Sólin Sólin Rís 05:36 • sest 21:19 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 16:44 • Sest 05:50 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:37 • Síðdegis: 17:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:57 • Síðdegis: 23:09 í Reykjavík

Hvað er innri og ytri tími?

Jón Gunnar Þorsteinsson

Tími er grundvallarþáttur í frásagnarbókmenntum og leikritum. Í bókmenntafræði er hugtakið ytri tími notað um tímann eins og við erum vön að hugsa um hann eftir dagatali. Ef frásögnin vísar á einhvern hátt til venjulegs almanakstíma, til dæmis ef sagt er eða gefið til kynna að atburðir eigi að gerast á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar, þegar kreppan skall á Íslandi eða árið 1969, þá er um ytri tíma að ræða. Hugtakið ætti að skiljast nokkuð vel þar sem átt er við tímann utan við verkið sjálft, tímann eins og við erum vön að hugsa um hann.

Stundum er ekkert gefið til kynna um ytri tími sögunnar en í vissum bókmenntagreinum er það nauðsynlegur hluti frásagnarinnar, til dæmis í sögulegum skáldsögum. Í svonefndum vísindaskáldsögum, sem gerast oft í skilgreindri framtíð, er ytri tíminn einfaldlega framtíðin sem nefnd er í verkinu.

Hugtakið innri tími er síðan tíminn sem líður innan verksins, frá upphafi þess til enda. Innri tími er einnig nefndur sögutími og honum er iðulega skipt í þrennt. Í bókinni Hugtök og heiti í bókmenntafræði segir þetta um þrískiptingu sögutímans:
  • Yfirlitskaflar: atburðir langs tímaskeiðs innan sögutímans dregnir saman eða jafnvel horfið aftur í tímann til að lýsa aðdraganda viðburða (t.d. þegar ný persóna er kynnt til sögu.
  • Sviðsetningarkaflar: atburðum, persónum og umhverfi lýst af (mismikilli) nákvæmni.
  • Tímaeyður: hlaupið yfir tíma milli kafla og söguhluta.

Í bókmenntafræði er hugtakið ytri tími notað um tímann eins og við erum vön að hugsa um hann eftir dagatali. Hugtakið innri tími er síðan tíminn sem líður innan verksins, frá upphafi þess til enda.

Annað hugtak í bókmenntafræði sem notað er um tíma er lestrartími eða framsetningartími. Það er notað um þann tíma sem lestur eða flutningur verksins tekur. Yfirleitt er lestrartíminn styttri en innri tími verksins en í sumum textum fer þetta saman. Eitt dæmi um þannig texta er til að mynda Ulysses eftir James Joyce, en sögutími þess er um 19-20 klukkustundir, sem fer nokkuð nærri lestrartíma verksins.

Bókmenntaverk þar sem lestratími og sögutími eru af svipaðri lengd draga dám af hugmyndum Aristótelesar um góð leikrit. Í riti sínu Um skáldskaparlistina setur Aristóteles fram lauslegar athuganir á einingu staðar, tíma og atburðarásar. Góð leikrit mynda eina atburðaheild sem er til lykta leidd á einum degi og á einum stað. Um þetta má lesa meira í svari sama höfundar við spurningunni Hver er hin eina sanna list?

Heimild:
  • Jakob Benediktsson (ritstj.), Hugtök og heiti í bókmenntafræði, Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, Reykjavík, 1983.

Mynd:

Höfundur

Jón Gunnar Þorsteinsson

bókmenntafræðingur og ritstjóri Vísindavefsins

Útgáfudagur

28.5.2009

Spyrjandi

Hlynur Kristjánsson

Tilvísun

Jón Gunnar Þorsteinsson. „Hvað er innri og ytri tími?“ Vísindavefurinn, 28. maí 2009. Sótt 20. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=11159.

Jón Gunnar Þorsteinsson. (2009, 28. maí). Hvað er innri og ytri tími? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=11159

Jón Gunnar Þorsteinsson. „Hvað er innri og ytri tími?“ Vísindavefurinn. 28. maí. 2009. Vefsíða. 20. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=11159>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað er innri og ytri tími?
Tími er grundvallarþáttur í frásagnarbókmenntum og leikritum. Í bókmenntafræði er hugtakið ytri tími notað um tímann eins og við erum vön að hugsa um hann eftir dagatali. Ef frásögnin vísar á einhvern hátt til venjulegs almanakstíma, til dæmis ef sagt er eða gefið til kynna að atburðir eigi að gerast á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar, þegar kreppan skall á Íslandi eða árið 1969, þá er um ytri tíma að ræða. Hugtakið ætti að skiljast nokkuð vel þar sem átt er við tímann utan við verkið sjálft, tímann eins og við erum vön að hugsa um hann.

Stundum er ekkert gefið til kynna um ytri tími sögunnar en í vissum bókmenntagreinum er það nauðsynlegur hluti frásagnarinnar, til dæmis í sögulegum skáldsögum. Í svonefndum vísindaskáldsögum, sem gerast oft í skilgreindri framtíð, er ytri tíminn einfaldlega framtíðin sem nefnd er í verkinu.

Hugtakið innri tími er síðan tíminn sem líður innan verksins, frá upphafi þess til enda. Innri tími er einnig nefndur sögutími og honum er iðulega skipt í þrennt. Í bókinni Hugtök og heiti í bókmenntafræði segir þetta um þrískiptingu sögutímans:
  • Yfirlitskaflar: atburðir langs tímaskeiðs innan sögutímans dregnir saman eða jafnvel horfið aftur í tímann til að lýsa aðdraganda viðburða (t.d. þegar ný persóna er kynnt til sögu.
  • Sviðsetningarkaflar: atburðum, persónum og umhverfi lýst af (mismikilli) nákvæmni.
  • Tímaeyður: hlaupið yfir tíma milli kafla og söguhluta.

Í bókmenntafræði er hugtakið ytri tími notað um tímann eins og við erum vön að hugsa um hann eftir dagatali. Hugtakið innri tími er síðan tíminn sem líður innan verksins, frá upphafi þess til enda.

Annað hugtak í bókmenntafræði sem notað er um tíma er lestrartími eða framsetningartími. Það er notað um þann tíma sem lestur eða flutningur verksins tekur. Yfirleitt er lestrartíminn styttri en innri tími verksins en í sumum textum fer þetta saman. Eitt dæmi um þannig texta er til að mynda Ulysses eftir James Joyce, en sögutími þess er um 19-20 klukkustundir, sem fer nokkuð nærri lestrartíma verksins.

Bókmenntaverk þar sem lestratími og sögutími eru af svipaðri lengd draga dám af hugmyndum Aristótelesar um góð leikrit. Í riti sínu Um skáldskaparlistina setur Aristóteles fram lauslegar athuganir á einingu staðar, tíma og atburðarásar. Góð leikrit mynda eina atburðaheild sem er til lykta leidd á einum degi og á einum stað. Um þetta má lesa meira í svari sama höfundar við spurningunni Hver er hin eina sanna list?

Heimild:
  • Jakob Benediktsson (ritstj.), Hugtök og heiti í bókmenntafræði, Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, Reykjavík, 1983.

Mynd:...