Sólin Sólin Rís 05:26 • sest 21:28 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:24 • Sest 05:22 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:10 • Síðdegis: 18:30 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:11 • Síðdegis: 12:20 í Reykjavík

Hvað er femínismi og hver er líkleg ástæða til fordóma karla gagnvart femínistum?

Þorgerður Einarsdóttir

Að vera kona er að ganga í of litlum skóm. Að vera femínisti er að skilja ástæðuna fyrir því og fræða aðra um að það eru ekki fæturnir sem eru of stórir heldur skórnir sem eru of litlir" (Píkutorfan, bls. 90).
Ekkert einhlítt svar er til við því hvað femínismi er en þessi einfalda skilgreining ungrar stúlku í Píkutorfunni lýsir tilfinningu margra kvenna og ástæðum þess að þær kenna sig við femínisma. Hins vegar er það löngu liðin tíð að hægt sé að tala um femínisma í eintölu. Femínismi getur verið lífskoðun, baráttuhreyfing, fræðasvið, kenningar, þekkingarfræði og pólitík, svo að fátt eitt sé nefnt. Áherslan á þessi mismunandi svið hefur verið breytileg í tímans rás.

Saga femínisma hófst á baráttu kvenna fyrir mannréttindum og borgaralegum réttindum á miðri 19. öld. Þá var gerður greinarmunur á borgaralegum eða frjálslyndum femínisma annars vegar og sósíalískum eða marxískum femínisma hins vegar. Borgaralegir femínistar börðust fyrir réttindum kvenna á forsendum ríkjandi samfélags. Þeir lögðu áherslu á einstaklingsfrelsi og jöfn tækifæri í formlegum og lagalegum skilningi. Sósíalískir og marxískir femínistar lögðu áherslu á að skoða hinar efnahagslegu forsendur fyrir stöðu kvenna.

Saga femínisma hófst á baráttu kvenna fyrir mannréttindum og borgaralegum réttindum á miðri 19. öld.

Róttækir femínistar sem komu fram á sjónarsviðið upp úr 1970 gagnrýndu bæði frjálslynda og sósíalíska femínista; frjálslynda fyrir að taka ekki mið af því að uppbygging samfélagsins væri karlmiðuð, að formlegt jafnrétti jafngilti ekki raunverulegu jafnrétti og að rætur kynjamismununar lægju djúpt í menningu og samfélagsgerð. Sósíalíska og marxíska femínista gagnrýndu þeir fyrir að einskorða sig um of við heimsmynd og hugmyndafræði marxista, sem gjarna smættuðu kynjamismunun niður í hagstærðir eða stéttaspursmál.

Róttækir femínistar töldu að bág staða kvenna stafaði af því að konum væri mismunað á grundvelli kynferðis síns. Þeir lögðu áherslu á að flest þekkt samfélög bæru keim af karlveldi og kynjamismunun væri ekki afleiðing af annarri kúgun, heldur væri sjálfstætt form mismununar. Róttækur femínismi var ekki látinn óáreittur frekar en fyrri útgáfur femínisma og hann var gagnrýndur fyrir blæbrigðalaust valdahugtak og söguleysi.

Ein tegund róttæks femínisma er svonefndur mismunarfemínismi sem Kvennalistinn byggði hugmyndafræði sína á. Sú stefna leggur áherslu á muninn milli kynjanna og sérstaka menningu kvenna. Þessar pólitísku stefnur áttu sér lengi vel ákveðna samsvörun í kenningum og fræðimennsku. Á seinni árum hefur femínisminn hins vegar breytt um svip. Það er ekki síst innreið femínisma í vísindi og fræðimennsku sem hefur breytt ásýndinni og bætt við flóruna. Þekkingarfræði og vísindaheimspeki hafa tekið við af pólitískum hreyfingum og baráttumálum sem eitt meginviðfangsefni femínískrar hugsunar. Sjónarmiðsfemínismi („standpoint feminism“) er eitt slíkt afbrigði, en þar er því haldið fram að sjónarmið kvenna sé nauðsynlegt vísindunum til að þau segi sannleikann um heiminn og tilveruna.

Á allra seinustu árum hafa áhrif póstmódernisma og póststrúktúralisma gert sig gildandi meðal femínista. Þau áhrif eru ekki síst til komin vegna gagnrýni, meðal annars frá lesbískum konum og konum af öðrum litarhætti en hvítum, þess efnis að vestrænar, vel stæðar millistéttarkonur hafi einokað femínismann og alhæft um allar konur út frá sínum aðstæðum. Í dag er mikil gróska í femínískri umræðu og kynjafræðum með ríkjandi áherslu á margbreytileika, frelsi og næmi fyrir mismun án þess að missa sjónar á valdamisræmi milli karla og kvenna.

Hræðsla karla við femínisma er að öllum líkindum óöryggi, fordómar og vankunnátta, eins og kemur fram í spurningunni. Bandaríski fræðimaðurinn Kenneth Clatterbaugh, sem rannsakað hefur nútíma karlahreyfingar, tekur einmitt undir þetta. Hann segir að tiltekinn hópur karla hafi tekið kvennahreyfingunni sem ógn, og telji í raun að karlar séu kúgaðir af konum. Eftir því sem jafnréttissinnuðu fólki fjölgar, ekki síst meðal karla í fræðastörfum, fjölgar þeim sem skilja að það er mikilvægt fyrir okkur öll, bæði konur og karla, að ganga í góðum og þægilegum skóm, svo líkingamálið úr Píkutorfunni sé notað. En eins og heimurinn lítur út í dag, þurfum við enn um sinn að beina sjónum okkar sérstaklega að þröngum og heftandi fótabúnaði kvenna.

Heimildir:
  • Clatterbaugh, Kenneth (1990). Contemporary Perspectives on Masculinity: Men, Women and Politics in Modern Society. Boulder, Colorado.
  • Olsson, Belinda, og Norrman Skugge, Linda, (2000), Píkutorfan. Þýðendur Hugrún R. Hjaltadóttir og Kristbjörg Kristjánsdóttir. Forlagið, Reykjavík.

Mynd:

Höfundur

prófessor í kynjafræði við HÍ

Útgáfudagur

14.2.2001

Spyrjandi

Helga Baldvinsdóttir

Tilvísun

Þorgerður Einarsdóttir. „Hvað er femínismi og hver er líkleg ástæða til fordóma karla gagnvart femínistum?“ Vísindavefurinn, 14. febrúar 2001. Sótt 23. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=1337.

Þorgerður Einarsdóttir. (2001, 14. febrúar). Hvað er femínismi og hver er líkleg ástæða til fordóma karla gagnvart femínistum? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=1337

Þorgerður Einarsdóttir. „Hvað er femínismi og hver er líkleg ástæða til fordóma karla gagnvart femínistum?“ Vísindavefurinn. 14. feb. 2001. Vefsíða. 23. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=1337>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað er femínismi og hver er líkleg ástæða til fordóma karla gagnvart femínistum?

Að vera kona er að ganga í of litlum skóm. Að vera femínisti er að skilja ástæðuna fyrir því og fræða aðra um að það eru ekki fæturnir sem eru of stórir heldur skórnir sem eru of litlir" (Píkutorfan, bls. 90).
Ekkert einhlítt svar er til við því hvað femínismi er en þessi einfalda skilgreining ungrar stúlku í Píkutorfunni lýsir tilfinningu margra kvenna og ástæðum þess að þær kenna sig við femínisma. Hins vegar er það löngu liðin tíð að hægt sé að tala um femínisma í eintölu. Femínismi getur verið lífskoðun, baráttuhreyfing, fræðasvið, kenningar, þekkingarfræði og pólitík, svo að fátt eitt sé nefnt. Áherslan á þessi mismunandi svið hefur verið breytileg í tímans rás.

Saga femínisma hófst á baráttu kvenna fyrir mannréttindum og borgaralegum réttindum á miðri 19. öld. Þá var gerður greinarmunur á borgaralegum eða frjálslyndum femínisma annars vegar og sósíalískum eða marxískum femínisma hins vegar. Borgaralegir femínistar börðust fyrir réttindum kvenna á forsendum ríkjandi samfélags. Þeir lögðu áherslu á einstaklingsfrelsi og jöfn tækifæri í formlegum og lagalegum skilningi. Sósíalískir og marxískir femínistar lögðu áherslu á að skoða hinar efnahagslegu forsendur fyrir stöðu kvenna.

Saga femínisma hófst á baráttu kvenna fyrir mannréttindum og borgaralegum réttindum á miðri 19. öld.

Róttækir femínistar sem komu fram á sjónarsviðið upp úr 1970 gagnrýndu bæði frjálslynda og sósíalíska femínista; frjálslynda fyrir að taka ekki mið af því að uppbygging samfélagsins væri karlmiðuð, að formlegt jafnrétti jafngilti ekki raunverulegu jafnrétti og að rætur kynjamismununar lægju djúpt í menningu og samfélagsgerð. Sósíalíska og marxíska femínista gagnrýndu þeir fyrir að einskorða sig um of við heimsmynd og hugmyndafræði marxista, sem gjarna smættuðu kynjamismunun niður í hagstærðir eða stéttaspursmál.

Róttækir femínistar töldu að bág staða kvenna stafaði af því að konum væri mismunað á grundvelli kynferðis síns. Þeir lögðu áherslu á að flest þekkt samfélög bæru keim af karlveldi og kynjamismunun væri ekki afleiðing af annarri kúgun, heldur væri sjálfstætt form mismununar. Róttækur femínismi var ekki látinn óáreittur frekar en fyrri útgáfur femínisma og hann var gagnrýndur fyrir blæbrigðalaust valdahugtak og söguleysi.

Ein tegund róttæks femínisma er svonefndur mismunarfemínismi sem Kvennalistinn byggði hugmyndafræði sína á. Sú stefna leggur áherslu á muninn milli kynjanna og sérstaka menningu kvenna. Þessar pólitísku stefnur áttu sér lengi vel ákveðna samsvörun í kenningum og fræðimennsku. Á seinni árum hefur femínisminn hins vegar breytt um svip. Það er ekki síst innreið femínisma í vísindi og fræðimennsku sem hefur breytt ásýndinni og bætt við flóruna. Þekkingarfræði og vísindaheimspeki hafa tekið við af pólitískum hreyfingum og baráttumálum sem eitt meginviðfangsefni femínískrar hugsunar. Sjónarmiðsfemínismi („standpoint feminism“) er eitt slíkt afbrigði, en þar er því haldið fram að sjónarmið kvenna sé nauðsynlegt vísindunum til að þau segi sannleikann um heiminn og tilveruna.

Á allra seinustu árum hafa áhrif póstmódernisma og póststrúktúralisma gert sig gildandi meðal femínista. Þau áhrif eru ekki síst til komin vegna gagnrýni, meðal annars frá lesbískum konum og konum af öðrum litarhætti en hvítum, þess efnis að vestrænar, vel stæðar millistéttarkonur hafi einokað femínismann og alhæft um allar konur út frá sínum aðstæðum. Í dag er mikil gróska í femínískri umræðu og kynjafræðum með ríkjandi áherslu á margbreytileika, frelsi og næmi fyrir mismun án þess að missa sjónar á valdamisræmi milli karla og kvenna.

Hræðsla karla við femínisma er að öllum líkindum óöryggi, fordómar og vankunnátta, eins og kemur fram í spurningunni. Bandaríski fræðimaðurinn Kenneth Clatterbaugh, sem rannsakað hefur nútíma karlahreyfingar, tekur einmitt undir þetta. Hann segir að tiltekinn hópur karla hafi tekið kvennahreyfingunni sem ógn, og telji í raun að karlar séu kúgaðir af konum. Eftir því sem jafnréttissinnuðu fólki fjölgar, ekki síst meðal karla í fræðastörfum, fjölgar þeim sem skilja að það er mikilvægt fyrir okkur öll, bæði konur og karla, að ganga í góðum og þægilegum skóm, svo líkingamálið úr Píkutorfunni sé notað. En eins og heimurinn lítur út í dag, þurfum við enn um sinn að beina sjónum okkar sérstaklega að þröngum og heftandi fótabúnaði kvenna.

Heimildir:
  • Clatterbaugh, Kenneth (1990). Contemporary Perspectives on Masculinity: Men, Women and Politics in Modern Society. Boulder, Colorado.
  • Olsson, Belinda, og Norrman Skugge, Linda, (2000), Píkutorfan. Þýðendur Hugrún R. Hjaltadóttir og Kristbjörg Kristjánsdóttir. Forlagið, Reykjavík.

Mynd: