Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Hvað er vatnsrof?

Sigurður Steinþórsson

Í kennslubók Þorleifs Einarssonar Jarðfræði: saga bergs og lands (1. útg., 1968) er skilgreint hvað átt er við með hugtökunum veðrun og rof. Þar segir:
Molnun og tæring bergs á staðnum nefnist veðrun. Venjulega verða þó bergmylsna og uppleyst efni ekki lengi kyrr á veðrunarstaðnum, heldur flytjast þau burt, t.d. með vindi, vatni, jöklum eða undan brekku fyrir áhrif þyngdaraflsins. Bergmylsnan máist, meðan á flutningi stendur, og sverfur um leið bergið, sem hún berst yfir. Brottflutningur bergmylsnu, með hverjum hætti sem hann verður, nefnist rof, en það vinnur að sléttun jarðaryfirborðsins og gætir þess venjulega mest í fjöllum og mishæðum.

Ef innrænu öflin gripu ekki inn í, væri jarðaryfirborðið fyrir löngu orðið marflatt. En sökum ævarandi upphleðslu af völdum jarðelds, samankýtingar jarðlaga við fellingahreyfingar og jafnvægisviðleitni jarðskorpunnar er langt í frá, að rofið nái nokkurn tíma takmarki sínu. Álitið er, að rof nemi að meðaltali einum þykktarmetra á 15.000 árum á öllu yfirborði fasts lands.

Rof á einum stað hefur jafnan setlagamyndun á öðrum stað í för með sér. Setlagamyndun á sér einkum stað á láglendi, í stöðuvötnum og loks endanlega í sjó.
Orðið vatnsrof vísar til þess náttúrufyrirbæris sem rofinu veldur, það er að segja rennandi vatns. Rofmáttur straumvatna er mjög háður straumhraðanum. Þannig verður yfirleitt langmest rof í vorleysingum eða stórrigningum, en nánast ekkert þess á milli. Talið er að sum tilkomumikil árgljúfur hafi myndast í hamfarahlaupum. Gott dæmi um það eru gljúfur Jökulsár á Fjöllum neðan Dettifoss, sem talið er hafa myndast í gríðarlegu og skammæju vatnsflóði sem varð þegar jökulstífla sem hélt uppi stöðuvatni brast og vatnið tæmdist á fáeinum klukkustundum. Dæmi um hlaup úr jökulstífluðum stöðuvötnum eru Grímsvatnahlaup í Skeiðará, Skaftárhlaup og hlaup úr Grænalóni í ána Súlu. Miðað við raunveruleg hamfarahlaup eru þó jafnvel Grímsvatnahlaupin 1938 og 1996 nánast í mýflugumynd.

Vatnsrof verður með ýmsu móti. „Dropinn holar steininn,“ segir máltækið, „ekki með afli heldur með því að falla oft.“ En burðargeta straumvatna vex hratt með straumhraðanum. Í flóðum skoppa grjót og hnullungar eftir farveginum sem eykur mjög rofmáttinn. Í hringiðum getur slíkt grjót grafið skessukatla (djúpar, sívalar holur, oft um hálfur meter í þvermál) í harða klöpp á skömmum tíma.

Þá grafa ár undan bökkum eða botnlagi þannig að þeir hrynja og árnar breikka þannig farveg sinn eða dýpka. Dæmi um hið síðarnefnda er Gullfoss í Hvítá. Þar hagar svo til að hvort hinna tveggja þrepa fossins fellur fram af hraunlagi sem hvílir á linara setbergslagi. Fossinn grefur setið undan hraunlaginu uns það hrynur. Þannig er hann að „éta sig“ smám saman upp eftir farvegi árinnar og dýpka hann í leiðinni um 50 metra. Þorleifur Einarsson sýndi fram á það með gjóskulagarannsóknum að hið þriggja kílómetra langa Gullfossgljúfur hefði myndast með þessum hætti á 10.000 árum.

Í raunverulegum hamfarahlaupum margfaldast rofmátturinn þar sem straumhraðinn verður slíkur að vatnið nánast sprengir bergið með „sogkrafti“, líkt og „drullusokkur“ vinnur á stífluðum leiðslum.

Sjá einnig svör sama höfundar við spurningunum:

Höfundur

Sigurður Steinþórsson

prófessor emeritus

Útgáfudagur

27.5.2002

Spyrjandi

Harpa Rún Eysteinsdóttir, f. 1988

Tilvísun

Sigurður Steinþórsson. „Hvað er vatnsrof?“ Vísindavefurinn, 27. maí 2002. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=2426.

Sigurður Steinþórsson. (2002, 27. maí). Hvað er vatnsrof? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=2426

Sigurður Steinþórsson. „Hvað er vatnsrof?“ Vísindavefurinn. 27. maí. 2002. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=2426>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað er vatnsrof?
Í kennslubók Þorleifs Einarssonar Jarðfræði: saga bergs og lands (1. útg., 1968) er skilgreint hvað átt er við með hugtökunum veðrun og rof. Þar segir:

Molnun og tæring bergs á staðnum nefnist veðrun. Venjulega verða þó bergmylsna og uppleyst efni ekki lengi kyrr á veðrunarstaðnum, heldur flytjast þau burt, t.d. með vindi, vatni, jöklum eða undan brekku fyrir áhrif þyngdaraflsins. Bergmylsnan máist, meðan á flutningi stendur, og sverfur um leið bergið, sem hún berst yfir. Brottflutningur bergmylsnu, með hverjum hætti sem hann verður, nefnist rof, en það vinnur að sléttun jarðaryfirborðsins og gætir þess venjulega mest í fjöllum og mishæðum.

Ef innrænu öflin gripu ekki inn í, væri jarðaryfirborðið fyrir löngu orðið marflatt. En sökum ævarandi upphleðslu af völdum jarðelds, samankýtingar jarðlaga við fellingahreyfingar og jafnvægisviðleitni jarðskorpunnar er langt í frá, að rofið nái nokkurn tíma takmarki sínu. Álitið er, að rof nemi að meðaltali einum þykktarmetra á 15.000 árum á öllu yfirborði fasts lands.

Rof á einum stað hefur jafnan setlagamyndun á öðrum stað í för með sér. Setlagamyndun á sér einkum stað á láglendi, í stöðuvötnum og loks endanlega í sjó.
Orðið vatnsrof vísar til þess náttúrufyrirbæris sem rofinu veldur, það er að segja rennandi vatns. Rofmáttur straumvatna er mjög háður straumhraðanum. Þannig verður yfirleitt langmest rof í vorleysingum eða stórrigningum, en nánast ekkert þess á milli. Talið er að sum tilkomumikil árgljúfur hafi myndast í hamfarahlaupum. Gott dæmi um það eru gljúfur Jökulsár á Fjöllum neðan Dettifoss, sem talið er hafa myndast í gríðarlegu og skammæju vatnsflóði sem varð þegar jökulstífla sem hélt uppi stöðuvatni brast og vatnið tæmdist á fáeinum klukkustundum. Dæmi um hlaup úr jökulstífluðum stöðuvötnum eru Grímsvatnahlaup í Skeiðará, Skaftárhlaup og hlaup úr Grænalóni í ána Súlu. Miðað við raunveruleg hamfarahlaup eru þó jafnvel Grímsvatnahlaupin 1938 og 1996 nánast í mýflugumynd.

Vatnsrof verður með ýmsu móti. „Dropinn holar steininn,“ segir máltækið, „ekki með afli heldur með því að falla oft.“ En burðargeta straumvatna vex hratt með straumhraðanum. Í flóðum skoppa grjót og hnullungar eftir farveginum sem eykur mjög rofmáttinn. Í hringiðum getur slíkt grjót grafið skessukatla (djúpar, sívalar holur, oft um hálfur meter í þvermál) í harða klöpp á skömmum tíma.

Þá grafa ár undan bökkum eða botnlagi þannig að þeir hrynja og árnar breikka þannig farveg sinn eða dýpka. Dæmi um hið síðarnefnda er Gullfoss í Hvítá. Þar hagar svo til að hvort hinna tveggja þrepa fossins fellur fram af hraunlagi sem hvílir á linara setbergslagi. Fossinn grefur setið undan hraunlaginu uns það hrynur. Þannig er hann að „éta sig“ smám saman upp eftir farvegi árinnar og dýpka hann í leiðinni um 50 metra. Þorleifur Einarsson sýndi fram á það með gjóskulagarannsóknum að hið þriggja kílómetra langa Gullfossgljúfur hefði myndast með þessum hætti á 10.000 árum.

Í raunverulegum hamfarahlaupum margfaldast rofmátturinn þar sem straumhraðinn verður slíkur að vatnið nánast sprengir bergið með „sogkrafti“, líkt og „drullusokkur“ vinnur á stífluðum leiðslum.

Sjá einnig svör sama höfundar við spurningunum: