Sólin Sólin Rís 05:19 • sest 21:35 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:18 • Sest 04:56 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:07 • Síðdegis: 19:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:08 • Síðdegis: 13:14 í Reykjavík

Hvaða hluti Rússlands tilheyrir Kákasus?

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir

Rússland, eða Rússneska ríkjasambandið (e. Russian Federation) eins og landið heitir formlega, skiptist niður í 89 stjórnsýslueiningar sem hafa mismunandi mikið sjálfræði í eigin málum. Mest sjálfstæði hafa lýðveldin sem eru 21 talsins. Þau hafa eigin stjórnarskrá, þing og forseta en lúta Moskvustjórninni í utanríkismálum.

Sjö þessara sjálfsstjórnarlýðvelda teljast til rússneska hluta Kákasus en Kákasus er svæðið sem liggur á milli Svartahafs og Kaspíahafs. Þau eru frá vestri til austurs:
  • Adygea
  • Karachay-Cherkessía
  • Kabardínó-Balkaría
  • Norður-Ossetía
  • Ingúsetía
  • Tsjetsjenía
  • Dagestan
Í suðurhluta Kákasus eru hins vegar fyrrum Sovétlýðveldin Armenía, Aserbaídsjan og Georgía sem hafa verið sjálfstæð frá árinu 1991.



Búseta í norðurhluta Kákasus, eða Circaucasia eins og svæðið er einnig nefnt, á sér afar langa og flókna sögu sem nær árþúsundir aftur í tímann. Hér verður ekki gerð grein fyrir þeirri sögu heldur er ætlunin fyrst og fremst að segja í örstuttu máli frá hverju lýðveldi fyrir sig og því fólki sem þar býr. Þó má nefna að þær mörgu þjóðir sem byggja svæðið eiga það sameiginlegt að hafa verið undir rússneskri stjórn frá því á 18. og 19. öld, sumar viljugar en aðrar nauðugar. Andstaða við yfirráð Rússa hefur lengi verið við lýði í Kákasus og frá því að Sovétríkin liðuðust í sundur hefur það verið eitt helsta ólgusvæðið innan Rússlands.

Að einhverju leyti má rekja þá spennu og í sumum tilfellum átök sem hafa verið á milli hópa til þess að svæðið er byggt mörgum þjóðum og þjóðarbrotum sem ekki lifa alltaf í sátt og samlyndi. Þar koma meðal annars við sögu bæði trúarbrögð og sjálfstæðiskröfur eins og Guðmundur Ólafsson fjallar um í svari sínu við spurningunni Hvernig og hvers vegna hófst stríðið milli Tsjetsjena og Rússa?

Ekki bætir úr skák að Tsjetsjenar, Ingúsar, Balkar og Karachayar urðu illa úti í seinni heimsstyrjöldinni þegar Stalín sakaði þessar þjóðir um samvinnu við nasista. Í kjölfarið voru þær fluttar nauðungarflutningum austur á sléttur Mið-Asíu og löndum þeirra skipt á milli nágrannaþjóðanna. Í valdatíð Khrústsjovs árið 1957 fengu þessar þjóðir að snúa heim aftur eftir 13 ára útlegð frá átthögunum og þurftu þá að koma sér fyrir upp á nýtt á svæðum sem áður höfðu verið þeirra en voru nú byggð öðrum. Þessir flutningar og skipting lands koma við sögu í deilum og átökum enn þann dag í dag.

Í þessu svari verður fjallað stuttlega um rússnesku lýðveldin þrjú í norðvesturhluta Kákasus, það er Adygeu, Karachay-Cherkessíu og Kabardínó-Balkaríu en þeir sem vilja lesa um hin fjögur, það er Norður-Ossetíu, Ingúsetíu, Tsjetsjeníu og Dagestan, geta smellt á þennan tengil.

Rétt er að taka fram að erfitt er að finna nýlegar samhljóða tölfræðiupplýsingar um mörg lýðveldanna, til dæmis eru upplýsingar um fólksfjölda og hvernig skiptingin er á milli þjóðarbrota nokkuð á reiki. Upplýsingar um þetta efni verður því að skoðast með þeim fyrirvara.

Adygea er lítið sjálfsstjórnarlýðveldi í norðvestur Kákasus, um 7.600 km2 að stærð og er höfuðborg þess Maikop. Adygea er umlukin stærra svæði sem nefnist Krasnodar Krai en það er í heimildum ekki talið til Kákasushluta Rússlands.



Íbúar Adygeu voru um 447.000 talsins árið 2002, þar af voru rúmir tveir þriðju hlutar Rússar. Um fimmtungur íbúanna eru Adygear en þeir eru sirkassískir að uppruna rétt eins og Kabardínar í lýðveldinu Kabardínó-Balkaríu og Cherkessar í Karachay-Cherkessíu. Aðrir hópar í Adygeu eru meðal annars Úkraínumenn og Armenar.

Adygear eiga sitt eigið tungumál sem ásamt rússnesku er opinbert mál í landinu. Flestir Adygear eru múslimar en erfitt er að afla heimilda um hvaða trúarbrögð aðrir hópar í landinu aðhyllast.

Karachay-Cherkessía er austan við Adygeu, um 14.100 km2 að stærð og er höfuðborg þess Cherkessk. Íbúar Karachay-Cherkessíu voru tæplega 440.000 árið 2002. Fjölmennastir eru Karachayar en þeir eru um 38% landsmanna. Karachayar eru skyldir Bölkum sem búa í Kabardínó-Balkaríu og tala tyrkneskt mál rétt eins og þeir. Hitt þjóðarbrotið sem á heimkynni sín í Karachay-Cherkessíu eru Cherkessar sem eru afkomendur Sirkassa, náskyldir Adygeum og Kabardínum og tala kákasískt mál. Cherkessar eru um eða yfir 10% landsmanna. Um eða innan við 40% íbúanna eru Rússar auk þess sem önnur fámennari þjóðarbrot búa á svæðinu.

Nokkur ólga hefur verið á milli þjóðarbrota í Karachay-Cherkessíu sem meðal annars kom í ljós í forsetakosningum árið 1999 þar sem deilt var um úrslit og lögmæti kosninganna.



Kabardínó-Balkaría er 12.500 km2 að stærð og liggur austan Karachay-Cherkessíu. Hæsti tindur Evrópu, Elbrus, liggur á mörkum þessara tveggja lýðvelda. Höfuðborg Kabardínó-Balkaríu er Nalchik en stjórnsýslan fyrir Balkaríu hluta lýðveldisins er í borginni Tyrnyauz.

Íbúar Kabardínó-Balkaríu eru á bilinu 800.000-900.000. Á milli 40 og 50% þeirra eru Kabardínar að uppruna, Kákasusþjóð komin af Sirkassíumönnum. Tungumál þeirra er kabardínska en hún tilheyrir flokki norðvesturkákasískra mála. Hin þjóðin sem á heimkynni sín á þessu svæði eru Balkar. Þeir eru innan við 10% íbúanna og tungamál þeirra tilheyrir tyrkneskum málum. Um þriðjungur íbúanna eru rússneskir, auk annarra fámennari hópa. Meirihluti íbúanna eru múslimar en þó er lítill hluti Kabardína kristinn. Ekki er getið um það í heimildum hvort rússneski hluti íbúanna tilheyrir einhverjum ákveðnum trúarbrögðum.



Þegar Sovétríkin liðuðust í sundur var áhugi bæði meðal Kabardína og Balkana að stofna sitt hvort lýðveldið en úr því varð ekki. Nokkurrar spennu hefur gætt á milli hópanna af þeim sökum en ekki hefur komið til átaka.

Hér hefur aðeins verið fjallað stuttlega um vesturhluta rússneska Kákasus. Í eftirfarandi heimildum er hægt að lesa nánar um rússnesku Kákasuslýðveldin, sögu þeirra, náttúrfar, stjórnmál, efnahagsmál og margt fleira. Athugið að í fyrstu tveimur heimildunum þarf að slá inn leitarorð.

Myndir:

Önnur svör um Kákasus á Vísindavefnum eftir sama höfund:Einnig má benda á svör Guðmundar Ólafssonar við spurningunum:

Höfundur

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir

landfræðingur og starfsmaður Vísindavefsins

Útgáfudagur

18.10.2004

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hvaða hluti Rússlands tilheyrir Kákasus? “ Vísindavefurinn, 18. október 2004. Sótt 25. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=4562.

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. (2004, 18. október). Hvaða hluti Rússlands tilheyrir Kákasus? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=4562

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hvaða hluti Rússlands tilheyrir Kákasus? “ Vísindavefurinn. 18. okt. 2004. Vefsíða. 25. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=4562>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvaða hluti Rússlands tilheyrir Kákasus?
Rússland, eða Rússneska ríkjasambandið (e. Russian Federation) eins og landið heitir formlega, skiptist niður í 89 stjórnsýslueiningar sem hafa mismunandi mikið sjálfræði í eigin málum. Mest sjálfstæði hafa lýðveldin sem eru 21 talsins. Þau hafa eigin stjórnarskrá, þing og forseta en lúta Moskvustjórninni í utanríkismálum.

Sjö þessara sjálfsstjórnarlýðvelda teljast til rússneska hluta Kákasus en Kákasus er svæðið sem liggur á milli Svartahafs og Kaspíahafs. Þau eru frá vestri til austurs:
  • Adygea
  • Karachay-Cherkessía
  • Kabardínó-Balkaría
  • Norður-Ossetía
  • Ingúsetía
  • Tsjetsjenía
  • Dagestan
Í suðurhluta Kákasus eru hins vegar fyrrum Sovétlýðveldin Armenía, Aserbaídsjan og Georgía sem hafa verið sjálfstæð frá árinu 1991.



Búseta í norðurhluta Kákasus, eða Circaucasia eins og svæðið er einnig nefnt, á sér afar langa og flókna sögu sem nær árþúsundir aftur í tímann. Hér verður ekki gerð grein fyrir þeirri sögu heldur er ætlunin fyrst og fremst að segja í örstuttu máli frá hverju lýðveldi fyrir sig og því fólki sem þar býr. Þó má nefna að þær mörgu þjóðir sem byggja svæðið eiga það sameiginlegt að hafa verið undir rússneskri stjórn frá því á 18. og 19. öld, sumar viljugar en aðrar nauðugar. Andstaða við yfirráð Rússa hefur lengi verið við lýði í Kákasus og frá því að Sovétríkin liðuðust í sundur hefur það verið eitt helsta ólgusvæðið innan Rússlands.

Að einhverju leyti má rekja þá spennu og í sumum tilfellum átök sem hafa verið á milli hópa til þess að svæðið er byggt mörgum þjóðum og þjóðarbrotum sem ekki lifa alltaf í sátt og samlyndi. Þar koma meðal annars við sögu bæði trúarbrögð og sjálfstæðiskröfur eins og Guðmundur Ólafsson fjallar um í svari sínu við spurningunni Hvernig og hvers vegna hófst stríðið milli Tsjetsjena og Rússa?

Ekki bætir úr skák að Tsjetsjenar, Ingúsar, Balkar og Karachayar urðu illa úti í seinni heimsstyrjöldinni þegar Stalín sakaði þessar þjóðir um samvinnu við nasista. Í kjölfarið voru þær fluttar nauðungarflutningum austur á sléttur Mið-Asíu og löndum þeirra skipt á milli nágrannaþjóðanna. Í valdatíð Khrústsjovs árið 1957 fengu þessar þjóðir að snúa heim aftur eftir 13 ára útlegð frá átthögunum og þurftu þá að koma sér fyrir upp á nýtt á svæðum sem áður höfðu verið þeirra en voru nú byggð öðrum. Þessir flutningar og skipting lands koma við sögu í deilum og átökum enn þann dag í dag.

Í þessu svari verður fjallað stuttlega um rússnesku lýðveldin þrjú í norðvesturhluta Kákasus, það er Adygeu, Karachay-Cherkessíu og Kabardínó-Balkaríu en þeir sem vilja lesa um hin fjögur, það er Norður-Ossetíu, Ingúsetíu, Tsjetsjeníu og Dagestan, geta smellt á þennan tengil.

Rétt er að taka fram að erfitt er að finna nýlegar samhljóða tölfræðiupplýsingar um mörg lýðveldanna, til dæmis eru upplýsingar um fólksfjölda og hvernig skiptingin er á milli þjóðarbrota nokkuð á reiki. Upplýsingar um þetta efni verður því að skoðast með þeim fyrirvara.

Adygea er lítið sjálfsstjórnarlýðveldi í norðvestur Kákasus, um 7.600 km2 að stærð og er höfuðborg þess Maikop. Adygea er umlukin stærra svæði sem nefnist Krasnodar Krai en það er í heimildum ekki talið til Kákasushluta Rússlands.



Íbúar Adygeu voru um 447.000 talsins árið 2002, þar af voru rúmir tveir þriðju hlutar Rússar. Um fimmtungur íbúanna eru Adygear en þeir eru sirkassískir að uppruna rétt eins og Kabardínar í lýðveldinu Kabardínó-Balkaríu og Cherkessar í Karachay-Cherkessíu. Aðrir hópar í Adygeu eru meðal annars Úkraínumenn og Armenar.

Adygear eiga sitt eigið tungumál sem ásamt rússnesku er opinbert mál í landinu. Flestir Adygear eru múslimar en erfitt er að afla heimilda um hvaða trúarbrögð aðrir hópar í landinu aðhyllast.

Karachay-Cherkessía er austan við Adygeu, um 14.100 km2 að stærð og er höfuðborg þess Cherkessk. Íbúar Karachay-Cherkessíu voru tæplega 440.000 árið 2002. Fjölmennastir eru Karachayar en þeir eru um 38% landsmanna. Karachayar eru skyldir Bölkum sem búa í Kabardínó-Balkaríu og tala tyrkneskt mál rétt eins og þeir. Hitt þjóðarbrotið sem á heimkynni sín í Karachay-Cherkessíu eru Cherkessar sem eru afkomendur Sirkassa, náskyldir Adygeum og Kabardínum og tala kákasískt mál. Cherkessar eru um eða yfir 10% landsmanna. Um eða innan við 40% íbúanna eru Rússar auk þess sem önnur fámennari þjóðarbrot búa á svæðinu.

Nokkur ólga hefur verið á milli þjóðarbrota í Karachay-Cherkessíu sem meðal annars kom í ljós í forsetakosningum árið 1999 þar sem deilt var um úrslit og lögmæti kosninganna.



Kabardínó-Balkaría er 12.500 km2 að stærð og liggur austan Karachay-Cherkessíu. Hæsti tindur Evrópu, Elbrus, liggur á mörkum þessara tveggja lýðvelda. Höfuðborg Kabardínó-Balkaríu er Nalchik en stjórnsýslan fyrir Balkaríu hluta lýðveldisins er í borginni Tyrnyauz.

Íbúar Kabardínó-Balkaríu eru á bilinu 800.000-900.000. Á milli 40 og 50% þeirra eru Kabardínar að uppruna, Kákasusþjóð komin af Sirkassíumönnum. Tungumál þeirra er kabardínska en hún tilheyrir flokki norðvesturkákasískra mála. Hin þjóðin sem á heimkynni sín á þessu svæði eru Balkar. Þeir eru innan við 10% íbúanna og tungamál þeirra tilheyrir tyrkneskum málum. Um þriðjungur íbúanna eru rússneskir, auk annarra fámennari hópa. Meirihluti íbúanna eru múslimar en þó er lítill hluti Kabardína kristinn. Ekki er getið um það í heimildum hvort rússneski hluti íbúanna tilheyrir einhverjum ákveðnum trúarbrögðum.



Þegar Sovétríkin liðuðust í sundur var áhugi bæði meðal Kabardína og Balkana að stofna sitt hvort lýðveldið en úr því varð ekki. Nokkurrar spennu hefur gætt á milli hópanna af þeim sökum en ekki hefur komið til átaka.

Hér hefur aðeins verið fjallað stuttlega um vesturhluta rússneska Kákasus. Í eftirfarandi heimildum er hægt að lesa nánar um rússnesku Kákasuslýðveldin, sögu þeirra, náttúrfar, stjórnmál, efnahagsmál og margt fleira. Athugið að í fyrstu tveimur heimildunum þarf að slá inn leitarorð.

Myndir:

Önnur svör um Kákasus á Vísindavefnum eftir sama höfund:Einnig má benda á svör Guðmundar Ólafssonar við spurningunum: ...