Sólin Sólin Rís 05:19 • sest 21:35 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:18 • Sest 04:56 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:07 • Síðdegis: 19:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:08 • Síðdegis: 13:14 í Reykjavík

Ef ég skipti tvisvar um skaft og einu sinni um haus á hamri, verður útkoman þá sami hamar og ég byrjaði með?

Ólafur Páll Jónsson

Svarið er örugglega að eftir að hafa skipt bæði um haus og skaft þá sitji maður uppi með nýjan hamar. En hvað ef við skiptum bara um skaft? Eða bara um haus? Þá vandast málið og svarið liggur alls ekki í augum uppi. Það sem meira er: Engin rannsókn á þessum hlutum getur svarað spurningunni um það hvenær við höfum nýjan hamar, og hvenær við höfum sama gamla hamarinn með nýjum hlutum.

Í svörum sama höfundar við spurningunni Er hugsanlegt að hægt verði að stöðva öldrun algjörlega eða er það óraunsætt? og Ef heili væri tekinn úr einni manneskju og settur í aðra, væri það þá eins og að færa harðan disk úr einni tölvu í aðra? er fjallað um þetta vandamál.

Þetta vandamál er raunar ævafornt og má rekja allar götur til Forngrikkja. Meðal þeirra gekk saga af skipi Þeseusar, sem var sæfari og alhliða hetja í fornöld Grikklands. Skipið var varðveitt um margar kynslóðir í höfninni í Aþenu en um leið og plankarnir fúnuðu var þeim skipt út fyrir nýja. Loks hafði verið skipt um alla upprunalegu plankana. Spurningin var þá hvort skipið sem að endingu lá við festar í höfninni í Aþenu var sama skip og upprunalega skipið eða nýtt skip.

Á 17. öld herti breski heimspekingurinn Thomas Hobbes á þessu vandamáli þegar hann bætti við söguna af skipi Þeseusar lítilli fléttu. Hann hugsaði sér að gömlu plönkunum hefði verið haldið til haga og þeir síðan notaðir til að smíða skip sem var alveg eins og upprunalega skipið. Þar með væru til tvö skip. Annað úr upprunalegu plönkunum en hitt úr nýjum plönkum. Spurningin er þá sú hvort skipið væri í raun skip Þeseusar, það sem er úr nýju plönkunum eða hitt sem er úr þeim upprunalegu.

Til að svara svona spurningum verðum við að vita við hvað við ætlum að miða þegar við tölum um sama hlutinn frá einum tíma til annars. Heimspekingar orða það svo að við verðum að vita hvert samsemdarmið hlutanna er.

Gríski heimspekingurinn Herakleitos sagði þau frægu orð að maður stigi aldrei tvisvar í sömu ána. Hugmynd hans var sú að vatnið væri sífellt nýtt og því ekki hægt að tala um sömu ána frá einum tíma til annars. Aristóteles var kannski fyrstur grískra heimspekinga til að hrekja þessa hugmynd Herakleitosar á skipulegan hátt.

Aristóteles gerði greinarmun á efni hluta og formi þeirra. Ef við tökum þennan greinarmun Aristótelesar að láni getum við sagt að samsemdarmið sumra hluta sé bundið efninu. Hamrar eru þannig að það fer eftir því hvort um sömu efnislegu hlutana er að ræða - sama skaftið og sama hausinn - hvort maður hefur sama hamarinn frá einum tíma til annars. En hjá öðrum hlutum, til dæmis ám og manneskjum, liggur samsemdarmiðið í formi hlutanna. Áin er söm þótt vatnið sé nýtt og manneskjan er sú sama þótt efnið í henni sem fullorðnum manni sé allt annað en efnið sem var í henni þegar hún var barn. Ástæðan er sú að formið er það sama.

Heimildir

Aristóteles, Frumspekin, Hið íslenzka bókmenntafélag, 1999.

Þorsteinn Gylfason, Tilraun um heiminn, Heimskringla, 1992.



Mynd af Thomas Hobbes: Oregon State University

Hamramynd: HB

Höfundur

Ólafur Páll Jónsson

prófessor í heimspeki við HÍ

Útgáfudagur

17.4.2002

Spyrjandi

Guðmundur Jóhannesson

Tilvísun

Ólafur Páll Jónsson. „Ef ég skipti tvisvar um skaft og einu sinni um haus á hamri, verður útkoman þá sami hamar og ég byrjaði með?“ Vísindavefurinn, 17. apríl 2002. Sótt 25. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=2312.

Ólafur Páll Jónsson. (2002, 17. apríl). Ef ég skipti tvisvar um skaft og einu sinni um haus á hamri, verður útkoman þá sami hamar og ég byrjaði með? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=2312

Ólafur Páll Jónsson. „Ef ég skipti tvisvar um skaft og einu sinni um haus á hamri, verður útkoman þá sami hamar og ég byrjaði með?“ Vísindavefurinn. 17. apr. 2002. Vefsíða. 25. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=2312>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Ef ég skipti tvisvar um skaft og einu sinni um haus á hamri, verður útkoman þá sami hamar og ég byrjaði með?
Svarið er örugglega að eftir að hafa skipt bæði um haus og skaft þá sitji maður uppi með nýjan hamar. En hvað ef við skiptum bara um skaft? Eða bara um haus? Þá vandast málið og svarið liggur alls ekki í augum uppi. Það sem meira er: Engin rannsókn á þessum hlutum getur svarað spurningunni um það hvenær við höfum nýjan hamar, og hvenær við höfum sama gamla hamarinn með nýjum hlutum.

Í svörum sama höfundar við spurningunni Er hugsanlegt að hægt verði að stöðva öldrun algjörlega eða er það óraunsætt? og Ef heili væri tekinn úr einni manneskju og settur í aðra, væri það þá eins og að færa harðan disk úr einni tölvu í aðra? er fjallað um þetta vandamál.

Þetta vandamál er raunar ævafornt og má rekja allar götur til Forngrikkja. Meðal þeirra gekk saga af skipi Þeseusar, sem var sæfari og alhliða hetja í fornöld Grikklands. Skipið var varðveitt um margar kynslóðir í höfninni í Aþenu en um leið og plankarnir fúnuðu var þeim skipt út fyrir nýja. Loks hafði verið skipt um alla upprunalegu plankana. Spurningin var þá hvort skipið sem að endingu lá við festar í höfninni í Aþenu var sama skip og upprunalega skipið eða nýtt skip.

Á 17. öld herti breski heimspekingurinn Thomas Hobbes á þessu vandamáli þegar hann bætti við söguna af skipi Þeseusar lítilli fléttu. Hann hugsaði sér að gömlu plönkunum hefði verið haldið til haga og þeir síðan notaðir til að smíða skip sem var alveg eins og upprunalega skipið. Þar með væru til tvö skip. Annað úr upprunalegu plönkunum en hitt úr nýjum plönkum. Spurningin er þá sú hvort skipið væri í raun skip Þeseusar, það sem er úr nýju plönkunum eða hitt sem er úr þeim upprunalegu.

Til að svara svona spurningum verðum við að vita við hvað við ætlum að miða þegar við tölum um sama hlutinn frá einum tíma til annars. Heimspekingar orða það svo að við verðum að vita hvert samsemdarmið hlutanna er.

Gríski heimspekingurinn Herakleitos sagði þau frægu orð að maður stigi aldrei tvisvar í sömu ána. Hugmynd hans var sú að vatnið væri sífellt nýtt og því ekki hægt að tala um sömu ána frá einum tíma til annars. Aristóteles var kannski fyrstur grískra heimspekinga til að hrekja þessa hugmynd Herakleitosar á skipulegan hátt.

Aristóteles gerði greinarmun á efni hluta og formi þeirra. Ef við tökum þennan greinarmun Aristótelesar að láni getum við sagt að samsemdarmið sumra hluta sé bundið efninu. Hamrar eru þannig að það fer eftir því hvort um sömu efnislegu hlutana er að ræða - sama skaftið og sama hausinn - hvort maður hefur sama hamarinn frá einum tíma til annars. En hjá öðrum hlutum, til dæmis ám og manneskjum, liggur samsemdarmiðið í formi hlutanna. Áin er söm þótt vatnið sé nýtt og manneskjan er sú sama þótt efnið í henni sem fullorðnum manni sé allt annað en efnið sem var í henni þegar hún var barn. Ástæðan er sú að formið er það sama.

Heimildir

Aristóteles, Frumspekin, Hið íslenzka bókmenntafélag, 1999.

Þorsteinn Gylfason, Tilraun um heiminn, Heimskringla, 1992.



Mynd af Thomas Hobbes: Oregon State University

Hamramynd: HB...