmundsdóttir sem Áslaug álfkona (t.v.) og Guðrún Indriðadóttir sem Guðrún (t.h.).

Í desember 1907 var hvítbláinn engan veginn saklaust eða óumdeilt tákn þó vinsældir hans hefðu farið vaxandi árið á undan. Við heimsókn Danakonungs til landsins sumarið 1907 olli það talsverðu uppnámi þegar fánanum var flaggað við nokkur tjöld á Þingvöllum þegar kóngur fór þar hjá og sömuleiðis þegar hann blakti við hún á Seyðisfirði við brottför konungsins. Á sama tíma og heit umræða átti sér stað í samfélaginu um uppkastið að sambandslagasamningnum við Danmörku tók Leikfélagið þannig skýra afstöðu með þeim sem lengst vildu ganga í fullveldisátt, enda lituðust viðbrögð blaða við sýningunni á Nýársnóttinni mjög af því hvar þau stóðu í afstöðu til Uppkastsins. Lögrétta og Óðinn, sem studdu Heimastjórnarflokkinn og samþykkt Uppkastsins, töldu verkið ómerkilegt og jafnvel „hóflaust rugl“, en stuðningsblöð Landvarnarflokksins, sem harðast gekk fram í andstöðu við Uppkastið, hældi verkinu á hvert reipi. Helsta málgagn Landvarnarflokksins, Ingólfur, lýsti því meira að segja yfir að þeirra væri sigurinn í verkinu: „Áslaug er landvarnarkona.“

Leikrit Einars Kvaran, Lénharður fógeti (1913), talaði einnig beint inn í umræðuna um fullveldi með því að sækja efnivið sinn í uppreisn sunnlenskra bænda gegn fógeta Danakonungs á Íslandi snemma á sextándu öld. Í verkinu fer hinn danski fógeti Lénharður ránshendi um héruð, en mætir loks ofjarli sínum í samtakamætti íslenskra bænda við miklar vinsældir reykvískra áhorfenda í aðdraganda fullveldisins. Verkinu var hampað í blöðum og í Árvakri óskaði Jón Ólafsson þess að verkið myndi rata á svið í Danmörku: „Danir hefðu gott af að læra á þann hátt kafla úr sögu vorri og sögu meðferðar þeirra á þessu landi fyrrum. Hvílíkur skilningsauki það gæti orðið þeim!“

Í verkinu Lénharður fógeti fer hinn danski fógeti Lénharður ránshendi um héruð, en mætir loks ofjarli sínum í samtakamætti íslenskra bænda. Árni Eiríksson sem Lénharður og Stefanía Guðmundsdóttir sem Guðný úr uppfærslunni frá 1913.

Önnur verk tímabilsins tókust á við spurningar sem ofarlega voru í almennri umræðu og sneru að sjálfsmynd, stöðu og framtíðarsýn fullvalda þjóðar. Þjóðernislegar hetjumyndir voru áberandi í Lénharði fógeta en umræða um birtingarmyndir ,sannra Íslendinga‘ spratt líka upp í kringum verk á borð við Fjalla-Eyvind Jóhanns Sigurjónssonar (1911), þar sem mörgum þótti hinn frelsiselskandi útlagi helst til lítilfjörlegur. Togstreita milli hefðbundinnar sveitamenningar og nútímalegrar borgarmenningar var miðlæg í verkum eins og Bóndanum á Hrauni eftir Jóhann Sigurjónsson (1908), þar sem fulltrúi sveitalífsins, bóndinn Sveinungi, grefst undir rústum bæjar síns á meðan dóttir hans, Ljót, heldur til borgarinnar með unnusta sínum, náttúrufræðingnum Sölva.

Átökin um hversu langt Íslendingar ættu að ganga í átt til nútímamenningar komu ekki síst fram í leikriti Einars Kvaran, Syndum annarra (1915), sem hefst á spurningunni hvort það sé í lagi að selja Þingvelli erlendum kaupsýslumanni. Umboðsmaður kaupsýslumannsins, lögfræðingurinn Grímur, segir þennan blett engu máli skipta, fremur en önnur þjóðartákn:

Hann hefir drepið okkur, allur þessi þjóðernis-hégómi og allar þessar íslenzku-hégiljur. Kannske það sé hlunnindi, að við tölum það mál, sem enginn í veröldinni skilur? Kannske við séum betur farnir fyrir það að vera afturúrkreistingar veraldarinnar, hálfskringilegur forngripur, sem hver sláninn utan úr heimi getur litið á með góðlátlegu meðaumkunarbrosi, af því að hann á því láni að fagna, að hann er ekki fæddur af neinni dvergþjóð?

Áhorfandinn er skilinn eftir með spurninguna um gildi Þingvalla í þessu verki og um leið, eins og í fleiri verkum þessa tímabils, með spurninguna hvert Íslendingar vilji stefna sem fullvalda þjóð.

Myndir:

  • Vísir, 11.05.1918 - Timarit.is. (Sótt 9.5.2018).
  • Sveinn Einarsson, Leikhúsið við Tjörnina, Almenna bókafélagið, Reykjavík 1972, bls. 18.
  • Sveinn Einarsson, Leikhúsið við Tjörnina, Almenna bókafélagið, Reykjavík 1972, bls. 29.

Spurningu Karenar er hér svarað að hluta.

Höfundur

Magnús Þór Þorbergsson

doktor í almennri bókmenntafræði

Útgáfudagur

14.5.2018

Spyrjandi

Karen Dís Hafliðadóttir

Tilvísun

Magnús Þór Þorbergsson. „Hvað var að gerast í leikhúslífi Íslendinga um 1918?“ Vísindavefurinn, 14. maí 2018. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=75856.

Magnús Þór Þorbergsson. (2018, 14. maí). Hvað var að gerast í leikhúslífi Íslendinga um 1918? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=75856

Magnús Þór Þorbergsson. „Hvað var að gerast í leikhúslífi Íslendinga um 1918?“ Vísindavefurinn. 14. maí. 2018. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=75856>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað var að gerast í leikhúslífi Íslendinga um 1918?
Fullveldisárið 1918 var um margt heldur litlaust þegar horft er til leiklistar á Íslandi. Með einni undantekningu, leikritinu Landafræði og ást eftir Björnstjerne Björnson, voru uppfærslur Leikfélags Reykjavíkur á árinu allt verk sem félagið hafði sýnt áður. Fyrsta frumsýning ársins var Heimilið eftir Hermann Sudermann sem fyrst hafði verið sett upp 1902 og var nú tekið upp aftur til að fagna 25 ára leikafmæli aðalleikkonu Leikfélagsins, Stefaníu Guðmundsdóttur. Ókunni maðurinn eftir Jerome K. Jerome var tekið upp frá fyrra leikári og gamanleikurinn Frænka Charleys var dreginn fram, sem hafði notið vinsælda á íslensku leiksviði undir lok nítjándu aldar. Spænska veikin hafði sín áhrif á starfsemi Leikfélagsins með þeim afleiðingum að fyrsta frumsýning haustsins, sem oftast leit dagsins ljós í október eða byrjun nóvember, átti sér ekki stað fyrr en annan í jólum, þegar Lénharður fógeti eftir Einar Kvaran var tekinn upp á ný, fimm árum eftir frumuppfærslu verksins.

Með einni undantekningu, leikritinu Landafræði og ást eftir Björnstjerne Björnson, voru uppfærslur Leikfélags Reykjavíkur á árinu allt verk sem félagið hafði sýnt áður. Auglýsing fyrir Landafræði og ást, birt í dagblaðinu Vísi þann 11. maí 1918.

Við fyrstu sýn bendir þessi deyfð til þess að fullveldið hafi ekki markað nein sérstök spor í íslenskt leikhúslíf, en annað kemur á daginn ef horft er til starfsemi Leikfélags Reykjavíkur í aðdraganda fullveldisins. Á fyrsta áratuginum eftir stofnun Leikfélagsins 1897 hafði það aðeins sýnt eitt íslenskt verk, en aftur á mótu urðu þau fjórtán frá 1907 til 1920, tímabil sem fyrir vikið hefur verið kallað „íslenski áratugurinn“. Hvert á sinn hátt snertu þessi verk á mörgum þeirra átakamála sem áberandi voru í umræðunni í aðdraganda fullveldisins, svo sem tengsl Íslands við Danmörku, sjálfsmynd þjóðarinnar, innreið nútímamenningar og stöðu kvenna svo fátt eitt sé nefnt. Sem ein mikilvægasta menningarstofnun þjóðarinnar í upphafi tuttugustu aldar tók Leikfélag Reykjavíkur þannig virkan þátt í umræðu um fullveldi og framtíðarsýn þjóðarinnar.

Upphaf þessarar bylgju má rekja til frumsýningar Leikfélagsins á Nýársnótt Indriða Einarssonar á annan í jólum 1907. Nýársnóttin hafði upphaflega verið sýnd í Lærða skólanum 1872 sem ævintýraverk um samskipti manna og álfa, en Indriði endurskrifaði verkið fyrir sýningu Leikfélagsins og bætti töluverðu við það. Mikilvægustu viðbæturnar fólust í auknu vægi álfheimanna í verkinu og valdabaráttu sem þar átti sér stað. Álfarnir gera uppreisn gegn harðstjórn og afturhaldssemi gamla álfakóngsins sem leyfir engar umbætur á stjórn sinni og enda með því að kjósa sér öllu víðsýnni og umburðarlyndari stjórnanda í álfkonunni Áslaugu. Ekki fór á milli mála að gamli álfakóngurinn stóð fyrir Danaveldi en fjallkonumynd Áslaugar leyndi sér heldur ekki. Í lok verksins stígur Áslaug fram á sviðið með skjöld prýddum skjaldarmerki Íslands – silfurlituðum fálka á bláum grunni – og hefur á loft bláhvítan fána.

Fjallkonumynd Áslaugar leyndi sér ekki. Úr uppsetningu Leikfélagsins á Nýársnótt frá árinu 1907. Stefanía Guðmundsdóttir sem Áslaug álfkona (t.v.) og Guðrún Indriðadóttir sem Guðrún (t.h.).

Í desember 1907 var hvítbláinn engan veginn saklaust eða óumdeilt tákn þó vinsældir hans hefðu farið vaxandi árið á undan. Við heimsókn Danakonungs til landsins sumarið 1907 olli það talsverðu uppnámi þegar fánanum var flaggað við nokkur tjöld á Þingvöllum þegar kóngur fór þar hjá og sömuleiðis þegar hann blakti við hún á Seyðisfirði við brottför konungsins. Á sama tíma og heit umræða átti sér stað í samfélaginu um uppkastið að sambandslagasamningnum við Danmörku tók Leikfélagið þannig skýra afstöðu með þeim sem lengst vildu ganga í fullveldisátt, enda lituðust viðbrögð blaða við sýningunni á Nýársnóttinni mjög af því hvar þau stóðu í afstöðu til Uppkastsins. Lögrétta og Óðinn, sem studdu Heimastjórnarflokkinn og samþykkt Uppkastsins, töldu verkið ómerkilegt og jafnvel „hóflaust rugl“, en stuðningsblöð Landvarnarflokksins, sem harðast gekk fram í andstöðu við Uppkastið, hældi verkinu á hvert reipi. Helsta málgagn Landvarnarflokksins, Ingólfur, lýsti því meira að segja yfir að þeirra væri sigurinn í verkinu: „Áslaug er landvarnarkona.“

Leikrit Einars Kvaran, Lénharður fógeti (1913), talaði einnig beint inn í umræðuna um fullveldi með því að sækja efnivið sinn í uppreisn sunnlenskra bænda gegn fógeta Danakonungs á Íslandi snemma á sextándu öld. Í verkinu fer hinn danski fógeti Lénharður ránshendi um héruð, en mætir loks ofjarli sínum í samtakamætti íslenskra bænda við miklar vinsældir reykvískra áhorfenda í aðdraganda fullveldisins. Verkinu var hampað í blöðum og í Árvakri óskaði Jón Ólafsson þess að verkið myndi rata á svið í Danmörku: „Danir hefðu gott af að læra á þann hátt kafla úr sögu vorri og sögu meðferðar þeirra á þessu landi fyrrum. Hvílíkur skilningsauki það gæti orðið þeim!“

Í verkinu Lénharður fógeti fer hinn danski fógeti Lénharður ránshendi um héruð, en mætir loks ofjarli sínum í samtakamætti íslenskra bænda. Árni Eiríksson sem Lénharður og Stefanía Guðmundsdóttir sem Guðný úr uppfærslunni frá 1913.

Önnur verk tímabilsins tókust á við spurningar sem ofarlega voru í almennri umræðu og sneru að sjálfsmynd, stöðu og framtíðarsýn fullvalda þjóðar. Þjóðernislegar hetjumyndir voru áberandi í Lénharði fógeta en umræða um birtingarmyndir ,sannra Íslendinga‘ spratt líka upp í kringum verk á borð við Fjalla-Eyvind Jóhanns Sigurjónssonar (1911), þar sem mörgum þótti hinn frelsiselskandi útlagi helst til lítilfjörlegur. Togstreita milli hefðbundinnar sveitamenningar og nútímalegrar borgarmenningar var miðlæg í verkum eins og Bóndanum á Hrauni eftir Jóhann Sigurjónsson (1908), þar sem fulltrúi sveitalífsins, bóndinn Sveinungi, grefst undir rústum bæjar síns á meðan dóttir hans, Ljót, heldur til borgarinnar með unnusta sínum, náttúrufræðingnum Sölva.

Átökin um hversu langt Íslendingar ættu að ganga í átt til nútímamenningar komu ekki síst fram í leikriti Einars Kvaran, Syndum annarra (1915), sem hefst á spurningunni hvort það sé í lagi að selja Þingvelli erlendum kaupsýslumanni. Umboðsmaður kaupsýslumannsins, lögfræðingurinn Grímur, segir þennan blett engu máli skipta, fremur en önnur þjóðartákn:

Hann hefir drepið okkur, allur þessi þjóðernis-hégómi og allar þessar íslenzku-hégiljur. Kannske það sé hlunnindi, að við tölum það mál, sem enginn í veröldinni skilur? Kannske við séum betur farnir fyrir það að vera afturúrkreistingar veraldarinnar, hálfskringilegur forngripur, sem hver sláninn utan úr heimi getur litið á með góðlátlegu meðaumkunarbrosi, af því að hann á því láni að fagna, að hann er ekki fæddur af neinni dvergþjóð?

Áhorfandinn er skilinn eftir með spurninguna um gildi Þingvalla í þessu verki og um leið, eins og í fleiri verkum þessa tímabils, með spurninguna hvert Íslendingar vilji stefna sem fullvalda þjóð.

Myndir:

  • Vísir, 11.05.1918 - Timarit.is. (Sótt 9.5.2018).
  • Sveinn Einarsson, Leikhúsið við Tjörnina, Almenna bókafélagið, Reykjavík 1972, bls. 18.
  • Sveinn Einarsson, Leikhúsið við Tjörnina, Almenna bókafélagið, Reykjavík 1972, bls. 29.

Spurningu Karenar er hér svarað að hluta....