Sólin Sólin Rís 05:22 • sest 21:31 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 23:11 • Sest 05:11 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:38 • Síðdegis: 18:56 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:39 • Síðdegis: 12:46 í Reykjavík

Getið þið sagt mér frá baráttunni um El Alamein?

Skúli Sæland

Oft er talað um orrustuna við El Alamein eða jafnvel orrusturnar tvær en í raun voru þrjár meginorrustur háðar við El Alamein seinni hluta ársins 1942. Sú fyrsta var 30. júní - 17. júlí þegar samveldisherinn náði að stöðva sókn möndulveldanna inn í Egyptaland, önnur orrustan var dagana 31. ágúst - 3. september þegar Möndulveldin gerðu úrslitatilraun til að brjóta varnir andstæðinganna á bak aftur og sú þriðja var 24. október - 4. nóvember þegar bandamenn sneru vörn í sókn og brutust í gegnum víglínur Þjóðverja og Ítala.

Bardagarnir mörkuðu ystu mörk sóknar Möndulveldanna við Miðjarðarhaf í síðari heimsstyrjöldinni og þar var síðasta víglína bandamanna við Súesskurðinn. Eftir ófarir Afríkuherja möndulveldanna tók við stöðugt undanhald þar til þeir gáfust upp fyrir bandamönnum í Túnis eftir harða lokabardaga.

Aðdragandinn

Þegar komið var fram á sumarið 1942 höfðu verið háðir ofsafengnir bardagar í Líbíu milli hersveita samveldisríkjanna og Möndulveldanna í meira en ár. Bardagarnir einkenndust af hraða og síbreytilegum aðstæðum frá degi til dags. Birgðaaðdrættir voru einn mikilvægasti þáttur átakanna og margoft kom það fyrir að skriðdrekar og önnur farartæki urðu eldsneytislaus í eyðimörkinni.

Til að birgja heri sína urðu Ítalir og Þjóðverjar að senda vistir og lið með skipum frá Ítalíu til hafnarborgarinnar Trípolí í Líbíu. Þetta reyndist þeim þó æ örðugra því Konunglegi breski flotinn (e. Royal navy) naut tæknilegra yfirburða á Miðjarðarhafinu auk þess sem kafbátar og flugvélar Breta sem komið hafði verið fyrir á Möltu sóttu að öllum birgðalestum Möndulveldanna sem sigldu nærri eyjunni. Í ofanálag voru Bretar byrjaðir að geta lesið dulmál andstæðinganna með aðstoð Ultra-hópsins (sjá svar við spurningunni Hvað er Enigma og hvaða þátt átti hún í seinni heimsstyrjöldinni?) og gátu þar af leiðandi setið fyrir skipalestum þeirra sem reyndu að sigla í skjóli myrkurs.

Þjóðverjar brugðust við með því að flytja flugdeildir til árása á Möltu og náðu að brjóta á bak aftur andóf liðssveita Breta. Afríkubrynhernum (þ. Panzerarmee Afrika), sem innihélt bæði öflugar þýskar hersveitir og ítalskar hersveitir (sjá nánar um uppbyggingu landhers í neðanmáli töflu seinna í svarinu), bárust því nægar vistir til að ráðast gegn áttunda her Breta sem þrátt fyrir hetjulega baráttu í eyðimörkinni, fyrst gegn liðssveitum Ítala og síðar gegn sameinuðum sveitum Ítala og Þjóðverja, hafði verið illa stjórnað. Þótt vígreyndar og frægar hersveitir á borð við 7. bryndeild Breta, sem fengið hafði viðurnefnið Eyðimerkurrotturnar, berðust hetjulega gátu þær ekki varist óvæntum áhlaupum hersveita Rommels og féll hafnarborgin Tobruk í austurhluta Líbíu. Yfirráð Breta yfir borginni höfðu verið möndulveldunum mikill þyrnir í augum og hertaka hennar varð til þess að Rommel yfirmanni Afríkubrynhersins var veitt stöðuhækkun og hann gerður að marskálki.

Rommel

Erwin Johannes Eugen Rommel marskálkur var einn eftirlætisherforingja Hitlers og hafði verið í nánasta starfsliði hans í upphafi valdatíma hans. Rommel hreifst sömuleiðis af Hitler þó hann væri ekki sanntrúaður nasisti. Hann var hins vegar framagjarn, ýtti undir áróður um sig og naut fyrir vikið mikillar lýðhylli heima í Þýskalandi þar sem hann var gjarnan kallaður Eyðimerkurrefurinn (þ. Wüstenfuch). Vegna þessa gat hann stundum haft áhrif á Hitler og gerði það til að mynda þegar hann fékk Foringjann og yfirherstjórnina til að falla frá undirbúningi að innrás í Möltu og samþykkja tafarlausa sókn inn í Egyptaland á eftir flýjandi andstæðingunum sumarið 1942.



Erwin Rommel (1891-1944) var einn færasti bryndeildarforingi Hitlers. Kröfur hans til sín og langvarandi vera í fremstu víglínu eyðilögðu þó heilsu hans og eftir að sókn hans lauk í Egyptalandi í september árið 1942 varð hann að leggjast á sjúkrahús heima í Þýskalandi. Sú sjúkrahúslega var þó ekki löng þar sem hann neyddist til að útskrifa sjálfan sig og halda fársjúkur á vígstöðvarnar þegar bandamenn gerðu gagnárás í október það sama ár.

Í Afríku þótti Rommel harður yfirmaður en gerði þó sömu kröfur til sín og undirmanna sinna. Hann var jafnan í fararbroddi herliðs síns þegar það sótti gegn andstæðingunum. Rommel trúði því að herforingi yrði að vera í miðdepli átaka til að geta tekið réttar ákvarðanir vegna síbreytilegra aðstæðna á vígvellinum og nýttist þetta sérlega vel í eyðimerkurhernaðinum þar sem hann kom andstæðingum sínum sífellt að óvörum. Þetta hafði þó þann ókost að hann skorti oft yfirsýn yfir heildarvígstöðuna, samstarf hans við eigið herráð var brotakennt og skipulagning hernaðaraðgerða miðað við birgðagetu herliðsins þótti gagnrýniverð.

Fyrsta orrustan um El Alamein

Þann 23. júní 1942 héldu þreyttar og birgðalitlar hersveitir Afríkubrynhersins yfir landamæri Egyptalands í kjölfar áttunda hersins. Síðasta varnarlína samveldishersins framan við ána Níl og stærstu borgir Egyptalands var við lestarstöðina við El Alamein um 230 km innan landamæra Egyptalands og Líbíu og 100 km frá Alexandríu. Skammt fyrir sunnan var Quattaradældin sem var 200 m djúp jarðvegsdæld ófær vélknúnum farartækjum. Bandamenn þurftu því ekki að óttast að Afríkubrynherinn kæmist fram hjá varnarlínu þeirra heldur yrði hann að brjóta sér leið í gegnum jarðsprengjubelti og víggirðingar þeirra.



Sögusvið átakanna í Noður-Afríku sumarið og haustið 1942.

Sir Claude Auchinleck yfirmanni herja Breta í Mið-Austurlöndum fannst nóg um ófarir samveldishersins síðustu vikna og rak Neil M. Ritchie undirhershöfðingja, yfirmann áttunda hersins, en tók sjálfur við herstjórninni. Baráttuandi hermannanna var í algeru lágmarki eftir röð ósigra og þeir töldu Rommel vera ofjarl bresku herforingjanna. Auchinleck tók til þess bragðs að dvelja á meðal hermanna sinna, sofa með þeim undir berum himni og sýna þeim að hann tæki heils hugar þátt í baráttunni með þeim.

Þetta hafði nokkur áhrif og þegar Afríkubrynherinn réðst gegn þeim 30. júní breytti Auchinleck út frá fyrri bardagavenjum samveldishersins og lét nú gera snarpar gagnárásir gegn lakari hersveitum Ítala. Ítölsku sveitirnar voru hvorki jafnvel búnar né eins vel stjórnað og þýskum vopnabræðrum þeirra og undanhald þeirra ógnaði baklandi Afríkubrynhersins. Rommel neyddist því til þess að koma sveitum bandamanna sinna stöðugt til aðstoðar. Eftir síendurteknar árásir og gagnárásir varð hlé á bardögum 17. júlí.

Montgomery

Þrátt fyrir að hafa stöðvað Afríkubrynherinn fékk Auchinleck ekki að njóta sigursins. Hann var gerður ábyrgur fyrir óförum undirmanna sinna fyrr um sumarið og fluttur til Indlands en í stað hans tóku hershöfðingjarnir sir Harold Leofric Rupert Alexander og Bernhard Law Montgomery við yfirstjórn hersafnaðar samveldisríkjanna í Mið-Austurlöndum og áttunda hersins.

Montgomery, eða Monty eins og hann var gjarnan kallaður, var sennilega einn færasti herforingi Breta. Öfugt við Auchinleck kunni hann að velja sér undirmenn og innan skamms hafði hann komið mönnum sem hann treysti og mat mikils í helstu stjórnunarstöður áttunda hersins.

Montgomery mat samband herforingja við óbreytta hermenn mikils og leitaði allra leiða til að styrkja baráttuanda þeirra jafnframt því sem hann lagði mikla áherslu á þjálfun og heræfingar. Hann þótti sérlega snjall í hefðbundnum bardögum þar sem hann gat gefið sér nægan tíma til undirbúnings en það háði honum óneitanlega að þegar hér var komið í stríðinu var mannfæð farin að hrjá breska herinn. Montgomery varð því að miða hernaðaraðgerðir sínar við að verjast sem mestu mannfalli og var oft full varkár. Telja margir að hann hafi látið skjóta sigra renna sér úr greipum með því að láta ekki kné fylgja kviði og sækja djarflega fram þegar varnir andstæðinganna voru við það að bresta og þetta hafi í raun valdið meira mannfalli og erfiðleikum þegar upp var staðið.

Montgomery þótti líka sjálfbirgingslegur sérvitringur sem átti það til að gera lítið úr gjörðum annarra um leið og hann eignaði sér heiðurinn af afrekum þeirra og var jafnan stormasamt í kringum hann á meðal bandamanna. Greri ekki um heilt á milli hans og sumra samverkamanna hans og bar hér helst á gagnrýni Bandaríkjamanna á störf hans í bardögunum í Normandí og Arnhem síðar í stríðinu.



Bernhard L. Montgomery (1887-1976) var einn litríkasti herforingi Breta. Hann lét stjórnmálamenn ekki segja sér fyrir verkum, aflaði sér takmarkalauss trúnaðar og trausts undirmanna sinna en var upp á kant við flesta jafningja sína.

Bardagarnir um Alam Halfa-hrygginn – önnur orrustan við El Alamein

Rommel og herforingjum hans var það ljóst að þeir væru í slæmri stöðu ef þeir biðu of lengi með að sækja gegn áttunda hernum eftir fyrstu orrustuna við El Alamein. Stöðugar vistir og vígtól bárust fjandmönnum þeirra á meðan aðdráttarleiðir þeirra sjálfra voru orðnar óhemjulangar auk þess sem hersveitir Breta á Möltu höfðu verið styrktar og ollu nú æ meiri skaða á skipalestum Möndulveldanna. Rommel afréð því að hefja sókn gegn samveldishernum áður en hernaðaruppbyggingu hans væri að fullu lokið. Var ætlunin að sækja yfir jarðsprengjubeltin sunnarlega á varnarlínu hans og sveigja síðan til norðurs og hertaka Alam Halfa-hrygginn þaðan sem stjórna mátti svæðinu að baki víglínu samveldishersins.

Vegna aðstoðar Ultra-hópsins var Montgomery og herliði hans hins vegar fullkunnugt um áætlunina. Sókn Afríkubrynhersins lenti því í ógöngum um leið og hún hófst þann 31. ágúst 1942. Erfiðlega gekk að hreinsa leið í gegnum jarðsprengjubeltið og neyddist Rommel til að sækja fyrr til norðurs en hann hafði ætlað sér en þar strandaði sókn hans.

Montgomery vildi ekki senda herlið í gagnárásir gegn þýsku bryndeildunum heldur ályktaði réttilega að öflugra væri að láta þýsku sveitirnar sækja að sterkum varnarlínum áttunda hersins. Þessar ófarir gerðu út um Afríkustríðið að mati von Mellenthins foringja í herráði Rommels og Rommel sá líka sitt óvænna og lét hætta við sóknina.

Gagnsókn áttunda hersins – þriðja orrustan við El Alamein

Afríkubrynherinn, sem hafði verið endurskírður þýsk-ítalski brynherinn (þ. Deutsch-Italiensiche Panzerarmee), vígbjóst nú kirfilega með víðtækum jarðsprengjubeltum og með því að styrkja veikari hersveitir Ítala með þýsku herliði. Skortur á eldsneyti og öðrum birgðum háði honum þó verulega. Einnig voru sárafáir skriðdrekar bardagahæfir og munaði hér sérstaklega um nýjustu gerðir bryndreka af tegundunum pzkfw III og IV (þ. panzerkampfwagen, ísl. bryndreki).

Áttundi herinn hélt aftur á móti áfram að birgja sig upp og stunda heræfingar. Nú svall mönnum vígmóður og þess var krafist af Montgomery að hann sækti fram hið fyrsta. Hann stóð hins vegar keikur gegn því og hótaði uppsögn fengi hann ekki að ákveða árásartímann sjálfur. Hann fékk sitt fram og aðgerð Léttfeti (e. Lightfoot) hófst aðfaranótt 24. október þegar hermenn hans voru reiðubúnir. Þá voru yfirburðir áttunda hersins algerir því þeir höfðu meira en tvöfaldan liðsstyrk mótherjanna á öllum sviðum og raunar gott betur.

Aðgerð Léttfeti gerði ráð fyrir umfangsmiklum blekkingaraðgerðum sem miðuðu að því að telja andstæðingunum trú um að árásin hæfist ekki strax. Aðfararnótt 24. október myndi síðan 30. stórdeildin ráðast gegn varnarlínu Afríkubrynhersins rétt norðan miðju víglínunnar að lokinni öflugustu stórskotahríð Afríkustríðsins. Var stórdeildinni ætlað að opna leið fyrir 10. stórdeildina sem átti að sækja fram aftan við víglínur andstæðinganna og brjóta á bak aftur brynlið þeirra. Á meðan þessu fór fram átti 13. stórdeildin að halda uppi stöðugum árásum við suðurenda varnarlínunnar til að koma í veg fyrir að hægt væri að senda liðsauka þaðan til norðurs gegn meginsókninni. Í lofti höfðu flugherir Breta og Bandaríkjamanna náð algerum yfirburðum og áttu þeir að einbeita sér að því að ráðast gegn öllum liðs- og birgðaflutningum Möndulveldanna að baki víglínunnar.

Helstu landherir og yfirmenn þeirra í síðustu átökunum við

El Alamein 23. október - 4. nóvember 1942.1
Möndulveldin
Þýsk-ítalski brynherinn2 Georg Stumme hershöfðingi 22.09.’42

Wilhelm Ritter von Thoma hershöfðingi 24.10.’42

Erwin Rommel marskálkur 25.10.’423
Þýska Afríkustórdeildin Wilhelm Ritter von Thoma hershöfðingi
10. ítalska stórdeildin E. Frattini hershöfðingi
20. vélknúna ítalska stórdeildin G. de Stephanis undirhershöfðingi
21. ítalska stórdeildinA. Gloria hershöfðingi
Samveldislöndin
Hersafnaður Breta í Mið-Austurlöndumsir Harold Alexander hershöfðingi
Áttundi herinn Bernhard L. Montgomery hershöfðingi
10. stórdeildin sir Herbert Lumsden undirhershöfðingi
13. stórdeildin Brian Horrocks hershöfðingi
30. stórdeildin Oliver Leese undirhershöfðingi
  1. Hersafnaður (e. army group, þ. Heeresgruppen) var stærsta stjórnskipulega eining landherja. Undir hann heyrðu herir (e. armies, þ. Armeen) sem svo höfðu stórdeildir (e. corps, þ. Korps) sem stærstu einingar. Stórdeildirnar stjórnuðu herdeildum (e. division, þ. Division) bæði fótgönguliðsherdeildum og bryndeildum en innan þeirra voru stórfylki (e. brigade) og hersveitir (þ. Regiment) stærst. Að auki var fjöldi smærri liðseininga sem óþarfi er að telja upp hér en þær gátu þó lotið beinni stjórn stærstu eininga landhersins. Af ofangreindum liðsdeildum voru það einungis smærri einingar sem voru af staðlaðri stærð en stærri einingarnar voru síbreytilegar eftir því hvað þótti henta verkefnum þeirra þá stundina.
  2. Fræðilega séð heyrði þýsk-ítalski brynherinn undir yfirstjórn Ítala í Róm og Þjóðverja í Berlín en reyndin var sú að Rommel bar aðgerðir sínar aldrei undir ítalska yfirmenn sína.
  3. Dagsetningarnar vísa til þess þegar viðkomandi herforingi tók við stjórn. Stumme gegndi stöðu Rommels sem var í veikindaleyfi þegar árásin áttunda hersins hófst. Hann lést fyrstu nóttina á flótta undan hersveitum bandamanna og von Thoma tók tímabundið við herstjórn eða þar til Rommel mætti á vettvang.

Líkt og þegar Þjóðverjar sóttu við Alam Halfa lenti samveldisherinn í töluverðu basli við að hreinsa jarðsprengjubeltin. Montgomery taldi sig ekki geta beðið eftir að hreinsun yrði fulllokið og sendi 30. stórdeildina af stað áður en verkinu var lokið. Allt kom fyrir ekki og tjón herdeilda samveldishersins var óhugnanlegt. Lumsden undirhershöfðingi vildi stöðva sóknina en Montgomery gerði honum og öðrum foringjum fyllilega ljóst að þó þeir misstu megnið af bryntækjum sínum hefðu þeir samt sem áður yfirburði yfir andstæðinga sína. Sóknin yrði að halda áfram og ef þeir teldu sig ekki menn til þess yrðu aðrir fengnir til starfans.

Áfram var haldið og nyrst tókst 9. áströlsku fótgönguliðsdeildinni hvað best að sækja fram þrátt fyrir mikið mannfall og var hún nærri komin í gegnum víglínu möndulveldanna. Rommel flutti því allt tiltækt brynlið norður á bóginn til að mæta andstæðingnum. Þetta var áhættusamt því ekki var nægilegt eldsneyti til þess að bregðast við ef samveldisherinn brytist í gegn á suðurhluta víglínunnar þar sem nú voru einungis ítalskar herdeildir til varnar. Montgomery breytti því um sóknaráætlun og í aðgerð Stóráhlaup (e. Supercharge) var sóknarþunganum beint suður á bóginn gegn ítölsku herdeildunum með 30. stórdeildina og 2. nýsjálensku fótgönguliðsherdeildina í fararbroddi. Árásin hófst 2. nóvember og hjó djúpt skarð í varnir þýsk-ítalska brynhersins.

Þrátt fyrir heiftarlegar gagnsóknir bryndeilda Rommels voru úrslitin ráðin. Þýsk-ítalski brynherinn hafði nú einungis um 35 þýska og 100 ítalska skriðdreka gegn mörg hundruð skriðdrekum áttunda hersins. Rommel fyrirskipaði því undanhald síðar um kvöldið en daginn eftir kom skipun frá Hitler um að halda kyrru fyrir og verjast. Rommel hélt því áfram að verjast enda hafði hann ávallt verið trúr foringja sínum. Honum var þó brugðið og 4. nóvember afréð hann endanlega að halda undan eftir skefjalaust mannfall og tókst að fá samþykki Hitlers fyrir því daginn eftir. Við tók stöðugt undanhald meðfram allri strönd Norður-Afríku til Túnis þar sem brynherinn mætti herjum bandamanna sem gengið höfðu á land í Norðvestur-Afríku. Þar urðu snarpir bardagar sem enduðu með því að herir Möndulveldanna játuðu sig endanlega sigraða og bandamenn náðu Afríku allri á sitt vald.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir og myndir:

Upprunalega spurningin hjóðaði svona:
Mig langar að vita meira um baráttuna um El Alamein í seinni heimsstyrjöldinni. Getið þið einnig sagt mér frá herforingjunum sem börðust þar?

Hér er einnig svarað spurningunni:
Rommel og Monty háðu harða orrustu við El Alamein. Hver urðu úrslit orrustunnar og hafði hún mikil áhrif á eyðimerkurstríðið?

Höfundur

Skúli Sæland

sagnfræðingur

Útgáfudagur

26.5.2005

Spyrjandi

Heimir Pálmason, f. 1988
Helgi Jósepsson

Tilvísun

Skúli Sæland. „Getið þið sagt mér frá baráttunni um El Alamein?“ Vísindavefurinn, 26. maí 2005. Sótt 24. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=5019.

Skúli Sæland. (2005, 26. maí). Getið þið sagt mér frá baráttunni um El Alamein? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=5019

Skúli Sæland. „Getið þið sagt mér frá baráttunni um El Alamein?“ Vísindavefurinn. 26. maí. 2005. Vefsíða. 24. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=5019>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Getið þið sagt mér frá baráttunni um El Alamein?
Oft er talað um orrustuna við El Alamein eða jafnvel orrusturnar tvær en í raun voru þrjár meginorrustur háðar við El Alamein seinni hluta ársins 1942. Sú fyrsta var 30. júní - 17. júlí þegar samveldisherinn náði að stöðva sókn möndulveldanna inn í Egyptaland, önnur orrustan var dagana 31. ágúst - 3. september þegar Möndulveldin gerðu úrslitatilraun til að brjóta varnir andstæðinganna á bak aftur og sú þriðja var 24. október - 4. nóvember þegar bandamenn sneru vörn í sókn og brutust í gegnum víglínur Þjóðverja og Ítala.

Bardagarnir mörkuðu ystu mörk sóknar Möndulveldanna við Miðjarðarhaf í síðari heimsstyrjöldinni og þar var síðasta víglína bandamanna við Súesskurðinn. Eftir ófarir Afríkuherja möndulveldanna tók við stöðugt undanhald þar til þeir gáfust upp fyrir bandamönnum í Túnis eftir harða lokabardaga.

Aðdragandinn

Þegar komið var fram á sumarið 1942 höfðu verið háðir ofsafengnir bardagar í Líbíu milli hersveita samveldisríkjanna og Möndulveldanna í meira en ár. Bardagarnir einkenndust af hraða og síbreytilegum aðstæðum frá degi til dags. Birgðaaðdrættir voru einn mikilvægasti þáttur átakanna og margoft kom það fyrir að skriðdrekar og önnur farartæki urðu eldsneytislaus í eyðimörkinni.

Til að birgja heri sína urðu Ítalir og Þjóðverjar að senda vistir og lið með skipum frá Ítalíu til hafnarborgarinnar Trípolí í Líbíu. Þetta reyndist þeim þó æ örðugra því Konunglegi breski flotinn (e. Royal navy) naut tæknilegra yfirburða á Miðjarðarhafinu auk þess sem kafbátar og flugvélar Breta sem komið hafði verið fyrir á Möltu sóttu að öllum birgðalestum Möndulveldanna sem sigldu nærri eyjunni. Í ofanálag voru Bretar byrjaðir að geta lesið dulmál andstæðinganna með aðstoð Ultra-hópsins (sjá svar við spurningunni Hvað er Enigma og hvaða þátt átti hún í seinni heimsstyrjöldinni?) og gátu þar af leiðandi setið fyrir skipalestum þeirra sem reyndu að sigla í skjóli myrkurs.

Þjóðverjar brugðust við með því að flytja flugdeildir til árása á Möltu og náðu að brjóta á bak aftur andóf liðssveita Breta. Afríkubrynhernum (þ. Panzerarmee Afrika), sem innihélt bæði öflugar þýskar hersveitir og ítalskar hersveitir (sjá nánar um uppbyggingu landhers í neðanmáli töflu seinna í svarinu), bárust því nægar vistir til að ráðast gegn áttunda her Breta sem þrátt fyrir hetjulega baráttu í eyðimörkinni, fyrst gegn liðssveitum Ítala og síðar gegn sameinuðum sveitum Ítala og Þjóðverja, hafði verið illa stjórnað. Þótt vígreyndar og frægar hersveitir á borð við 7. bryndeild Breta, sem fengið hafði viðurnefnið Eyðimerkurrotturnar, berðust hetjulega gátu þær ekki varist óvæntum áhlaupum hersveita Rommels og féll hafnarborgin Tobruk í austurhluta Líbíu. Yfirráð Breta yfir borginni höfðu verið möndulveldunum mikill þyrnir í augum og hertaka hennar varð til þess að Rommel yfirmanni Afríkubrynhersins var veitt stöðuhækkun og hann gerður að marskálki.

Rommel

Erwin Johannes Eugen Rommel marskálkur var einn eftirlætisherforingja Hitlers og hafði verið í nánasta starfsliði hans í upphafi valdatíma hans. Rommel hreifst sömuleiðis af Hitler þó hann væri ekki sanntrúaður nasisti. Hann var hins vegar framagjarn, ýtti undir áróður um sig og naut fyrir vikið mikillar lýðhylli heima í Þýskalandi þar sem hann var gjarnan kallaður Eyðimerkurrefurinn (þ. Wüstenfuch). Vegna þessa gat hann stundum haft áhrif á Hitler og gerði það til að mynda þegar hann fékk Foringjann og yfirherstjórnina til að falla frá undirbúningi að innrás í Möltu og samþykkja tafarlausa sókn inn í Egyptaland á eftir flýjandi andstæðingunum sumarið 1942.



Erwin Rommel (1891-1944) var einn færasti bryndeildarforingi Hitlers. Kröfur hans til sín og langvarandi vera í fremstu víglínu eyðilögðu þó heilsu hans og eftir að sókn hans lauk í Egyptalandi í september árið 1942 varð hann að leggjast á sjúkrahús heima í Þýskalandi. Sú sjúkrahúslega var þó ekki löng þar sem hann neyddist til að útskrifa sjálfan sig og halda fársjúkur á vígstöðvarnar þegar bandamenn gerðu gagnárás í október það sama ár.

Í Afríku þótti Rommel harður yfirmaður en gerði þó sömu kröfur til sín og undirmanna sinna. Hann var jafnan í fararbroddi herliðs síns þegar það sótti gegn andstæðingunum. Rommel trúði því að herforingi yrði að vera í miðdepli átaka til að geta tekið réttar ákvarðanir vegna síbreytilegra aðstæðna á vígvellinum og nýttist þetta sérlega vel í eyðimerkurhernaðinum þar sem hann kom andstæðingum sínum sífellt að óvörum. Þetta hafði þó þann ókost að hann skorti oft yfirsýn yfir heildarvígstöðuna, samstarf hans við eigið herráð var brotakennt og skipulagning hernaðaraðgerða miðað við birgðagetu herliðsins þótti gagnrýniverð.

Fyrsta orrustan um El Alamein

Þann 23. júní 1942 héldu þreyttar og birgðalitlar hersveitir Afríkubrynhersins yfir landamæri Egyptalands í kjölfar áttunda hersins. Síðasta varnarlína samveldishersins framan við ána Níl og stærstu borgir Egyptalands var við lestarstöðina við El Alamein um 230 km innan landamæra Egyptalands og Líbíu og 100 km frá Alexandríu. Skammt fyrir sunnan var Quattaradældin sem var 200 m djúp jarðvegsdæld ófær vélknúnum farartækjum. Bandamenn þurftu því ekki að óttast að Afríkubrynherinn kæmist fram hjá varnarlínu þeirra heldur yrði hann að brjóta sér leið í gegnum jarðsprengjubelti og víggirðingar þeirra.



Sögusvið átakanna í Noður-Afríku sumarið og haustið 1942.

Sir Claude Auchinleck yfirmanni herja Breta í Mið-Austurlöndum fannst nóg um ófarir samveldishersins síðustu vikna og rak Neil M. Ritchie undirhershöfðingja, yfirmann áttunda hersins, en tók sjálfur við herstjórninni. Baráttuandi hermannanna var í algeru lágmarki eftir röð ósigra og þeir töldu Rommel vera ofjarl bresku herforingjanna. Auchinleck tók til þess bragðs að dvelja á meðal hermanna sinna, sofa með þeim undir berum himni og sýna þeim að hann tæki heils hugar þátt í baráttunni með þeim.

Þetta hafði nokkur áhrif og þegar Afríkubrynherinn réðst gegn þeim 30. júní breytti Auchinleck út frá fyrri bardagavenjum samveldishersins og lét nú gera snarpar gagnárásir gegn lakari hersveitum Ítala. Ítölsku sveitirnar voru hvorki jafnvel búnar né eins vel stjórnað og þýskum vopnabræðrum þeirra og undanhald þeirra ógnaði baklandi Afríkubrynhersins. Rommel neyddist því til þess að koma sveitum bandamanna sinna stöðugt til aðstoðar. Eftir síendurteknar árásir og gagnárásir varð hlé á bardögum 17. júlí.

Montgomery

Þrátt fyrir að hafa stöðvað Afríkubrynherinn fékk Auchinleck ekki að njóta sigursins. Hann var gerður ábyrgur fyrir óförum undirmanna sinna fyrr um sumarið og fluttur til Indlands en í stað hans tóku hershöfðingjarnir sir Harold Leofric Rupert Alexander og Bernhard Law Montgomery við yfirstjórn hersafnaðar samveldisríkjanna í Mið-Austurlöndum og áttunda hersins.

Montgomery, eða Monty eins og hann var gjarnan kallaður, var sennilega einn færasti herforingi Breta. Öfugt við Auchinleck kunni hann að velja sér undirmenn og innan skamms hafði hann komið mönnum sem hann treysti og mat mikils í helstu stjórnunarstöður áttunda hersins.

Montgomery mat samband herforingja við óbreytta hermenn mikils og leitaði allra leiða til að styrkja baráttuanda þeirra jafnframt því sem hann lagði mikla áherslu á þjálfun og heræfingar. Hann þótti sérlega snjall í hefðbundnum bardögum þar sem hann gat gefið sér nægan tíma til undirbúnings en það háði honum óneitanlega að þegar hér var komið í stríðinu var mannfæð farin að hrjá breska herinn. Montgomery varð því að miða hernaðaraðgerðir sínar við að verjast sem mestu mannfalli og var oft full varkár. Telja margir að hann hafi látið skjóta sigra renna sér úr greipum með því að láta ekki kné fylgja kviði og sækja djarflega fram þegar varnir andstæðinganna voru við það að bresta og þetta hafi í raun valdið meira mannfalli og erfiðleikum þegar upp var staðið.

Montgomery þótti líka sjálfbirgingslegur sérvitringur sem átti það til að gera lítið úr gjörðum annarra um leið og hann eignaði sér heiðurinn af afrekum þeirra og var jafnan stormasamt í kringum hann á meðal bandamanna. Greri ekki um heilt á milli hans og sumra samverkamanna hans og bar hér helst á gagnrýni Bandaríkjamanna á störf hans í bardögunum í Normandí og Arnhem síðar í stríðinu.



Bernhard L. Montgomery (1887-1976) var einn litríkasti herforingi Breta. Hann lét stjórnmálamenn ekki segja sér fyrir verkum, aflaði sér takmarkalauss trúnaðar og trausts undirmanna sinna en var upp á kant við flesta jafningja sína.

Bardagarnir um Alam Halfa-hrygginn – önnur orrustan við El Alamein

Rommel og herforingjum hans var það ljóst að þeir væru í slæmri stöðu ef þeir biðu of lengi með að sækja gegn áttunda hernum eftir fyrstu orrustuna við El Alamein. Stöðugar vistir og vígtól bárust fjandmönnum þeirra á meðan aðdráttarleiðir þeirra sjálfra voru orðnar óhemjulangar auk þess sem hersveitir Breta á Möltu höfðu verið styrktar og ollu nú æ meiri skaða á skipalestum Möndulveldanna. Rommel afréð því að hefja sókn gegn samveldishernum áður en hernaðaruppbyggingu hans væri að fullu lokið. Var ætlunin að sækja yfir jarðsprengjubeltin sunnarlega á varnarlínu hans og sveigja síðan til norðurs og hertaka Alam Halfa-hrygginn þaðan sem stjórna mátti svæðinu að baki víglínu samveldishersins.

Vegna aðstoðar Ultra-hópsins var Montgomery og herliði hans hins vegar fullkunnugt um áætlunina. Sókn Afríkubrynhersins lenti því í ógöngum um leið og hún hófst þann 31. ágúst 1942. Erfiðlega gekk að hreinsa leið í gegnum jarðsprengjubeltið og neyddist Rommel til að sækja fyrr til norðurs en hann hafði ætlað sér en þar strandaði sókn hans.

Montgomery vildi ekki senda herlið í gagnárásir gegn þýsku bryndeildunum heldur ályktaði réttilega að öflugra væri að láta þýsku sveitirnar sækja að sterkum varnarlínum áttunda hersins. Þessar ófarir gerðu út um Afríkustríðið að mati von Mellenthins foringja í herráði Rommels og Rommel sá líka sitt óvænna og lét hætta við sóknina.

Gagnsókn áttunda hersins – þriðja orrustan við El Alamein

Afríkubrynherinn, sem hafði verið endurskírður þýsk-ítalski brynherinn (þ. Deutsch-Italiensiche Panzerarmee), vígbjóst nú kirfilega með víðtækum jarðsprengjubeltum og með því að styrkja veikari hersveitir Ítala með þýsku herliði. Skortur á eldsneyti og öðrum birgðum háði honum þó verulega. Einnig voru sárafáir skriðdrekar bardagahæfir og munaði hér sérstaklega um nýjustu gerðir bryndreka af tegundunum pzkfw III og IV (þ. panzerkampfwagen, ísl. bryndreki).

Áttundi herinn hélt aftur á móti áfram að birgja sig upp og stunda heræfingar. Nú svall mönnum vígmóður og þess var krafist af Montgomery að hann sækti fram hið fyrsta. Hann stóð hins vegar keikur gegn því og hótaði uppsögn fengi hann ekki að ákveða árásartímann sjálfur. Hann fékk sitt fram og aðgerð Léttfeti (e. Lightfoot) hófst aðfaranótt 24. október þegar hermenn hans voru reiðubúnir. Þá voru yfirburðir áttunda hersins algerir því þeir höfðu meira en tvöfaldan liðsstyrk mótherjanna á öllum sviðum og raunar gott betur.

Aðgerð Léttfeti gerði ráð fyrir umfangsmiklum blekkingaraðgerðum sem miðuðu að því að telja andstæðingunum trú um að árásin hæfist ekki strax. Aðfararnótt 24. október myndi síðan 30. stórdeildin ráðast gegn varnarlínu Afríkubrynhersins rétt norðan miðju víglínunnar að lokinni öflugustu stórskotahríð Afríkustríðsins. Var stórdeildinni ætlað að opna leið fyrir 10. stórdeildina sem átti að sækja fram aftan við víglínur andstæðinganna og brjóta á bak aftur brynlið þeirra. Á meðan þessu fór fram átti 13. stórdeildin að halda uppi stöðugum árásum við suðurenda varnarlínunnar til að koma í veg fyrir að hægt væri að senda liðsauka þaðan til norðurs gegn meginsókninni. Í lofti höfðu flugherir Breta og Bandaríkjamanna náð algerum yfirburðum og áttu þeir að einbeita sér að því að ráðast gegn öllum liðs- og birgðaflutningum Möndulveldanna að baki víglínunnar.

Helstu landherir og yfirmenn þeirra í síðustu átökunum við

El Alamein 23. október - 4. nóvember 1942.1
Möndulveldin
Þýsk-ítalski brynherinn2 Georg Stumme hershöfðingi 22.09.’42

Wilhelm Ritter von Thoma hershöfðingi 24.10.’42

Erwin Rommel marskálkur 25.10.’423
Þýska Afríkustórdeildin Wilhelm Ritter von Thoma hershöfðingi
10. ítalska stórdeildin E. Frattini hershöfðingi
20. vélknúna ítalska stórdeildin G. de Stephanis undirhershöfðingi
21. ítalska stórdeildinA. Gloria hershöfðingi
Samveldislöndin
Hersafnaður Breta í Mið-Austurlöndumsir Harold Alexander hershöfðingi
Áttundi herinn Bernhard L. Montgomery hershöfðingi
10. stórdeildin sir Herbert Lumsden undirhershöfðingi
13. stórdeildin Brian Horrocks hershöfðingi
30. stórdeildin Oliver Leese undirhershöfðingi
  1. Hersafnaður (e. army group, þ. Heeresgruppen) var stærsta stjórnskipulega eining landherja. Undir hann heyrðu herir (e. armies, þ. Armeen) sem svo höfðu stórdeildir (e. corps, þ. Korps) sem stærstu einingar. Stórdeildirnar stjórnuðu herdeildum (e. division, þ. Division) bæði fótgönguliðsherdeildum og bryndeildum en innan þeirra voru stórfylki (e. brigade) og hersveitir (þ. Regiment) stærst. Að auki var fjöldi smærri liðseininga sem óþarfi er að telja upp hér en þær gátu þó lotið beinni stjórn stærstu eininga landhersins. Af ofangreindum liðsdeildum voru það einungis smærri einingar sem voru af staðlaðri stærð en stærri einingarnar voru síbreytilegar eftir því hvað þótti henta verkefnum þeirra þá stundina.
  2. Fræðilega séð heyrði þýsk-ítalski brynherinn undir yfirstjórn Ítala í Róm og Þjóðverja í Berlín en reyndin var sú að Rommel bar aðgerðir sínar aldrei undir ítalska yfirmenn sína.
  3. Dagsetningarnar vísa til þess þegar viðkomandi herforingi tók við stjórn. Stumme gegndi stöðu Rommels sem var í veikindaleyfi þegar árásin áttunda hersins hófst. Hann lést fyrstu nóttina á flótta undan hersveitum bandamanna og von Thoma tók tímabundið við herstjórn eða þar til Rommel mætti á vettvang.

Líkt og þegar Þjóðverjar sóttu við Alam Halfa lenti samveldisherinn í töluverðu basli við að hreinsa jarðsprengjubeltin. Montgomery taldi sig ekki geta beðið eftir að hreinsun yrði fulllokið og sendi 30. stórdeildina af stað áður en verkinu var lokið. Allt kom fyrir ekki og tjón herdeilda samveldishersins var óhugnanlegt. Lumsden undirhershöfðingi vildi stöðva sóknina en Montgomery gerði honum og öðrum foringjum fyllilega ljóst að þó þeir misstu megnið af bryntækjum sínum hefðu þeir samt sem áður yfirburði yfir andstæðinga sína. Sóknin yrði að halda áfram og ef þeir teldu sig ekki menn til þess yrðu aðrir fengnir til starfans.

Áfram var haldið og nyrst tókst 9. áströlsku fótgönguliðsdeildinni hvað best að sækja fram þrátt fyrir mikið mannfall og var hún nærri komin í gegnum víglínu möndulveldanna. Rommel flutti því allt tiltækt brynlið norður á bóginn til að mæta andstæðingnum. Þetta var áhættusamt því ekki var nægilegt eldsneyti til þess að bregðast við ef samveldisherinn brytist í gegn á suðurhluta víglínunnar þar sem nú voru einungis ítalskar herdeildir til varnar. Montgomery breytti því um sóknaráætlun og í aðgerð Stóráhlaup (e. Supercharge) var sóknarþunganum beint suður á bóginn gegn ítölsku herdeildunum með 30. stórdeildina og 2. nýsjálensku fótgönguliðsherdeildina í fararbroddi. Árásin hófst 2. nóvember og hjó djúpt skarð í varnir þýsk-ítalska brynhersins.

Þrátt fyrir heiftarlegar gagnsóknir bryndeilda Rommels voru úrslitin ráðin. Þýsk-ítalski brynherinn hafði nú einungis um 35 þýska og 100 ítalska skriðdreka gegn mörg hundruð skriðdrekum áttunda hersins. Rommel fyrirskipaði því undanhald síðar um kvöldið en daginn eftir kom skipun frá Hitler um að halda kyrru fyrir og verjast. Rommel hélt því áfram að verjast enda hafði hann ávallt verið trúr foringja sínum. Honum var þó brugðið og 4. nóvember afréð hann endanlega að halda undan eftir skefjalaust mannfall og tókst að fá samþykki Hitlers fyrir því daginn eftir. Við tók stöðugt undanhald meðfram allri strönd Norður-Afríku til Túnis þar sem brynherinn mætti herjum bandamanna sem gengið höfðu á land í Norðvestur-Afríku. Þar urðu snarpir bardagar sem enduðu með því að herir Möndulveldanna játuðu sig endanlega sigraða og bandamenn náðu Afríku allri á sitt vald.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir og myndir:

Upprunalega spurningin hjóðaði svona:
Mig langar að vita meira um baráttuna um El Alamein í seinni heimsstyrjöldinni. Getið þið einnig sagt mér frá herforingjunum sem börðust þar?

Hér er einnig svarað spurningunni:
Rommel og Monty háðu harða orrustu við El Alamein. Hver urðu úrslit orrustunnar og hafði hún mikil áhrif á eyðimerkurstríðið?
...