Sólin Sólin Rís 05:43 • sest 21:13 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 13:37 • Sest 06:11 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:59 • Síðdegis: 15:47 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:39 • Síðdegis: 21:50 í Reykjavík

Hver var Sigmund Freud, hverjar eru kenningar hans um mannshugann og hvert er gildi þeirra í dag?

Guðmundur D. Haraldsson

Sigmund Freud (1856-1939) var geð- og taugalæknir sem starfaði á seinni hluta 19. aldar og fyrri hluta 20. aldar. Freud var jafnframt einn helsti upphafsmaður sálgreiningar (e. psychoanalysis), en það er safn hugmynda sem lýtur að starfsemi hugans, geðrænum kvillum, uppbyggingu og starfsemi samfélagsins, greiningu bókmennta og ýmsu öðru.

Freud fæddist 6. maí 1856 í litlum bæ í Móravíu sem nú er hluti af Tékklandi. Hann var sonur fátækra hjóna og fjölskyldan flutti til Vínarborgar þegar Freud var rétt um fjögurra ára. Freud hóf nám í háskólanum í Vín árið 1873, nam þar læknisfræði og stundaði rannsóknir í lífeðlisfræði og taugafræði. Smám saman fór Freud þó að snúa sér að annarri grein læknisfræðinnar; geðlæknisfræði sem varð hans aðalrannsóknarsvið.

Sigmund Freud (1856-1939).

Freud bjó og vann nær alla tíð í Vínarborg í Austurríki. Hann starfaði sem læknir og sálgreinandi, skrifaði fjölmargar ritgerðir og fjölda bóka. Hann eyddi miklum hluta ævi sinnar í að þróa hugmyndir sínar, sem hann er þekktur fyrir. Hann stundaði fag sitt nánast til dauðadags en síðustu sjúklingana hitti hann um tveimur mánuðum fyrir andlátið.

Sigmund Freud lést 23. september 1939 í Englandi, en þangað hafði hann flúið árið áður vegna ofsókna nasista í Austurríki.

Freud er sennilega þekktastur fyrir kenningar sínar um mannshugann og geðlæknisfræði. Þær mynda kjarnann í þeirri gerð sálgreiningar sem Freud gerði vinsæla ásamt fylgismönnum sínum á fyrstu áratugum 20. aldar. Þessar hugmyndir hafa þróast áfram eftir daga Freuds, samanber til dæmis kenningar Carls Jungs (1875 -1961), Alfreds Adlers (1870-1937) og Melanie Klein (1882-1960).

Meginkenningar Freuds um mannshugann eru sennilega fimm. Sú fyrsta er að öll hegðun mannsins sé bundin einhvers konar lögmálum, reglum, og að hegðun megi skýra með hugtökum úr náttúrunni. Engin hegðun komi til vegna áhrifa „sálar“ eða öðru utan náttúrunnar. Að þessu leyti er hugsun Freuds áþekk hugmyndum nútímasálfræðinga, en þetta er einmitt eitt af meginstefjum nútímasálfræði. Sem dæmi má skoða skýringar Freuds á mismælum. Freud telur að þau eigi sér orsakir í huga fólks, ýmist í meðvituðum eða ómeðvituðum óskum (löngunum) þess.

Skoðum eitt dæma Freuds, af þingforseta sem var að setja fund. Hann sagði: „Herrar mínir, ég sé að ... þingmenn eru viðstaddir og lýsi því þingfundi slitið.“ Þessa hegðun skýrði Freud með því að þingforsetinn hafi helst ekki viljað að fundurinn færi fram og að sú ósk hans (meðvituð eða ómeðvituð) hefði á einhvern hátt ruðst fram í huga hans og birst í mismælunum. Þetta er eitt dæmi um skýringu, sem er vissulega mjög einföld. En hún er mjög dæmigerð fyrir skýringar Freuds á hegðun fólks: Hann leitar skýringa í hugarástandi þingforsetans, notast við hugtök eins og „ósk“, og gerir ráð fyrir að orsakirnar megi finna í huga hans og löngunum. Hvergi er vísað til hugtaka utan náttúrunnar né gert ráð fyrir að svona lagað gerist án þess að finna megi skýringu. Freud leitaði þó ekki eingöngu skýringa í hugum fólks — ef það átti við var hann reiðubúinn til að leita skýringa á vandamálum í öðrum líkamskerfum þess, til dæmis æxlum eða eitrun í blóði.

Önnur meginkenning Freuds er að við höfum öll dulvitund (e. unconscious) og forvitund (e. preconscious) að auki við meðvitund okkar. Í dulvitundinni dveljast, að sögn Freuds, ýmsar frumstæðar hvatir, hugmyndir, það er hugdettur, minningar og svo framvegis, og langanir. Dulvitundin er þeim eiginleikum gædd, eins og nafnið gefur til kynna, að við vitum ekki af henni. Aðeins með tilteknum aðferðum, segir Freud, er hægt að nálgast innihald dulvitundar. Í forvitund eru, samkvæmt kenningunni, aðrar hugmyndir sem við getum kallað upp í meðvitund með smá erfiðleikum. Í meðvitund eru svo allar þær hugmyndir, tilfinningar og svo framvegis, sem við vitum af — það „sem við erum að hugsa“.

Freud taldi að í dulvitundinni búi þær hvatir sem drífa okkur áfram, raunverulegar ástæður þess að við höldum til vinnu, eignumst börn, körpum og ræktum áhugamál okkar. Í meðvitundinni geti (að jafnaði) aðeins verið til staðar hugmyndir, hvatir og langanir sem eru okkur þóknanlegar, ögra ekki siðgæði okkar og standast væntingar okkar — og annarra. Það mætti að vísu, sagði Freud, finna ýmislegt úr dulvitundinni í meðvitundinni, en að það sé nær óþekkjanlegt vegna þess að það sé afskræmt.

Skoðum eitt ímyndað dæmi. Segjum sem svo að ég fyndi þúsund krónur á Laugaveginum; þegar ég svo hitti vin minn í Austurstræti, mundi ég segja honum að ég hefði fundið fimm þúsund krónur — og trúa því sjálfur. Í þessu tilfelli mundi Freud segja að í dulvitund minni byggi ósk um að eignast meiri pening. Þessu mundi hann halda fram, jafnvel þó ég mundi neita því að mig langaði í meiri pening, því að Freud taldi neitun, eins og í þessum kringumstæðum, sterkt merki um að löngunin væri til staðar djúpt í dulvitundinni. Freud gæti bent á efnahagsþrengingar hér á Íslandi til frekari staðfestingar á óskinni — flestir hefðu fundið áþreifanlega fyrir þeim. En neitun mín væri hins vegar til marks um að ég vildi ekki teljast til þeirra sem væru aðþrengdir, það væri á skjön við gildi samfélagsins að viðurkenna slíkt. Freud tiltók mörg dæmi í verkum sínum, til að rökstyðja að dulvitundin væri til, og mörg þeirra voru í þessum dúr.

Hvað þá um ýmis áhugamál okkar, til dæmis áhuga fólks á bókmenntum, sögu og slíku? Er það allt sprottið af einhverju sem er ómeðvitað, einhverju dulvituðu? Freud taldi svo vera.

Til að skýra þetta betur, skoðum þá hugmyndir Freuds um hvatir (e. instinct). Freud taldi að menn væru drifnir áfram af hvötum og að tvenns konar gerðir væru mest áberandi: kynhvöt (e. eros) og árásarhvöt (e. thanatos). Kynhvötina taldi hann ekki aðeins stefna að viðhaldi lífsins, heldur líka að allsherjarútrás fyrir nautn og ánægju. Árásarhvötin stefndi að eyðileggingu hluta. Þessar tvær hvatir væru andstæður, rétt eins og gengur og gerist í náttúrunni.

Hvatirnar væru ómeðvitaðar, þær væru í dulvitundinni. Ýmsum hefur þótt þessi hugmynd Freuds heldur fráleit; hegðun fólks einkennist ekki af eilífri uppbyggingu og hálfstjórnlausu niðurrifi. Það er rétt. Enda hafði Freud hugsað sér að þessar hvatir mannsins væru beislaðar á ýmsa vegu, til dæmis með göfgun.

Göfgun felst í því að frumstæðum hvötum er fundinn farvegur sem stenst kröfur samfélagsins. Og hér má þá skýra betur hvernig Freud hugsaði sér að hegðun okkar geti stjórnast af hvötum sem við vitum ekki af: Hvatirnar, dulvitaðar, umbreytast frá því að sækjast eftir látlausri unun, í tilfelli kynhvatarinnar, yfir í viðurkennd áhugamál, til dæmis bókmenntir eða flugvélar. Sókn eftir tafarlausri nautn verður að áhuga á og ánægju af því að læra hvernig flugvélar fljúga, hvernig þær eru smíðaðar, hvernig má fljúga þeim sem lengst og svo framvegis. Göfgun taldi Freud vera eina af mörgum leiðum fyrir hvatir til að umbreytast og að umbreytingar ættu sér stað oft á lífsleiðinni.

Ljósmynd af Sigmund Freud, tekin árið 1932.

Fjórða meginkenning Freuds er um drauma. Freud taldi bestu leiðina að dulvitundinni vera í gegnum drauma. Með því að túlka drauma fólks eftir ýmsum leiðum, mætti komast að innihaldi dulvitundarinnar og skilja betur ýmsa hegðun fólks og vandamál. Eitt helsta ritverk Freuds, Draumráðningar (Die Traumdeutung, enskur titill: The Interpretation of Dreams), fjallar einmitt um þetta.

Freud taldi, þvert á það sem flestir samtímamenn hans héldu, að draumar væru ekki eitthvað rugl sem engu máli skipta. Þeir hefðu innihald. Með því að túlka drauma einhvers, eftir reglum sem hann sagðist hafa uppgötvað, mætti komast að einhverju um huga viðkomandi. Til dæmis mundi túlkun á draumum kvíðafulls barns leiða í ljós orsakir kvíðans.

Skoðum eitt einfalt dæmi um draumtúlkun sem Sigurjón Björnsson rekur í bókinni Sálkönnun og sállækningar: Þar dreymir unga telpu að „ljótur karl“ komi, taki einhvern krakka og setji í poka sem hann er með. Þegar hún vaknar er hún hrædd. En þessi draumur, segir Sigurjón, getur hæglega haft þessa merkingu: Telpan vill losna við bróður sinn.1 Þessi draumur, sem flestir myndu afskrifa sem martröð sem litlu skipti — nema þá fyrir nætursvefn stúlkunnar — hefur þá, samkvæmt kenningum Freuds, einhverja merkingu í hugarstarfi stúlkunnar.

Önnur leið að dulvitundinni taldi Freud vera með frjálsum hugrenningatengslum (e. free association), en í því felst að fólk tjáir sig frjálst um ákveðið efni, til dæmis eitthvað sem tengist vandamálum þess — eða hvað sem kemur til hugar — alveg óhindrað af því að umræðuefnið sé óþægilegt. Ekkert skal skilið undan. Sálgreinandinn túlkar svo það sem viðkomandi segir og setur fram sem tillögur að því hvað sé rót vandans, hvað í dulvitundinni valdi vandamálunum. Sálgreinandinn kannar svo viðbrögðin við tillögunum. Smám saman komast sálgreinandinn og skjólstæðingur hans svo að niðurstöðu um hvað ami að. Eins og lýsingin ber með sér er aðferðin mjög tímafrek. Draumtúlkun og frjáls hugrenningatengsl voru aðferðir sem Freud notaði saman í meðferð.

Fimmta meginkenning Freuds er að mannshuganum megi skipta í þrjá hluta sem hann nefndi það (e. id), sjálf (e. ego) og yfirsjálf (e. superego). Freud taldi að í þaðinu byggju allar hvatir okkar — þessar sem talað var um áður — og að þaðið væri algerlega dulvitað. Freud taldi að þaðið einkenndist af óseðjandi löngun til tafarlauss unaðs og ánægju. Yfirsjálfið sagði hann vera miðstöð siðvitundar, gilda og sjálfsgagnrýni. Það væri sá hluti hugans sem léti okkur finna fyrir samviskubiti, og óþægindum ef við gerum eitthvað sem við vitum að er rangt. Jafnframt taldi Freud yfirsjálfið mjög strangt — öfgafullt mætti kannski segja. Yfirsjálfinu er stundum ætlað meira hlutverk en þetta, eins og til dæmis að það sé ábyrgt fyrir sjálfsást og sjálfsánægju, þá vegna dygðugs lífernis eða hugarfars. Yfirsjálfið er samkvæmt þessu á vissan hátt algerlega andstætt þaðinu. Yfirsjálfið er að hluta til meðvitað, en annars dulvitað.

Sjálfið gegnir mikilvægu hlutverki í þessari þrenningu, en það er eini hlutinn sem hefur tengsl við þann heim sem persónan býr í. Hin tvö kerfin hafa ekki slík tengsl. Sjálfið samræmir kröfur þaðsins, yfirsjálfsins og raunveruleikans og tekur „ákvörðun“ um hvaða hegðun skuli eiga sér stað. Það getur jafnframt rifjað upp eldri atburði og staðreyndir, búið til áætlanir og ýmislegt fleira, allt sem það notar til að taka ákvarðanir.

Kenningarnar sem fjallað var um að framan, fyrir utan þá fyrstu, eru allt kenningar um persónuleika. Umfjöllunin er ekki tæmandi, til dæmis er ekkert fjallað um þroska, né um hvernig geðræn vandamál eru útskýrð með kenningunum. Umfjöllunin miðast við hvernig hugur heilbrigðs, fullorðins fólks er mótaður, að mati Freuds.

Kenningar Freuds í dag

Kenningar Freuds — og sálgreining sem slík — náðu aldrei miklum vinsældum innan sálfræði. Ekki er hægt að tala um að sálgreining hafi náð að skjóta rótum innan sálfræði, sem ein af undirgreinum sálfræðinnar né heldur meginstoðum hennar. Öllu heldur hefur sálgreiningu mestmegnis verið hafnað, eða hún hunsuð, af þeim breiða hópi fólks sem stundað hefur fagið fyrr og síðar. Þetta sést til dæmis á því að vísindatímarit innan sálfræði segja nær aldrei frá rannsóknum þar sem kenningar Freuds eru í brennidepli. Slíkar rannsóknir eru vart stundaðar. Í kennsluefni um sálfræði er minnst á kenningar Freuds, en nær alltaf af sögulegum ástæðum.

Fyrir þessu eru margar ástæður. Sú helsta er sennilega að mörgum þyki kenningarnar bera vott um gervivísindi (e. pseudoscience). Til dæmis þykir mörgum sem ómögulegt sé að gera rannsókn sem sýni, svo ekki verði um villst, að kenningar um dulvitundina standist ekki, því alltaf megi túlka niðurstöðurnar upp á nýtt, á þann hátt sem er kenningunni í vil. Önnur ástæða kann að vera sú að í sálfræði er sterk hefð fyrir rannsóknum sem byggja á áreiðanlegum og skipulögðum mælingum; mælingum þar sem allt er vel skilgreint. Í sálgreiningu að hætti Freuds er það ekki raunin, heldur er stuðst við ýmis gögn sem byggja ekki á mælingum. Öllu heldur er stuðst við einstök tilfelli sjúklinga, ýmsar frásagnir og fleira í þeim dúr.

Í geðlæknisfræði var sálgreining Freuds nokkuð vinsæl á tímabili, til dæmis var ein helsta handbók geðlækna, Diagnostic and Statistical Manual of Mental Disorders, mjög undir áhrifum frá sálgreiningu í fyrstu útgáfu. Í dag eru vinsældirnar litlar meðal geðlækna, aðrar kenningar njóta mun meiri vinsælda og handbókin er gerbreytt.

Sálgreining virðist ekki hafa náð viðvarandi vinsældum innan nokkurs einasta fags sem snýr að hegðun mannsins, en allnokkrum vinsældum innan annarra faga, til dæmis í bókmenntafræði. Á þeim tíma þegar Freud vann sem harðast að þeim grunnkenningum sem sagt var frá að framan, voru það helst læknar og ýmsir áhugamenn sem hrifust af kenningunum. Og þó voru margir læknar lítt hrifnir. Freud hafði áhyggjur af því að sálgreining myndi einangrast og aldrei ná tökum innan nokkurs fags. Það hefur orðið raunin innan þeirra faga sem snúa að hegðun mannsins.

Heimildir og myndir:
  • Bein tilvitnun í Freud er fengin úr Inngangsfyrirlestrum um sálkönnun, I. hluta, 2. fyrirlestri.
  • Freud, S. (1900/1997). The Interpretation of Dreams. A. A. Brill þýddi. Hertfordshire: Wordsworth Classics of Literature.
  • Freud, S. (1916/1995). Inngangsfyrirlestrar um sálkönnun. I. og II. hluti. Sigurjón Björnsson þýddi. Reykjavík: Hið Íslenska Bókmenntafélag.
  • Gay, P. (1988). Freud: A Life for our Time. New York: W. W. Norton & Company.
  • Ross, A. O. (1987). Personality: The Scientific Study of Complex Human Behavior. New York: Holt, Rinehart and Winston.
  • Sarason, I. G. (1972). Abnormal Psychology. New York: Meredith Corporation.
  • Sigurjón Björnsson (1983). Sálkönnun og sállækningar. Reykjavík: Hið Íslenska Bókmenntafélag.
  • Mynd af Freud: Sigmund Freud 1926.jpg. Wikimedia Commons. Ljósmyndina tók Ferdinand Schmutzer. Myndin er fallin úr höfundarrétti.
  • Mynd af Freud frá 1932: Library of Congress. Sótt 30.12.2011.


1 Tekið skal fram að sálgreinendur taka tillit til ýmissa aðstæðna í lífi dreymandans þegar draumar eru ráðnir. Með öðrum orðum: Fleira þarf að koma til en bara draumur eins og þessi, til að fá þessa niðurstöðu.

Höfundur

Guðmundur D. Haraldsson

BS í sálfræði

Útgáfudagur

30.12.2011

Spyrjandi

Hrefna Tómasdóttir, Laufey Hálfdánardóttir, Atli Geir Hallgrímsson, Ástríður Anna Kristjánsdóttir

Tilvísun

Guðmundur D. Haraldsson. „Hver var Sigmund Freud, hverjar eru kenningar hans um mannshugann og hvert er gildi þeirra í dag? “ Vísindavefurinn, 30. desember 2011. Sótt 18. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=7599.

Guðmundur D. Haraldsson. (2011, 30. desember). Hver var Sigmund Freud, hverjar eru kenningar hans um mannshugann og hvert er gildi þeirra í dag? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=7599

Guðmundur D. Haraldsson. „Hver var Sigmund Freud, hverjar eru kenningar hans um mannshugann og hvert er gildi þeirra í dag? “ Vísindavefurinn. 30. des. 2011. Vefsíða. 18. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=7599>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver var Sigmund Freud, hverjar eru kenningar hans um mannshugann og hvert er gildi þeirra í dag?
Sigmund Freud (1856-1939) var geð- og taugalæknir sem starfaði á seinni hluta 19. aldar og fyrri hluta 20. aldar. Freud var jafnframt einn helsti upphafsmaður sálgreiningar (e. psychoanalysis), en það er safn hugmynda sem lýtur að starfsemi hugans, geðrænum kvillum, uppbyggingu og starfsemi samfélagsins, greiningu bókmennta og ýmsu öðru.

Freud fæddist 6. maí 1856 í litlum bæ í Móravíu sem nú er hluti af Tékklandi. Hann var sonur fátækra hjóna og fjölskyldan flutti til Vínarborgar þegar Freud var rétt um fjögurra ára. Freud hóf nám í háskólanum í Vín árið 1873, nam þar læknisfræði og stundaði rannsóknir í lífeðlisfræði og taugafræði. Smám saman fór Freud þó að snúa sér að annarri grein læknisfræðinnar; geðlæknisfræði sem varð hans aðalrannsóknarsvið.

Sigmund Freud (1856-1939).

Freud bjó og vann nær alla tíð í Vínarborg í Austurríki. Hann starfaði sem læknir og sálgreinandi, skrifaði fjölmargar ritgerðir og fjölda bóka. Hann eyddi miklum hluta ævi sinnar í að þróa hugmyndir sínar, sem hann er þekktur fyrir. Hann stundaði fag sitt nánast til dauðadags en síðustu sjúklingana hitti hann um tveimur mánuðum fyrir andlátið.

Sigmund Freud lést 23. september 1939 í Englandi, en þangað hafði hann flúið árið áður vegna ofsókna nasista í Austurríki.

Freud er sennilega þekktastur fyrir kenningar sínar um mannshugann og geðlæknisfræði. Þær mynda kjarnann í þeirri gerð sálgreiningar sem Freud gerði vinsæla ásamt fylgismönnum sínum á fyrstu áratugum 20. aldar. Þessar hugmyndir hafa þróast áfram eftir daga Freuds, samanber til dæmis kenningar Carls Jungs (1875 -1961), Alfreds Adlers (1870-1937) og Melanie Klein (1882-1960).

Meginkenningar Freuds um mannshugann eru sennilega fimm. Sú fyrsta er að öll hegðun mannsins sé bundin einhvers konar lögmálum, reglum, og að hegðun megi skýra með hugtökum úr náttúrunni. Engin hegðun komi til vegna áhrifa „sálar“ eða öðru utan náttúrunnar. Að þessu leyti er hugsun Freuds áþekk hugmyndum nútímasálfræðinga, en þetta er einmitt eitt af meginstefjum nútímasálfræði. Sem dæmi má skoða skýringar Freuds á mismælum. Freud telur að þau eigi sér orsakir í huga fólks, ýmist í meðvituðum eða ómeðvituðum óskum (löngunum) þess.

Skoðum eitt dæma Freuds, af þingforseta sem var að setja fund. Hann sagði: „Herrar mínir, ég sé að ... þingmenn eru viðstaddir og lýsi því þingfundi slitið.“ Þessa hegðun skýrði Freud með því að þingforsetinn hafi helst ekki viljað að fundurinn færi fram og að sú ósk hans (meðvituð eða ómeðvituð) hefði á einhvern hátt ruðst fram í huga hans og birst í mismælunum. Þetta er eitt dæmi um skýringu, sem er vissulega mjög einföld. En hún er mjög dæmigerð fyrir skýringar Freuds á hegðun fólks: Hann leitar skýringa í hugarástandi þingforsetans, notast við hugtök eins og „ósk“, og gerir ráð fyrir að orsakirnar megi finna í huga hans og löngunum. Hvergi er vísað til hugtaka utan náttúrunnar né gert ráð fyrir að svona lagað gerist án þess að finna megi skýringu. Freud leitaði þó ekki eingöngu skýringa í hugum fólks — ef það átti við var hann reiðubúinn til að leita skýringa á vandamálum í öðrum líkamskerfum þess, til dæmis æxlum eða eitrun í blóði.

Önnur meginkenning Freuds er að við höfum öll dulvitund (e. unconscious) og forvitund (e. preconscious) að auki við meðvitund okkar. Í dulvitundinni dveljast, að sögn Freuds, ýmsar frumstæðar hvatir, hugmyndir, það er hugdettur, minningar og svo framvegis, og langanir. Dulvitundin er þeim eiginleikum gædd, eins og nafnið gefur til kynna, að við vitum ekki af henni. Aðeins með tilteknum aðferðum, segir Freud, er hægt að nálgast innihald dulvitundar. Í forvitund eru, samkvæmt kenningunni, aðrar hugmyndir sem við getum kallað upp í meðvitund með smá erfiðleikum. Í meðvitund eru svo allar þær hugmyndir, tilfinningar og svo framvegis, sem við vitum af — það „sem við erum að hugsa“.

Freud taldi að í dulvitundinni búi þær hvatir sem drífa okkur áfram, raunverulegar ástæður þess að við höldum til vinnu, eignumst börn, körpum og ræktum áhugamál okkar. Í meðvitundinni geti (að jafnaði) aðeins verið til staðar hugmyndir, hvatir og langanir sem eru okkur þóknanlegar, ögra ekki siðgæði okkar og standast væntingar okkar — og annarra. Það mætti að vísu, sagði Freud, finna ýmislegt úr dulvitundinni í meðvitundinni, en að það sé nær óþekkjanlegt vegna þess að það sé afskræmt.

Skoðum eitt ímyndað dæmi. Segjum sem svo að ég fyndi þúsund krónur á Laugaveginum; þegar ég svo hitti vin minn í Austurstræti, mundi ég segja honum að ég hefði fundið fimm þúsund krónur — og trúa því sjálfur. Í þessu tilfelli mundi Freud segja að í dulvitund minni byggi ósk um að eignast meiri pening. Þessu mundi hann halda fram, jafnvel þó ég mundi neita því að mig langaði í meiri pening, því að Freud taldi neitun, eins og í þessum kringumstæðum, sterkt merki um að löngunin væri til staðar djúpt í dulvitundinni. Freud gæti bent á efnahagsþrengingar hér á Íslandi til frekari staðfestingar á óskinni — flestir hefðu fundið áþreifanlega fyrir þeim. En neitun mín væri hins vegar til marks um að ég vildi ekki teljast til þeirra sem væru aðþrengdir, það væri á skjön við gildi samfélagsins að viðurkenna slíkt. Freud tiltók mörg dæmi í verkum sínum, til að rökstyðja að dulvitundin væri til, og mörg þeirra voru í þessum dúr.

Hvað þá um ýmis áhugamál okkar, til dæmis áhuga fólks á bókmenntum, sögu og slíku? Er það allt sprottið af einhverju sem er ómeðvitað, einhverju dulvituðu? Freud taldi svo vera.

Til að skýra þetta betur, skoðum þá hugmyndir Freuds um hvatir (e. instinct). Freud taldi að menn væru drifnir áfram af hvötum og að tvenns konar gerðir væru mest áberandi: kynhvöt (e. eros) og árásarhvöt (e. thanatos). Kynhvötina taldi hann ekki aðeins stefna að viðhaldi lífsins, heldur líka að allsherjarútrás fyrir nautn og ánægju. Árásarhvötin stefndi að eyðileggingu hluta. Þessar tvær hvatir væru andstæður, rétt eins og gengur og gerist í náttúrunni.

Hvatirnar væru ómeðvitaðar, þær væru í dulvitundinni. Ýmsum hefur þótt þessi hugmynd Freuds heldur fráleit; hegðun fólks einkennist ekki af eilífri uppbyggingu og hálfstjórnlausu niðurrifi. Það er rétt. Enda hafði Freud hugsað sér að þessar hvatir mannsins væru beislaðar á ýmsa vegu, til dæmis með göfgun.

Göfgun felst í því að frumstæðum hvötum er fundinn farvegur sem stenst kröfur samfélagsins. Og hér má þá skýra betur hvernig Freud hugsaði sér að hegðun okkar geti stjórnast af hvötum sem við vitum ekki af: Hvatirnar, dulvitaðar, umbreytast frá því að sækjast eftir látlausri unun, í tilfelli kynhvatarinnar, yfir í viðurkennd áhugamál, til dæmis bókmenntir eða flugvélar. Sókn eftir tafarlausri nautn verður að áhuga á og ánægju af því að læra hvernig flugvélar fljúga, hvernig þær eru smíðaðar, hvernig má fljúga þeim sem lengst og svo framvegis. Göfgun taldi Freud vera eina af mörgum leiðum fyrir hvatir til að umbreytast og að umbreytingar ættu sér stað oft á lífsleiðinni.

Ljósmynd af Sigmund Freud, tekin árið 1932.

Fjórða meginkenning Freuds er um drauma. Freud taldi bestu leiðina að dulvitundinni vera í gegnum drauma. Með því að túlka drauma fólks eftir ýmsum leiðum, mætti komast að innihaldi dulvitundarinnar og skilja betur ýmsa hegðun fólks og vandamál. Eitt helsta ritverk Freuds, Draumráðningar (Die Traumdeutung, enskur titill: The Interpretation of Dreams), fjallar einmitt um þetta.

Freud taldi, þvert á það sem flestir samtímamenn hans héldu, að draumar væru ekki eitthvað rugl sem engu máli skipta. Þeir hefðu innihald. Með því að túlka drauma einhvers, eftir reglum sem hann sagðist hafa uppgötvað, mætti komast að einhverju um huga viðkomandi. Til dæmis mundi túlkun á draumum kvíðafulls barns leiða í ljós orsakir kvíðans.

Skoðum eitt einfalt dæmi um draumtúlkun sem Sigurjón Björnsson rekur í bókinni Sálkönnun og sállækningar: Þar dreymir unga telpu að „ljótur karl“ komi, taki einhvern krakka og setji í poka sem hann er með. Þegar hún vaknar er hún hrædd. En þessi draumur, segir Sigurjón, getur hæglega haft þessa merkingu: Telpan vill losna við bróður sinn.1 Þessi draumur, sem flestir myndu afskrifa sem martröð sem litlu skipti — nema þá fyrir nætursvefn stúlkunnar — hefur þá, samkvæmt kenningum Freuds, einhverja merkingu í hugarstarfi stúlkunnar.

Önnur leið að dulvitundinni taldi Freud vera með frjálsum hugrenningatengslum (e. free association), en í því felst að fólk tjáir sig frjálst um ákveðið efni, til dæmis eitthvað sem tengist vandamálum þess — eða hvað sem kemur til hugar — alveg óhindrað af því að umræðuefnið sé óþægilegt. Ekkert skal skilið undan. Sálgreinandinn túlkar svo það sem viðkomandi segir og setur fram sem tillögur að því hvað sé rót vandans, hvað í dulvitundinni valdi vandamálunum. Sálgreinandinn kannar svo viðbrögðin við tillögunum. Smám saman komast sálgreinandinn og skjólstæðingur hans svo að niðurstöðu um hvað ami að. Eins og lýsingin ber með sér er aðferðin mjög tímafrek. Draumtúlkun og frjáls hugrenningatengsl voru aðferðir sem Freud notaði saman í meðferð.

Fimmta meginkenning Freuds er að mannshuganum megi skipta í þrjá hluta sem hann nefndi það (e. id), sjálf (e. ego) og yfirsjálf (e. superego). Freud taldi að í þaðinu byggju allar hvatir okkar — þessar sem talað var um áður — og að þaðið væri algerlega dulvitað. Freud taldi að þaðið einkenndist af óseðjandi löngun til tafarlauss unaðs og ánægju. Yfirsjálfið sagði hann vera miðstöð siðvitundar, gilda og sjálfsgagnrýni. Það væri sá hluti hugans sem léti okkur finna fyrir samviskubiti, og óþægindum ef við gerum eitthvað sem við vitum að er rangt. Jafnframt taldi Freud yfirsjálfið mjög strangt — öfgafullt mætti kannski segja. Yfirsjálfinu er stundum ætlað meira hlutverk en þetta, eins og til dæmis að það sé ábyrgt fyrir sjálfsást og sjálfsánægju, þá vegna dygðugs lífernis eða hugarfars. Yfirsjálfið er samkvæmt þessu á vissan hátt algerlega andstætt þaðinu. Yfirsjálfið er að hluta til meðvitað, en annars dulvitað.

Sjálfið gegnir mikilvægu hlutverki í þessari þrenningu, en það er eini hlutinn sem hefur tengsl við þann heim sem persónan býr í. Hin tvö kerfin hafa ekki slík tengsl. Sjálfið samræmir kröfur þaðsins, yfirsjálfsins og raunveruleikans og tekur „ákvörðun“ um hvaða hegðun skuli eiga sér stað. Það getur jafnframt rifjað upp eldri atburði og staðreyndir, búið til áætlanir og ýmislegt fleira, allt sem það notar til að taka ákvarðanir.

Kenningarnar sem fjallað var um að framan, fyrir utan þá fyrstu, eru allt kenningar um persónuleika. Umfjöllunin er ekki tæmandi, til dæmis er ekkert fjallað um þroska, né um hvernig geðræn vandamál eru útskýrð með kenningunum. Umfjöllunin miðast við hvernig hugur heilbrigðs, fullorðins fólks er mótaður, að mati Freuds.

Kenningar Freuds í dag

Kenningar Freuds — og sálgreining sem slík — náðu aldrei miklum vinsældum innan sálfræði. Ekki er hægt að tala um að sálgreining hafi náð að skjóta rótum innan sálfræði, sem ein af undirgreinum sálfræðinnar né heldur meginstoðum hennar. Öllu heldur hefur sálgreiningu mestmegnis verið hafnað, eða hún hunsuð, af þeim breiða hópi fólks sem stundað hefur fagið fyrr og síðar. Þetta sést til dæmis á því að vísindatímarit innan sálfræði segja nær aldrei frá rannsóknum þar sem kenningar Freuds eru í brennidepli. Slíkar rannsóknir eru vart stundaðar. Í kennsluefni um sálfræði er minnst á kenningar Freuds, en nær alltaf af sögulegum ástæðum.

Fyrir þessu eru margar ástæður. Sú helsta er sennilega að mörgum þyki kenningarnar bera vott um gervivísindi (e. pseudoscience). Til dæmis þykir mörgum sem ómögulegt sé að gera rannsókn sem sýni, svo ekki verði um villst, að kenningar um dulvitundina standist ekki, því alltaf megi túlka niðurstöðurnar upp á nýtt, á þann hátt sem er kenningunni í vil. Önnur ástæða kann að vera sú að í sálfræði er sterk hefð fyrir rannsóknum sem byggja á áreiðanlegum og skipulögðum mælingum; mælingum þar sem allt er vel skilgreint. Í sálgreiningu að hætti Freuds er það ekki raunin, heldur er stuðst við ýmis gögn sem byggja ekki á mælingum. Öllu heldur er stuðst við einstök tilfelli sjúklinga, ýmsar frásagnir og fleira í þeim dúr.

Í geðlæknisfræði var sálgreining Freuds nokkuð vinsæl á tímabili, til dæmis var ein helsta handbók geðlækna, Diagnostic and Statistical Manual of Mental Disorders, mjög undir áhrifum frá sálgreiningu í fyrstu útgáfu. Í dag eru vinsældirnar litlar meðal geðlækna, aðrar kenningar njóta mun meiri vinsælda og handbókin er gerbreytt.

Sálgreining virðist ekki hafa náð viðvarandi vinsældum innan nokkurs einasta fags sem snýr að hegðun mannsins, en allnokkrum vinsældum innan annarra faga, til dæmis í bókmenntafræði. Á þeim tíma þegar Freud vann sem harðast að þeim grunnkenningum sem sagt var frá að framan, voru það helst læknar og ýmsir áhugamenn sem hrifust af kenningunum. Og þó voru margir læknar lítt hrifnir. Freud hafði áhyggjur af því að sálgreining myndi einangrast og aldrei ná tökum innan nokkurs fags. Það hefur orðið raunin innan þeirra faga sem snúa að hegðun mannsins.

Heimildir og myndir:
  • Bein tilvitnun í Freud er fengin úr Inngangsfyrirlestrum um sálkönnun, I. hluta, 2. fyrirlestri.
  • Freud, S. (1900/1997). The Interpretation of Dreams. A. A. Brill þýddi. Hertfordshire: Wordsworth Classics of Literature.
  • Freud, S. (1916/1995). Inngangsfyrirlestrar um sálkönnun. I. og II. hluti. Sigurjón Björnsson þýddi. Reykjavík: Hið Íslenska Bókmenntafélag.
  • Gay, P. (1988). Freud: A Life for our Time. New York: W. W. Norton & Company.
  • Ross, A. O. (1987). Personality: The Scientific Study of Complex Human Behavior. New York: Holt, Rinehart and Winston.
  • Sarason, I. G. (1972). Abnormal Psychology. New York: Meredith Corporation.
  • Sigurjón Björnsson (1983). Sálkönnun og sállækningar. Reykjavík: Hið Íslenska Bókmenntafélag.
  • Mynd af Freud: Sigmund Freud 1926.jpg. Wikimedia Commons. Ljósmyndina tók Ferdinand Schmutzer. Myndin er fallin úr höfundarrétti.
  • Mynd af Freud frá 1932: Library of Congress. Sótt 30.12.2011.


1 Tekið skal fram að sálgreinendur taka tillit til ýmissa aðstæðna í lífi dreymandans þegar draumar eru ráðnir. Með öðrum orðum: Fleira þarf að koma til en bara draumur eins og þessi, til að fá þessa niðurstöðu....