Spurningin sem mannfræðingarnir eiga að spyrja gæslumanninn er einföld:
Hvar átt þú heima?

Ef gæslumaðurinn tilheyrir vonda ættbálknum mun hann ljúga og vísa þeim leiðina heim til góða ættbálksins, og ef hann er frá góða ættbálknum mun hann segja þeim satt og einnig vísa þeim leiðina heim til góða ættbálksins.

Vísindavefnum bárust fjölmargar lausnir á gátunni í ýmsum útfærslum. Hér gefum við upp réttar lausnir. Hægt er að beita sömu röksemdafærslu við allar eftirfarandi spurningar og beitt var á spurningu Ritstjórnar Vísindavefsins hér að ofan:
  • Hvor leiðin er heim til þín? (Ámundi og Inga Birna)
  • Liggur leiðin til hægri heim til þín? (Pétur L. Jónsson)
  • Hvaða leið ferðu heim? (Ingolfur Edvardsson)
  • Viltu vera svo vænn að benda okkur á þorpið þitt? (Andri Snær Ólafsson)
  • Hvaða leið myndu óvinir þínir vísa okkur til að finna góðviljaða og sannsögla fólkið? (Ingvar Arnarson)
  • Hvaða leið myndi einhver úr hinum ættbálknum segja mér að fara til að finna þá sem alltaf segja satt? (Áslaug Högnadóttir)
  • Hver er leiðin að þínum ættbálk? (Gezim Haziri)