Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Hvað er gullfótur og hverjir eru kostir hans og gallar?

Gylfi Magnússon

Sagt er að gjaldmiðill sé á gullfæti ef að baki hans er gullforði þannig að sérhver peningaseðill eða mynt er í reynd ávísun á tiltekið magn af gulli. Hugsum okkur til dæmis að ríki nokkuð eigi eitt tonn af gulli og að gjaldmiðill þess, sem við getum kallað skildinga, sé á gullfæti. Gefum okkur enn fremur að hver skildingur sé ávísun á eitt gramm af gulli. Vegna þess að eitt tonn er jafnt og milljón grömm getur þetta ríki ekki gefið út meira en milljón skildinga, nema það eignist meira gull. Þetta hefur ýmsa kosti, til dæmis er loku fyrir það skotið að ríkið prenti endalaust af skildingum og valdi þannig mikilli verðbólgu, að minnsta kosti svo framarlega sem ríkið tekur gjaldmiðil sinn ekki af gullfætinum. Ef nágrannaríki þess hefur sinn gjaldmiðil einnig á gullfæti er auðvelt að reikna út gengi gjaldmiðlanna tveggja. Gerum til dæmis ráð fyrir að í því ríki séu notaðir dalir og hver dalur sé ávísun á tvö grömm af gulli. Þá er augljóst að hver dalur er tvöfalt meira virði en skildingur og gengið hlýtur að endurspegla það.

Áður fyrr var mjög algengt að gjaldmiðlar væru á gullfæti. Af ýmsum ástæðum hefur verið horfið frá því. Helsti kosturinn við gullfót er ósveigjanleikinn sem til dæmis kemur í veg fyrir óhóflega seðlaprentun. Þessi ósveigjanleiki er jafnframt einnig helsti gallinn við gullfót. Einnig er það galli að gull er í eðli sínu gagnslítill málmur, einna helst nytsamlegur í skrautmuni og erfitt að sjá hvers vegna verðmæti slíkra muna ætti að vera hornsteinn allrar efnahagsstarfsemi. Þá geta sveiflur í framboði á gulli, til dæmis þegar nýjar námur finnast, valdið óþarfa sveiflum í verðlagi.

Fyrir þennan hundrað dala seðil má fá 100 gullpeninga.

Meðan gjaldmiðlar voru flestir á gullfæti voru mikilvægustu eignir seðlabanka gullforði. Það er liðin tíð þótt flestir seðlabankar eigi enn eitthvað af gulli. Nú er mikilvægasta eign Seðlabanka Íslands gjaldeyrisforði landsmanna, sem varðveittur er einkum sem erlend verðbréf og innstæður hjá erlendum bönkum og sjóðum. Í lok ársins 2001 átti Seðlabanki Íslands 61.558 únsur (1.915 kg eða tæp tvö tonn) af gulli sem metnar voru á 1.752 milljónir króna. Gullið er að mestu leigt út gegn gjaldi. Þetta er mjög lítill hluti af heildareignum bankans. Á sama tíma voru erlendar eignir hans um 37 milljarðar króna af 116 milljarða króna heildareignum og eigið fé var um 34 milljarðar króna.

Silfurfótur er hliðstæður gullfæti og margar aðrar tilraunir hafa verið gerðar með góðmálma og vörur sem undirstöðu gjaldmiðla. Nú tíðkast hins vegar að styðjast við gjaldmiðla sem byggja eingöngu á ákvörðun tiltekins ríkis um að þeir skuli vera gjaldgengir í því ríki Það fyrirkomulag hefur verið kallað fótalaust fé (e. fiat money, alls óskylt samnefndum ítölskum bílaverksmiðjum). Fótalaust fé byggir eingöngu á trausti manna á þessu tiltekna ríki og stofnunum þess, sérstaklega seðlabanka. Einkum skiptir máli hvaða trú menn hafa á því að útgáfu á gjaldmiðlinum verði stillt í hóf. Síðasti gjaldmiðill sem verulegu máli skiptir fór endanlega af gullfæti 15. ágúst árið 1971 þegar Richard M. Nixon Bandaríkjaforseti lýsti því yfir að ríkið myndi ekki lengur skipta á gulli og dollurum.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Mynd:

Höfundur

Gylfi Magnússon

prófessor í hagfræði við HÍ

Útgáfudagur

7.8.2002

Spyrjandi

Árni Helgason
Jón Axel Ólafsson

Tilvísun

Gylfi Magnússon. „Hvað er gullfótur og hverjir eru kostir hans og gallar?“ Vísindavefurinn, 7. ágúst 2002. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=2632.

Gylfi Magnússon. (2002, 7. ágúst). Hvað er gullfótur og hverjir eru kostir hans og gallar? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=2632

Gylfi Magnússon. „Hvað er gullfótur og hverjir eru kostir hans og gallar?“ Vísindavefurinn. 7. ágú. 2002. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=2632>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað er gullfótur og hverjir eru kostir hans og gallar?
Sagt er að gjaldmiðill sé á gullfæti ef að baki hans er gullforði þannig að sérhver peningaseðill eða mynt er í reynd ávísun á tiltekið magn af gulli. Hugsum okkur til dæmis að ríki nokkuð eigi eitt tonn af gulli og að gjaldmiðill þess, sem við getum kallað skildinga, sé á gullfæti. Gefum okkur enn fremur að hver skildingur sé ávísun á eitt gramm af gulli. Vegna þess að eitt tonn er jafnt og milljón grömm getur þetta ríki ekki gefið út meira en milljón skildinga, nema það eignist meira gull. Þetta hefur ýmsa kosti, til dæmis er loku fyrir það skotið að ríkið prenti endalaust af skildingum og valdi þannig mikilli verðbólgu, að minnsta kosti svo framarlega sem ríkið tekur gjaldmiðil sinn ekki af gullfætinum. Ef nágrannaríki þess hefur sinn gjaldmiðil einnig á gullfæti er auðvelt að reikna út gengi gjaldmiðlanna tveggja. Gerum til dæmis ráð fyrir að í því ríki séu notaðir dalir og hver dalur sé ávísun á tvö grömm af gulli. Þá er augljóst að hver dalur er tvöfalt meira virði en skildingur og gengið hlýtur að endurspegla það.

Áður fyrr var mjög algengt að gjaldmiðlar væru á gullfæti. Af ýmsum ástæðum hefur verið horfið frá því. Helsti kosturinn við gullfót er ósveigjanleikinn sem til dæmis kemur í veg fyrir óhóflega seðlaprentun. Þessi ósveigjanleiki er jafnframt einnig helsti gallinn við gullfót. Einnig er það galli að gull er í eðli sínu gagnslítill málmur, einna helst nytsamlegur í skrautmuni og erfitt að sjá hvers vegna verðmæti slíkra muna ætti að vera hornsteinn allrar efnahagsstarfsemi. Þá geta sveiflur í framboði á gulli, til dæmis þegar nýjar námur finnast, valdið óþarfa sveiflum í verðlagi.

Fyrir þennan hundrað dala seðil má fá 100 gullpeninga.

Meðan gjaldmiðlar voru flestir á gullfæti voru mikilvægustu eignir seðlabanka gullforði. Það er liðin tíð þótt flestir seðlabankar eigi enn eitthvað af gulli. Nú er mikilvægasta eign Seðlabanka Íslands gjaldeyrisforði landsmanna, sem varðveittur er einkum sem erlend verðbréf og innstæður hjá erlendum bönkum og sjóðum. Í lok ársins 2001 átti Seðlabanki Íslands 61.558 únsur (1.915 kg eða tæp tvö tonn) af gulli sem metnar voru á 1.752 milljónir króna. Gullið er að mestu leigt út gegn gjaldi. Þetta er mjög lítill hluti af heildareignum bankans. Á sama tíma voru erlendar eignir hans um 37 milljarðar króna af 116 milljarða króna heildareignum og eigið fé var um 34 milljarðar króna.

Silfurfótur er hliðstæður gullfæti og margar aðrar tilraunir hafa verið gerðar með góðmálma og vörur sem undirstöðu gjaldmiðla. Nú tíðkast hins vegar að styðjast við gjaldmiðla sem byggja eingöngu á ákvörðun tiltekins ríkis um að þeir skuli vera gjaldgengir í því ríki Það fyrirkomulag hefur verið kallað fótalaust fé (e. fiat money, alls óskylt samnefndum ítölskum bílaverksmiðjum). Fótalaust fé byggir eingöngu á trausti manna á þessu tiltekna ríki og stofnunum þess, sérstaklega seðlabanka. Einkum skiptir máli hvaða trú menn hafa á því að útgáfu á gjaldmiðlinum verði stillt í hóf. Síðasti gjaldmiðill sem verulegu máli skiptir fór endanlega af gullfæti 15. ágúst árið 1971 þegar Richard M. Nixon Bandaríkjaforseti lýsti því yfir að ríkið myndi ekki lengur skipta á gulli og dollurum.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Mynd:...