Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Hvað eru stýrigen og hvert er hlutverk þeirra? Hvert er nafn þeirra á ensku?

Guðmundur Eggertsson

Stýrigen, sem oftar eru nefnd stjórngen, eru gen sem stjórna starfsemi annarra gena. Í reynd eru það prótínafurðir þeirra sem gegna stjórnunarhlutverkinu. Þær eru nefndar stjórnprótín eða stýriprótín. Þessi prótín tengjast kirnaröðum rétt fyrir framan upphaf gens og virðast hindra eða hvetja umritun þess, það er myndun RNA afrits af geninu. Afritið er notað sem mót við prótínsmíð. Stjórnun á myndun þess er greiðasta leiðin til þess að stjórna prótínframleiðslunni. Stjórnprótín sem hindra umritun eru nefnd bæliprótín en þau sem hvetja hana kallast jákvæð stjórnprótín.

Stjórngenum og stjórnprótínum var fyrst lýst í bakteríum. Það eru mörg mismunandi stjórnprótín í bakteríufrumunni og gegnir hvert þeirra sérhæfðu hlutverki, stjórnar umritun ákveðinna gena en skiptir sér ekki af öðrum. Sum stjórna umritun fárra gena, önnur margra. Gen sem eru undir stjórn sama stjórnprótíns þurfa að hafa sams konar eða mjög svipaðar kirnaraðir(stjórnraðir) fyrir framan sig. Mörg gen eru hins vegar ekki undir sérstakri stjórn. Þetta á einkum við um svonefnd búsýslugen sem þurfa að starfa jafnt og þétt í frumunni.

Stjórnprótín eru gagnleg til þess að stjórna starfsemi gena sem einungis er þörf fyrir við ákveðnar aðstæður. Sé til dæmis sett baktería, sem getur framleitt allar nauðsynlegar smásameindir sínar sjálf, í næringarríkt æti þar sem mikið framboð er af þessum sameindum, má búast við því að hún hætti framleiðslunni og nýti sér frekar sameindaforða ætisins. Þá er jafnframt slökkt á flestum þeim genum sem starfa að þessari framleiðslu. Þegar þessi forði er á þrotum taka genin til starfa á ný. Kolefnisgjafi eins og til dæmis þrúgusykur nægir þá til vaxtar.

Í dýrum og plöntum er ekki síður þörf fyrir stjórnprótín. Fjöldi slíkra prótína hefur til dæmis verið einangraður úr mannafrumum. Ljóst er að slík prótín hafa miklu hlutverki að gegna við þroskun einstaklingsins úr okfrumu í fullmótaða lífveru.

Stjórnprótín eða stýriprótín eru á ensku nefnd "regulator proteins" einu nafni. Reyndar virðist það heiti nú lítið vera notað yfir stjórnprótín dýra og plantna heldur er talað um "transcription factors" eða umritunarþætti. Með þessu heiti er vísað beint til þess að það er einmitt umritun gena sem þessi prótín stjórna.

Sjá einnig svar við spurningunni "Hvað er DNA og RNA og hvert er hlutverk þeirra?" eftir sama höfund.

Höfundur

Guðmundur Eggertsson

prófessor emeritus

Útgáfudagur

20.6.2000

Spyrjandi

Margrét Pétursdóttir

Efnisorð

Tilvísun

Guðmundur Eggertsson. „Hvað eru stýrigen og hvert er hlutverk þeirra? Hvert er nafn þeirra á ensku?“ Vísindavefurinn, 20. júní 2000. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=543.

Guðmundur Eggertsson. (2000, 20. júní). Hvað eru stýrigen og hvert er hlutverk þeirra? Hvert er nafn þeirra á ensku? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=543

Guðmundur Eggertsson. „Hvað eru stýrigen og hvert er hlutverk þeirra? Hvert er nafn þeirra á ensku?“ Vísindavefurinn. 20. jún. 2000. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=543>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað eru stýrigen og hvert er hlutverk þeirra? Hvert er nafn þeirra á ensku?
Stýrigen, sem oftar eru nefnd stjórngen, eru gen sem stjórna starfsemi annarra gena. Í reynd eru það prótínafurðir þeirra sem gegna stjórnunarhlutverkinu. Þær eru nefndar stjórnprótín eða stýriprótín. Þessi prótín tengjast kirnaröðum rétt fyrir framan upphaf gens og virðast hindra eða hvetja umritun þess, það er myndun RNA afrits af geninu. Afritið er notað sem mót við prótínsmíð. Stjórnun á myndun þess er greiðasta leiðin til þess að stjórna prótínframleiðslunni. Stjórnprótín sem hindra umritun eru nefnd bæliprótín en þau sem hvetja hana kallast jákvæð stjórnprótín.

Stjórngenum og stjórnprótínum var fyrst lýst í bakteríum. Það eru mörg mismunandi stjórnprótín í bakteríufrumunni og gegnir hvert þeirra sérhæfðu hlutverki, stjórnar umritun ákveðinna gena en skiptir sér ekki af öðrum. Sum stjórna umritun fárra gena, önnur margra. Gen sem eru undir stjórn sama stjórnprótíns þurfa að hafa sams konar eða mjög svipaðar kirnaraðir(stjórnraðir) fyrir framan sig. Mörg gen eru hins vegar ekki undir sérstakri stjórn. Þetta á einkum við um svonefnd búsýslugen sem þurfa að starfa jafnt og þétt í frumunni.

Stjórnprótín eru gagnleg til þess að stjórna starfsemi gena sem einungis er þörf fyrir við ákveðnar aðstæður. Sé til dæmis sett baktería, sem getur framleitt allar nauðsynlegar smásameindir sínar sjálf, í næringarríkt æti þar sem mikið framboð er af þessum sameindum, má búast við því að hún hætti framleiðslunni og nýti sér frekar sameindaforða ætisins. Þá er jafnframt slökkt á flestum þeim genum sem starfa að þessari framleiðslu. Þegar þessi forði er á þrotum taka genin til starfa á ný. Kolefnisgjafi eins og til dæmis þrúgusykur nægir þá til vaxtar.

Í dýrum og plöntum er ekki síður þörf fyrir stjórnprótín. Fjöldi slíkra prótína hefur til dæmis verið einangraður úr mannafrumum. Ljóst er að slík prótín hafa miklu hlutverki að gegna við þroskun einstaklingsins úr okfrumu í fullmótaða lífveru.

Stjórnprótín eða stýriprótín eru á ensku nefnd "regulator proteins" einu nafni. Reyndar virðist það heiti nú lítið vera notað yfir stjórnprótín dýra og plantna heldur er talað um "transcription factors" eða umritunarþætti. Með þessu heiti er vísað beint til þess að það er einmitt umritun gena sem þessi prótín stjórna.

Sjá einnig svar við spurningunni "Hvað er DNA og RNA og hvert er hlutverk þeirra?" eftir sama höfund. ...