Lísa hugsaði málið vel og lengi og reyndi að nýta sér alla þá stærðfræðikunnáttu sem hún bjó yfir. Loks áttaði hún sig á að svarið gat aðeins verið eitt: Óendanlegt. Ef hún mætti einungis taka helming fjarlægðarinnar að hurðinni í hverju skrefi, kæmist hún aldrei út um hurðina þar sem það væri alltaf helmingur fjarlægðarinnar eftir. Skrefafjöldinn væri því óendanlegur.

Þegar Lísa tilkynnti svar sitt varð hjartadrottningin æf af reiði. Hún sagði það rétt að skrefafjöldinn væri óendanlegur og að það væri einmitt sá tími sem Lísa myndi fá að dúsa í dýflissunni hennar. Hún tók síðan til við að skipa mönnum sínum fyrir að taka Lísu höndum á ný, sem vissu ekki hvaðan á sig stóð veðrið. Eins og gefur að skilja leist Lísu nú ekki vel á þetta. Hún nýtti sér því ringulreiðina og tók á sprett. Lísa hljóp eins og fætur toguðu og hægði ekki á sér fyrr en kastalinn var kominn úr augsýn og ekkert heyrðist lengur nema reiðiöskur hjartadrottningarinnar í fjarska.

Fjöldi lesenda Vísindavefsins lagði Lísu lið í vandræðum hennar, þó rétt svar hafi vafist fyrir mörgum. Þeir sem sendu inn réttar lausnir voru:
Brynjar Smári Bjarnason, Einar Óli Guðmundsson, Gauti Þór, Geir Gunnarsson, Gísli Hvanndal, Helgi Áss Grétarsson, Hrafnhildur Sigurðardóttir, Indriði Indriðason, Jón Árni Traustason og Þorvaldur Sigurðsson.