Sólin Sólin Rís 05:51 • sest 21:06 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 09:47 • Sest 06:52 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:02 • Síðdegis: 12:48 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:36 • Síðdegis: 18:53 í Reykjavík

Hvernig og hve oft endurnýjast frumur?

Halldór Þormar

Hvernig?

Frumur eru í stöðugri endurnýjun meðan þær lifa. Þetta þýðir það að stórsameindir frumunnar, til dæmis prótín (prótein), eru í sífellu að brotna niður og önnur samskonar prótín að myndast eftir þörfum. Líftími prótína í frumum er mjög mislangur, allt frá einni eða örfáum mínútum fyrir ensím sem hvata hraðvirka efnaferla sem þarf að stýra mjög nákvæmlega, og upp í marga mánuði fyrir prótín í stoðkerfum frumunnar. Þannig er gerður greinarmunur á skammlífum og langlífum prótínum. Líftímann má mæla með því að merkja prótínin með geislavirkum amínósýrum.

Fruman hefur ýmsar leiðir til þess að brjóta niður prótín. Skammlíf prótín eru brotin niður í frumuvökvanum með svokölluðu ubiquitin niðurbrotsferli sem er mjög flókið en allvel þekkt. Langlíf prótín og frumulíffæri, til dæmis hvatberar, eru hins vegar flutt inn í meltibólur (lysosomes) þar sem þau eru brotin niður með meltiensímum (hydrólösum). Í öllum tilvikum eru niðurbrotsefnin endurnýtt í frumunni til uppbyggingar á nýjum prótínum. Önnur minna þekkt niðurbrotsferli hafa einnig fundist.

Hin ýmsu frumulíffæri, til dæmis hvatberar, hafa takmarkaðan líftíma í frumunni. Þeim er eytt í meltibólum og nýir hvatberar verða til við hvatberaskiptingu. Það má því segja að hver fruma endurnýi frumulíffæri sín og stórsameindir að mestu leyti á nokkurra mánaða fresti meðan hún lifir.

Hve oft?

Líftími fruma í líkamanum er mjög misjafnlega langur. Þannig lifa sum hvít blóðkorn aðeins í nokkra daga og deyja þá á stýrðan, skipulegan hátt sem hefur verið nefndur skipulegur frumudauði (apoptosis). "Líkunum" er svo eytt af stórum átfrumum (makrófögum), sem þekkja dauðu frumurnar og melta þær í sundur í meltibólum og endurnýta niðurbrotsefnin til uppbyggingar á nýjum frumum. Aðrar frumur lifa lengur, til dæmis rauð blóðkorn sem lifa að jafnaði í nokkra mánuði.

Enn aðrar frumur geta lifað jafnlengi og líkaminn sjálfur, til dæmis vöðvafrumur hjartans, hárfrumur í innra eyra og ef til vill taugafrumur. Þær endurnýjast ekki ef þær skaddast, og deyja af völdum ytri áhrifa. Að jafnaði deyja milljónir fruma á hveri sekúndu í líkamanum og endurnýjast jafnóðum með frumuskiptingu annarra fruma, til dæmis stofnfruma hvítra og rauðra blóðfruma í beinmerg.

Sjá einnig svar Helgu Ögmundsdóttur við spurningunni Hvað er það sem gerist í frumunum þegar við fáum krabbamein?

Höfundur

prófessor emeritus í líffræði við HÍ

Útgáfudagur

1.3.2000

Spyrjandi

Sveinbjörg Inga Leifsdóttir

Efnisorð

Tilvísun

Halldór Þormar. „Hvernig og hve oft endurnýjast frumur? “ Vísindavefurinn, 1. mars 2000. Sótt 16. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=173.

Halldór Þormar. (2000, 1. mars). Hvernig og hve oft endurnýjast frumur? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=173

Halldór Þormar. „Hvernig og hve oft endurnýjast frumur? “ Vísindavefurinn. 1. mar. 2000. Vefsíða. 16. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=173>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvernig og hve oft endurnýjast frumur?
Hvernig?

Frumur eru í stöðugri endurnýjun meðan þær lifa. Þetta þýðir það að stórsameindir frumunnar, til dæmis prótín (prótein), eru í sífellu að brotna niður og önnur samskonar prótín að myndast eftir þörfum. Líftími prótína í frumum er mjög mislangur, allt frá einni eða örfáum mínútum fyrir ensím sem hvata hraðvirka efnaferla sem þarf að stýra mjög nákvæmlega, og upp í marga mánuði fyrir prótín í stoðkerfum frumunnar. Þannig er gerður greinarmunur á skammlífum og langlífum prótínum. Líftímann má mæla með því að merkja prótínin með geislavirkum amínósýrum.

Fruman hefur ýmsar leiðir til þess að brjóta niður prótín. Skammlíf prótín eru brotin niður í frumuvökvanum með svokölluðu ubiquitin niðurbrotsferli sem er mjög flókið en allvel þekkt. Langlíf prótín og frumulíffæri, til dæmis hvatberar, eru hins vegar flutt inn í meltibólur (lysosomes) þar sem þau eru brotin niður með meltiensímum (hydrólösum). Í öllum tilvikum eru niðurbrotsefnin endurnýtt í frumunni til uppbyggingar á nýjum prótínum. Önnur minna þekkt niðurbrotsferli hafa einnig fundist.

Hin ýmsu frumulíffæri, til dæmis hvatberar, hafa takmarkaðan líftíma í frumunni. Þeim er eytt í meltibólum og nýir hvatberar verða til við hvatberaskiptingu. Það má því segja að hver fruma endurnýi frumulíffæri sín og stórsameindir að mestu leyti á nokkurra mánaða fresti meðan hún lifir.

Hve oft?

Líftími fruma í líkamanum er mjög misjafnlega langur. Þannig lifa sum hvít blóðkorn aðeins í nokkra daga og deyja þá á stýrðan, skipulegan hátt sem hefur verið nefndur skipulegur frumudauði (apoptosis). "Líkunum" er svo eytt af stórum átfrumum (makrófögum), sem þekkja dauðu frumurnar og melta þær í sundur í meltibólum og endurnýta niðurbrotsefnin til uppbyggingar á nýjum frumum. Aðrar frumur lifa lengur, til dæmis rauð blóðkorn sem lifa að jafnaði í nokkra mánuði.

Enn aðrar frumur geta lifað jafnlengi og líkaminn sjálfur, til dæmis vöðvafrumur hjartans, hárfrumur í innra eyra og ef til vill taugafrumur. Þær endurnýjast ekki ef þær skaddast, og deyja af völdum ytri áhrifa. Að jafnaði deyja milljónir fruma á hveri sekúndu í líkamanum og endurnýjast jafnóðum með frumuskiptingu annarra fruma, til dæmis stofnfruma hvítra og rauðra blóðfruma í beinmerg.

Sjá einnig svar Helgu Ögmundsdóttur við spurningunni Hvað er það sem gerist í frumunum þegar við fáum krabbamein?...