Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Hvað getur þú sagt mér um eyjuna Tokelau?

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir

Tokelau samanstendur af þremur kóralhringrifum (e. atoll) í Suður-Kyrrahafi, nokkurn veginn miðja vegu á milli Hawaii og Nýja Sjálands. Í hverju hringrifi er nokkur fjöldi smárra eyja eða hólma en samtals er flatarmál Tokelau um 12 km2. Hringrifin standa lágt og ná ekki nema 2-5 metra yfir sjávarmál. Nyrst er Atafu, þá Nukunonu en syðst er Fakaofo og eru um 200 km á milli nyrstu og syðstu eyjanna.

Tokelau er nokkuð miðja vegu á milli Hawaii og Nýja Sjálands.

Fornminjar benda til þess að mannvist á Tokelau spanni að minnsta kosti 1000 ár en búseta hefur þó ekki verið þar samfellt þann tíma. Líklega komu frumbyggjar eyjanna frá Samóa. Fyrstur evrópskra landkönnuða til að heimsækja Tokelau var John Byron (1723 – 1786) sem kom að Atafu árið 1765 en hann varð ekki var við neitt fólk þar. Evrópumenn komu fyrst til Nukunonu árið 1791 þegar skipið Pandora kom þar við í leit sinni að uppreisnarmönnunum á Bounty. Það voru hins vegar bandarískir hvalfangarar sem fyrstir komu auga á Fakaofo árið 1835.

Rétt eins og landkönnuða var siður þegar þeir „fundu“ lönd gáfu þeir eyjunum heiti. Atafu gekk upphaflega undir heitinu Eyja hertogans af Jórvík, Nukunonu var Eyja hertogans af Clarence og Fakaofo kallaðist Bowditch eyja eftir bandarískum siglingafræðingi að nafni Nathaniel Bowditch (1773-1838). Sameiginlega voru þær svo kallaðar Sambandseyjar (Union Islands). Árið 1946 var heitið Tokelaueyjur tekið upp og 1976 var það stytt í Tokelau en Tokelau er pólýnesískt orð og merkir norðanvindur.

Atafu. Byggðin er á tanganum lengst til vinstri.

Á 19. öldinni komust eyjarnar smám saman í meiri tengsl við umheiminn, meðal annars með viðkomu trúboða, hvalveiðimanna, ævintýramanna og landkönnuða. Árið 1863 rændu þrælasalar frá Perú rúmlega 250 karlmönnum frá eyjunum og hnepptu í þrældóm í Perú. Fæstir þeirra áttu afturkvæmt. Undir lok 19. aldar voru eyjarnar gerðar að bresku verndarsvæði en á þriðja áratug 20. aldar færðust þær undir yfirráð Nýja Sjálands og hafa verið hluti þess allar götur síðan. Árin 2006 og 2007 kusu eyjaskeggjar um það hvort þeir vildi sjálfstæði frá Nýja Sjálandi en í hvorugt skiptið náðist samþykki tveggja þriðju hluta íbúa fyrir tillögunni, þó naumt væri.

Samkvæmt talningu sem framkvæmd var í desember 2013 voru íbúar Tokelau 1383 talsins, 683 karlar og 700 konur. Flestir búa á Fakaofo eða 515, á Atafu voru skráðir 458 og 410 á Nukunonu. Brottfluttir eyjaskeggjar eru mun fleiri, hátt í 7000 Tokelauar búa á Nýja Sjálandi og smærri samfélög þeirra er einnig að finna á Samóa, í Ástralíu og á Hawaii.

Íbúar Tokelau byggja afkomu sína mikið til á sjálfsþurftarbúskap og fiskveiðum. Jarðvegur er rýr og býður ekki upp á mikla ræktun, það er helst kókoshneturæktun sem skapar einhverjar tekjur. Tokelau er mjög háð fjárframlögum frá Nýja Sjálandi og án þeirra er erfitt að sjá að efnahagur eyjanna stæði undir sér. Brottfluttir leggja líka sitt af mörkum með því að senda fjármuni heim.

Árið 2006 bættist nýr tekjustofn við úr óvæntri átt - internetinu. Einn sjötti af efnahag eyjanna byggist á tekjum sem fást frá þjóðarléni þeirra, .tk, sem einstaklingar og smærri fyrirtæki geta fengið án endurgjalds. Tekjurnar koma frá auglýsingum, sérstaklega á vefsíðum með lénið sem dottið hafa úr notkun og eru þar með undirlagðar af auglýsingum. Það var Hollendingurinn Joost Zuurbier sem átti frumkvæðið að því að bjóða upp á frítt lén en fyrirtæki hans, Freedom Registry, sér um hýsingu lénsins. Áður en þessi starfsemi hófst þekktist internetið varla á Tokelau, það litla net sem fyrir var dugði einungis til að senda tölvupóst án viðhengis. Núna er hins vegar .tk þriðja vinsælasta þjóðarlén í heiminum á eftir þjóðarlénum Breta og Þjóðverja.

Luana Liki hótelið á Nukunonu, eina hótelið á Tokelau.

Samgöngur við Tokelau eru eingöngu af sjó því enginn flugvöllur er á eyjunum. Engar almennilegar hafnir eru heldur til staðar og verða skip að leggja við akkeri utan við hringrifin og vörur og farþegar ferjaðir í land með léttabátum. Skipasamgöngur eru frá Apia á Samóa sem er um 500 km sunnan við Fakaofo. Á eyjunum eru hvorki bílar eða akvegir.

Tokelau er hluti Nýja Sjálands eins og áður hefur komið fram og er ekki sjálfsstjórnarsvæði í raun. Engu að síður hefur þróunin undanfarna áratugi verið í þá átt að eyjaskeggjar hafa fengið yfirráðarétt og ákvörðunarvald í ýmsum málum. Kosið er í ráð sem hittist þrisvar á ári og skiptast leiðtogar á hverri eyju um að vera þar í forsæti, ár í hvert skipti. Fundir ráðsins flytjast á milli eyjanna þannig að það er enginn eiginlegur höfuðstaður á Tokelau þar sem stjórnsýslan situr.

Heimildir og myndir:

Höfundur

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir

landfræðingur og starfsmaður Vísindavefsins

Útgáfudagur

29.7.2014

Spyrjandi

Bjarki Þór Þorkelsson

Tilvísun

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hvað getur þú sagt mér um eyjuna Tokelau?“ Vísindavefurinn, 29. júlí 2014. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=11183.

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. (2014, 29. júlí). Hvað getur þú sagt mér um eyjuna Tokelau? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=11183

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hvað getur þú sagt mér um eyjuna Tokelau?“ Vísindavefurinn. 29. júl. 2014. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=11183>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað getur þú sagt mér um eyjuna Tokelau?
Tokelau samanstendur af þremur kóralhringrifum (e. atoll) í Suður-Kyrrahafi, nokkurn veginn miðja vegu á milli Hawaii og Nýja Sjálands. Í hverju hringrifi er nokkur fjöldi smárra eyja eða hólma en samtals er flatarmál Tokelau um 12 km2. Hringrifin standa lágt og ná ekki nema 2-5 metra yfir sjávarmál. Nyrst er Atafu, þá Nukunonu en syðst er Fakaofo og eru um 200 km á milli nyrstu og syðstu eyjanna.

Tokelau er nokkuð miðja vegu á milli Hawaii og Nýja Sjálands.

Fornminjar benda til þess að mannvist á Tokelau spanni að minnsta kosti 1000 ár en búseta hefur þó ekki verið þar samfellt þann tíma. Líklega komu frumbyggjar eyjanna frá Samóa. Fyrstur evrópskra landkönnuða til að heimsækja Tokelau var John Byron (1723 – 1786) sem kom að Atafu árið 1765 en hann varð ekki var við neitt fólk þar. Evrópumenn komu fyrst til Nukunonu árið 1791 þegar skipið Pandora kom þar við í leit sinni að uppreisnarmönnunum á Bounty. Það voru hins vegar bandarískir hvalfangarar sem fyrstir komu auga á Fakaofo árið 1835.

Rétt eins og landkönnuða var siður þegar þeir „fundu“ lönd gáfu þeir eyjunum heiti. Atafu gekk upphaflega undir heitinu Eyja hertogans af Jórvík, Nukunonu var Eyja hertogans af Clarence og Fakaofo kallaðist Bowditch eyja eftir bandarískum siglingafræðingi að nafni Nathaniel Bowditch (1773-1838). Sameiginlega voru þær svo kallaðar Sambandseyjar (Union Islands). Árið 1946 var heitið Tokelaueyjur tekið upp og 1976 var það stytt í Tokelau en Tokelau er pólýnesískt orð og merkir norðanvindur.

Atafu. Byggðin er á tanganum lengst til vinstri.

Á 19. öldinni komust eyjarnar smám saman í meiri tengsl við umheiminn, meðal annars með viðkomu trúboða, hvalveiðimanna, ævintýramanna og landkönnuða. Árið 1863 rændu þrælasalar frá Perú rúmlega 250 karlmönnum frá eyjunum og hnepptu í þrældóm í Perú. Fæstir þeirra áttu afturkvæmt. Undir lok 19. aldar voru eyjarnar gerðar að bresku verndarsvæði en á þriðja áratug 20. aldar færðust þær undir yfirráð Nýja Sjálands og hafa verið hluti þess allar götur síðan. Árin 2006 og 2007 kusu eyjaskeggjar um það hvort þeir vildi sjálfstæði frá Nýja Sjálandi en í hvorugt skiptið náðist samþykki tveggja þriðju hluta íbúa fyrir tillögunni, þó naumt væri.

Samkvæmt talningu sem framkvæmd var í desember 2013 voru íbúar Tokelau 1383 talsins, 683 karlar og 700 konur. Flestir búa á Fakaofo eða 515, á Atafu voru skráðir 458 og 410 á Nukunonu. Brottfluttir eyjaskeggjar eru mun fleiri, hátt í 7000 Tokelauar búa á Nýja Sjálandi og smærri samfélög þeirra er einnig að finna á Samóa, í Ástralíu og á Hawaii.

Íbúar Tokelau byggja afkomu sína mikið til á sjálfsþurftarbúskap og fiskveiðum. Jarðvegur er rýr og býður ekki upp á mikla ræktun, það er helst kókoshneturæktun sem skapar einhverjar tekjur. Tokelau er mjög háð fjárframlögum frá Nýja Sjálandi og án þeirra er erfitt að sjá að efnahagur eyjanna stæði undir sér. Brottfluttir leggja líka sitt af mörkum með því að senda fjármuni heim.

Árið 2006 bættist nýr tekjustofn við úr óvæntri átt - internetinu. Einn sjötti af efnahag eyjanna byggist á tekjum sem fást frá þjóðarléni þeirra, .tk, sem einstaklingar og smærri fyrirtæki geta fengið án endurgjalds. Tekjurnar koma frá auglýsingum, sérstaklega á vefsíðum með lénið sem dottið hafa úr notkun og eru þar með undirlagðar af auglýsingum. Það var Hollendingurinn Joost Zuurbier sem átti frumkvæðið að því að bjóða upp á frítt lén en fyrirtæki hans, Freedom Registry, sér um hýsingu lénsins. Áður en þessi starfsemi hófst þekktist internetið varla á Tokelau, það litla net sem fyrir var dugði einungis til að senda tölvupóst án viðhengis. Núna er hins vegar .tk þriðja vinsælasta þjóðarlén í heiminum á eftir þjóðarlénum Breta og Þjóðverja.

Luana Liki hótelið á Nukunonu, eina hótelið á Tokelau.

Samgöngur við Tokelau eru eingöngu af sjó því enginn flugvöllur er á eyjunum. Engar almennilegar hafnir eru heldur til staðar og verða skip að leggja við akkeri utan við hringrifin og vörur og farþegar ferjaðir í land með léttabátum. Skipasamgöngur eru frá Apia á Samóa sem er um 500 km sunnan við Fakaofo. Á eyjunum eru hvorki bílar eða akvegir.

Tokelau er hluti Nýja Sjálands eins og áður hefur komið fram og er ekki sjálfsstjórnarsvæði í raun. Engu að síður hefur þróunin undanfarna áratugi verið í þá átt að eyjaskeggjar hafa fengið yfirráðarétt og ákvörðunarvald í ýmsum málum. Kosið er í ráð sem hittist þrisvar á ári og skiptast leiðtogar á hverri eyju um að vera þar í forsæti, ár í hvert skipti. Fundir ráðsins flytjast á milli eyjanna þannig að það er enginn eiginlegur höfuðstaður á Tokelau þar sem stjórnsýslan situr.

Heimildir og myndir:

...